Lesbók Morgunblaðsins - 25.10.2003, Side 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 25. OKTÓBER 2003 9
kór Garðabæjar kenndi mamma okkur grundvall-
aratriði í þindarstuðningi og slíku, en leyfði rödd-
unum að njóta sín frjálsum. Mamma er söngkona
sjálf og kunni þetta. Það getur verið erfitt að fá
krakka úr kórum í söngtíma, ef þau hafa ekki rétt-
an grunn. Þá er stundum betra að fá fólk sem hef-
ur ekkert sungið.“
Hildigunnur fór hratt í gegnum söngnámið, –
fyrstu stigin enda ætluð þeim sem ekkert kunna
fyrir sér í tónlist, og hún byrjaði á því að ljúka
fjórða stigs prófi. Hún hlær spurð að því hvort
henni hafi verið hlíft við tónheyrn og tónfræði, en
á þessum tíma var Hildigunnur einmitt kennari í
þessum fögum við sama skóla. „Það var nú reynd-
ar grínast með þetta, því það hefði getað orðið erf-
itt fyrir mig að sækja þessa tíma hjá sjálfri mér.“
Snúið að semja fyrir raddir
Áttunda stiginu í söng lauk Hildigunnur fyrir
ári, og burtfararprófi í vor, og söng þá meðal ann-
ars stórt verk með hljómsveit skólans.
Söngvarar tala gjarnan um að þeir sjái það
strax í verkum sem þeir syngja hvort tónskáldið
hafi innsýn ísöng. Nú er Hildigunnur beggja
vegna borðsins í þessum efnum.
„Ég hef ötullega skammað sum samtónskáld
mín, þegar Hljómeyki hefur fengið eitthvað
ósyngjanlegt í hendur. Við frumflytjum ný verk á
hverju ári á Sumartónleikum í Skálholti. Mörg
tónskáld hugsa um söngröddina eins og hvert
annað hljóðfæri, sem nái yfir ákveðið raddsvið, og
þá geti það notað þetta raddsvið að vild. En það er
engan veginn sniðugt að láta söngvara syngja á
því sviði sem erfiðast er röddinni í lengri tíma. Allt
í lagi að skreppa upp á háu tónana, en það fer illa
með raddir að þurfa að liggja lengi á jaðri radd-
sviðsins. Auk þess kemur það ekki vel út í kór-
hljómnum. Það þarf líka að gera ráð fyrir því að
söngvarar þurfa að anda; – hljóðfæri gera það
ekki beinlínis, – en þó á sinn hátt. Þeir sem leika á
blásturshljóðfæri þurfa sitt svigrúm til að anda.
Þannig er það margt sem tónskáld þarf að vita
þegar samið er fyrir söngröddina. En þetta getur
auðvitað lærst eins og annað. En þegar tónskáldið
kann á hljóðfærið, þá veit það best hvað hentar
því. Það eru þó ekki allir sammála því að þetta sé
kostur. Atli Heimir Sveinsson talaði oft um það að
best væri að kunna ekkert á hljóðfærið og láta
hljóðfæraleikarann um það að vinna úr því. Þá
myndi hljóðfæraleikarinn ef til vill komast að
hindrunum sem hann gæti leyst á nýjan hátt og
gert eitthvað sem hann hélt að hann gæti ekki. En
það er örugglega erfitt að vera tónskáld og kunna
lítið á hljóðfæri, og geta ekki samið neitt flóknara
en maður sjálfur getur spilað. Þannig eru margar
hliðar á þessu máli. Píanó skemmir maður ekki
svo glatt við að spila á það á ákveðinn hátt – nema
maður beiti exi – en það er auðvelt að skemma
raddir. Við höfum fengið verk þar sem annar
sópran var látinn liggja lengi lengi á sínu efsta
sviði – fyrir „ofan strik“, á f, fís og g – og fyrsti
sópran auðvitað þaðan af hærra. Stúlka í öðrum
sópran sagðist hafa verið hálft ár að jafna sig á
flutningnum og að hún myndi aldrei gera þetta
aftur. Þetta varð til þess að ekkert varð af því að
við tækjum verkið upp.“
Hildigunnur kann augljóslega vel þá kúnst að
semja fyrir söngraddir, og hún hefur haft nóg að
gera við að semja verk fyrir kóra, – er stöðugt
með verkpantanir víða að. Þeir kórar sem hafa
pantað verk hjá henni einu sinni hafa oftar en ekki
pantað annað, með þeim orðum að hún kunni vel á
það hljóðfæri sem mannsröddin er og að verk
hennar séu sérstaklega söngvæn. „Ég er auðvitað
mjög ánægð með þetta.“
Sumir segja að hvert einasta tónskáld ætti að
geta sungið og að það hjálpi tónskáldi að hugsa
um svo margt í tónlistinni hafi það tilfinningu fyr-
ir söngnum. „Það er örugglega engum óhollt að
syngja, – alls ekki. Ég vildi meira að segja breikka
þetta og segja að hljóðfæraleikarar almennt ættu
að geta sungið. Það er vegna þess að maður kemst
í allt annað samband við tónlistina þegar maður
finnur hana á eigin skinni – í sjálfum sér. Ég hef
bæði spilað og sungið í Jólaóratoríunni eftir Bach.
Ég ætla ekki að líkja því saman hvað það er miklu
meira gaman að syngja í henni. Þó þótti mér alls
ekki leiðinlegt að spila í henni, – það var alveg frá-
bært. En þetta er kannski einmitt ástæðan fyrir
því að margir hljóðfæraleikarar sem taka upp á
því að læra söng skipta og snúa sér oft alveg að
söngnum. Þetta gerist auðvitað ekki alltaf, – það
er sem betur fer ekki enn orðið allt fullt af söngv-
urum. Söngurinn hjálpar tónskáldum örugglega
vel við að átta sig á ýmsum músíkölskum þáttum;
– hendingamótun, öndun og slíku.
Ég gerði nú einu sinni mitt til að fá nokkur tón-
skáld til að syngja. Þannig var að ég var á leiðinni
á hátíðina Ung Nordisk Musik í Noregi og var
með litla messu sem ég var að semja í skólanum.
Norðmennirnir voru búnir að lofa því að það yrði
kór á staðnum. Það klikkaði, og ég var auðvitað
mjög leið, – að fara í fyrsta sinn á svona mót með
kórverk og enginn kór til staðar. Mamma kom
með þá hugmynd að fjölskyldan kæmi með og að
við virkjuðum tónskáldin í að syngja líka. Þetta
voru strákar svolítið eldri en ég og þeir sungu all-
ir. Ég verð þó að viðurkenna að verkin mín hafa
verið betur flutt, en þetta bjargaði málunum
þarna og var mjög gaman.“
Textinn er kannski hækja
Þótt Hildigunnur sé vinsæl og eftirsótt fyrir
kórtónsmíðar sínar semur hún einnig hljóðfæra-
tónlist. Hún segir það alveg jafn freistandi og
hljóðfæramúsíkin togi líka í sig þótt hún kunni
sérstaklega vel við að vinna út frá texta. „Textinn
er kannski bara hækja – ég veit það ekki, en þann-
ig er það. Staðreyndin er samt sú að ég fæ mun
fleiri pantanir á söngtónlist en hljóðfæratónlist og
því sinni ég henni meira. Þegar ég sem eitthvað
annað er það oftar frá eigin brjósti og af eigin
hvötum. Ég hef til dæmis samið svolítið fyrir Sin-
fóníuhljómsveit áhugamanna, og hef spilað þar
sjálf, – þá erum við aftur komnar að því að ég nota
þá miðla sem næst mér eru. Ég samdi dansasvítu
fyrir hljómsveitina og orgelkonsert sem Lenka
Mateova lék með hljómsveitinni. Það verk kom út
á geisladiski hljómsveitarinnar í fyrra. Ég er
nýbúin að semja verk fyrir Caput, en þar bætti ég
inn söng. Það verk verður frumflutt 6. mars á
næsta ári. Það er stórt kammerverk, fyrir
strengjakvintett, blásarakvintett og sópran, og
það er Hallveig systir mín sem syngur. Ljóðið er
eftir Guðmund Böðvarsson.“
Stolt og ánægð
Að undanförnu hefur mátt lesa í Morgun-
blaðinu dóma úr erlendum tónlistartímaritum um
íslenska tónlist á geisladiskum. Þar hefur nafn
Hildigunnar skotið upp kollinum. Gagnrýnandi
Gramophone sagði, eftir að hafa hlustað bæði á
geisladisk Hamrahlíðarkórsins og disk Ásgerðar
Júníusdóttur, að verk Hildigunnar væru sérstak-
lega áhugaverð og að vert væri að fylgjast með
nafni hennar í framtíðinni.
„Þetta er auðvitað mjög gaman, en lögin tvö á
geisladiski Hamrahlíðarkórsins eru einmitt lögin
sem ég var að segja þér frá og komu á geisla-
diskum Europa Cantat. Ég er afskaplega stolt.
Ég er líka ánægð með dómana sem ég fékk fyrir
stóru messuna mína sem samdi í fyrra. Hún fékk
mjög góða dóma bæði í Morgunblaðinu og Dag-
blaðinu. Það stendur til að gefa hana út á geisla-
diski, og ég er mjög montin af því.“
Í fyrra átti Langholtskórinn stórafmæli og kór-
stjórinn, Jón Stefánsson, lét sig auðvitað dreyma
um að vera stórhuga af því tilefni og panta nýtt
verk fyrir kórinn. „Jón hafði heyrt músík eftir
mig, og látið kórinn syngja, og var spenntur fyrir
því að biðja mig að semja eitthvað. Hann nefndi
þetta við mig, lofaði þó engu, því það átti eftir að
fjármagna verkefnið. En það varð úr að Jón,
ásamt presti og safnaðarstjórn Langholtskirkju,
ákvað að ráða mig til að semja afmælisverk –
klassíska messu fyrir kór, einsöngvara og hljóm-
sveit. Ég mátti ráða hvernig hljóðfæraskipan ég
vildi hafa í hljómsveitinni, en þau vildu að þetta
yrði hrein messa, með latneskum textum. Þetta
var mjög spennandi, því það eru til ótal svona
messur frá öllum tímum tónlistarsögunnar. Á Ís-
landi er til fullt af messum, en engin í þessum
klassíska stíl, eingöngu byggð á hefðbundnum lat-
neskum messutexta, fyrir kór, fjóra einsöngvara
og hljómsveit. Þau gerðu þetta þannig að ég var
ráðin í hálft ár til verksins, og kaupið miðað við
starfslaun listamanna. Ég veit ekki til þess að bet-
ur hafi verið gert við tónskáld á Íslandi, þetta var
stórkostlegt hjá þeim og vel að þessu staðið. Ég
ákvað, úr því að beðið var um klassíska messu, að
hafa klassíska hljóðfæraskipan – svona eins og
stóra Mozarthljómsveit, eins og hann var með í
síðustu sinfóníunum sínum; með básúnum, horn-
um, trompetum og pákum, en ekki öðru slagverki.
Þá gerist nokkuð sérkennilegt. Mig dreymdi stef-
ið að lokakaflanum, Agnus dei. Ég vaknaði, og
vissi hvernig verkið átti að enda. Ég skrifaði stefið
niður strax. Þetta hafði aldrei komið fyrir mig áð-
ur, og aldrei síðan. Þess vegna byrjaði ég á síðasta
kaflanum, og hann er angurvær, eins og venjan er
með Agnus dei-þáttinn. Messan er mög lagræn,
án þess að tónlistin sé endilega í dúr eða moll. Ég
nota til dæmis líka kirkjutóntegundir og blanda
ýmsu saman. Ég skilaði síðasta kaflanum – sem
var í raun fyrsti kaflinn – af mér í byrjun mars, og
messan var frumflutt um páskana. Kórinn er í
góðu formi og gekk vel að læra þetta. Frumflutn-
ingurinn gekk mjög vel og – maður kann varla við
að segja frá því – þá, á föstudaginn langa, var
klappað, blístrað og stappað í kirkjunni; einhvers
staðar hefði það nú verið bannað. Þetta er stærsta
verkið mitt til þessa og það sem ég hef lagt mest
í.“
Margt í undirmeðvitundinni
Hildigunnur segist ekki semja þannig að hún
vakni til verksins og sitji við tímunum saman.
Hún vinnur hratt og segir það ekkert mál fyrir sig
að setjast niður og einbeita sér við tónsmíðarnar,
þó ekki sé nema í hálftíma í senn, hér og þar yfir
daginn. Besti tíminn er þó á kvöldin, þegar börnin
eru komin í ró. „Það er svo margt sem vinnst í
undirmeðvitundinni þótt maður sé að gera eitt-
hvað annað. Stundum sem ég við píanóið, stund-
um ekki. Ég held að mér hafi tekist að skapa mér
minn stíl; – ég er lagræn, og er fegin að hafa ekki
verið uppi á þeim tíma þegar tónlist var það al-
mennt ekki. Ég hef samið seríal tónlist, – en það
var ekki gott verk hjá mér. Ég er er svo mikil lag-
línukerling. Það á jafnt við um hljóðfæratónlistina
og söngtónlistina. Það er ekki langt síðan laglínan
var tekin í sátt aftur, og þegar ég var á UNM-
þingunum var ég oft spurð að því hvernig ég þyrði
að nota laglínur svona óspart. Fólki fannst laglín-
an búin að vera og það væri búið að gera allt áður
sem viðkom henni. Mér fannst komið að því að bú-
ið væri að gera allt áður í módernismanum. Hér á
Íslandi vorum við fljótari að losa okkur úr honum
en tónskáld í löndunum í kring. Það eru fáir sem
eru frumkvöðlar og fá nýjar og ónotaðar hug-
myndir. Það er í raun auðveldara að vera frum-
legur með því að byggja á því sem áður hefur ver-
ið gert. Ég get ekki samið eitthvað til þess eins að
það falli í kramið og geðjist smekk eða stíl. Ég
verð að semja eitthvað sem er satt fyrir mig. Ef
svona músík flýtur eðlilega frá mér get ég ekki
samið eitthvað annað til að þóknast öðrum sjón-
armiðum; það kemur ekki til greina. Engu að síð-
ur finnst mér gaman að hlusta á eitthvað allt ann-
að, sem tónskáld ólík mér hafa samið. Sem betur
fer erum við ekki öll eins.“
Gott að músísera með öðrum
Næsta sumar verður Hildigunnur staðartón-
skáld í Skálholti og er þegar byrjuð að semja verk
fyrir Hljómeyki, orgel og slagverk. Textinn er
Maríuljóð eftir Einar Sigurðsson úr Eydölum.
Hljómeyki er enn mjög stór hluti af tónlistarkon-
unni Hildigunni Rúnarsdóttur og þar segist hún
„músísera“ hvað mest. Hljómeyki var einn af
fyrstu íslensku sönghópunum sem höfðu nær ein-
ungis á að skipa menntuðu söngfólki, en foreldrar
hennar og frændfólk stofnuðu hópinn ásamt vin-
um sínum, sem margir höfðu sungið í Pólýfón-
kórnum. Hildigunnur hefur líka verið að spila á
fiðluna með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, –
sem hún hefur líka samið fyrir. Hún segir það eft-
irsóknarvert fyrir sig sem tónskáld að geta mús-
íserað með öðrum, – sungið, spilað eða tekið þátt í
tónlistariðkun á einhvern hátt. Undanfarin miss-
eri hefur hún líka verið að grúska í íslenskum
þjóðlögum; því efni sem Collegium musicum í
Skálholti hefur verið að draga fram í dagsljósið úr
gömlum handritum. „Mörgu af þessari tónlist
svipar til þess sem var í Evrópu á sama tíma;
þarna eru því sennilega bæði alls konar flökku-
tónsmíðar en líka orginal músík. Þessi tiltekt í ís-
lenskum handritum hefur breytt sýn okkar á ís-
lenska tónlistarsögu. Það er ótrúlegt hvað mikið
er til af tónlist hérna; það kemur á daginn öfugt
við það sem margir hafa haldið, að Íslendingar
hafa alla tíð sungið, – og sungið mikið.“
VAÐ SEM ER SATT FYRIR MIG
Morgunblaðið/Árni Sæberg
ð erfitt fyrir mig að sækja þessa tíma hjá sjálfri mér.“
begga@mbl.is
„Ég held að mér hafi
tekist að skapa mér
minn stíl; – ég er
lagræn, og er fegin að
hafa ekki verið uppi
á þeim tíma þegar
tónlist var það
almennt ekki.“