Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 08.11.2003, Qupperneq 10

Lesbók Morgunblaðsins - 08.11.2003, Qupperneq 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. NÓVEMBER 2003 N Ú MAN ég ekki lengur hvernig Rói Patursson skáld og Joannes Pat- ursson eru skyldir, hvort Joannes er afi hans eða langafi, en allir sem bera Patursson nafnið eru víst skyldir. Einn þeirra er Trondur, einn þekktasti lista- maður Færeyinga, og við munum eftir Erlendi, sem var lögmaður Færeyinga, og talaði þessa fínu íslensku. En Joannes Patursson, sem hér er nefndur, var þingmaður og einn af upphafsmönnum þjóðlegrar vakningar í Færeyjum. Ég hugsa að hann sé þeirra Jón Sigurðsson eða eitthvað þar um bil. Joannes var frá Kirkjubæ. Eitt sinn bjargaði hann skipbrotsmanni sem rekið hafði í óratíma um hafið á litlum pramma. Skipbrotsmaðurinn lá kylliflatur á prammanum og hélt dauðahaldi í einn endann, aðframkominn og aumur. Joannes tekur kaldan manninn og hlýjar honum með líkamshita sínum, svipað og segir frá í mörgum íslenskum hrakningasögum. Ég held að skipbrotsmaðurinn hafi verið hol- lenskur frekar en þýskur, en tuttugu árum eft- ir lífgjöfina kemur hann alheill í heimsókn og hittir lífgjafa sinn. Þá sér hann prammann, sem hann hafði hrakist á, en nú var pramminn orðinn að mynd- arlegri borðplötu á bændasetrinu í Kirkjubæ og þannig er hann enn meira en öld síðar er við strjúkum yfir borðplötuna með fingrunum. Í Kirkjubæ hittum við prófessor Jóhan Hendrik, sem er talsmaður þeirra sjónarmiða að Færeyingar lagi nýyrði og tökuorð að sínu eigin máli, svipað og við Íslendingar gerum. „Þú talar ansi góða íslensku,“ segi ég við pró- fessor Jóhan Hendrik, sem hann svo sannar- lega gerir. „Latínu norðursins,“ segir hann, „þó það nú væri.“ Orð hans fylla mig stolti. Við sem komum frá Íslandi erum yfirleitt í góðum málum hvar sem við komum, en alveg sérdeilis í Færeyjum; virðing þeirra og alúð kemur innan frá, er gegnheil og sönn. Ég var aftur kominn til Þórshafnar, heim- sóknin til Klakksvíkur að baki. Nokkur ljóð í farteskinu og skáldsöguhandrit í molum, Engl- ar alheimsins, átta mánaða meðganga fyrir höndum. Allt þetta er ég með í gömlu slitnu töskunni sem ég keypti á Grikklandi haustið 1978 og hefur æ síðan fylgt mér; og gerir enn. En nóg um það; aðalatriðið er að ég er kom- inn aftur til Þórshafnar. Ég heimsæki Sigurd Joensen, þann kraftmikla karl sem ég hafði hitt tveimur árum fyrr á skáldaþingi í Svíþjóð, í Biskops Arnö þar sem biskupar Norðurlanda sátu um hríð. Gott ef Jón Gerreksson kom ekki þaðan en saurlifnaður hans og illska leiddi til þess að bændur stungu honum í poka, bundu fyrir og drekktu honum einsog ketti. Ein sagan segir að Jón hafi flúið inn í kirkju, þar sem ekki mátti handsama hann, en þá röðuðu bændur sér með- fram kirkjunni og lyftu henni ofan af honum. En sem sé, þarna hitti ég Sigurd Joensen fyrst. Nú er hann dáinn. Hann varð háaldraður. Sigurd Joensen var rithöfundur og skrifaði að- allega barnabækur og smásögur, en starfaði lengst af sem lögmaður. Rödd hans var svo kraftmikill og sterk að sem ungur maður var hann látinn hrópa yfir brimgarðinn til að leiðbeina skipum í land. Það gefur augaleið að maður með slíka rödd gat orðið góður lögmaður. Hann lærði lögfræði í Kaupmannahöfn. Þar kynntist hann Íslending- um og talaði betri íslensku en flest okkar sem göngum hér og nú. Í Kaupmannahöfn hafði hann meðal annars kynnst Kristjáni Eldjárn og Sverri Kristjánssyni, svo málfarslegar fyr- irmyndir hans voru ekki af lakara taginu. Sigurd býr einn í risastóru húsi, kominn vel á níræðisaldur þegar ég heimsæki hann. Konan hans er dáin og börnin flutt að heiman. Hann á barnabörn og barnabarnabörn, sum búsett á Íslandi. Þegar ég kem til hans berast raddir að ofan: Það eru BBC-fréttamenn. Í kreppunni eru Færeyingar nýkomnir í gervihnattasam- band og geta gónt á útlendar sjónvarpsstöðvar allan sólarhringinn. Sigurd skrúfar niður í fréttamönnunum með viðeigandi orðbragði, finnur tvö rauðvínsstaup og fyllir þau af Calvados. Skál. Hingað er ég velkominn. Á stofuborðinu liggur mikið af handskrifuðum blöðum og alls kyns uppslátt- arrit og bækur. „Veistu hvað þetta er?“ segir Sigurd stund- arhátt og bendir á blöðin og áður en ég næ að hrista höfuðið segir hann: „Þetta er Íslands- klukkan á færeysku.“ Það hefur verið starf hans undanfarin miss- eri, að þýða hana. Í augum Sigurds er Íslands- klukkan ekki aðeins mikið bókmenntaverk, heldur líka barátturit. Hann vill meina að Fær- eyingar nútímans séu á sama stigi og Íslend- ingar á nýlendutímanum. Þegar hann flytur mál sitt er baráttukraft- urinn í honum einsog í gamalli stríðshetju. Það hvarflar ekki að mér að mótmæla honum, enda getur vel verið að hann hafi rétt fyrir sér. Þetta er alla vega einstakur maður, og ég nefni hann ekki aðeins til sögunnar af því að hann er þýðandi Íslandsklukkunnar, heldur var hann einnig verjandi uppreisnarmannanna frá Klakksvík, en uppreisnin í Klakksvík var aðalumræðuefnið okkar er við hittumst í Sví- þjóð. Uppreisnin í Klakksvík gengur ýmist undir nafninu „Klakksvíkurstyrjöldin“ eða „Lækna- stríðið“, og var háð á milli íbúa Klakksvíkur og danskra hernaðaryfirvalda árið 1955. Sumarið sem ég vann í Klakksvík fékk ég gríðarlegan áhuga á þessari styrjöld sem meira að segja Danir hafa nefnt svanasöng danskrar heims- valdastefnu. En því meiri sem áhugi minn varð því hljóð- ari urðu viðmælendur mínir. Það var einsog bannhelgi hvíldi yfir þessum atburðum. Inn- fæddir fóru undan í flæmingi, þeir vildu ekki ræða þá og að toga út úr þeim sögur var starf fyrir tannlækni. Ekki það að menn væru að setja út á sögu- lega forvitni aðkomukomumannsins. Nei, við- brögðin minntu mig á söguna af bananaverk- fallinu í Hundrað ára einsemd sem allir gleymdu þegar það var afstaðið og sögðu að hefði aldrei átt sér stað. Læknastríðið í Klakksvík fór því að fá á sig þjóðsögulegar víddir í höfði mínu. Ég nánast bjó til mína eigin útgáfu af þessari styrjöld eftir munnmælum og sögusögnum og einsog þegar slíkt gerist verður uppspuninn með einum eða öðrum hætti sannari en atvikin. Þannig var að Danska Læknasambandið hugðist setja Halvorsen lækni af. Sögðu sumir að hann væri göldróttur skottulæknir, en aðrir að hann hefði átt vingott við nasista. Slíkir menn áttu að borga sektir og því neitaði Halvorsen vegna þess að í fyrsta lagi sá hann ekkert að því að hafa verið nasisti á sínum ung- lingsárum og í öðru lagi hafði hann sagt sig úr nasistaflokknum mjög fljótt, einfaldlega af því að honum þótti ekkert varið í nasista. Hann neitaði að greiða sektir en nafn hans lifði á ein- hverjum spjaldskrám og þar við sat. Þá gripu dönsku læknasamtökin til þess ráðs að víkja Halvorsen úr embætti og settu nýjan lækni í hans stað. Þessu vildu Klakksvíkingar ekki una. Tóku nú að breiðast um Eyjarnar átján kraftaverkasögur af Halvorsen. Sagt var að lamaðir menn gætu staðið á höndum bara ef þeir litu í augun á Halvorsen og margir trúðu því að honum fylgdi guðlegur máttur. Þegar svona var í pottinn búið var ákveðið að setja nýja lækninn í embætti með lögreglu- og hervaldi. Þá gripu Klakksvíkingar til vopna og buðu hundruðum lögreglumanna með sjeffer- hunda og barefli byrginn. Þetta var ójafn leikur: Klakksvíkingar voru vopnaðir rifflum, skóflum, hökum og grjóti. Litlir drengir bjuggu til teygjubyssur og skutu örvum af boga. Símastaurar voru felldir. Klakksvík var í hershöndum. En nú vildi svo til að einhver agúrkutíð var í styrjaldarrekstri í heiminum eða menn voru orðnir leiðir á þeim stríðum sem í gangi voru. Því runnu heimsblöðin á slóðina og mynduðu átökin, drengi sem miðuðu teygjubyssum á herskip og sjómenn sem buðu herveldinu byrg- inn með skóflum og járnkörlum. Þannig að þó Klakksvíkingar töpuðu átök- unum um lækninn sinn unnu þeir stríðið í aug- um heimsins, enda hlutu uppreisnarmenn væga dóma og Klakksvíkingar kusu að gleyma því sem gerst hafði. Þetta er nokkurn veginn atburðarásin, en átökin um lækninn voru aðeins yfirborðið. Undir niðri kraumaði krafan um sjálfstæði. Þetta leiddi Sigurd Joensen mér allt fyrir sjón- ir og hvatti mig til að skrifa skáldsögu um þessa atburði, helst margar, en þeir hafa á undan- förnum árum verið dregnir fram í dagsljósið og um þá fjallað í lærðum ritum. RÉTTU MÉR NORÐUR- LJÓSIN III Morgunblaðið/RAX „Hann vill meina að Færeyingar nútímans séu á sama stigi og Íslendingar á nýlendutímanum.“ Hér segir meðal annars frá hröktum manni á pramma, þýðanda Íslandsklukkunnar og styrjöld sem háð var með skóflum og járnkörlum. Höfundur er rithöfundur. E F T I R E I N A R M Á G U Ð M U N D S S O N 1. Það landsmenn vorir litið fá, að ljós og myrkur ólíkt tjá, og eins er það með illt og gott en alger munur þess ber vott. Með kærleik Guðs ein kemur trú og kristin lýsi vakning nú. Í stjaka lífsins ljós er sett, um leið er myrkri þá af létt. 2. Öll fjölhyggjan með fár í sér, ei fólki voru gagnast hér. Hvar ósiðferðið eins á rétt mest illverk gerast jafnt og þétt. Kom auga fyrir auga skjótt, þá óvild magnast líka fljótt. Víst hefnd er ætíð söm við sig, og setur deilu á verra stig. 3. Fólk á valdi vopna er, það versta böl um heiminn fer, en þvert mót vilja og visku hans sem veröld skóp og tilurð manns. Fyrst óhlýðni var upphafs synd og illt varð sundrung frá Guðs mynd. En Guð vor kom með kærleikann, í Kristi gaf hann sátt – þér ann. 4. Kom feldi undir friðar ráð, á Fróni reyndist mesta dáð. En Þorgeir stefnu þá hann tók, sem þrykkt er út á helgri bók, og almenn reglan reist er á þar ráðgjöf siðferðis menn fá. Í anda Krists er uppbyggð skrá en án hans – festi vantar þá. 5. Í heljargreip það hneppti mann, ef hans við grunn leyst yrði rann. Vor stjórnarskrá með stjórnvald fer hún staðfest þjóðar kirkju er í kjarnagrein er kom strax inn Þar kristur lagði grundvöll sinn. Hver kynslóð þarf – vill þúsöld tjá að þroskast braut Guðs ríkis á. PÉTUR SIGURGEIRSSON Höfundur er biskup. STJÓRNARSKRÁIN BYGGIR Á KRISTNI

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.