Lesbók Morgunblaðsins - 06.12.2003, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 06.12.2003, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. DESEMBER 2003 J ú, mér finnst frekar langt síðan ég var að yrkja ljóðin sem fóru í þetta kver,“ svarar Gyrðir þegar ég spyr hann um tuttugu ára fjarlægðina á fyrstu bókina. „Þetta eru orðnar svo margar bækur. Margt hefur breyst. Stundum er talað um að all- ar mínar bækur séu keimlíkar, en ef maður ætti að fara í gegnum þær frá upphafi og þar til nú, þá held ég að hægt væri að sjá býsna miklar breytingar. Hins vegar held ég svo að það sé jafnvel með þá sem eru taldir til kameljóna að auðvelt væri að benda á teng- ingar og þræði milli verka þeirra þótt í fljótu bragði sýnist fátt sameiginlegt. Það er þessi blessaða „djúpgerð“ sem oft er svipuð milli bóka.“ Þegar þú sendir Svarthvít axlabönd frá þér rétt rúmlega tvítugur varstu þá ákveðinn í að þetta lægi fyrir þér? Að skrifa. „Eiginlega ekki. Mig langaði alltaf að vera myndlistarmaður. Ég man að það var mjög að brjótast í mér meðan ég var að fálma með þetta handrit. Ég var meira að segja að baksa við að gera kápumynd sjálfur, málaði eitthvað framan á handritið. Sem betur fer rataði sú mynd aldrei utan á bókina sjálfa! Myndlist hefur alltaf verið mjög stór hluti af lífi mínu. Ég ólst upp við hana ekki síður en bækur, og hef alltaf fylgst jafn grannt með myndlist og bókmenntum. Kannski er ég að sumu leyti að stunda myndlist í gegnum þær bækur sem ég skrifa. Í mínum huga er ekki svo langt á milli þessara forma. Það er engin gjá eða eitthvað óbrúanlegt. Sum mín uppá- haldsskáld hafa líka verið myndlistarmenn, eins og William Blake.“ Þú hefur ekki alveg látið það vera sjálfur. Gyrðir vill ekkert gera úr því. „Ég hef eitt- hvað leikið mér, en það er bara dútl. Ég hef eiginlega notað þetta sem slökun, afslöppun og hvíld frá hinu. Og ég passa að hafa þetta þannig, því maður verður að hafa einhvern ventil frá skriftunum; vera þá ekki að hugsa um neitt annað en leik.“ Og hann bætir við brosandi: „Svo er ég hálffeginn því eftir á að hafa ekki farið út í myndlistina, því það er meira en nóg að hafa tvo myndlistarmenn í fjölskyldunni! Og eiginlega þrjá, því bróðir minn er ljósmyndari.“ Faðir Gyrðis er Elías B. Halldórsson, listmálari í Kópavogi, eldri bróð- ir hans er Sigurlaugur, málari og ljóðskáld á Sauðárkróki, og yngri bróðirinn Nökkvi hefur getið sér gott orð fyrir ljósmyndir af eyðibýl- um á Íslandi. En ég get ekki sleppt þér alveg frá mynd- unum, þú gerðir nú kápu á ljóðabók hér um ár- ið. „Já, fyrir Geirlaug Magnússon. En það var einangrað tilfelli. Ég tók mig til einn veturinn og gerði nokkrar grafíkmyndir, ef það má kalla þetta því nafni. Og Geirlaugur komst í þennan stafla og tók eina. Þetta varð bara eitt af þessum minniháttar umhverfisslysum í kápugerð það árið.“ Offituvandi skáldsögunnar geigvænlegur Skrif þín hafa alla tíð verið afar myndrík en myndgerðin og hvernig þú „málar“ texta hef- ur breyst gríðarlega gegnum árin. Með ákveð- inni einföldun má segja að fyrstu ljóðabæk- urnar einkenni lokaður heimur myndhverf- inga en á seinni árum hafi sá heimur tekið miklum stakkaskiptum. „Það held ég sé rétt. Myndheimurinn hefur einfaldast í einhverjum skilningi, meðvitað og ómeðvitað. Myndhverfingum og öðru hefur fækkað, ég hef reynt að einbeita mér meira að beinni sjón.“ Þú hefur þá horfið frá því að vera málari yf- ir í að vera ljósmyndari! „Það er mögulegt, kannski ekki svo fjarri lagi. Eða bara færst nær natúralísku mál- verki! Í seinni tíð hef ég dregist sífellt meir að myndum bandaríska málarans Edwards Hop- pers, mér finnst þær tala til mín á einhvern sérstakan hátt. Ég er ekki endilega að tala um áhrif frá honum, heldur meira nokkurs konar samhljóm.“ Þegar við ræddum saman fyrir tólf árum hafðirðu skrifað tvær skáldsögur, Gangandi íkorna og Svefnhjólið. Þú sagðist líta á þær að einhverju leyti sem dulbúin ljóð. Nú hafa tvær skáldsögur bæst við, Næturluktin fyrir tveim- ur árum og nú Hótelsumar. Segirðu það sama um þær? „Að nokkru leyti. Líklega falla þessar bæk- ur varla alveg innan ramma skáldsögunnar, en að vísu er sá rammi nokkuð stór. En mér finnst einhvern veginn sjálfum að bygging þeirra og eðli setji þær svolítið á skjön, hvort sem það er nú gott eða slæmt. Mér finnst satt að segja enginn djúptækur munur á ljóði og frásögn. Þetta er að vísu mjög sérviskuleg skoðun, en það er mitt viðhorf. Eflaust eru margir mér ósammála, en mín forsenda fyrir að skrifa er að hafa svona opið í hálfa gátt á milli formanna. Þess vegna skrifa ég bækur eins og ég geri. Annars mundi ég sennilega skrifa „venjulegri“ skáldsögur. Ég veit það ekki, en kannski hafði það svona mikil áhrif á mann fyrir tuttugu árum eða svo að lesa prósaþýðingar Sveinbjarnar Egilssonar á söguljóðum Hómers – þarna þurrkuðust skilin milli forma út á magískan hátt með þessum undarlega samruna. Almennt talað finnst mér offituvandi skáld- sögunnar vera orðinn geigvænlegur. Áður var talað um borgaralegar skáldsögur, en nú mætti tala um hamborgaralegar skáldsögur! En ég undanskil auðvitað margar stórar skáldsögur sem samsvara sér vel og eru alveg það sem blaðsíðutalið segir til um.“ Finnst þér þá hrokafullt þegar sumir höf- undar þessara þykku skáldsagna kjósa að gera lítið úr ólíkum verkum annarra höfunda? „Mér finnst það að minnsta kosti bera vott um þröngsýni, að menn vilji hafa alla eins; mundi það ekki kallast menningarleg eins- leitni? Lengd á skáldsögu er ekki höfuðatriði. Spurningin um 100, 300 eða 500 síður finnst mér út í hött. Margar af bestu skáldsögum sem hafa verið skrifaðar bæði hér heima og erlendis eru á bilinu 100 til 150 síður. Þarna eru til dæmis bækur eins og Liðsforingjanum berst aldrei bréf eftir Marquez, Hamskiptin eftir Kafka, Útlendingurinn eftir Camus, Utz eftir Chatwin, Viktoría eftir Hamsun, Allir heimsins morgnar eftir Pascal Quignard, Sjö- tíu og níu af stöðinni eftir Indriða G. Þor- steinsson, Vögguvísa eftir Elías Mar, Ham- ingjuskipti eftir Steinar Sigurjónsson, Litbrigði jarðarinnar eftir Ólaf Jóhann Sig- urðsson, Leigjandinn eftir Svövu Jakobsdótt- ur, Ástin fiskanna eftir Steinunni Sigurðar- dóttur. Listinn gæti verið endalaus, þetta eru bara dæmi af handahófi. Þegar skáldsagnahöfundar eru að tala um hvað langan tíma hafi tekið að skrifa bæk- urnar, þá skiptir það ekki öllu máli. Hamsun sagði að bækur ættu að sýnast áreynslulausar. Og hvort menn hafa verið eitt, tvö, þrjú ár eða skemmri tíma að vinna verkið er ekki meg- inatriði. Og það á ekki að sjást á verkinu. Vinna við stutta skáldsögu getur vel tekið jafn langan tíma og vinna við langa sögu. En það er bara ekki málið. Það er einhver brengluð út- gáfa af íslensku vinnubrjálæði sem kemur svona hugmyndum af stað. Þess utan væri hægt að benda á að Goethe var fjórar vikur að skrifa Raunir Werthers unga og William Faulkner var fimm til sex vikur að skrifa As I lay Dying. Þær bækur hafa enst. Vinna við skrifborð er vissulega mikilvæg, en hún er alls ekki eina vinnan sem rithöfundur innir af hendi. Verkin verða fyrst til í huganum, og það kostar oft langan tíma að finna rétta afstöðu, áður en skriftir byrja. Sá sem stundar ritstörf er að allan sólarhringinn með einhverjum hætti. Þetta hafa náttúrlega margir sagt, en það virðist alltaf þurfa að minna á það. Mér finnst bera of mikið á samkeppnishug- myndum milli rithöfunda núorðið, í stað þess að hver reyni að þróa sína persónulegu sýn óháð öðrum. Líklega er það þetta hræðilega markaðsumhverfi sem stuðlar að þessu. En mér hefur alltaf verið minnisstætt það sem ég las einu sinni hjá bandarísku skáldkonunni Ursulu Le Guin: „Listamenn sem keppa hver við annan eru ekki listamenn.“ Ritstörf og aðr- ar listgreinar eru ekki íþróttakeppni. Það er gott að hafa innri metnað gagnvart sjálfum sér, gera eins vel og manns takmörkuðu hæfi- leikar leyfa, en ytri metnaðurinn og sam- keppnisáráttan er til baga. Þá er stutt í að h-ið detti úr starfsheitinu og ritöfundurinn standi eftir.“ Þýðingar góður skóli fyrir skáld Vinnan við skrifborðið er ekki eina vinnan, segir þú, en þú hlýtur að hafa eytt drjúgum tíma við skrifborðið: Fjórar skáldsögur, tólf ljóðabækur, sjö sagnasöfn, eitt greinasafn, tólf þýðingar. Þetta eru 36 bækur. Ertu alveg óð- ur? „Ég heyrði haft eftir Bill Holm, þegar ein- hver sagði honum hvað ég hefði skrifað marg- ar bækur, að ég hlyti að vera geðbilaður. Ég mótmæli því ekki! Annars er þetta ekki svo óskaplegt þegar grannt er skoðað, bæði eru bækurnar ekki miklar um sig, og svo eru ýmis dæmi um svipuð afköst, bæði í íslenskum bók- menntum og annars staðar. Menn einblína of mikið á þetta sem eitthvert fyrirbæri. Ég hef alltaf haft mitt „tempó“ í þessu, ég hef skrifað af innri þörf á þessum hraða, hvað sem aðrir segja um það. Það er svo misjafnt frá einum rithöfundi til annars hvað mönnum hentar. Sumir vinna hægt, aðrir á annan hátt; það á allt saman rétt á sér. Rithöfundar eru svo mis- jafnar persónugerðir. Þó að þeir eigi að heita af sömu stétt, þá er þetta ákaflega ólíkt fólk innbyrðis, og á að vera það. Það er pláss fyrir allar tegundir af fólki innan þessarar greinar, eins og í mannlífinu öllu.“ Þýðingar eru regluleg afurð hjá þér. Þú byrjaðir á að þýða þrjár bækur eftir Richard Brautigan í kringum 1990, en síðan hefur þetta verið að meðaltali ein þýðing á ári, og nú í ár kom út þýðing á sögu eftir Singer, Sögu- maðurinn Naftalí og hesturinn hans. Hefur þessi þýðingavinna komið inn sem hvíld frá skáldskapnum eða vinnurðu þetta samhliða? „Yfirleitt kemur þýðingin sem eins konar hvíld frá eigin skrifum. Oft kemur maður ferskari að eigin verkum eftir að hafa unnið við að þýða. Þýðingar eru að vísu mikil vinna líka, en mér finnst gott að hverfa inn í þær þegar ég er orðinn þreyttur á mínum verkum. Stundum vinn ég þýðingarnar í skorpum, legg þær svo til hliðar. Mér finnst þýðingar alltaf vera mikilvægar fyrir litla þjóð einsog okkar, jafnvel þótt sífellt fleiri geti lesið erlend mál sér til gagns. Mín skoðun er sú að skáld eigi að taka virkan þátt í að þýða, ásamt þeim sem fást við það eingöngu. Þýðingar eru alltaf góð- ur skóli fyrir skáld. Maður lærir sífellt eitt- hvað nýtt af því að glíma við tungumálið frá þessu sjónarhorni.“ Mörgum þýðinganna hefur verið geysivel tekið, Uppvöxtur Litla trés er dæmi um það. Hvernig velurðu þessar bækur? „Oftast hafa þessar bækur bara orðið á vegi mínum með einhverjum hætti, ég hef lesið þær mér til ánægju, og svo hefur smám saman styrkst einhver hugmynd um að það þyrfti að koma þeim á íslensku. Það ferli getur tekið allt upp í tíu ár, frá því ég las bókina og þangað til LANGAÐI ALLTAF AÐ VERÐA MYNDLISTARMAÐUR Tuttugu ár eru liðin síðan Gyrðir Elíasson kvaddi sér hljóðs með ljóðabókinni Svarthvítum axla- böndum. Frumsamin verk hans og þýðingar eru nú orðin 36, með ljóðabókinni Tvífundnalandi sem kom út í vor og skáldsögunni Hótelsumri sem er nýkomin í verslanir. EINAR FALUR INGÓLFS- SON ræddi við Gyrði í tilefni tímamótanna og út- gáfu nýju verkanna, en síðast ræddu þeir saman fyrir Lesbókina fyrir tólf árum og eru sammála um að margt hafi tekið breytingum í skrifum skáldsins. steingrátt, með tveimur litlum kvistum. Bak við lítinn fjögrarúðugluggann á öðrum kvistinum hafði ég sofið í mjóu trérúmi undir súðinni og bróðir minn í eins rúmi á móti mér. Á rigningardögum hafði ég setið við gluggann og horft út og hugsað um all- an ömurleikann í tilverunni, milli þess sem ég kvaldi bróður minn mér til afþreyingar. Það eina sem hafði breyst var liturinn á þakinu. Það hafði verið rautt en var nú orð- ið grænt, einsog til að bæta upp grasleysi langra vetrardaga. Ég vissi ekki hverjir áttu heima þarna núna, en í kvöldkyrrðinni á stéttinni við hliðið greip mig löngun til að 31. maí FUGLARNIR VORU farnir að undirbúa sumarið þegar ég kom. Þetta var í fyrsta skipti sem ég skildi hvað þeir voru alltaf að segja. Ég gekk um móann fyrir innan bæ- inn og hlustaði á lóurnar, og núna var ég alveg viss. Þær voru að syngja dýrðin- dýrðin. Fyrir skömmu hafði ég lesið langa sögu eftir Thomas Hardy um mann sem snýr aft- ur á heimaslóðir með leiðinlegum afleið- ingum, en ég lét það ekki trufla mig. Ég var ánægður með að vera aftur kominn heim. Að vísu var ég ekki kominn alveg heim. Ég bjó á nýlegu litlu hóteli yst í bænum. Það stendur skammt ofan við gömlu bryggjuna og heitir HÓTEL ALGEIRSBORG, ekki veit ég hversvegna. Kvöldið sem ég kom gekk ég innar í bæinn og staðnæmdist framan við bernskuheimili mitt. Húsið var ennþá banka upp á. Fá að líta inn í herbergin, sjá gula eldhúsið hennar mömmu og búrið þar sem pabbi bruggaði ölið í brúna gler- kútnum, og ganga upp marrandi tréstigann einusinni enn. En ég lét það vera. Ég gekk bara inn á gamla róluvöllinn rétt hjá og settist í eina róluna og rólaði fram og aftur og dinglaði fótum einsog ég væri aftur orð- inn sjö ára og bráðum færi mamma að kalla á mig í kvöldmatinn. Ég fór aftur á hótelið, eftir götum sem voru þröngar en þó aðallega tómlegar. Þegar ég kom inn í veitingasalinn sat hót- elstjórinn sjálfur bak við skenkinn og glápti á sjónvarp. Ég bað um bjór og settist með hann út í horn og horfði út um gluggann, á vanhirtan bakgarð með njóla og hvönn. Síð- an gekk ég upp á herbergið mitt og lauk við að taka upp úr ferðatöskunni. Ég hafði tekið með mér þykka og mikla bók eftir Mark Twain, safn af ferðasögum hans úr Villta vestrinu og frá Landinu helga. Fram- an á kápunni ljósmynd af honum með grátt yfirskeggið. Ég byrjaði á bókinni, en hún var þung í hendi og ég lagði hana fljótlega frá mér, hagræddi höfðinu á koddanum og slökkti ljósið. Það varð hálfdimmt í her- berginu, veggfóðrið með sínum grænu lóð- réttu röndum gerði það að verkum að mér fannst ég andartak vera staddur í þéttum sykurreyrsskógi. Það var einsog til mín bærist dísæt angan inn um hálfopinn gluggann. Vornæturgolan bærði gard- ínurnar lítið eitt. HÓTELSUMAR

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.