Lesbók Morgunblaðsins - 06.12.2003, Page 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. DESEMBER 2003
A
fmælissýning Nýlistasafns-
ins, sem opnuð verður í
dag, nefnist „1978-2003:
Samtímalist í aldarfjórð-
ung“ og er henni ætlað að
veita yfirlit yfir starfsemi
safnsins síðustu tuttugu
og fimm ár, en Nýlista-
safnið var stofnað 5. janúar 1978. Spurður um
aðdraganda stofnunarinnar svarar Gunnar J.
Árnason, listfræðingur og sýningarstjóri af-
mælissýningarinnar, því til að árið 1978 hafi
ríkt allt annars konar umhverfi í listaheim-
inum en í dag. „Á þeim tíma voru t.d. mögu-
leikar til sýningahalds fyrir ungt listafólk
miklu færri. Nýlistasafnið var stofnað vegna
óánægju ungra og framsækinna myndlistar-
manna með hlutskipti sitt í íslensku myndlist-
arlífi. Þessi hópur benti á að inn í heildareign
þeirra listasafna sem voru að safna myndlist-
arverkum vantaði síðasta 15-20 ára tímabilið í
íslenskri myndlist. Menn óttuðust að ef ekk-
ert yrði að gert myndi þetta tímabil hreinlega
gleymast í tímans rás. Í framhaldinu varð til
félagsskapur sem hafði það að markmiði sér-
staklega að varðveita bæði verk og heimildir
um þennan þátt í íslensku myndlistarlífi,“
segir Gunnar.
Viðkvæm verk liggja
undir skemmdum
Frá upphafi var markmið félaga Nýlista-
safnsins að safna verkum og heimildum, auk
þess að efla tengslin við erlenda listamenn og
listfræðinga bæði með því að sýna verk er-
lendra listamanna hérlendis en einnig
skiptast á sýningum við erlend söfn. „Enda
hefur safnið í gegnum tíðina alltaf haft al-
þjóðlegt yfirbragð, verið nokkurs konar al-
þjóðlegur suðupottur. Til þess að koma upp
safni listaverka var í stofnskrá Nýlistasafns-
ins gert ráð fyrir því að nýir meðlimir í félag-
inu legðu fram tvö verk í safnið og bættu að
jafnaði við verki á fimm ára fresti. Safneign
Nýlistasafnsins saman stendur nú af rúmlega
sex hundruð verkum eftir tæplega tvö hundr-
uð höfunda, jafnt íslenska sem erlenda.“
Gunnar segir safneign Nýlistasafnsins afar
mikilvæga. „Það má sjá meðal annars af því
að stóru söfnin, s.s. Listasafn Íslands og
Listasafn Reykjavíkur, hafa sótt í safneign
Nýlistasafnsins þegar settar hafa verið upp
yfirlitssýningar yfir ákveðin tímabil í íslenskri
myndlistarsögu. Ágætis dæmi um það er sýn-
ingin Raunsæi og veruleiki: Íslensk myndlist
1960-80 sem sýnd er í Listasafni Íslands um
þessar mundir. Þannig hefur það markmið að
einhverju leyti náðst hjá félagsskapnum að
staðfesta stöðu sína í íslensku myndlistarlífi
og varðveita verk sem mönnum þykja merki-
leg núna í samhengi við íslenska myndlist-
arsögu.
Samt sem áður er ýmislegt sem knýr á um
að hugsanlega þurfi að endurskoða starfsemi
safnsins og eðli félagsskaparins á næstu miss-
erum. Eitt af því sem er t.d. umhugsunarvert
er hve erfiðlega hefur gengið að bæta verkum
eftir yngri listamenn við safneignina. Sam-
kvæmt mínum rannsóknum eiga eldri félagar
um 90% verkanna í safneigninni, en nýrri fé-
lagar aðeins um 10%. Ein aðalástæða þessa
er hversu óviðunandi geymslan fyrir safn-
eignina er og má segja að mörg verk, einkum
þau viðkvæmari, liggi beinlínis undir
skemmdum. Þannig hefur það varla þótt rétt-
lætanlegt, síðustu ár, að taka við nýjum fram-
lögum.“
Safneignin hornsteinn
Nýlistasafnsins
Aðspurður um ástæðu þess hve óviðunandi
geymslan er segir Gunnar að safneignin hafi í
raun verið á hrakhólum á undanförnum árum.
„Rekstur Nýlistasafnsins er svo lítill að það
er varla að það standi undir allri þessari
starfsemi, þannig að það er í raun enginn
grundvöllur fyrir því að sinna safneigninni á
þann hátt sem mönnum þykir eðlilegt nú til
dags. Megin hluti starfsemi Nýlistasafnsins
hefur á síðustu árum farið í sýningarstarf og
safneignin hefur þar af leiðandi setið svolítið
á hakanum, sérstaklega upp á síðkastið.
Kannski má segja að tengslin við safneignina
hafi að sumu leyti rofnað, sérstaklega eftir að
menn hættu að ganga eftir því að félagar
ánöfnuðu safninu verk eftir sig.“
Að mati Gunnars er safneignin samt horn-
steinn Nýlistasafnsins. „Hún hefur verið kjöl-
festa í starfseminni gegnum tíðina þannig að
Nýlistasafnið er í erfiðri stöðu. Félagsskap-
urinn sem stendur að Nýlistasafninu er í raun
skuldbundinn þessu safni á ákveðinn hátt en
á sama tíma er hún líka nánast orðinn ákveð-
inn baggi á starfseminni. Það eru einmitt
miklar umræður í gangi innan Nýlistasafns-
ins um það hvaða stefnu skuli taka varðandi
bæði safneignina og öll húsnæðismálin. Á
sama tíma hafa einnig farið fram umræður
um það á hvaða hátt félagar ættu að vera
virkir í starfsemi safnsins,“ segir Gunnar og
bendir á að hollt sé að slíkar umræður fari
fram. „Starfsemin hér er auðvitað þess eðlis
að menn eru að vinna við nýsköpun og
ákveðna framsækna hluti sem valda nátt-
úrlega deilum og menn eru eðlilega ósammála
um hvað sé gott og hvað sé misheppnað í
þessum efnum.“
Nýju félagarnir munu bera
uppi starfsemina í framtíðinni
Spurður hvað Gunnar hafi haft til hlið-
sjónar þegar hann setti saman yfirlitssýn-
inguna núna segir hann að upprunalega hug-
myndin hafi verið sú að velja verk úr
safneigninni sem endurspeglaði þann hóp
listamanna sem stendur að Nýlistasafninu.
„Það hefur raunar verið gert nokkrum sinn-
um áður, þannig að mig langaði til að leggja
fremur áherslu á verk eftir nýrri félaga, þá
sem hafa bæst við félagsskapinn á síðustu 5-
10 árum. Þegar ég fór að athuga málið komst
ég hins vegar að því hve lítið er til af verkum
eftir nýrri félaga í safneigninni og þurfti því
að leita beint til listamannanna. Ástæða þess
að ég vildi leggja áherslu á þessa nýrri full-
trúa er að þegar horft er til framtíðar er ljóst
að það eru þessir nýju meðlimir sem eiga eft-
ir að bera uppi starfsemi félagsins og safnsins
á komandi árum.“
Sýningin verður, að sögn Gunnars, tvískipt.
Á efri hæð safnsins sýna verk sín þau Alda
Sigurðardóttir, Bjargey Ólafsdóttir, Eirún
Sigurðardóttir, Erling Þ. V. Klingenberg,
Eygló Harðardóttir, Helgi Hjaltalín Eyjólfs-
son, Jón Sæmundur Auðarson, Markús Andr-
ésson, Ragnar Kjartansson, Særún Stefáns-
dóttir og Þóroddur Bjarnason. Á neðri
hæðinni má hins vegar finna ýmsar heimildir
sem endurspegla starfsemi listasafnsins, bæði
t.d. ljósmyndir og myndband sem sýni starf-
semi safnsins á liðnum árum. „Að undanförnu
höfum við verið að safna heimildum, m.a. ljós-
myndum, sem nýtast munu við gerð árbókar
sem er í smíðum og kemur út snemma á
næsta ári. Ljósmyndir eru einmitt mjög mik-
ilvægur þáttur í starfsemi safnsins enda fela
þær í sér mikil menningarleg verðmæti. Mig
langar til að nota tækifærið og auglýsa eftir
ljósmyndum af sýningum og opnunum síðustu
ára sem gætu leynst heima í skúffu hjá fólki.
Því miður vill brenna við að þessar verðmætu
heimildir glatast í tímans rás, sérstaklega
þegar svona langt er um liðið. En það er hins
vegar mjög mikilvægt að passa vel upp á
þessar heimildir.“
Afmælissýningin verður opnuð í dag kl. 17 í
Nýlistasafninu, Vatnsstíg 3. Sýningin stendur
til 20. desember og er aðgangur ókeypis.
„Dollý“ eftir Eirúnu Sigurðardóttur frá árinu 1999.
Morgunblaðið/Þorkell
Gunnar J. Árnason, sýningarstjóri afmælissýningarinnar, veltir fyrir sér hluta af verki eftir Helga
Hjaltalín Eyjólfsson ásamt þeim Baldri Geir Bragasyni og Bjarna Þór Sigurbjörnssyni.
„Án titils (út úr baðherberginu, inn bakvið sökkulinn og svo út í bílskúrnum)“ eftir Þórodd
Bjarnason frá árinu 2003 er myndbandsverk sem sjá má á sýningunni í Nýlistasafninu.
ALÞJÓÐLEGUR
SUÐUPOTTUR
Nýlistasafnið heldur
upp á 25 ára starfsaf-
mæli með sýningu sem
opnuð verður í safninu í
dag kl. 17. SILJA BJÖRK
HULDUDÓTTIR ræddi
við Gunnar J. Árnason
sýningarstjóra um
stöðu safnsins og
safneignarinnar.
silja@mbl.is