Lesbók Morgunblaðsins - 10.01.2004, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 10.01.2004, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. JANÚAR 2004 5 „Guðríður,“ sagði hann, horfði í blágræn augu hennar og kyssti hana djúpum kossi. © „Ég gæti þvert á móti nýtt mér þessa til- viljun, stigið fram sem persóna í eigin sögu og rætt hana ...“ „Til hvers?“ sagði Helena. „Það er ekki bara ótrúlega gamaldags heldur virkar það í meira lagi vafasamt að fara að tala um tilviljun í skáld- skap. Það er ekkert tilviljunum háð í bókmennt- um. Þetta veistu manna best.“ „Ég held þvert á móti að ýmislegt sé tilvilj- uninni undirorpið í skáldskap. Menn hafa bara vit á að nýta sér hana, neita því að hún sé til- viljun og koma fyrir vikið út eins og þeir séu miklu gáfaðri en þeir eru.“ Helena horfði á mig vantrúuð. „Og hvað? Ætlarðu svo að tyggja boðskap sögunnar ofan í lesandann að skilnaði?“ „Nákvæmlega!“ sagði ég sigri hrósandi en reyndi jafnframt að leyna því að Helena hafði gefið mér frábæra hugmynd. Allar mínar hug- myndir koma frá Helenu en hún gengur þess grunlaus að svo sé, allavega held ég það. Það var hún sem tengdi sögu mína við smásögu Davíðs Oddssonar, hún sem gaf mér titilinn. Hún sem sýndi mér hvernig ég gæti notað þessa tilviljun. „Ég ætla að segja,“ sagði ég hátíðlegur, „að boðskapur sögunnar sé sá að fólk ætti ekki að láta sigurvímuna ná tökum á lífi sínu.“ „Jæja,“ sagði Helena og glotti meinlega. „Því allt er í heiminum hverfult og enginn sigur er einhlítur, brugðið getur til beggja vona ...“ „Einmitt það.“ „Þegar andstæður leysast upp eimir jafnan eftir af báðum.“ „Aha.“ „Gakktu hægt um gleðinnar dyr. Vertu í tungunni trúr. Einlægnin er affarasælust í öllu. Að ljúga að sjálfum sér getur spillt jafnvel göf- ugustu fyrirætlunum.“ „Hm.“ „Ill verk koma í bakið á manni.“ „Á.“ „Þegar leiðin virðist vís getur villigatan beðið handan við hornið.“ „Það er ekkert annað.“ © „Elskan,“ hvíslaði Guðríður og innra með sér fann hún sælukennd yfir því einu að bara segja þetta orð loksins við einhvern sem virkilega kveikti með henni spenning, vakti djúpar og óræðar kenndir, blíðu og ótta í senn. „Ég ætla að smeygja mér í eitthvað þægilegt.“ Guðmundur kinkaði kolli og starði í þessi grænbláu augu sem blöstu við honum eins og haf, eins og reginhaf, eins og sjóndeildarhring- ur í fjarska sem býður upp á framtíð, heimahöfn að lokinni farsælli siglingu, dvalarstað að lát- lausri sigurgöngu genginni. Hann þurfti að fara á klósettið, hún sagði honum til vegar, fram á gang og upp hringstiga, hann heyrði ekki hvað hún sagði, heyrði aðeins þessi augu, heyrði að- eins þessi læri, svo fór hún inn í svefnherbergi, leit við í gættinni og brosti blítt og tælandi. Fram á gang, upp hringstigann, þetta hús var skringilegt í laginu, eins og hýbýli nor- rænna goða, gímald úr brakandi gömlum viði með endalausum stigum og ranghölum, göng- um, dyrum, útskotum, viðbyggingum, hring- stigum, þrepum, stigapöllum, hæðum sem virt- ust renna hver saman við aðra. Fyrir forvitni sakir fór hann upp annan stiga, út gang og aftur niður á hæðina, dyr lokuðust að baki hans, hann var staddur í dimmu herbergi og þegar hann fór um gátt tók við mjór gangur sem nægði fyr- ir eina hugsun, eina hugljómun: Guðríður er konan í lífi mínu. Ég fæ á tilfinninguna að ég hafi þekkt hana fyrir, einhverntíma í öðru lífi; á milli okkar eru einhver óskiljanleg tengsl, sálir okkar hafa samneyti líkt og fyrir galdur. Hann var villtur. En kannski var það hugur hans sem var flókinn fremur en byggingin. Villtur ráfa ég um gangana í húsakynnum ást- arinnar. Ölvaður af augum þínum. Dyr, stiga- gangur, hringstigi, gangur. Ég leita þín án leið- arhnoða ... Guðmundur Hlíðberg var drukknari en hann hafði haldið, smám saman rann það upp fyrir honum að sama hvernig hann reyndi var honum lífsins ómögulegt að rata aftur til konunnar sem nú var eflaust farin að undrast um hann, hann komst ekki einu sinni aftur á slóðir sem hann kannaðist við heldur tóku við sífellt nýir og nýir afkimar þessarar undarlegu byggingar. Hvað hafði hann eiginlega farið nið- ur marga stiga? Hann mundi ekki eftir að þau hefðu farið upp um slíkan aragrúa af hæðum þegar þau komu. Einhvernveginn passaði ekki eitt við annað í innviðum þessa húss, þeir voru eins og samsetningur úr ólíkum húsum, stafróf sem hefur verið stolið úr og stolið á ný og búnar til setningar sem vantar í alla þá burðarliði sem skilja að skyni gædda skynsamlega heild og óskiljanleika, glundroða, orðaleysur sem mynda óskapnað, skepnu úr fornöld sem sett er saman úr ótal hlutum ólíkra dýra sem hafa ver- ið rænd heild sinni. Hvað var hann annað en Mínótárskrímsli í völundarhúsi? En blik í aug- um hans var til merkis um sanna og einlæga til- finningu, ást, blik sem myndi bræða köldustu hjörtu. Honum fannst hann heyra óm af fiðlu í fjarska. Það var myrkur. Allt í einu var hann kominn út undir bert loft og dyr skullu í lás að baki hans. Það rigndi. Ný von kviknaði í brjósti hans þótt hann hefði verið að því kominn að missa móðinn andartaki áður. Hann hljóp út á götuna, þessa götu sem hann vissi ekki einu sinni hvað hét og hafði ekki séð áður, að framhlið hússins og upp útidyratröpp- urnar. Þar leitaði hann í óðagoti að dyrabjöllu en fann enga. Hvernig gat það verið? Hlutu ekki ótal manneskjur að búa í þeirri gríðar- miklu dvergasmíð sem þessi bygging var? And- styggilegur grunur hríslaðist um hann. Hann tók í hurðarhúninn, það var læst, í örvæntingu sinni tók hann að berja á hurðina af offorsi, svo barði hann allt að utan, glugga og útveggi, mað- ur birtist bakvið gluggatjöld handan götunnar og tók upp símann. Skyldi hún hafa ...? Guð- mundur ólmaðist eins og naut, konan myndi heyra til hans á endanum. Angistin datt í hann eins og steinn. Hann öskraði svo undir tók í framandi og regnvotum götunum: „GUÐRÍÐ- UR!!! VILTU GIFTAST MÉR!?!“ Forviða og felmtri slegið konuandlit birtist á glugga óend- anlega mörgum hæðum ofar í myrkrinu. Þegar lögreglan færði Guðmund Hlíðberg mótþróalítið í bílinn andartaki síðar glitraði eitt lítið bljúgt tár í augnkróki, það skar sig frá regnúðanum og ljómaði í nóttinni með hljóðum og ilmi og angan af örvilnan þess sem þrátt fyrir allt veit sér búinn ósigur. Höfundur er rithöfundur B jörn Bjarnason dómsmálaráð- herra birtir læsilegan og fróð- legan pistil á heimasíðu sinni (www.bjorn.is) 4. janúar síð- astliðinn þar sem hann fjallar meðal annars um þrjár þeirra bóka sem hann las um hátíð- arnar. Þetta eru fræðiritið Halldór eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, Borgir og eyðimerkur, skáldsaga um Krist- mann Guðmundsson eftir Sigurjón Magnús- son og loks bókin Ferðalok sem höfundur þessa pistils skrifaði. Við sama tækifæri ræð- ir Björn einnig um viðtalsþátt á Rás 1 þar sem ég sat fyrir svörum ásamt Þórunni Valdi- marsdóttur sagnfræðingi um þau vinnubrögð sem tíðkast við ritun og útgáfu fræðibóka og ævisagna. Björn tekur dæmi úr bókum okkar Sig- urjóns til að varpa ljósi á þær deilur sem staðið hafa um nýútkomna bók Hannesar. Annars vegar líkir hann Hannesi við Krist- mann Guðmundsson rithöfund og vísar þar í lýsingar Sigurjóns á ræðu sem Kristmann flutti til stuðnings Keflavíkursamningnum ár- ið 1946. „Strax og fréttist, að Hannes Hólm- steinn væri að skrifa ævisögu Halldórs Lax- ness var engu líkara en sprengja hefði fallið í ákveðinn hóp manna og viðbrögð einstaklinga innan hans hafa síðan minnt á lýsingu Sig- urjóns á hrópunum, sem gerð eru að Krist- manni, þegar hann vogaði sér að styðja Kefla- víkursamninginn.“ Í öðru lagi vísar Björn til kafla í Ferðalok- um þar sem vakin er athygli á að árið 1998 synjaði bókaforlagið, sem fer með útgáfurétt verka Halldórs Laxness, beiðni auglýsinga- stofu Mjólkursamsölunnar um að birta vissar tilvitnanir úr gamalli dagbók Halldórs á mjólkurfernum og stuttermabolum. Úrval úr dagbókinni kom út hjá Vöku-Helgafelli árið 1987 undir titlinum Dagar hjá múnkum. Svo vill til að ég kom að þessu verkefni fyrir hönd auglýsingastofunnar á sínum tíma. Var ann- ars vegar um að ræða eftirfarandi setningu sem Halldór skrifaði liðlega tvítugur: „Að frá- dregnu monti og innantómum mikilmensku- draumum er ég ekkert“ og hins vegar skemmtilega lýsingu hans á ungri konu sem vill fá hann „til að syndga við sig með aug- unum“. Rök forlagsins voru þau að viðkom- andi tilvitnanir, slitnar úr samhengi, gæfu óheppilega mynd af skáldinu og sagði í svar- bréfinu til auglýsingastofunnar: „Þið sem ímyndarsmiðir hljótið að skilja að við getum ekki fallist á að því sé komið inn hjá þjóðinni að svona hafi Halldór Laxness verið – maður sem var öðru fremur þekktur af lítillæti og fyrir að hafa viljað rétta hlut kvenna.“ Björn heimfærir þetta svar yfir á ævisögu skáldsins með þessum orðum: „Þeir, sem vilja, að mynd lítillætis og kvenréttinda grópist í huga Ís- lendinga, þegar þeir minnast Halldórs Lax- ness, hafa fengið nýja áskorun með ævisögu Hannesar Hólmsteins.“ Ég verð að viðurkenna að þær vefjast að- eins fyrir mér samlíkingarnar sem Björn sér á milli þessara tveggja mála og nýútkominnar ævisögu Halldórs Laxness. Í fyrra dæminu virðast meintar hliðstæður vera þessar: Hannes Hólmsteinn Gissurarson – Kristmann Guðmundsson Væntanleg ævisaga HKL – Ræða um Keflavíkursamninginn „Ákveðinn hópur manna“ – Andstæðingar Keflavíkursamningsins Því miður greinir Björn ekki nánar frá því hver þessi „hópur manna“ er eða hvaða ein- staklinga hann er að hugsa um en ef ég man rétt voru ekkja Halldórs Laxness og börn hans meðal þeirra sem lýstu yfir óánægju með að Hannes Hólmsteinn hygðist rita ævi- sögu skáldsins. Fróðlegt væri að vita hvort Björn sé að hugsa til þeirra þegar hann vísar til eftirfarandi setningar úr Borgir og eyði- merkur: „... þeir hófu þá upp raust sína og hatursópin urðu að ógnvekjandi drunu úti í myrkrinu.“ Í síðara dæminu virðast meintar hliðstæður vera þessar: Hannes Hólmsteinn Gissurarson – Starfsmenn auglýsingastofu Útkomin ævisaga HKL – Textar á mjólkurfernur og stuttermaboli Þeir sem vilja standa vörð um ímynd HKL – Bókaforlag HKL Það sem er einkennilegast við samlíkingu Björns hér er sú staðreynd að fyrirtækið sem fer með útgáfuréttinn á verkum Halldórs Laxness er sama fyrirtækið og gefur út ævi- söguna Halldór eftir Hannes Hólmstein. Í þessu felst viss mótsögn sem hægt er að skýra með tvennum hætti: (1) Fyrirtækið hef- ur skipt um skoðun (því sýnist núna í góðu lagi að dregin sé upp mynd af skáldinu sem ögrar því viðhorfi að Halldór hafi verið lít- illátur baráttumaður kvenréttinda). (2) Bók Hannesar er ekki meira ögrandi en svo að forlagið sættir sig við þá mynd sem þar er dregin upp af skáldinu. Nú má ekki skilja orð mín hér að framan þannig að Björn sé að líkja bók Hannesar við mjólkurfernu. Ljóst er af pistli hans að hann er mjög ánægður með verkið, segir Hannes hafa „skrifað mjög læsilega og fróðlega bók, sem bregður góðri birtu á þessi mótunarár í ævi Laxness“. Líkt og til stuðnings þeirri full- yrðingu vitnar Björn til orða okkar Þórunnar Valdimarsdóttur í áðurnefndum útvarpsþætti þar sem fram hafi komið að „að ekki sé unnt að segja eina aðferð umfram aðra algilda við ævisagnaritun. Hefðir séu mismunandi eftir löndum, svo að ekki sé rætt um ólík efnistök höfunda. Höfuðmáli skipti að sjálfsögðu að koma efninu sem best til skila til hins al- menna lesanda, sé bókin á annað borð rituð fyrir hann en ekki þröngan hóp fræðimanna. Ýmsar aðferðir séu fyrir hendi til að virða rétt annarra höfunda. Hins vegar verði aldrei undan því vikist, að í bókmenntum og sagn- fræði eigi höfundar samtal, sem myndi þráð í allri úrvinnslu. Efnistök við ritun ævisögu byggist að sjálfsögðu á því efni, sem til er um söguhetjuna, hvort sem það er til frá henni sjálfri eða öðrum, sem um hana fjalla.“ Ég hef ekkert við þessa endursögn Björns á útvarpsþættinum að athuga en vil geta þess að í orðum mínum fólst ekki mat á ævisög- unni Halldór, enda hef ég ekki lesið hana að gagni og tel ekki í mínum verkahring að dæma um ágæti hennar. Ég var fenginn í þáttinn til að ræða um vinnubrögð á bóka- forlögum þegar kemur að útgáfu fræðirita og ævisagna þar sem ég hef unnið við ritstjórn slíkra verka bæði fyrir Hið íslenzka bók- menntafélag og bókaforlagið Bjart. Ég benti á að íslenskar ævisögur spanna allt frá því að vera einskonar sýnisbækur eldri heimilda til þess að vera frumleg höfundarverk þar sem ýmist viðurkenndum fræðilegum vinnubrögð- um og/eða listbrögðum skáldskapar er beitt. Sumir höfundar kjósa vísvitandi að rita verk sín á mörkum skáldskapar og fræða, ýmist til að afla sér fleiri lesenda eða kanna sjálft sannleikshugtakið. Þar sem tilefni umræðunnar á Rás 1 var hörð gagnrýni sem fram hefur komið á bók Hannesar Hólmsteins gat ég þess í þættinum að ég væri ekki að mæla ritstuldi bót. Ástæða er til að benda á að frágangur heimilda í fræðiriti (gæsalappir, tilvísunarnúmer, aftan- málsgreinar, heimildaskrá, o.s.frv.) er fyrst og fremst mælikvarði á metnað, vandvirkni og markmið viðkomandi fræðimanns og þær áherslur sem bókaforlag vill leggja með út- gáfu sinni. Höfundalög taka til mun víðara sviðs, en í þeim segir meðal annars: „Óheimilt er að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsér- kenni“ (4. gr.). „Heimil er tilvitnun í birt bók- menntaverk ... ef hún er gerð í sambandi við gagnrýni, vísindi, almenna kynningu eða í öðrum viðurkenndum tilgangi, enda sé hún gerð innan hæfilegra marka og rétt með efni farið“ (14. gr.). Þessi lög gilda jafnt um fræði- lega texta sem skáldverk og allt þar á milli. HLIÐSTÆÐUR OG AND- STÆÐUR E F T I R J Ó N K A R L H E L G A S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.