Lesbók Morgunblaðsins - 10.01.2004, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 10.01.2004, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. JANÚAR 2004 13 SUMARTÓNLEIKAR LISTASAFNS SIGURJÓNS ÓLAFSSONAR 2004 Listasafn Sigurjóns Ólafssonar býður tónlistarfólki að sækja um þátttöku í þriðjudagstónleikum sumarið 2004 sem verða haldnir vikulega frá miðjum júní til ágústloka. Umsóknir skulu hafa borist fyrir 16. febrúar nk. með drögum að efnisskrá, upplýsingum um flytjendur (CV) og kjörtíma tónleika. Valið verður úr umsóknum og öllum svarað. Listasafn Sigurjóns Ólafssonar, Laugarnestanga 70, 105 Reykjavík. www.lso.is - lso@lso.is KARLAKÓRINN Heimir var stofnaður 28. desember 1927.Geisladiskur kórsins, sem ber heiti fyrsta lags á plötunni, hins þekkta rúss- neska lags, Áfram veginn, er að mestu safn sönglaga sem hafa aflað kórnum mikilla vin- sælda á síðustu árum og er um leið vitnisburð- ur um stöðu kórsins á 75 ára afmæli hans. Ef til vill hefði titillinn „Litið yfir farinn veg“ átt bet- ur við. Kórinn bregður af mikið troðinni söng- slóð sinni og bætir við nokkrum söngvum sem ekki hafa áður verið gefnir út af honum í hljóð- riti. Þegar ég hlustaði á diskinn gat ég ekki varist þeirri spurningu hvort stefna kórsins í söngvavali á diskinn væri í samræmi við þær væntingar sem ætti að gera til þessa öfluga og góða kórs með þrjá fjórðu aldar af farsælu starfi að baki. Og svar mitt er að nokkru neit- andi, því það er mín skoðun að kórinn hefði átt að vísa áfram veginn og beina eyrum okkar að ýmsum vannýttum möguleikum í verkefnavali, sem alls ekki hefðu þurft að vera á kostnað ánægjunnar, en miklu fremur aukið á hana. Ég man vel eftir því sem strákur, þegar Jón Björnsson, stjórnandi Heimis um nærri 40 ára skeið, kom á æskuheimili mitt með nýsamin lög í pússi sínu sem hann ætlaði kórnum símum og einsöngvurum að syngja og þeim heimsóknum fylgdi ferskur blær, sem ég sakna á umræddri plötu. Nú finnst örugglega einhverjum þetta óviðeigandi tal, þar sem fólkið og markaðurinn vilji heyra gömlu lögin sungin og leikin. Má vera, en samt má ekki gleyma því, að ef þeir þekktu og vinsælu geta ekki vísað nýja vegi, hverjir geta það þá? Þegar teknar eru fyrir perlur íslenskra sönglaga og gefnar út á geisla- diski þá ætti annað tveggja eða hvorutveggja að ráða vali, það að eitthvað nýtt sé gert í tón- búningi eða í túlkun, sem bæti einhverju við það sem þegar er til í hljóðritasafni. En þrátt fyrir góða viðleitni þá er að mínu mati til betri flutningur á mörgum þessum „perlum“, sem hætta er á að rykfalli ef nýrri, en síðri perlur eru valdar. Því er miður svo varið með marga vöruna, að því aðgengilegri sem hún er, þeim mun líklegra er að hún verði keypt. Sem frábær félagsskapur og ótrúlega magn- aður, fjölmennur og skemmtilegur sönghópur er Karlakórinn Heimir og gríðarmikil lyfti- stöng í mannlífi Skagafjarðar. Það væri í fyllsta máta hofmóðugt af mér að nefna ekki hljómmiklar og samstilltar raddir, svo ekki sé minnst á úrval góðra einsöngvara, en þar fara fyrir bræðurnir frá Álftagerði, sem löngu eru landsþekktir fyrir sinn söng. Einsöngur Pét- urs Péturssonar á lagi nafna hans Sigurðsson- ar, Erla góða Erla er einstaklega næmur og blæfagur. Tónskáldið Pétur Sigurðsson var stjórnandi Heimis í árdaga. Samstilling og túlkun Heimis og Óskars Péturssonar á Sé ég þig, lag og ljóð eftir Gunnar Gunnarsson, er heillandi. Best finnst mér Heimi takast upp í flutningi á lagi Emils Thoroddsen, Í fögrum dal, þar finn ég þann mjúka blæfagra og þétta söng, sem heillar mig mest í söng karlakóra. Tæknilega er vel að þessum diski staðið, hljóð- gæði og hönnun ásamt útliti á hulstri er í lagi. Ágætur undirleikur Thomas Higgerson og annarra hljóðfæraleikara styður sönginn vel. Að lokum óska ég Karlakórnum Heimi góðs brautargengis „áfram veginn“ um ókomin ár. Litið yfir farinn veg TÓNLIST Geisladiskur Safn vinsælla íslenskra og erlendra sönglaga. Stjórnandi: Stefán R. Gíslason. Aðalundirleikur á pí- anó: Thomas R. Higgerson. Undirleikur í einum söng á gítar: Gunnar Þórðarson. Annar undirleikur á strok- hljóðfæri og harmoniku ónafngreindur. Einsöngur: Einar Halldórsson og bræðurnir Óskar, Pétur og Sig- fús Péturssynir. Upptaka stafræn 2003. Tæknimað- ur. Gunnar Smári Helgason. Ljósmyndir á bakhlið: Hvítt&Svart og Þórhallur Ásmundsson. For- síðumynd: Pétur Ingi Björnsson. Hönnun og filmu- vinnsla: Hvítt&Svart. ÁFRAM VEGINN KARLAKÓRINN HEIMIR Jón Hlöðver Áskelsson F allega fólkið fær ekki að stela Jesú Kristi mótmælalaust,“ segir Jón Gnarr, höfundur tíu helgimynda á sýningu sem opnuð verður í Fríkirkjunni í Reykjavík kl. 14 í dag. Helgimyndirnar eru ljós- myndir af uppstillingum með dúkkum, þar sem tekin eru fyrir vel þekkt atriði úr guðspjöllunum – úr sögu Jesú Krists. Dúkkurnar tákna persónur guð- spjallanna, þar með talið Krist. Dúkkur? spyr blaðamaður eins og efasemd- armaðurinn, jú, dúkkur eru það, Aksjónman, Súperman, Barbí og aðrar hetjur æsku sam- tímans. „Ég er ekkert mjög góður að teikna, og þaðan af síður að mála. Þess vegna ákvað ég að nota dúkkurnar. Þær hafa hins vegar einhvern veginn öðlast líf í myndunum, sérstaklega Jes- ús,“ segir Jón Gnarr. Kristur hafði líkamlegan styrk Hann segir hugmyndina að verkunum byggjast á útlitsímynd frelsarans. „Jesús hefur alltaf verið gerður svo fallegur. Ímynd Jesú er sú, að hann sé mjósleginn náungi, smáfríður, hann er ekki með neina skeggrót, en safnar þó skeggi, og er með sítt að aftan. Hann er líka alltaf mjög kvíðinn á svipinn. Mér finnst hann ámátlegur og aumingjalegur.“ Jón segir engar heimildir Biblíunnar styðja þá útlitsímynd Krists sem hefur verið allsráð- andi í okkar menningu, hvorki nýja testament- ið né það gamla. „Jesús var iðnaðarmaður og iðnaðarmenn á þeim tíma þurftu að hafa mik- inn líkamlegan styrk. Þess vegna hallast ég að því að Kristur hafi verið frekar þrekinn maður. Lærisveinarnir voru líka iðnaðarmenn og sjó- menn. Maður getur lesið í guðspjöllunum að þegar Jesús var handtekinn í Getsemane-garð- inum, þá þurfti Júdas að benda á Jesú, þar sem hann stóð meðal lærisveinanna, – hann var ekk- ert ólíkur þeim. Jesús var ekkert fallegri en við. Mér finnst sú ímynd á villigötum. Hann var eðlilega útlítandi maður.“ Fegurðarímynd Jesú hefur farið fyrir brjóst- ið á Jóni Gnarr að hans sögn, og segir hann að þess vegna finni hin venjulega manneskja með öllum sínum göllum ekki til samkenndar með frelsaranum. „Hann er of flottur.“ Hann segir dúkkurnar tengjast æsku sinni, enda hafi hann leikið sér mikið með aksjónkalla þegar hann var krakki. „En ég var líka mjög trúaður sem barn, og trúði á Jesú. Hann var minn andlegi vinur, meðan Aksjónman var minn veraldlegi vinur. Þeir sameinuðust ein- hvern veginn í Aksjónman. Mér var strítt og ég var lagður í einelti vegna þess að ég var einkennilegur, rauðhærður og ljótur. Sömu öflin og ýttu mér þannig út í horn hafa gert Jesú einn af sér, sem hann er ekki. Hann er maður þeirra sem minna mega sín, en ekki einn af fallega fólkinu.“ Jón segir að sér finnist Jesús Kristur vera ofurhetja. Hann hafi reist við dauða og gert alls konar kraftaverk. „Hann segist geta gert ým- islegt sem hann gerir ekki, – eins og að færa fjöll, sem bara Hulk og Súperman gera. Þeir eru eins konar útgáfa af Jesú. Súperman er góður og verndar þá sem minna mega sín og eiga bágt og líður illa. Hann berst gegn órétt- læti og illsku, alveg eins og Jesús. Ímyndarlega finnst mér Jesús eiga miklu frekar heima með- al þeirra en sem einhver lystarlaus kvíðasjúk- lingur. Það er röng ímynd og ekki sá Jesús sem ég á samband við.“ Jesús var syndlaus Í myndum Jóns Gnarrs eru persónurnar flestar naktar, og Jesús er alltaf nakinn. Jón segir það tilvísun í syndafallið. „Þegar Adam og Eva átu af skilningstré góðs og ills, og þekktu þar með muninn á því að gera gott og illt, þá segir þannig frá því í gamla testamentinu, að guð hafi verið á gangi í aldingarðinum Eden og rekist á Adam og Evu og tekið þau tali. Þar veitti guð því athygli að þau voru farin að skýla nekt sinni. Blygðunin var komin til sögunnar, – með syndinni. Jesús var hins vegar án syndar og blygðunarlaus. Það tjái ég með nekt hans. Þetta kemur sterkast fram í mynd sem ég kalla Ecce homo. Þar er Pontíus Pílatus að sýna lýðnum Jesú: Sjáið manninn, segir hann, og verðirnir tveir standa hvor sínum megin við hann. Verðirnir eru báðir klæddir, – annar þeirra er djöfullinn, það er fagurfræðilega full- komnasta dúkkan. Pontíus Pílatus er hálfnak- inn. Þar er ég að vísa til þess að hann var ekki alvondur. Hann var efins um það hvað hann ætti að gera við Jesú. Jóhannesarguðspjall seg- ir frá því að konan hans hafi skrifað honum bréf og beðið hann að dæma Jesú ekki. Á myndinni er Jesús hins vegar nakinn.“ Jón Gnarr er þjóðþekktur af ýmsu öðru en myndlist. Hann segist ekki líta svo á að lista- maður þurfi að vinna í einum ákveðnum far- vegi. „Listamaður hefur eitthvað að tjá, list- greinin er sá farvegur sem hann velur sér fyrir tjáninguna. Grín er mér farvegur fyrir list, leiklist annar og myndlist enn annar. Mér finnst ég vera listamaður og tjái mig listrænt á allan mögulegan hátt. Mér datt bara í hug að gera þessi verk, og sat uppi með hugmyndina þar til hún var orðin að veruleika.“ Það var Hjörtur Magni Jóhannsson frí- kirkjuprestur sem átti hugmyndina að því að Jón Gnarr sýndi helgimyndir sínar í Fríkirkj- unni. „Hjörtur Magni er mjög fróður um trú- fræði og bjó lengi í Ísrael. Ég var að spyrja hann um trúmál, og það kom honum á óvart hvað ég var biblíufróður og trúaður maður. Upp úr því sýndi ég honum myndirnar. Hann heillaðist af þeim og bauð mér að sýna þær í kirkjunni. Ég gat ekki neitað, – varð að þiggja það.“ Sýning Jóns Gnarrs í Fríkirkjunni er opin föstudaga kl. 16–19 og laugardaga og sunnu- daga kl. 15–19. „Jesús var ekki mjó- sleginn náungi með sítt að aftan“ Morgunblaðið/Árni Sæberg Jón Gnarr við mynd sína Satan freistar Jesú (Lúk.4).

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.