Lesbók Morgunblaðsins - 10.01.2004, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 10.01.2004, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. JANÚAR 2004 E iginkonan kemur að máli við móður sína: hún óttast að maðurinn henn- ar sé að missa áhugann á henni. Móðirin á ráð við öllu, leiðin að hjarta mannsins er gegnum mag- ann, nú skyldi elduð hátíðamáltíð og eilíf ást eiginmannsins þannig tryggð. En kallinn kann ekki gott að meta, finnst þetta svosum ágætt, en gæti verið betra. Tengdó reiðist, hún grípur steikarhnífinn. Ég sagði þér að leiðin að hjarta mannsins væri í gegnum magann hrópar hún sigri hrósandi á skelfda dótturina og heldur hjartanu á loft á hnífsoddinum: í stólnum situr maðurinn slægð- ur. Þetta er ein frægasta sagan úr EC mynda- sögunum, en þær eru í dag best þekktar af þeim stóra hópi myndasöguhrollvekja, sem urðu til upp úr seinni heimsstyrjöld og nutu gífurlegra vinsælda fram til ársins 1954, en þá varð mynda- sagan fyrir afdrifaríkri ritskoðun. Í bókum um myndasögur er álitið að ástæðan fyrir vinsæld- um EC hafi einfaldlega verið að lesendahópur myndasagna eltist, þau börn (aðallega strákar) sem höfðu alist upp við ofurhetjur fjórða áratug- arins vildu háskalegra efni á þeim fimmta. Önn- ur ástæða sem talin er til er sú að í kjölfar stríðs- ógnanna hafi hlutverk ofurhetjunnar dalað, veruleikinn varð henni yfirsterkari og lesendur sneru sér að öðru. Það hvað þetta nýja efni var sérlega blóðugt (reyndar mestallt í svarthvítu) og ofbeldisfullt hefur ekki verið sérlega rætt, en í bók um hroll- vekjur tuttugustu aldar birtist áhugaverð kenn- ing Davids J. Skals. Bókin heitir The Monster Show: A Cultural History of Horror, eða Skrýmslasýningin: Menningarsaga hryllingsins (1993), og þar leggur Skal línur sem benda til þess að ris og hnig hryllings tengist stríðs- rekstri. Hann fjallar um þau margvíslegu form sem hryllingur tekur á sig, í myndasögum, sjón- varpi, tónlist, söngleikjum, bókmenntum og sér- staklega kvikmyndum, en stafar aldrei út hvaða hlutverki hrollvekjan gegnir í tengslum við hernað. Hann bendir þó á að afskræmingar hrollvekjunnar hafi kallast á við afskræmingar og líkamlega sundrungu sem hermenn upplifðu í stríðum, og almenningur horfði upp á þegar hermenn sneru heim, meira eða minna limlestir. Þannig virðist hrollvekjan þjóna tvöföldu hlut- verki, annars vegar að fjalla um málefni sem var þagað yfir, það er, limlestingar hermanna og aðrar dekkri hliðar stríðsins, og hinsvegar að þjóna einskonar skírslu hlutverki, ‘kaþarsis’, en slík skírsla er almennt álitin meginkraftur hroll- vekjunnar. Skírslan felst þá í því að hinn hroll- vekjandi veruleiki er færður í nýtt form, form fantasíunnar og þar er hægt að takast á við hann. Táknmyndir rauðu hættunnar Lína Skal er nokkuð sannfærandi, fyrsta bylgja hrollvekjunnar, með Drakúla, Franken- stein og varúlfinum, kom í kjölfar fyrri heims- styrjaldar, og er það tímabil Skal efst í huga. Í kjölfar þeirrar síðari birtust svo áðurnefndar myndasöguhrollvekjur, auk skrýmslamynda af ýmsu tagi, en skrýmsli þessi komu iðulega utan úr geimi og voru táknmyndir rauðu hættunnar. Sum voru reyndar afleiðingar kjarnorkuslysa, en skordýr og skriðdýr og konur og menn stækkuðu ógnarlega og réðust á borg og bý. Og svo heldur þetta áfram, í kjölfar Víetnamstríðs- ins komu splattermyndirnar, en þær sem lögðu línurnar fyrir þær voru zombíumynd Georges Romero, Night of the Living Dead (1968) og Texas Chain Saw Massacre í leikstjórn Tobe Hoopers (1974). Splatterinn átti náttúrulega sína uppskeruhátíð á níunda áratugnum, og tengir Skal það miklum uppgangi í gerð tækni- brellna, innblásturinn fyrir ógeðið kemur enn úr Víetnamstríðinu. Hinsvegar liggur eitt enn stríðið líka hér að baki, stjörnustríð Ronalds Reagan og svo auðvitað það kalda, með sinni kjarnorkuógn. Það er vissulega hægt að sjá þau mynstur sem Skal leggur í bók sinni, en ljóst er að margt fleira hefur komið til – eins og hann reyndar bendir á sjálfur. Margir gagnrýnendur og fræðimenn hafa fjallað um hvernig kreppa hins borgaralega lífsstíls birtist í hrollvekjum sem fjalla um fjölskyldur, en þar getur ýmist verið um að ræða heilu fjölskyldurnar sem flytja inn í draugahús eins og í Amytiville horror (1979) og Poltergeist (1982), eða það geta verið vandamál með börnin, eins og birtist í andsetnu stelpunni í Exorcist (1973) og endurfæddum satan í Omen (1976). Vampýrumyndir hafa verið tengdar neyslumenningunni, en vampýran er sjálfgefin táknmynd óhóflegrar neyslu, og svona mætti lengi telja: hrollvekjan er ofurtáknrænt form og það vantar svo sannarlega ekki skemmtilegar kenningar um menningarhlutverk hennar, hvort sem það er sett í sögulegt samhengi eða skoðað útfrá sjálfsveruflækjum sálgreiningar- innar. Mín eigin kenning er sú að hrollvekjan myndbirti árásir á samfélagið og stofnanir þess í gegnum líkamann, að líkaminn standi sem tákn fyrir samfélagið í heild, uppbyggingu þess og sjálfsmynd, og því þurfi líkaminn að endur- spegla þá heild sem, einmitt, heill og óbrotinn, áferðarfallegur og ‘fullkominn’. Með árásum sínum á líkamann er hrollvekjan því að ráðast gegn sjálfu samfélaginu og viðmiðum þess. Þetta má svo líka spegla í sjálfsmynd einstak- linganna, en líkaminn á ekki bara að vera tákn samfélagsins heldur er hann líka táknmynd ein- staklingsins, sú sjálfsmynd sem hver mann- eskja hefur. Hinn sundraði líkami kallar því á vangaveltur um sundraðar sjálfsmyndir – sem svo aftur ítreka að sjálfsmynd samfélagsins er ekki heil, heldur samsett og brotakennd. Og þá er ég aftur komin að kenningu Skal, en stríð er einmitt gott dæmi um samfélagslegan óróa, sem birtist í árásum á líkama, þrátt fyrir að hlutverk stríðs eigi væntanlega einmitt að vera þveröfugt, og stuðla að því að styrkja sjálfsmynd samfélagsins. Það er því óneitanlega athyglisvert að skoða nýjustu bylgju hrollvekja, þá sem nú ríður yfir, í tengslum við kenningu Davíðs Skal um stríð. Á síðari hluta tíunda áratugarins varð óvænt uppsveifla í hrollvekjunni, en þá endurnýjuðust vinsældir unglingahrollvekjunnar og hófst sú hrina með Scream (1996). Menningarsögulegar ástæður þessarar uppsveiflu eru afskaplega óljósar, kannski var bara kominn tími á hroll- vekjur aftur, og kannski var bara málið að þarna kom upp handritshöfundur, Kevin Williamson, sem kunni svo einstaklega vel að fara með form- ið. Þarna komu fram fjölmargir gleðigjafar, svo- sem I Know What You Did Last Summer (1997), Urban Legend (1998) og The Faculty (1998). Unglingahrollvekjurnar hafa haldið ótrauðar áfram inn í nýja öld, og hefur bæst liðs- auki, því nú á síðasta ári og þessu hefur orðið hrollvekjusprenging. Hér má telja til myndir frá í fyrra eins og Red Dragon, The Glass House, The Ghosts of Mars, Blade II, May, House of 1000 Corpses, Dreamcatcher, My Little Eye, Feardotcom, Below, Spider, Ghost ship, The Mothman Prophesies og Long Time Dead og á þessu ári hafa birst: Darkness Falls, Jeepers Creepers II Underworld, Texas Chainsaw Massacre, Midnight Mass, They, þýska myndin Anatomy 2, og svo er fjöldi væntanlegur. Þess má geta að hrollvekjur rata yfirleitt beint á víd- eó hér á landi og því fá íslenskir áhorfendur ekki að berja veisluna augum fyrr en á næsta ári! Tengingin við línu Skal verður sérlega skýr þegar til þess er tekið að nokkrar hrollvekjur frá í fyrra fjalla beinlínis um stríð og her- mennsku, en þær heita Below, Dog Soldiers og Deathwatch. Below gerist í seinni heimsstyrj- öldinni og Deathwatch í þeirri fyrri, en Dog Soldiers gerist í okkar samtíma. Þær fyrr- nefndu lýsa grimmum stríðsveruleika og færa hann í ókennilegt form, en sú síðari er ögn kóm- ískari og fjallar um varúlfa. Fyrir utan þessar má nefna breska mynd frá 2001, The Bunker sem gerist í næsta yfirgefnu byrgi, en þar leita skjóls leifarnar af þýskri herdeild sem greini- lega hefur gengið í gegnum ýmislegt. Fljótlega kemur í ljós að eitthvað óhreint er á kreiki í neð- anjarðargeymslum byrgisins. Gamall hermaður segir draugasögu úr skóginum umhverfis byrg- ið, reimleikarnir aukast og hermennirnir missa tökin. Inn í þetta blandast svo sjálfsásakanir mannanna vegna óhæfuverka sinna í stríðinu. Myndin er mögnuð, skítug og blóðug og drauga- sagan virkar sérlega vel sem einskonar dæmi- saga um stríðsógnir. Deathwatch, sem einnig er bresk, notast einnig við einskonar draugasögu til að færa skelfingar hernaðar í form, en þar segir frá breskri herdeild sem villist af leið og endar í yfirgefnum skotgröfum, en þær eru full- ar af líkum. Þoka umlykur staðinn og hermenn- irnir vita vart hvað snýr upp eða niður. Líkt og í The Bunker eru okkur sýndar ólíkar manngerð- ir innan herdeildarinnar, en þar eru bæði reynd- ir hermenn, æstir hermenn, hræddir hermenn, gagnslausir yfirmenn og gáfumenn sem hinir gera grín að. Og svo er alltaf einn særður. Svo fara óhugnanlegir atburðir að gerast, loft- skeytamaðurinn nær engu sambandi og einn mannanna fellur, að því er virðist fyrir dauðum mönnum. Einn óvinahermaður finnst á lífi og er hann barinn til sagna, en veit ekki mikið. Í báð- um myndum er það hræddasti og yngsti her- maðurinn sem á örlagastundu gerist hetja og nú bjargar hann þessum óvinahermanni frá pynt- ingum þess ofbeldisfulla. Óvinahermaðurinn reynist ekki allur þar sem hann er séður. Bandaríska kafbátamyndin Below notar sér einnig form hrollvekjunnar, og færir hörmung- ar stríðs í táknrænan búning hennar. Í kjölfar árásar bjargar bandarískur kafbátur nokkrum eftirlifendum af sjúkraskipi. Eitthvað er grugg- ugt við ástandið innanborðs og fljótlega verður ljóst að skipstjórinn er dáinn, að því er virðist voveiflega, og eins og títt er um slíka, virðist hann ganga aftur. Ansi mögnuð mynd og nýtir sér vel þá innilokunartilfinningu sem kafbáta- myndir gera útá. Glímt við varúlfa Breska myndin Dog Soldiers er að mínu mati besta myndin í þessum herflokki, en það er kannski bara af því ég er veik fyrir varúlfum. Hér er ekkert stríð, heldur fjallar myndin um flokk hermanna sem eru sendir í æfingaferð um óbyggðir Skotlands. Þar eiga þeir að fela sig fyr- ir sérsveit. Á meðan þeir fela sig segir einn her- mannanna sögur af tíðum mannshvörfum af svæðinu. Næsta dag ganga þeir framá sérsveit- ina, eða réttara sagt blóðugar leifar hennar, en henni hefur ljóslega verið eytt og þeir finna ein- ungis einn á lífi, yfirmann sveitarinnar sem er illa særður. Hann hrópar og æpir og lengi vel skilur enginn neitt, fyrr en hann fer að tala um varúlfa. Okkar menn trúa þessum sögum nú tæplega, en neyðast fljótlega til að skipta um skoðun þegar varúlfarnir ráðast á þá líka og særa liðþjálfann alvarlega. Á flóttanum eru þeir svo heppnir að hitta á jeppa, og ökukonan keyrir þá í yfirgefið hús þar sem þau búast til varnar. Stúlkan veit heilmikið um varúlfana og þekkir yfirmann sérsveitarinnar sem hafði verið send- ur af stað til að fanga einn lifandi – augljóslega með það fyrir augum að nýta einstaka krafta varúlfsins til stríðsreksturs. Varúlfarnir ráðast ítrekað á húsið og innandyra fer ýmislegt á skrið. Myndin er hröð, hæfilega fyndin, ánægju- lega blóðug – þarna er meira að segja innyfla- splatter að hætti Gísla Súrssonar, en liðþjálfinn er slægður opinn svo innyflin velta út, undir- maður hans mokar öllu inn aftur, bindur um og drífur hann áfram – og varúlfarnir bara fremur vel heppnaðir. Og þó óvænta atriðið væri kannske ekki mjög óvænt fyrir þau okkar sem hafa séð yfir sig af hrollvekjum, var það ótvírætt ánægjulegt. Það sem gerir Dog Soldiers áhugaverða í þessu táknræna samhengi er að hér er ekki ein- ungis tenging við stríð, heldur hernaðarbrölt al- mennt. Í stað þess að leita raunverulegra lausna á vandanum reyna yfirvöld að fanga eitt skrýmslið til að nýta í eigin þágu, og falla svo á eigin bragði. Það er því ekki aðeins stríðið sem er fordæmt, heldur herinn og það sem hann stendur fyrir, blinda hlýðni og valdagræðgi. Hugmyndin um hermenn sem varúlfa á sér ekki aðeins söguleg tengsl – nasistar kölluðu njósn- ara sína varúlfa – heldur er táknræna hliðin auglós, hermaðurinn verður að kasta af sér mannshamnum og taka á sig dýrslegt gervi. Hrollvekjurnar sem við erum að sjá í dag eru myrkari og grimmari en þær sem einkenndu tí- unda áratuginn, þeim er dauðans alvara. Þetta kemur fram bæði í unglingahrollvekjunum og ekki síður í endurkomu zombíumyndarinnar með bresku myndinni 28 Days Later, sem end- urheimtir harðan tón eldri zombíumynda. Al- mennt séð er húmorinn í hrollvekjum þessara síðustu tveggja ára minni, tónninn reiðari og yf- irbragðið andstyggilegra. Það er ljóst að hér eiga asískar hrollvekjur einhvern hlut að máli, en draugalegt yfirbragð slíkra hefur skilað sér í breyttri nálgun á formið, en mér finnst ekki úr vegi að hafa rauðan stríðsþráð Skal í huga. Hlut- verk hrollvekjunnar er, sem fyrr, að takast á við ýmis mál sem eru óþægileg, og gefa okkur færi á að horfast í augu við ýmislegt sem við annars kjósum að horfa framhjá. En það er einmitt ein- kenni hrollvekjunnar að hafna þeim möguleika að líta undan, hrollvekjan er beinskeytt, og hún stingur í augu. HROLLVEKJUR Í BLÍÐU OG STRÍÐI Hér er því haldið fram að hlutverk hrollvekjunnar sé að takast á við ýmis mál sem eru óþægileg og gefa okkur færi á að horfast í augu við ýmislegt sem við annars kjósum að horfa framhjá. „En það er einmitt einkenni hrollvekjunnar að hafna þeim möguleika að líta undan, hrollvekjan er beinskeytt, og hún stingur í augu.“ E F T I R Ú L F H I L D I D A G S D Ó T T U R Söguhetjan í 28 dögum síðar gengur ráðvillt um mannlausa Westminster-brú. Gunnar Hansen í hlutverki Leðurfés í Vélsag- armorðunum í Texas, The Texas Chainsaw Massacre. Mynd úr tímaritinu Bizarre. Höfundur er bókmenntafræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.