Lesbók Morgunblaðsins - 10.01.2004, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. JANÚAR 2004 7
Á
vestanverðu Englandi, alllangt
sunnan við stórborgina Birming-
ham, liggur lítil borg undir rótum
snoturra kjarrivaxinna hæða.
Borg þessi kallast Malvern og
hæðirnar Malvern Hills. Á þess-
um fjarskotna stað hefur á und-
anförnum árum farið fram merkileg menning-
arstarfsemi í þágu Íslands – og raunar
heimsins alls, og þykir mér maklegt að minn-
ast þeirrar starfsemi með fáeinum orðum.
Í Malvern búa hjón að nafni Anthony og
Patricia og bera ættarnafnið Faulkes. Þau eru
Íslandsvinir í nákvæmri merkingu þess orðs:
þau elska landið sjálft og náttúru þess enn
framar en þá þjóð sem það byggir. Lengi hafa
þau verið hér næstum árvissir gestir, og leita
þá sem skjótast til öræfa líkt sem Eyvindur
og Halla; en ef þau neyðast til að fara um
byggðir reyna þau eftir föngum að sneiða hjá
mannabústöðum, einkum í þéttbýli. Til marks
má hafa það að fyrir nokkrum árum tókst
þeim að ganga umhverfis Langanes án þess
að eiga orðaskipti við nokkra lifandi sálu.
Fyrir um það bil fjórum áratugum tókst
Anthony á hendur að búa til prentunar fyrir
Handritastofnun Íslands (nú Stofnun Árna
Magnússonar) svokallaða Magnús-Eddu, en
það er sérstök uppsuða Snorra-Eddu sem
Magnús Ólafsson, síðar prestur í Laufási,
gerði í upphafi 17. aldar til hagræðis íslensk-
um rímnaskáldum. Þetta útgáfuverk Anthon-
ys var meira en rétt að nefna það, því að
Magnús-Edda er varðveitt í fleiri handritum
en nokkurt annað íslenskt rit að lögbókinni
Jónsbók einni undanskilinni, og mun Anthony
hafa þurft að kanna meir en hálft annað
hundrað Edduuppskrifta áður en lauk. Skáld-
in voru mörg á 17. öld ekki síður en nú, en
munurinn var sá að í þá daga létu þau allt
„standa í hljóðstafnum“ og studdust við forn-
ar kenningar, og því var Edda þeim mikilvæg
kennslubók. Magnús-Edda, ásamt ljósprent-
un á frumútgáfu P.H. Resens frá 1665, kom út
á vegum Árnastofnunar í tveimur stórum
bindum á árunum 1977–79, og fylgja ítarlegar
inngangsritgerðir og neðanmálsgreinar eftir
Anthony. Þetta verk varði hann til doktors-
prófs við Háskóla Íslands 1979.
Anthony Faulkes var lengi kennari við Há-
skólann í Birmingham, síðustu árin í embætti
prófessors. Eftir að hann lét af embætti og
fluttist búferlum til Malvern hefur hann helg-
að sig útgáfustarfsemi í þágu Íslands, og jafn-
framt hefur hann verið mikils ráðandi við Vík-
ingafélagið í London (Viking Society for
Northern Research) og stjórnað útgáfum
þess og fjármunum. Hefur hann tekist á
hendur að búa til prentunar á ensku mörg ís-
lensk rit sem teljast eiga erindi til enskumæl-
andi lesenda. Hann þýðir verkin á ensku eða
lagfærir misgóðar þýðingar sem hann fær í
hendur. Í skrifstofu sinni útbýr hann síðan
bækurnar, brýtur þær um í blaðsíður og
prentar út úr leysiprentara, þannig að ekki er
annað eftir en fjölfalda í prentsmiðju og hefta
í stífa kápu. Ef þurfa þykir kemur Patricia,
hin listfenga eiginkona, til aðstoðar og hannar
kápuna. Þann kostnað sem á fellur í prent-
smiðjunni lætur Anthony síðan Víkingafélagið
leggja fram. Með þessu móti sparar hann að-
standendum bókanna stórfé miðað við það að
greiddur væri fullur útgáfukostnaður: þýðing
á ensku, vinna við prófarkalestur og annan
undirbúning og loks fullur frágangur í prent-
smiðju. Um hitt er þó enn meira vert að það
er með öllu óvíst að bækur þessar fengjust
gefnar út ef ekki nyti vinnu og atbeina
Anthonys.
Til að sýna enn betur hvað um er að ræða
skal ég lýsa að nokkru þremur bókum sem
Anthony hefur gefið út á síðustu vikum eða
mánuðum: The Folk-Stories of Iceland er
aukin og endurskoðuð ensk útgáfa af bók Ein-
ars Ól. Sveinssonar, Um íslenskar þjóðsögur,
sem út kom árið 1940. Frumþýðing og endur-
skoðun bókarinnar var hafin meðan Einar
Ólafur var enn á lífi, og naut hann við umbæt-
urnar aðstoðar nafna síns, Einars G. Péturs-
sonar. Að öðru leyti hefur bók Einars Ólafs
staðist furðulega vel tímans tönn, og er það
mál skynbærra manna að það sé drjúgur
fengur þjóðsagnafræðingum að fá hana nú til-
tæka á heimsmálinu. Hinar snjöllustu þjóð-
sögur vorar eru merkilegt framlag til menn-
ingar heimsins. Efnið er alþjóðlegt, og það er
víst að hin enska útgáfa mun verða lesin og
hagnýtt um víða veröld.
Wagner and the Volsungs, með undirtitl-
inum Icelandic Sources of Der Ring des
Nibelungen er ensk gerð af bók Árna Björns-
sonar, Wagner og Völsungar, sem út kom fyr-
ir þremur árum. Þýðinguna gerðu Anna Yates
og Anthony Faulkes, og síðan gekk Anthony
að fullu frá verkinu. Þýsk þýðing var áður
komin, og voru báðar þýðingarnar til sölu á
Wagnershátíðinni í Bayreuth síðastliðið sum-
ar.
Lengi hafa menn talið að meginuppspretta
Niflungahringsins væri hið þýska fornkvæði
Das Nibelungenlied, og mun nafnið sjálft hafa
miklu valdið um það. En nú hefur Árni
Björnsson sýnt fram á það með nákvæmum
samanburði á textum að langmestur hluti af
aðfengnu efni Wagners er sótt í íslenskar
bókmenntir – Eddukvæðin, Snorra-Eddu og
Völsungasögu, sem skáldið þekkti í ágætum
þýskum þýðingum. Verk Wagners nýtur
óhemju vinsælda meðal enskumælandi þjóða,
og rit Árna mun smám saman færa heiminum
sanninn um það að mörg fegurstu og skáld-
legustu atriði Hringsins eru komin frá Ís-
landi.
Síðasta verkið sem nú er nýkomið úr
smiðju Anthonys er Egils saga í frágangi
Bjarna Einarssonar. Þegar Bjarni andaðist
haustið 2000 hafði hann nær fullbúna til
prentunar textaútgáfu Eglu, byggða á aðal-
handritinu Möðruvallabók auk uppskrifta á
pappír, og kom hún út hjá Det Arnamagn-
æanske Institut í Kaupmannahöfn 2001. Þar
er um að ræða undirstöðuútgáfu sem prentuð
er með stafsetningu handritsins og því torveld
venjulegum lesendum. En jöfnum höndum
hafði Bjarni í smíðum útgáfu þá sem nú birt-
ist, með auðlæsilegri samræmdri stafsetn-
ingu, þeirri hinni sömu sem tíðkast í safninu
Íslenzk fornrit. Þessi nýja útgáfa er einkum
ætluð erlendum mönnum sem læsir eru á
enska tungu, og eru neðanmálsgreinar, þýð-
ingar orðasafns og ýmis annar fróðleikur á því
tungumáli. Bjarni var einnig langt komin með
lesútgáfuna þegar hann féll frá, en þó var
orðasafnið að mestu óunnið. Árnastofnun á Ís-
landi hafði byrjað útgáfuna, enda var Bjarni
starfsmaður hennar, en síðan tók Anthony við
verkinu og lauk því í samráði við forstöðu-
mann Árnastofnunar, Véstein Ólason. Meðal
annars er hið mikla og vandaða orðasafn að
mestu leyti verk Anthonys; og síðan gaf hann
bókina út á prent á vegum Víkingafélagsins
með sínum venjulega hætti.
Ég veit að Anthony mun litlar þakkir
kunna mér fyrir að hampa nafni hans svo sem
hér hefur verið gert, því að í merg hans og
beinum mætast þær systur Hógværð og
Hjálpsemi. En hver maður hlýtur að taka því
sem hann hefur til unnið. Og ef Anthony
skyldi þykja nokkuð ofsagt hér á undan, þá
getur hann auðveldlega rétt þann skakka með
því að halda enn lengra fram eftir þeirri braut
sem hann hefur svo farsællega markað með
útgáfustörfum sínum.
ÍSLANDSVINUR AÐ VERKI
Anthony Faulkes hefur
helgað sig útgáfustarf-
semi í þágu Íslands og
jafnframt hefur hann ver-
ið mikils ráðandi við Vík-
ingafélagið í London og
stjórnað útgáfum þess og
fjármunum. Hefur hann
tekist á hendur að búa til
prentunar á ensku mörg
íslensk rit sem teljast eiga
erindi til enskumælandi
lesenda. Hér er fjallað um
útgáfustarfsemi Faulkes.
Anthony Faulkes í laufskála sínum í Malvern.
E F T I R J Ó N A S K R I S T J Á N S S O N
Höfundur er fyrrverandi forstöðumaður Stofnunar
Árna Magnússonar.