Lesbók Morgunblaðsins - 10.01.2004, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 10.01.2004, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. JANÚAR 2004 9 endurspegla oft á tíðum súrrealískan hug- arheim, furðuveruleika sem er fullur af kald- hæðni og kímni, en einnig eru þar sárar myndir af fátækt og þjáningum, þar sem hún beislar tilfinningar sínar og ríka samkennd í látleysi. Myndirnar bera vott um ljóðrænt raunsæi í anda hins tékkneska áhrifavalds franskrar ljósmyndunar Brassaï og hins ung- verska André Kertész en útfærslan og tækn- in eru af svipuðum toga og hjá Man Ray. Strangfagurfræðileg myndbygging, hreinar línur og form minna á verk annars snillings og eilífs súrrealista, samnemanda og vinar Doru, Henri-Cartier Bresson. Guðlegur maður – grátandi kona Auk þess að vera „hneykslanlega fögur“ var Dora því eins og fyrr segir virtur og áberandi listamaður þegar þau Picasso kynntust á kaffihúsinu Deux Magots í París, árið 1936. Lokið var sambandi hinnar 28 ára gömlu Doru Maar við Bataille. Picasso, sem þarna var orðinn 54 ára, hafði tengst súrreal- istunum um tíu ára skeið og á þessum tíma var Marie-Thérèse Walter konan í lífi hans og áttu þau saman árs- gamla dóttur, Mayu. Þau Picasso og Dora hefja ástríðufullt samband nokkru síðar en Picasso slítur aldrei sambandinu við Marie-Thèrese, held- ur er með þeim til skipt- is, eftir eigin hentugleik- um og dagsformi; Dora var hin opinbera ástkona en Marie-Thérèse frillan í felum. Ógrynni bóka hefur verið skrifað um áhrif kvenna á listsköpun Pic- asso og hvernig hann tjáir tilfinningar sínar í þeirra garð í portrett- myndum. En meira en nokkur önnur kona, tók Dora Maar þátt í list- sköpun hans. Þau unnu saman að ljósmyndaæt- ingum, þó einkum og sérílagi að málverkinu, máluðu saman verk (pi- camaar) og einnig sitt í hvoru lagi, en Picasso hvatti hana til að hverfa frá ljósmyndun. Dora Maar vekur Picasso til meðvitundar um póli- tíska aðgerðarlist og á stóran þátt í vali á við- fangsefninu í einu þekkt- asta málverki hans, og einu af lykilverkum listasögu 20. aldar, Guernica. Árið 1937 varpar þýsk flugvél sprengju á baskaborgina spænsku Guernica sem varðist uppgangi Franco en fasistar á Ítalíu og nas- istar í Þýskalandi studdu Franco í þessari spænsku borgarastyrjöld. Dora Maar tók þetta ákaflega nærri sér en þá hafði einnig verið ráðist á fæðingarborg Picasso, Malaga. Auk þess að lána andlit sitt í Guernica tekur Dora Maar myndir af Picasso, „meistaranum mínum“ eins og hún kallaði hann, við vinnu að málverkinu, allt frá fyrstu skissum fram að fullkomnun verksins. Þetta hafa lengi ver- ið þekktustu ljósmyndir Doru Maar og ómet- anlegar sem heimildir af metafórum verks- ins, stig af stigi, en eru alls ekki merkilegustu verk Doru sjálfrar. Sama ár málar Picasso fjölda portretta af Doru undir heitinu Konan sem grætur, a.m.k. 25 árið 1937. Þessi titill hefur fylgt Doru Maar æ síðan. Í gegnum þessi portrett Picasso hefur verið reynt að finna hina réttu Doru Maar og þá gjarnan með orðum meist- arans um hana: „Þegar ég hugsa um hana [Doru Maar], ímynda mér hana, get ég ein- ungis séð hana fyrir mér grátandi.“ Dora Maar var eftirlætisfyrirsæta Picasso þau 7 ár sem sambandið stóð. Fyrstu portrettin af henni einkennast af hlýju, mildi og ást þegar hlátur og ástríður einkenndu sambandið en verða sífellt óreiðukenndari með árunum, andlit Doru Maar verður afmyndað og ósam- hverft. Það er einkar athyglisvert að á sama tíma og Picasso málar Konan sem grætur, málar Dora Maar sjálfsmyndir með sama titli, snýr í raun vörn í sókn í stað sjálfsvorkunnar, sýnir sig grátandi, ekki af biturleika, heldur sjálfshæðni. En sambandið við Picasso bug- aði meira að segja hina sterku Doru Maar. Á meðan á gerð Guernica stóð, kom barnsmóðir Picasso, Marie-Thérèse í heimsókn á vinnu- stofu Picasso og hittir þar fyrir Doru Maar. Dora Maar bjó aldrei undir sama þaki og Picasso og varð ávallt að vera boðin formlega á vinnustofu hans öll árin. Marie-Thérèse skipar Doru að yfirgefa vinnustofuna: „Ég á barn með þessum manni. Farið á stundinni“ segir Marie-Thérèse. Dora svarar: „Ég hef jafn mikinn rétt á því að vera hér og þú. Ég hef ekki alið honum barn en ég sé ekki að það skipti máli.“ Picasso lætur þetta rifrildi ekki trufla sig við vinnuna. Þá snýr Marie- Thérèse sér að Picasso og spyr hvor hann vilji að fari. Picasso sagði þeim að ákveða það sjálfar, hann gæti ekki ákveðið sig. Þá hófust slagsmál þeirra á milli og varð þetta ein af kærustu minningum Picasso að eigin sögn.2 Vitskert ást – geðveikin ein eftir Árið 1943 kynnist Picasso Françoise Gilot sem var 40 árum yngri en hann. Dora hafði deilt Picasso með mörgum konum en þoldi ekki meira; sjö ára ástarsambandi þeirra var lokið. Picasso virðist hafa verið með eindæm- um erfiður ferðafélagi og hefur sambúðar- hæfni þó sjaldnast verið mælitæki á snilli- gáfu. Picasso var 54 ára þegar hann kynntist Doru Maar, naut „gyllta tímabilsins“ eftir mörg mögur ár, falur fyrir smjaðri og dýrk- un þeirra fjölmörgu sem sátu um hann. Þau álög sem þessi fjölkynngismaður setti á ást- konur sínar voru órjúfanleg; þær áttu ekki afturkvæmt í fyrra sálarástand þegar hann yfirgaf þær: „Ég hitti mann. Hann var snill- ingur. Hann var lífið. Þetta var vitskert ást. Þegar ástin fór var einungis geðveikin eftir.“3 Bandaríska skáldið og listfræðingurinn James Lord sagði um vinkonu sína Doru Ma- ar, að ferli hennar mætti einna helst líkja við „loftstein sem hætti sér of nálægt sólinni“4 Endalok þessa vitskerta sambands fengu mjög á Doru Maar sem fellur í djúpt þung- lyndi og missir allan lífsvilja. Vinur hennar Paul Eluard fær Jacques Lacan, hinn þekkta sálgreini til að hjálpa Doru; hún er lögð inn á geðdeild á spítala í París og gengur í sál- greiningu hjá Lacan næstu tvö ár. Frá and- legum vanheilindum finnur Dora Maar ró í dulspeki og trúariðkun, eins og hún segir sjálf við Paul Eluard: „ Á eftir Picasso, að- eins guð“. Einungis Guð gæti tekið við af hinum guðlega meistara.5 Picasso vildi aldrei viðurkenna að vanlíðan Doru stafaði að einhverju leyti af sam- bandsslitum þeirra. Var ekki meginþorri súr- realistanna andlega vanheill? Jacques Vaché, Jacques Rigaut og René Crevel, höfðu þeir ekki allir framið sjálfsmorð? Antonin Artaud var geðveikur. Og Dora, sagði Picasso, var alltaf geðveik. Ef þetta er einhverjum að kenna er það ykkur súrrealistunum, með all- ar ykkar fársjúku hugmyndir. Síðustu 30 árum ævi sinnar eyddi Dora Maar nánast í einangrun, umvafin verkum Picasso og iðkaði kaþólska trú. Hélt nokkrar sýningar, en málaði og orti ljóð eins og hún hafði ávallt gert fram á síðasta dag; dagbók um ástarlíf hennar og tilfinningar. Hún var þó ákaflega stolt, vildi ef einhver sýndi áhuga selja myndir sínar jafn dýrt og Man Ray, veitti aldrei viðtöl, var illskeytt við þá er reyndu.6 En þrátt fyrir að hafa sagt við fáa útvalda að eitt sinn hefði hún verið frægur ljósmyndari, gerði hún afar lítið úr listsköp- un sinni og neitaði yfirleitt að sýna verk sín. Í bréfi til vinar síns James Lord, segir hún auðmjúklega: „Þetta er allt eftir Picasso, engin eftir Doru Maar. Heldur þú að frú Cézanne hafi haft áhyggjur af slíku ? Eða Saskia Rembrandt ? Dora sagðist aldrei hafa verið ástkona Picasso, heldur hann verið meistarinn sinn.7 Þegar Dora Maar féll frá, árið 1997, 89 ára að aldri, kom nafn hennar aftur upp eftir hálfrar aldar þögn. Uppboðið á eigum hennar árið 1998 vakti gífurlega athygli, slegist var um skissur, málverk og höggmyndir Picasso sem og skartgripi sem hann hafði búið til og gefið Doru, en lítið fór fyrir umfjöllun um hennar eigin verk. Dora varð að goðsögn vegna umfjöllunarinnar. Picasso var tekinn í guðatölu:8 „30 málverk eftir Picasso, sem geymd voru í íbúð í París í hálfa öld, seldust á uppboði í gærkvöldi fyrir rúma 2 milljarða króna sam- tals. Málverkið La Femme qui Pleure, eða Konan sem grætur, var dýrasta myndin á uppboðinu og seldist á um 450 milljónir króna. Picasso málaði myndina árið 1937, nokkrum vikum eftir að hann lauk við Guer- nica, eitt frægasta verk sitt. Málverkið er andlitsmynd af Theodoru Markovic, eða Doru Maar, sem var ástkona Picassos um sjö ára skeið. Hún lést á síðasta ári, níræð að aldri, í íbúð sinni í París innan um fjölda mál- verka af sér sem fyrrum elskhugi hennar málaði. Þau verk voru seld á uppboðinu í gær. Franska ríkið fær 60% af andvirði mál- verkanna á uppboðinu. Maar eignaðist engin börn og aðeins hefur tekist að finna tvo fjar- skylda ættingja hennar, í Frakklandi og Kró- atíu, en faðir hennar var frá Júgóslavíu. Upp- boðinu verður haldið áfram út vikuna og þar verða seldir margir fleiri munir sem tengjast sambandi Maar og Picassos.“ Neðanmálsgreinar: 1 Caws, Mary Ann: Dora Maar: with and without Pic- asso. Thames & Hudson, London, 2000. Bók Mary Ann Caws þýdd yfir á frönsku heitir Les Vies de Dora Maar. Bataille, Picasso et les surréalistes, Thames & Hudson, Paris 2000. Þá er nýkomin út bókin Moi, Dora Maar eft- ir Nicole Avril (2003) . 2 Caws, Mary Ann: Les Vies de Dora Maar, Paris 2000. 3 Avril, Nicole:Moi, Dora Maar, Plon, Paris 2003. 4 Lord, James: Picasso et Dora [þýtt úr ensku yfir á frönsku], Séguier, Paris 2000. 5 Tilvitnunin kemur bæði fram í bók Nicole Avril og Mary Ann Caws. 6 Victoria Combalia var ein af örfáum sem fengu viðtal við Doru Maar; „Conversaçion con Dora Maar, „ Kalias VI, nr. 12, 1994 ; „Dora Maar, photographe,“ Artpress, nr. 199, 1995. 7 Caws, Mary Ann: Les Vies de Dora Maar, Paris 2000. 8 Frétt sem birtist í Morgunblaðinu, 28. október, 1998, frá fréttastofu Reuters undir yfirskriftinni „Mikill áhugi á Picasso“. Höfundur er listfræðingur. Dora Maar, Án titils, um 1935–1937. Í eigu Pompidousafnsins í París. Hin gríska gyðja Aþena er í fullum herskrúða í bakgrunni. En í forgrunni? Björgun eða mannrán? Er myndin áróður gegn fas- istum, andóf gegn stríði? Margræð mynd sem tengir nútíð við hið goðsögulega. Picasso, Konan sem grætur (La femme qui pleure), París 1937. Tate Gallery. Ein fjölmargra portrettmynda Picasso af Doru Maar. Dora Maar, 29, rue d’Astorg, um 1936. Í eigu Pompidousafnsins í París. Ein þekktasta klippi- mynd Doru Maar þar sem undarlegri hauslausri styttu í eigu Doru er stillt upp í bogagöngum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.