Lesbók Morgunblaðsins - 29.05.2004, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 29.05.2004, Blaðsíða 2
2 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. MAÍ 2004 NEIL JORDAN, sem hvað þekkt- astur er fyrir kvikmyndahandrit að myndum á borð við The Cry- ing Game, sendi nýlega frá sér skáld- söguna Shade eða Skugga og er bókin einkar áhrifa- mikil lesning að mati gagn- rýnanda Daily Telegraph, frásögnin vel unnin, allt að því ljóðræn, og sögupersónurnar trúanlegar. Jordan velur þá óvenjulegu frá- sagnaraðferð í bókinni, sem er látin gerast 1950, að sagan er sögð af líki miðaldra leikkon- unnar Nina Hardy. Þannig fylgist Hardy með örlögum morðingja síns, vina og ættingja á meðan flókinn söguþráður, sem á rætur að rekja til æsku Hardy og morðingjans, skýrist smátt og smátt. Fjölskyldubönd Nýjasta bók Dan Chaon, You Remind Me of Me, eða Þú minnir mig á mig, er einfaldlega dáleið- andi að mati gagnrýnanda New York Times. Bókin er fyrsta saga Chaon í fullri lengd, en hann hef- ur áður getið sér gott orð fyrir smásagnaskrif. You Remind Me of Me fjallar um fjölskyldubönd, en sagan tekur einkum á því sem vantar í lífi sögupersónanna og er aðalsöguhetjan t.d. einfari sem er ósáttur við hlutskipti sitt og held- ur dauðahaldi í þá von að líf hans væri annað ef ekki væri fyrir bróðurmissi. Upphaf helfararinnar Christopher Browning leitast við að finna skýringar á upphafi hel- fararinnar í nýjustu bók sinni, The Origins of the Final Solution. Þar sýnir Browning fram á hvernig helförin hófst í raun með innrás nasista í Rússland frekar en að um viðbrögð við tapi þeirra í baráttunni um Moskvu sé að ræða. Hann reynir þá að svara spurningum á borð við þá hvort nasistarnir hafi alltaf ætlað sér að myrða gyðinga eða hvort helförin sé afleiðing þess að aðrar „loka- lausnir“ reyndust ómögulegar. Bókin er að sögn gagnrýnanda Guardian pökkuð upplýsingum og ýmsum smáatriðum, en um að ræða eins konar rannsókn á ákvarðanatöku í óreiðunni sem einkenndi samskipti þeirra stofn- ana nasistastjórnarinnar sem unnu að andstæðum verkefnum. Ljóðskáld New York-borgar Mark Ford tekur fyrir New York- skáldin Kenneth Koch, Frank O’Hara, John Ashbury og James Schuyler í bók sinni, The New York Poets: an Anthology. En skáldin fjögur eiga það sam- eiginlegt að ekkert þeirra ólst upp í New York þótt borgin hafi reynst mikilvægur þáttur í þróun vináttubanda þeirra. Lýsingar á hljóðum, ilmi og sýnum borg- arinnar liggja þá eins og rauður þráður í gegnum verk skáldanna sem áttu óneitanlega margt sam- eiginlegt þótt aldrei settu þeir fasta stefnuskrá á blað. „New York-skálda skólinn“ var enda að mati gagnrýnanda Daily Tele- graph ekki fyrirfram ákveðin bókmenntahreyfing sem reyndi að koma stefnumálum sínum á framfæri heldur frekar ákveðin hugmynd um hvað ljóðlist ætti að vera. ERLENDAR BÆKUR Líf mitt sem lík Neil Jordan Kenneth Koch N ú styttist óðum í þá stund að búsáhaldageymslur Þjóð- minjasafnsins verði opnað- ar almenningi eftir margra ára hlé. Í því tilefni hefur kynningarfulltrúi safnsins, Snorri Már Skúlason, sett fram þá háleitu hugmynd að 7,5 metra hárri granít-afsteypu af Kaldárhöfð- asverðinu verði komið fyrir á Melatorgi. Sverðið yrði gert í Kína þar sem granít finnst ekki í ís- lenskri náttúru, en vopninu er ætlað að minna al- menning á safnkostinn sem reyndar er nær ein- göngu af öðru og þekkilegra tagi. Í viðtali við Morgunblaðið fyrr í þessum mánuði sagði Snorri: „Við teljum að þetta gæti orðið skemmtileg tákn- mynd fyrir safnið. Ef maður hugsar þetta lengra þá gæti sverðið orðið eitt af kennileitum Reykja- víkur.“ Snorri segir að lokum: „Mér finnst þessi hugmynd allt of góð til að hún fái að deyja.“ Fyrir tæpum fjórum mánuðum hélt ég því fram í pistli að hugmyndin um glæsta arfleifð Ís- lendinga næði sér aldrei almennilega á flug í Þjóðminjasafninu andspænis þeim veruleika sem blasti við áhorfandanum í hverju horni. Safnið vekti með þjóðinni skammartilfinningu, því þær mætti finna birtingarmyndir eymdartímans sem þjóðin gekk í gegnum, allt það sem við höfum þurft að fela eða umbreyta. Kínverska graníts- verðið virðist staðfesta kenningu mína. Sverðið er annarleg hugmynd úr erlendu grjóti. En það á að smíða svo við fáum betur skilið raunverulegar rætur okkar. Á heimasíðu Þjóðminjasafnsins má finna þessi orð: „Ein forsenda lifandi íslenskrar menningar er að landsmenn glími sífellt við spurninguna: Hvernig verður þjóð til? Hvað getum við lært af gengnum kynslóðum? Þjóðminjasafnið gegnir veigamiklu hlutverki í þessu sambandi. Ásamt bókmenntaarfinum og sögunni auðveldar safnið okkur að skilja hver við erum og hvaðan við kom- um.“ Nú vaknar sú spurning hvað 7,5 metra granít-sverð frá Kína segi um okkur sjálf, þjóð- erni okkar og þær kynslóðir sem drógu fram lífið í þessu landi? Og sem meira er: Hvaða lærdóm drögum við af upphafinni og jákvæðri táknmynd sverðsins og þeim vígakúltúr sem kynningar- fulltrúar safnsins sjá sig knúna til að klína upp á þjóð sína? „Enn þann dag í dag heyrum vér kveða við í hetjusögnum Norðurlanda bergmálið af hergný fornheiðinna alda, af víkingaferðum, þjóðflokka- styrjöldum og stjórnarfarsumbrotum […] jarð- fundnar menjar eru oss þögulir og þó prúð- mælskir vottar um löngu framin hreystiverk“ segir Björn Bjarnason, sérfræðingur í vopnabún- aði að fornu, í riti sínu Íþróttir fornmanna á Norðurlöndum. Nú, nær heilli öld síðar, berg- málar hergnýrinn í kvikmyndahúsum borgarinn- ar þar sem áhugafólk um forn hreystiverk fylgist uppnumið með Hringadróttinssögu og afreks- verkum Alexanders mikla, eða nýlegri aflimun- um í Kill Bill myndum Quentins Tarantinos. Sverðin eru einnig hafin á loft í Tróju-kvikmynd Wolfgangs Petersen þar sem Brad Pitt leikur hinn fagurlimaða Akkilles. Allt er þetta gott og blessað og ágæt skemmt- un, á meðan lágkúrulegur mannskilningur sverðsins blindar okkur ekki fyrir raunverulegu ofbeldi þeirra skítmenna sem virðast eftirsókn- arverðustu fyrirmyndir Íslendinga í seinni tíð. Það er ekkert mikilúðlegt við skálmöld víkinga- tímans þegar hún stígur niður af breiðtjaldinu. Morð, nauðganir og misþyrmingar verða aðeins að menningarauði þegar öllu er snúið á haus, þegar villimennska kallast manngöfgi og hrotta- skapur fær einkunnina hugprýði. Eggjárnafag- urfræðin í Þýskalandi nasismans má vera okkur víti til varnaðar. Þar hugsuðu menn ekki um for- tíðina án þess að fyllast löngun til að hefja sverð á loft og marsera í breiðfylkingu. Þar trúðu menn á mikilúðlegan svip þess ofbeldis sem byggir upp með því að leggja í auðn. Björn Bjarnason segir kynslóðir víkingaald- arinnar líta á herfang sitt af göfugmannlegum sjálfstæðissvip og skarplega velja það eitt, sem vænlegast er til framþróunar. Kynslóðin „opnar nýjum menningarstraumum rás inn yfir átthaga sína. Og þeim þjóðum, er hún tók blóð, flytur hún nýjan lífsþrótt, ný lífsgildi. Það er ekki einungis hreysti og hugprýði, sem einkenna hana, heldur jafnframt hyggindin, þau er í hag mega koma“. Í annál frá 891 er að finna eftirfarandi minnis- merki um afrek norrænna víkinga á Írlandi: Hörmung! Helgi Patrik, hví veittir þú ei vörn, er vé þín hjuggu niður og drápu þín börn útlendar þjóðir með öxum? Er þessi eymdarbæn svo frábrugðin bæna- stundinni í Rúanda nú fyrir skömmu þegar þess var minnst að hálf þjóðin var brytjuð niður af ill- þýði fyrir réttum 10 árum? Eru afreksverk vík- inga svo frábrugðin því þegar íslamskar frels- ishetjur drápu Nick Berg í Írak nú fyrir skömmu með því að höggva af honum höfuðið? Mun tím- inn að lokum gera þessa voðaatburði að hreysti- verkum athyggjusamra og frjálsborinna manna? Ömurleg flatneskja víkingarómantíkur á lítið erindi við íslenskan samtíma. Mér er enn minn- isstætt augnablikið þegar mér varð ljóst að allar manngildishugsjónir geta látið undan þeirri blindu sem miklar víkingslundina. Í skáldsög- unni Fóstbræður eftir Gunnar Gunnarsson ráð- ast norrænir víkingar til uppgöngu í lítið þorp á Englandi. Þeir myrða karlana og stela svo öllu sem hönd á festir. Konur og börn komast undan á flótta og fela sig í skóginum umhverfis þorpið: „Fóthvatir víkingar dreifðust um skóg og kjarr. Þeir þekktu ensku konurnar. Þær voru ekki allar vanar að fela sig vandlega. Þær vissu það vel, að víkingarnir sóttust ekki eftir lífi þeirra. Og þær voru því ekki mótfallnar að láta ljóshærðan vík- ing faðma sig. Menn þeirra eða bræður gátu aldrei orðið þess vísari, að það hafði ekki verið af nauðung. Það var sólheitur sumardagur. Víking- arnir leituðu um skóginn, kófsveittir, og margir fengu fyrirhöfn sína endurgoldna.“ Svona hugmyndir mega liggja dauðar. FJÖLMIÐLAR SVERÐIÐ Í SVERÐINUM Sverðið er annarleg hugmynd úr erlendu grjóti. En það á að smíða svo við fáum betur skilið raunverulegar rætur okkar. G U Ð N I E L Í S S O N FÁTT er jafn ömurlegt og sýning á myndlist úr sér genginni fyrir þá sök að þegar hún kom fram reyndi hún bara að vera sláandi. Með tímanum getur þannig list orðið í hæsta lagi dæmi um hnignun eða vindhögg. Þetta liggur í augum uppi á sýningu á bandarískri myndlist í Listasafni Íslands. Í staðinn fyrir þá dirfsku sem einkenndi ameríska menningu og listir fyrir og eftir heimsstyrjöldina síðari er komin vesæl heimspeki og viðhorf. […] Í þeirri myndlist sem óx af meiði dýrkunar á sláandi eiginleikum ber mest á barnaskap. Til dæmis þeim að snúa við hlutum án byltingar í mótun forma og innihalds. Þetta náði hámarki eftir að sannaðist að sláandi eiginleikar hafa skemmtanagildi. Hafa ber í huga þessu til skýringar atvikið þegar barnið á reiðhjólinu ók á Picasso. Honum datt andartak í hug nautaat, sneri hjólinu við og gerði stýrið að nautshorni í myndverki. Þetta var sláandi, gamansamt og hafði listrænt gildi sem hefði glatast við endurtekn- ingu. Picasso hefði aldrei dottið í hug að snúa við öllum hlutum sem urðu á vegi hans. Í bandarískri samtímalist er slíkur um- snúningur aftur á móti algengur og þyk- ir listrænn af því hann er fyndinn í aug- um fullorðinna sem eru svipaðir börnum. Börn hafa mest gaman af þeg- ar hið sama er endurtekið, enda bera þau, sökum lítils þroska, ekki skynbragð á gildi hins einstaka. Öll samtímalist þjáist af svipuðu þroskaleysi. Iðkendur hennar geta til dæmis ekki gert greinarmun á einfald- leika og því sem er innantómt. Með því að halda, að bandarískum hætti, að í list sé allt álíka hlutgengt en vandinn sá að vekja athygli og geta auglýst sig, losnar listamaður við að velja og hafna og nota dómgreind sem vekur andlega úlfúð. Dómgreindin er andskotinn í paradís samtímans. […] Guðbergur Bergsson www.jpv.is Morgunblaðið/Árni Torfason Einn á ferð. SLÁANDI I Fjölmenning og erlend áhrif eru flestum ofarlega íhuga þegar Listahátíð í Reykjavík stendur yfir, enda streymir fólk þá á tónleika, í leikhús söfn og víðar, til þess að njóta erlendrar listsköpunar í bland við inn- lenda. Sjálfsímynd þjóðarinnar dregur dám af þess- ari listneyslu á vordögum; auðvelt er að upplifa sig sem heimsborgara í leikhúsi þar sem framandi tung- ur tala, verða víðsýnn innan um myndlist sem þó kemur manni í fullkomlega opna skjöldu – og þar fram eftir götunum. II En svo lýkur Listahátíð og sjálfsmyndin tekurbreytingum – eða hvað? Í fjölmiðlapistli Guðna Elíssonar hér að ofan fjallar hann um Þjóðminjasafn Íslands og hlutverk þess arfs sem það geymir. Hann beinir spjótum sínum að hugmynd að nýrri tákn- mynd fyrir safnið; stóru granítsverði sem kynning- arfulltrúi safnsins vill láta koma fyrir á hringtorgi skammt frá safnahúsinu. Guðni varpar fram þeirri spurningu „hvað 7,5 metra granít-sverð frá Kína segi um okkur sjálf, þjóðerni okkar og þær kynslóðir sem drógu fram lífið í þessu landi? Og það sem meira er: Hvaða lærdóm drögum við af upphafinni og já- kvæðri táknmynd sverðsins og þeim vígakúltúr sem kynningarfulltrúar safnsins sjá sig knúna til að klína upp á þjóð sína?“ Guðni bendir á þann tvískinnung sem í slíkri táknmynd felst, táknmyndum, sem þó þær ættu að heyra öðrum og verri tímum til, eiga sér afar óþægilega samsvörun í umheimi samtímans. III Það má velta því fyrir sér hvort sú fortíðarþrá erbirtist í slíkri táknmynd eigi sér djúpar rætur í þjóðarsálinni og hvort verið geti að hugmyndir á borð við þá að stilla upp risastóru sverði sem táknmynd fyrir okkar þjóðlegu arfleifð, byggist á viðhorfum horf- inna kynslóða frekar en á forsendum okkar eigin tíma. Guðni vísar til þeirrar hættu sem við þekkjum úr fortíðinni, þar sem menn „trúðu á mikilúðlegan svip þess ofbeldis sem byggir upp með því að leggja í auðn“. Hvort sem þær tilheyrðu fornöld eða tímum sem okkur standa nær, telur hann þær mega liggja dauðar. IV Þær hugmyndir sem Sigríður Matthíasdóttir,sagnfræðingur, greinir frá í þessari Lesbók og byggjast á rannsóknum hennar á þjóðerni, kyngervi og valdi á Íslandi og nýkomnar eru út á bók undir heitinu Hinn sanni Íslendingur, hverfast að ein- hverju leyti um áþekka fleti í þjóðarsál landans. Ekki síst þá er lúta að mótun sjálfsmyndar er á sér rætur í því sem hér hefur löngum verið talin gullöld íslensks samfélags, þ.e.a.s. fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Hún fjallar um uppbyggingu þjóðernishugmynda og segir „greinilegt að hlutverk þeirra var mikilvægt meðal smáþjóða eins og Íslendinga, Tékka og Íra þar sem nauðsyn var á uppbyggingu hugmyndafræði um þjóð- erni fyrir þjóðríkin sem voru í fæðingu. Þetta eru þjóðir sem hafa ekki mikla borgaralega menningu til að byggja á og þær fara allar aðra leið; þær fara í sög- una til að skapa þjóðernið, skapa goðsögn um gullöld þjóðarinnar.“ Sigríður bendir réttilega á hversu ríkar slíkar hugmyndir hafa verið í íslenskri þjóðarsál og eru jafnvel enn, en segir jafnframt nauðsynlegt – ekki síst með tilliti til þess að við búum nú í fjölmenning- arlegu samfélagi – að „rannsaka þessa þætti í sögu okkar og hugmyndafræði“. Eins og hún segir er auð- velt í fjölmenningarlegu samfélagi „að ímynda sér árekstrana ef þessar hugmyndir eru ekki teknar til endurskoðunar“. NEÐANMÁLS

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.