Lesbók Morgunblaðsins - 29.05.2004, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 29.05.2004, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. MAÍ 2004 U ndir lok ljóðleiks Ibsens um Pétur Gaut er að- alpersónan stödd langt inni í skógi kvöldið fyrir hvítasunnu. Árla næsta morgun syngur fólk á leið til messu að nú ómi „erfingjans söngur við eilífðar tungumál“. Með sendingu heilags anda á hvítasunnumorgni er bölvun- in sem fylgdi Babelsturninum þegar tungu- málum heimsins var sundrað að engu gerð. Arfurinn sem kirkjugestir eiga í vændum er því ekki af lakari endanum, heldur sjálft ríki guðs, tungumálið eilífa, sem nú er á næsta leiti. Þegar hér er komið sögu hefur Pétur Gautur, strákurinn úr Guðbrandsdal, snúið aftur heim eftir nær ævilanga vist meðal framandi þjóða. Söngur hinna trúuðu á hvítasunnumorgni minnir hann á arf af tvennum toga, jafnt hinn veraldlega arf sem hann var sviptur eftir að hann á ungum aldri rændi brúð- inni á Heggstað en ekki síður á erfðaréttinn í ríki andans sem hinir trúuðu söngmenn vegsama. Nú efast Pétur um að hann eigi von í nokkrum arfi í andans ríki þegar dauðinn kveður dyra. Í leikslok er Pétri vaggað inn í svefninn langa í faðmi Sól- veigar og um leið skín árdagsbirta hvítasunnusólar yfir þau. Með því að sýna okkur þessa mynd að leikslokum hefur Ibsen íklætt Sólveigu náðarkröftum sjálfrar Maríu meyjar. Þótt dul- magnaðir séu hrökkva samt ekki þessir kraftar til þess að þagga niður í Hnappasmiðnum sem fylgt hefur Pétri eins og skuggi frá því kvöldið áður og hótað að bræða hann í deiglu sinni. Að sögn Hnappasmiðsins má rekja þessa ógnvekjandi að- ferð við að eyða ímynd persónulegs sjálfs allt til sköpunar högg- ormsins. Jafnt Sólveig og Hnappasmiðurinn eiga sér því fyr- irmyndir í kristnum hug- og ímyndaheimi. Í ljóðleik Ibsens stendur Hnappasmiðurinn fyrir hinn stranga guð lögmálsins en Sólveig fyrir móðurlega náð guðdómsins. Þverstæðufull birt- ingarform þessara afla í lokaatriði Péturs Gauts verða þess valdandi að auðvelt er að álykta að í lok leikritsins sé í raun ekk- ert til lykta leitt. Eitt frægasta atriði verksins, lauksenan, gefur vísbendingar um það hvernig skilja megi þau öfl sem eru að verki á hvíta- sunnumorgni Péturs. Þegar lauksenunni lýkur syngur Sólveig sinn hvítasunnusöng. Söngvar hennar og hvernig þeim er ofið inn í lífshlaup Péturs Gauts er grundvallaratriði í uppbyggingu þessa margslungna ljóðleiks. Í söngvum Sólveigar er á ferðinni stef sem hljómar á ögurstundum í lífi Péturs. Með þessu stefi undirstrikar höfundurinn náðargjöf Sólveigar. Í þeirri dýru gjöf er fólgin hin eina von Péturs um að finna keisaradæmi sjálfsins en allt verkið hverfist um leit Gautsins að þessu vand- fundna hnossi. Í lauksenunni hefur Ibsen ekki fyrr sagt okkur að það sé að- faranótt hvítasunnu en Pétur Gautur leggst til jarðar eins og Nebúkadnesar kóngur forðum og bítur gras eins og hann. Pétur vísar sjálfur í örlög konungs Babýloníumanna sem herleiddi guðs útvöldu þjóð. Í refsingarskyni fyrir misgjörðir sínar var Nebúkadnesar rekinn úr félagi manna og át gras eins og uxi. Þar sem Pétur vafrar um holtið og tínir jarðlauk verður honum að orði: „Vatn er í læknum; mig varla mun þyrsta.“ Lindin sem Pétur sér fyrir sér þar sem hann veltist um á holtinu á sér hlið- stæðu í 23. sálmi Davíðs: „Drottinn […] leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.“ En það er ekki mikil tilbeiðsla fólg- in í andvarpi Péturs og guðsorðið er eins og hann á vanda til lítið eitt afbakað á hans vörum. Sál hans og andi eru enn á því stigi sem Hegel lýsti að væru einkenni sfinxins þar sem aðeins örlar á andanum í þeirri andrá sem hann byrjar að skilja sig frá hold- inu. Í fullu samræmi við þetta lýsir Pétur því yfir að í ríki dýr- anna hljóti hann að teljast allra skepna æðstur. Hann sér fyrir sér eigin endalok eins og hann væri bjarndýr, en þrátt fyrir það er konungsímyndin ekki fjarri í ræðu Gautsins. Hugmyndirnar um keisaradæmi Péturs Gauts og tengsl kon- ungstignarinnar við leit hans að sjálfinu eiga sér flóknar guð- fræðilegar fyrirmyndir. Meðan Ibsen vann að verki sínu um Júlíanus guðsafneitara kynntist hann kenningum Kappadók- íuguðfræðinganna sem voru samtímamenn Júlíanusar. Tveir þeirra, Basil frá Sesareu og Gregoríus frá Nazians, eru meðal persóna leikritanna tveggja sem Ibsen samdi um guðsafneit- arann. Kenningarnar um að ríkið, eða keisaradæmið sé það orð notað, og andinn vísi til eins og sama veruleika, eru hins vegar raktar til hins þriðja þeirra Kappadókíumanna, Gregoríusar af Nyssa, en hann var bróðir Basils. Gregoríus af Nyssa byggði röksemdafærslu sína á því að hin klassíska bæn Faðirvorsins „til komi þitt ríki“ ætti sér mörg birtingarform, því að í eldri gerð Lúkasarguðspjalls væri þessi sama bæn orðuð svo: „Megi heilagur andi koma yfir oss og hreinsa oss.“ Þetta misræmi hef- ur fyrir löngu verið fært til samræmds vegar í þýðingum og út- gáfum Biblíunnar. Eigi að síður hefur ólík útfærsla skrásetjara guðspjallanna á bæninni orðið til þess að hugmyndin um ríki andans, það ríki sem Pétur Gautur er í raun að svipast um eftir þegar hann talar um leit sína að sjálfinu, birtist á stundum í orð- um hans með tilvísun til ríkisins en annars staðar í umræðu um andann. Óskir og draumar Péturs Gauts um keisaratign eru kynnt til sögunnar þegar í fyrsta atriði leiksins. Eftir það tæpir Ibsen oftsinnis á draumum Péturs um konungsríkið og kóngsdótt- urina með og þetta minni er gjarnan tengt leit Péturs að sjálf- inu. Ævintýraminnið kunna um kóngsdótturina og ríkið birtist á groddalegan hátt í samskiptum Péturs við grænklæddu kon- una, dóttur Dofrans og konungs fjallanna. Sama minni er end- urtekið í breyttri mynd í kynnum Gauts af Anítru, hinni arab- ísku höfðingjadóttur. Þegar Anítra hefur slitið sig lausa frá Pétri Gaut í fjórða þætti leikritsins hrósar hann sér af því að hafa fórnað öllu, einnig ástinni, í því augnamiði að finna sjálfan sig, „sannan Gaut, sem mannlífsins konungs-krúnu hlaut“. Ekki hefur hann fyrr lokið ræðu sinni en Sólveigu ber fyrir augu áhorfenda þar sem hún langt í norðri bíður syngjandi eftir pilt- inum sínum. En í þetta sinn heyrir Pétur ekki söng Sólveigar því að hann hefur yfirgefið sviðið áður en hún birtist og hefur upp raust sína. Í lauksenunni hlær Gautur með sjálfum sér og efast um að hann sé konungborinn heldur sé hann eins og laukurinn gerður úr hverju laginu af öðru án þess að nokkurn sé kjarnann að finna. Innst í lauknum sem Pétur Gautur tætir í sundur í ör- væntingu sinni er tómið eitt. Eigi að síður er vonin ekki úti, né heldur trúin og kærleikurinn, sem Sólveig hefur á vörum síðar í verkinu. Þegar Pétur finnur engan kjarna í lauknum ræður það úrslitum að hann skynjar að innst í hans eigin sál hefur áður leynst eitthvað ósegjanlega dýrmætt, eitthvað sem hann hefur misst og glatað. Missir Péturs Gauts er staðfestur í morgun- söng Sólveigar á hvítasunnudag. Ibsen lætur söng Sólveigar hljóma hér á örlagastundu eins og hann áður gerði í lok æv- intýris Péturs með Anítru. En í þetta sinn nema eyru Péturs boðskap söngs Sólveigar sem hefur komið reiðu á hús hans fyrir hvítasunnuhátíðina. Þegar Pétur Gautur heyrir rödd Sólveigar innan úr kofanum sem hann reisti fimmtíu árum fyrr í skóginum verður honum loks ljóst að í þessu lágreista húsi, þar sem Sólveig hefur mynd- að sjálfan kjarnann, var hans eiginlega ríki og hann andvarpar í örvæntingu að hér hafi hans keisaradæmi verið. Myndin sem Ibsen dregur þarna upp af Sólveigu sem innstu veru hússins er því alger andstæða lauksins sem engan hefur kjarnann. Önnur myndhverfingin, sú af Sólveigu og kofa Péturs, vísar til sjálfsins sem tekið hefur við gjöf andans, hin, það er laukurinn alþekkti, er af sjálfinu sem engan hverfipunkt hefur því að það er þræl- bundið jarðlífinu. Á örvæntingarfullum flótta sínum undan Hnappasmiðnum spyr Pétur Sólveigu hvar hún hafi séð þess merki að hann hafi verið hann sjálfur, „hinn sanni og sterki, svo skein mér á enni skaparans merki“. Biblíutilvitnun Péturs er að þessu sinni í Op- inberunarbók Jóhannesar, en samkvæmt sjöunda kafla hennar fá englarnir fjórir sem settir voru til þess að hafa taumhald á öllum fjórum vindáttum jarðar og himins þá fyrirskipun frá Guði að þeir skuli „ekki vinna jörðinni grand og ekki heldur haf- inu né trjánum, þar til er vér höfum sett innsigli á enni þjóna Guðs vors“. Þrátt fyrir allt trúir Pétur Gautur því að hann beri slíkt merki á enni sér en það getur enginn staðfest annar en Sól- veig. Og það gerir hún ljúflega og skilyrðislaust með því að vitna í Kærleiksljóð Páls postula: „Í trú minni varstu, í von minni og ást.“ Heilagur Anselm komst svo að orði að eins og Guð er faðir allra skapaðra hluta þá er María móðir alls hins endurskapaða. Í lokaatriði Péturs Gauts leitar Ibsen í slíkan hugmyndaheim og tekur af öll tvímæli um að Sólveig birtist sem sé hún gædd tak- markalausri móðurnáð Maríu meyjar. Skáldið undirstrikar þessa túlkun á lokaatriði Péturs Gauts í bréfi sem hann skrifaði Edvard Grieg meðan tónskáldið var að semja tónlistina fyrir frumuppfærslu verksins. Í bréfi sínu segir Ibsen: „Á blaðsíðu 254 gengur messufólkið syngjandi gegnum skóg- inn; í tónlistinni ættu að heyrast vísbendingar um klukknahljóm og sálmasöng í fjarska uns leiknum lýkur með söng Sólveigar, þá fellur tjaldið og sálmasöngurinn færist nær og verður sterk- ari.“ Ibsen óskaði þess að sýningunni á Pétri Gaut lyki með þess- um hætti. Það er því ógerningur að fá nokkurn botn í ljóðleik hans án þess að kenning Krists um nær takmarkalausa fyr- irgefningu mannsins synda sé höfð í huga. „Hver synd og guð- löstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið,“ er haft eftir Jesú í Mattheusarguð- spjalli. Pétur Gautur er syndum hlaðinn og það er hreint ekki laust við að hann hafi á köflum guðlastað á langri vegferð sinni vítt um jarðkringluna. En þótt lostafullur væri og lítið gefinn fyrir að neita sér um stundargaman þá auðnaðist honum að hafna ákveðið tilboði Dofrans um að breyta sjóninni á vinstra auga hans og skera burt „glyrnuna hægri“. Auganu, sem sam- kvæmt orðum Krists er „lampi líkamans“, bjargar Pétur Gaut- ur því á elleftu stundu. Þetta gerir gæfumuninn því að, eins og Kristur bætir við: „Sé auga þitt heilt, mun allur líkami þinn bjartur.“ Hnappasmiðnum er þetta ljóst og hann staðfestir að í æðri skilningi sé Pétur hreint enginn syndari. Afbrot Gauts er fólgið í því að honum auðnaðist ekki að uppfylla það sem skapari hans ætlaðist til af honum í þessu jarðlífi, honum hefur ekki tek- ist að finna sjálfið sem í þessu leikriti Ibsens er hugtak sem táknar nánast heilagan anda. Það er ekki fyrr en í endurfund- unum við Sólveigu að Pétri tekst loks að fá staðfestingu á eigin sjálfi, finna eigin keisaradæmi og tign. Sproti og stafur guðs sem Hnappasmiðurinn er fulltrúi fyrir og auðveldlega má líta á sem refsingartól umbreytast hér í náðarmeðul sem hugga ferðalanginn eins og þau áður juku ljóðmælanda í tuttugasta og þriðja sálmi Davíðs áræði, kjark og æðruleysi. En þetta gerist ekki af sjálfu sér. Á ögurstundu velur Pétur Gautur að hafna einkunnarorðum sem hann lærði af tröllum og hann áttar sig á því að manninum er ekki nóg að vera sjálfum sér nægur. Um leið lýkst upp fyrir Pétri að maðurinn getur ekki verið hann sjálfur án þess að leita „hins góða“ utan sjálfs sín. Gautur (Gengur nokkur skref, en staðnæmist aftur.) Framhjá! kvað Bugur! (Heyrir söng að innan.) Nei, beina leið í þetta sinn, hvort hún er þröng eða greið. (Hann hleypur að húsinu; í sama bili kemur Sólveig í dyrnar kirkjuklædd, með sálmabók í dúk og staf í hendi.) Þannig búin tekur Sólveig á móti elskhuga sínum sem að leið- arlokum megnar um síðir að þagga niður efagjarna rödd Bugs- ins í eigin brjósti. Af náð sinni, sem æðri er öllum mannlegum skilningi, svæfir Sólveig, sú sem hússins gætti, vegmóðan Pétur við brjóst sitt og veitir honum hlutdeild í ríki andans. Helstu heimildir: Ibsen, Hundreårsutgave, Osló 1928–57. 5. og 17. bindi. Pétur Gautur, þýðing Helga Hálfdanarsonar í Sígildum ljóðleikjum, Reykja- vík, 1997. Biblían, Reykjavík, 1981. Hegel, The Philosophy of History, Chicago, 1988. Lampe, G., ‘„Our Father“ in the Fathers’, í Christian Spirituality, London, 1975. Nygren, A., Agape and Eros, Chicago, 1982. LAUNHELGAR LEIKRITASKÁLDS 3. HVÍTASUNNUMORG- UNN PÉTURS GAUTS Morgunblaðið/Óli Páll Gunnar Eyjólfsson og Margrét Guðmundsdóttir í hlutverkum Péturs Gauts og Sólveigar, í uppfærslu Þjóðleikhússins 1962. E F T I R T R A U S TA Ó L A F S S O N „Af náð sinni, sem æðri er öllum mannlegum skilningi, svæfir Sólveig, sú sem hússins gætti, vegmóðan Pétur við brjóst sitt og veitir honum hlut- deild í ríki andans,“ segir í þessari grein um Pétur Gaut Ibsens. Höfundur er doktor í leiklistarfræðum og sérfræðingur í leikrænni geðmeðferð.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.