Lesbók Morgunblaðsins - 29.05.2004, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 29.05.2004, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. MAÍ 2004 Þ egar blaðamann ber að garði er María Pálsdóttir nýkomin heim af fundi í tengslum við nýja starfið í Þjóðleikhúsinu og er greinilega með hugann allan við sýningu Subfrau-leikhópsins This is not my body (Þetta er ekki líkami minn) sem sýnd verður í Borgarleikhúsinu í kvöld. Hún gefur sér þó tíma til að spjalla og hellir upp á kaffi áður en við setjumst inn í sólríka stofuna. „Eins og þú sérð þá er íbúðin undirlögð leik- konum, enda sofa þær hér í hverju skúma- skoti,“ segir María hlæjandi og bendir á allan farangurinn sem fylgir leikhópnum, en leik- konurnar Sonja Ahlfors, Ida Løken, Lotten Roos, Kristina Alstam og Sofia Törnqvist í Subfrau-hópnum gista allar heima hjá Maríu meðan á Íslandsdvöl þeirra stendur. Leikhópurinn Subfrau er saman settur af átta norrænum leikkonum sem kynntust í magisternámi sínu við Leiklistarháskólann í Helsinki fyrir þremur árum. „Eitt af því magn- aðasta við námið úti var þegar hin skoskættaða gjörningalistakona, dansari og dragkóngur, Diane Torr, hélt þriggja vikna námskeið fyrir okkur. Hún er alveg hreint ótrúleg kona sem gaman var að kynnast. Hún flutti til Banda- ríkjanna og ætlaði að lifa af listinni, en það gekk eitthvað erfiðlega og því sá hún fyrir sér með nektardansi. Hún er hins vegar gallharð- ur femínisti og stofnaði því stéttarfélag stripp- ara, en var reyndar alltaf ein í félaginu sökum þess að allir aðrir virtust skammast sín fyrir dansinn. En það er óhætt að segja að Diane hafi komið og hrist ærlega upp í okkur,“ segir María og hlær við tilhugsunina. „Raunar hafði farið fram mikil umræða í skólanum áður en Diane kom um stöðu kvenna í leikhúsinu þar sem stelpurnar höfðu kvartað undan sínum hlut. Til að gera vel við þær var búið að setja sérstakt kvennaverkefni á stund- arskrána þar sem markmiðið var að skilgreina sviðslistakonu dagsins í dag. Hins vegar var ekki gert ráð fyrir að við fengjum neitt fjár- magn né neinn leikstjóra fyrir þetta verkefni auk þess sem við áttum aðeins að fá að æfa á kvöldin og um helgar. Þetta hafði ekki beint góð áhrif á stemninguna í skólanum og við vor- um því alveg hreint sjóðandi þegar Diane mætti á svæðið. Hún nýtti sér það og virkjaði alla þessa orku okkar í það að láta okkur leika karlmenn.“ Sköpum okkar eigið rými Að sögn Maríu reyndist það mikið kikk að breyta sér í karlmann. „Til að byrja með vor- um við allt of ýktar og þurftum að draga tals- vert úr karlmennskustælunum sem við ósjálf- rátt leituðum í, enda var tilgangurinn ekki að gera grín að körlum heldur einfaldlega vera karlmenn. Einn helsti munur á körlum og kon- um, og hér alhæfi ég og ýki því auðvitað er fólk mismunandi, er að körlum leyfist að taka meira pláss t.d. líkamlega. Þeir taka sér einnig lengri tíma þegar þeir tala, enda er ekki nærri jafnoft gripið frammí fyrir þeim, á meðan kon- ur reyna stöðugt að vera penar, klemma sam- an á sér hnén, halla undir flatt og brosa. Í vinnuferlinu upplifðum við allar hve mikið frelsi fólst í því að leika karlmenn og raunar má segja að við upplifðum allar ákveðið aft- urhvarf til bernskunnar þegar við vorum litlar stelpur og fengum að vera eins og við vildum, áður en við þurftum að verða kvenlegar og settlegar,“ segir María og rifjar samtímis upp að strákunum í bekknum hafi fundist bæði erf- itt og heftandi að ganga inn í kvenmannshlut- verkið. Undir handleiðslu Diane Torr fóru leikkon- urnar að grandskoða karlmenn og hegðun þeirra t.d. á kaffihúsum eða annars staðar úti í bæ. Og að endingu sendi hún þær í gervunum út af örkinni í smáleiðangra. „Ég gleymi því aldrei hvað ég var stressuð þegar ég fór í fyrsta sinn út í gervi karlmanns, en það var til að sækja filmu úr framköllun. Mér fannst hreinlega eins og ég væri að fremja einhvern hroðalegan glæp og að mér yrði refsað ef upp um mig kæmist. Það er í raun afar merkilegt þegar maður spáir í það að leikarar eru stöðugt að setja sig í spor annarra og umbreyta sér í persónur t.d. á öðrum aldri og sem tilheyra öðrum tímaskeiðum, en leikarar gera nánast ekkert af því að leika hitt kynið. Af hverju ekki? Það er jú bara ein leið,“ segir María og tekur fram að eftir þriggja vikna námskeið hjá Diane Torr hafi leikkonurnar hreinlega ekki getað hætt þessari rannsóknarvinnu sinni og því var leikhópurinn Subfrau stofnaður. „Það má segja að vinna okkar einkennist af því að rannsaka hvaða pláss konum leyfist að taka á sviðinu og skoða hver það er sem skil- greinir list leikkonunnar. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að leikhúsið er karla- heimur enda eru þeir í meirihluta leikskálda og leikstjóra auk þess sem flest bitastæðu hlut- verkin eru ætluð körlum. Þetta er bara stað- reynd og það þýðir ekkert að pirra sig á því. Hins vegar er skemmtilegt að leyfa sér að snúa upp á hlutina og skoða. Við höfum þannig mik- ið verið að spá í það hvaða myndir eru dregnar upp af konum á sviði, en þær eru að mörgu leyti afar íhaldssamar. Með sýningum okkar erum við að skapa okkar eigið rými í leikhúsinu og um leið að beina kastljósinu að kvenleika sem sjaldan eða aldrei sést á leiksviðinu.“ Tímum ekki að hætta Í beinu framhaldi af námskeiði Diane Torr tók Subfrau-hópurinn þátt í alþjóðlegri kvennaleiklistarhátíð í Torneå í Finnlandi sumarið 2001 með sýninguna Kravattkontrol (Bindisstjórn) þar sem þær vöktu það mikla hrifningu að þær fengu sérsök áhorfendaverð- laun. Sýningin This is not my body, sem Ís- lendingum gefst kostur á að sjá í kvöld, var hins vegar sérstaklega unnin fyrir alþjóðlegu dragkóngahátíðina Go-drag! sem haldin var í fyrsta sinn í Berlín sumarið 2002, en sýningin vakti það mikla athygli að aðalskipuleggjandi hátíðarinnar, Brigde Markland, er þegar búin að bjóða hópnum að sýna á Go-drag! hátíðinni nú í sumar. Aðspurð lýsir María sýningunni sem nokk- urs konar „sjóvi“ þar sem blandað er saman mónólógum, dansi og söng. „Því í sýningunni eru þessir strákar, sem við leikum, saman komnir til að setja upp sitt eigið sjóv. Þeir eru býsna ánægðir með sig og eru virkilega komnir til að slá í gegn. Inn í þetta samhengi kemur síðan ólétt kona og fengum við Kristjönu Skúladóttur til að vera gestaleikari hjá okkur. Raunar kom þetta hlutverk til af því að þegar við fórum með sýninguna til Berlínar á sínum tíma var ég kasólétt, komin sjö og hálfan mán- uð á leið, og passaði ekki í búninginn en varð að fá að vera með. Svo fannst okkur hlutverk óléttu konunnar passa svo vel við konsept sýn- ingarinnar og ákváðum því að halda henni inni. Við höfum því þurft að finna óléttar leikkonur til að fara með hlutverkið á hverjum þeim stað sem við sýnum,“ segir María og tekur fram að þær séu þegar búnar að finna gestaleikkonur fyrir fyrirhugaðar sýningar hópsins í Finn- landi og Svíþjóð síðar í sumar. Aðspurð segir María sýninguna leikna á ensku og íslensku, en að auki bregði sænsku og finnsku fyrir í hita leiksins. Sýning Subfrau í Borgarleikhúsinu er styrkt af Teater og Dans i Norden. Í seinustu uppfærslu Subfrau-hópsins sem nefnist Svensexa för Dick (Steggjapartí fyrir Dick) eru leikkonurnar enn að leika sér með karlahlutverk, en sýningin var sýnd fyrir fullu húsi í Helsinki, Vasa, Gautaborg, Malmö og Ósló í leikferð hópsins síðasta sumar og ætl- unin er að sýna hana aftur bæði í Svíþjóð og Finnlandi síðar í sumar samhliða This is not my body. Spurð hvað framundan sé hjá hópn- um segir María þær vera að leggja drög að nokkurs konar dansleikhússýningu án orða. „Okkur langar til að vinna áfram með þessar kynjapælingar, skoða hvað þykir kvenlegt og hvað karlmannlegt. Ætlunin er því að fá tvo danshöfunda, sitt af hvoru kyninu, til liðs við okkur og vinna tvær sýningar sem sýndar verði sem ein heild.“ Auk þess að undirbúa þessa nýju sýningu er búið að bjóða Subfrau- hópnum að halda námskeið um vinnuaðferðir sínar við Danska leiklistarskólann og að sýna í Lundúnum með haustinu. Þar sem leikkonurnar búa og starfa í fjórum mismunandi löndum, þ.e. Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Íslandi, leikur blaðamanni forvitni á að vita hvernig gangi að halda starfi Subfrau gangandi. „Það skal alveg viðurkennast að þetta væri miklu auðveldara ef við værum allar á sama stað og það krefst þó nokkurrar skipu- lagningar að halda starfinu gangandi meðan við búum svona dreift. Við nýtum því öll frí, hvort sem það heitir sumarfrí eða páskafrí, til að hittast og vinna. En þó þetta sé flókið í framkvæmd þá tímir enginn okkar í Subfrau að sleppa þessu samstarfi, þetta er einfaldlega of skemmtilegt til þess og við finnum líka að það er mikill áhugi fyrir þessu. Og meðan svo er þá höldum við ótrauðar áfram og finnum okkur leið til að láta þetta ganga upp.“ Huga þarf að grasrótinni Eins og fyrr var getið er María tiltölulega nýflutt heim til Íslands eftir dvöl sína úti, fyrst í Finnlandi og síðan Svíþjóð, og um síðustu mánaðamót tók hún við stöðu deildarstjóra fræðsludeildar Þjóðleikhússins. Aðspurð segir María starfið leggjast mjög vel í sig, en hlut- verk hennar er að vera n.k. verkefnastjóri þar sem hún bæði stýrir og framkvæmir, því hún er eini og jafnframt hálfi starfsmaður deild- arinnar. Fræðsludeildinni er ætlað að efla samskipti Þjóðleikhússins við kennara og skóla í landinu, með það að markmiði að styrkja stöðu leiklistarinnar sem kennslu- greinar í íslenska skólakerfinu. Í því skyni er haldið úti öflugri vefsíðu, kennurum er boðið upp á námskeið um hvernig þeir geti nýtt sér leiklist við kennslu, svokallaðir fræðslupakkar eru útbúnir í tengslum við sýningar leikhúss- ins þar sem kennurum er hjálpað að undirbúa og vinna úr leikhúsferðum skólabarna auk þess sem fræðsludeildin stendur í samvinnu við Leiklistardeild LHÍ fyrir örleikritasam- keppni framhaldsskólanema. „Með þessu starfi erum við bæði að kveikja áhuga barna og unglinga á leikhúsinu og jafn- vel undirbúa þau fyrir nám í leiklistartengdum fögum síðar meir, enda mikilvægt að huga að grasrótinni nú þegar verið er að byggja upp leiklistarmenntun á háskólastigi. Það má segja að við séum þannig að hlúa að leiklistinni með stóru L-i, en á sama tíma erum við líka að nota leiklistina sem tæki í kennslunni. Vinna við leiklist er alltaf samvinna og til að samvinna gangi upp þarf að ríkja gagnkvæmt traust og virðing allra þátttakenda. Þegar það er til stað- ar er hægt að ganga ansi langt í að setja sig í spor annarra og með því búa til betri mann- eskjur. Að mínu mati er leiklist frábær leið til að skilja lífið, sjálfan sig og aðra betur. Og hvað er verðmætara en það í dag?“ LEIKLIST FRÁ- BÆR LEIÐ TIL AÐ SKILJA LÍFIÐ Morgunblaðið/ÞÖK „Ég gleymi því aldrei hvað ég var stressuð þegar ég fór í fyrsta sinn út í gervi karlmanns, en það var til að sækja filmu úr framköllun. Mér fannst hreinlega eins og ég væri að fremja einhvern hroðalegan glæp og að mér yrði refsað ef upp um mig kæmist,“ segir María Pálsdóttir leikkona. silja@mbl.is María Pálsdóttir leikkona hefur svo sannarlega mörg járn í eldinum þessa dagana. Nýverið flutti hún heim til Íslands til að taka við stöðu deildarstjóra fræðsludeildar Þjóðleikhússins og í kvöld sýnir hún ásamt norræna leikhópnum Subfrau This is not my body á Nýja sviði Borgarleikhússins. Í samtali við SILJU BJÖRK HULDUDÓTTUR ræðir hún um stöðu kvenna í leikhúsinu, dragkónga og nýja starfið.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.