Lesbók Morgunblaðsins - 29.05.2004, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 29.05.2004, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. MAÍ 2004 9 klefann í stað þeirra sem fóru varð stöðugt minni. Aðra sönnun höfðum við ekki um að við hreyfðumst raunverulega úr stað en færum ekki í hringi. „Enginn dagur er eins á Inter- Rail,“ hafði sagt í auglýsingunni. Orð sem virð- ast hafa ævintýralega merkingu; ótal járnbraut- arspor sem renna saman í lygilegt völundarhús eða vafningsvið úr stáli. En ef ég man rétt stagl- ið í máladeildinni, þýðir forliðurinn „inter“ eins- hvers konar víxlverkun, eitthvað sem fer eða gerist á milli tveggja staða eða hluta, en sem sögn þýðir orðið hins vegar að greftra. Á sama hátt getur nafnorðið „rail“ þýtt járnbraut, en sem sögn bæði að loka inni eða að vera með bar- lóm. Við höfðum færst nær sögnunum … Við lágum í móki í sætum okkar, ekki sofandi, ekki vakandi, og höfðum varla hugmynd um hvenær við ættum að fara úr lestinni; það eina sem við gátum miðað við voru tímasetningarnar á far- seðlunum. Innilokaðir, síkvartandi – kviksettir. Þegar við urðum svangir gleyptum við í okkur samlokur og losuðum okkur við þær örstuttu seinna að mér fannst. Í mínum huga var lest að- eins óvenju hraðfara ferðakamar. Stæk líkams- lykt, brækja af rakspírum og ilmvötnum að súrna, dósaloft, þungur sígarettureykur … það er ekkert rómantískt við farartæki ofhlaðin þreyttu og önugu fólki. Krissi ýtti við mér í dögun, rétt áður en við áttum að stíga út. Ég var enn með stírurnar í augunum og stirður í skrokknum þegar við þræddum hlykkjóttar göturnar frá lestarstöð- inni inn í borgina; tvær ferðalúnar skjaldbökur. Við rákumst á ódýrt hótel sem gat sætt sig við að hýsa okkur – órakaða, óhreina, í slitnum gallabuxum og enn slitnari bolum – og vorum báðir steinsofnaðir áður en sólin kom upp. Við vöknuðum seint. Það voru ónot í mér en ekkert benti til að dagurinn yrði frábrugðinn öðrum dögum ferðalagsins. Við keyptum ham- borgara og átum þá á dyraþrepi meðan við fylgdumst með tveimur löggum teyma í burtu silfursleginn látbragðsleikara. Hann virtist dap- ur undir skrápnum. Þegar löggurnar nálguðust flýtti dópdílerinn á torginu sér í burtu, eins hratt og helta hans leyfði. Hann skildi eftir við- skiptavin í öngum sínum og þrír sjóliðar námu staðar til að hlæja að honum. Þegar lög- reglumennirnir voru horfnir skreið melludólgur út úr húsasundi og upphóf klæmna lofgjörð um stúlkurnar sínar. Þær virtust ótrúlega hæfi- leikaríkar á afmörkuðu sviði. Við þóttumst ekki skilja en vorum samt sem áður lengi að losna við hann – sennilega vissi hann að þessir ljós- hærðu strákar úr norðrinu höfðu flestir feitar úttektarheimildir á kreditkortunum sínum. Úr flegnu skyrtuhálsmáli hans vafðist tattú sem líktist fuglafit. Við leituðum að netkaffihúsi en fólk hristi bara hausinn þegar við spurðum; annað hvort ófáanlegt til að aðstoða útlendinga eftir spurn- ingahríð um áratugaskeið eða þjónustan ekki í boði í þessari borg. Þetta fór í taugarnar á Krissa; hann langaði að ná smá sambandi við umheiminn, sjá hvað væri að gerast heima fyrir, fá kannski einhver hlýleg skilaboð. „Það er hvort eð er aldrei neitt að frétta frá Íslandi,“ sagði ég og sá á svip hans að hann vissi ekki hvort í orðunum ætti að felast huggun eða ég væri þessarar skoðunar í raun og veru. „Í mesta lagi að einhver drepist sem maður þekkir hvort eð er ekki og er drullusama um. Eða vext- ir hækka eða eitthvað álíka kjaftæði.“ „Ég þekki alla vega fleiri dauða þar en lifandi hér,“ var svarið. Í dimmum bogagöngum höfðu skransalar hreiðrað um sig; þegar ljóskerin sem héngu á stangli yfir þeim blöktu í síðdegisgolunni hurfu þeir í myrkrið og birtust sitt á hvað. Sjónblekk- ing sem minnti mig á spegilmynd mína í glugga lestarinnar. Akfeitur strákur í jakka, sem hafði líklega verið stolið frá lúðrasveit, reyndi að dansa á götunni en var svo stirður og taktlaus að dansinn líktist aðeins stökkum yfir ósýnilega línu. Á meðan rölti faðir hans á eftir með þrútn- um og sinnulausum svip forherts alkóhólista og sneri sveif á lírukassa: Atvinnugrein sem ég hélt satt best að segja að tilheyrði fortíðinni en virtist annaðhvort hafa verið endurnýjuð fyrir túristana eða við vorum á stað þar sem liðinn tími skáskaut sér inn í nútíðina. Andrúmsloft gamallar bókar sem ný augu höfðu uppgötvað. Feðgarnir voru að flýja samkeppnina við grann- vaxna stelpu sem hélt jafnvægi ofan á bolta og söng fyrir gírug myndavélaraugu og hugs- anlega barnaníðinga, glápandi upp eftir spóa- leggjunum og of stuttu pilsi. Borgin var heit og angandi og setti alla hugsun úr jafnvægi. Mig langaði í kaldan bjór en Krissi vildi labba áfram og ég leyfði honum að ráða. Viljinn slævist á ferðalagi, ekki síst í öngþveiti sem sett er sam- an úr vonleysi og fátækt. Við tróðum okkur inn í hóp fólks sem stóð á bogabrú yfir eitt síkið. Það horfði á víxl á stál- krana á hinum bakkanum, umkringdan mönn- um í samfestingum, og tvo kafara sem tróðu marvaðann í skítugu vatninu. Verkstjóri þeirra gaf skipun og það hringlaði í keðjum. Áhorfend- urnir þögðu þunnu hljóði eins og þeir ættu von á að lík yrði híft upp. Ég fór úr jakkanum og klemmdi hann á milli fóta mér. Eftir drykk- langa bið þokaðist Kristslíkneski upp úr síkinu; höfuðið þakið slýi og vatnsdropar hrutu af út- breiddum örmunum og tálguðu skegginu. Það fór aðdáunarkliður um hópinn, alveg þangað til brakaði og brast í skurðgoðinu. Eins og verið væri að draga út ryðgaðan nagladrjóla. Fúin böndin sem héldu krepptum höndunum við þvertréð klofnuðu hægt og rólega. Mennirnir á bakkanum öskruðu. Kafararnir svömluðu í burtu skelfdir á svip. Krossinn steyptist niður og smaug ofan í vatnið einsog spjót. Einhverjir klöppuðu, aðrir flautuðu hæðnislega. Kristur dinglaði einsamall í haftinu með faðminn óstuddan og galopinn og minnti mig á lygara í miðri veiðisögu. „Þetta var dapurlega upprisa,“ sagði ég til að segja eitthvað. „Greinilega kaþólsk borg,“ sagði Krissi. „Ég hélt þó að þeir færu betur með Krist á þessum slóðum.“ „Einhver hefur stolið honum og hent honum í ána. Kannski bíómynd. Kannski trúar- bragðadeilur. Alls staðar nóg af þeim – og þær færast í aukana með hækkandi hitastigi. Heit lönd breyta vænstu drengjum í ofstækismenn.“ „Ég hélt að karlinn gæti gengið á vatni,“ sagði hann hæðnislega og við þrömmuðum lengra inn í borgina. Það var ekki viðlit að sann- færa Krissa um að taka leigubíl. Mig langaði ekki heim en hefði gefið morð fjár fyrir íslenska regndembu og kaldan vind. Um kvöldmatarleytið villtumst við inn í hverfi sem ferðabæklingar kalla vafasamt; ann- að orð fyrir eftirsóknarvert og spennandi í hug- um okkar. Ljósaskilti drápu tittlinga framan í okkur yfir spjöldum, skreytt groddalegum myndum af berrössuðum stelpum. Maður með félaga sinn á bakinu nam staðar skammt frá okkur og spurði hann hvort það væri í lagi að leggja hann þar niður, en hinn neitaði og sagði gangstéttina of harða; hann myndi fá í bakið. Þeir héldu áfram, burðarmaðurinn þreytulegur á svipinn. Við námum hins vegar staðar fyrir framan strippbúllu. Hún var nákvæmlega eins og aðrar búllur í götunni; afhverju einmitt þarna veit ég ekki ennþá. Kannski hafði þreyta okkar náð einhverjum hápunkti, kannski voru auglýsingamyndirnar svo afdráttarlausar að þær náðu inn fyrir móð- una. Eftir heimskulegar rökræður um hvort við ættum að fara lengra eða kasta mæðinni þarna, stigum við inn í veröld sem var þrungin hráu og rotnu kynlífi. Myrkrið þar inni var slungið síg- arettureyk sem náði ekki að kæfa lykt af svita og ilmvötnum úr stórum flöskum. Mér fannst ég vera aftur kominn í lestina; hún stóð bara graf- kyrr. Nokkrum bjórglösum síðar vorum við báðir orðnir hoknir á barstólunum. Við horfðum áhugalausir á grátlegan dansara uppi á pall- inum; pottþétt stúdína í verkfræði dagsdaglega, fullyrti Krissi án þess að rökstyðja það nánar. Hún skók sig til og frá en var ekki í neinu sam- ræmi við hljóðfall gamallar og ískrandi teknó- tónlistarinnar. Lítil brjóstin slöngvuðust til og frá og rakað skautið gaf henni barnslegt yf- irbragð, sagði annar okkar og gretti sig, notað, sagði hinn og gretti sig líka; við vorum bara sammála um að hún höfðaði ekki til okkar. Við sviðið sat öldungur í hjólastól og hvatti hana áfram lágri og rámri röddu, hné hans slógust saman þegar hann varð æstur. Í hliðarherbergi var kona höfð til sýnis. Menn voru leiddir til hennar í hópum og máttu gegn greiðslu þukla skvapholda líkamann sem hún beraði glottandi. Hún teygði á limum sínum og sveigði sig, hægt en fimlegar en við mátti búast. Stórvaxinn svertingi taldi niður mínúturnar með skeið- klukku. Þegar leið á nóttu tók einhver karlinn hann á eintal og hann smalaði hinum mönn- unum út og lokaði kyrfilega á eftir sér. Við sendum hvor öðrum augnatillit. „Þetta er nú ljóta helvítis búllan,“ sagði Krissi og sendi frá sér reykjarhring sem liðaðist sundur og hvarf yfir barnum. „Ég held að hann sé ekki nefndur í kynning- arbæklingunum,“ viðurkenndi ég. „Örugglega ekki borgin heldur. Huh. Ég efast um að hún sé á kortinu! Og allt þetta lið hérna. Djöfull er ég feginn að vera … Líttu bara á seinustu dagana; fólkið sem við höfum rekist á! Ég er feginn að vera bara … já, venju- legur.“ „Mundu samt hvað stelpan í gær var að lesa.“ „Stelpan í lestinni? Blessaður vertu, þú veist að ég tala ekki málið. Ég skildi ekki orð.“ „Ég man að vísu ekki hvað hún sagði ná- kvæmlega. Eitthvað um að það fáránlega væri nauðsynlegt. Alveg einsog það nauðsynlega væri fáránlegt.“ Hann horfði hugsandi á mig. „Djöfuls steypa. Það venjulega er alveg nógu gott fyrir mig. Ég splæsi næsta bjór.“ Við hlið okkar þusaði kona um þrítugt í far- síma, reifst og skammaðist, en brosti blítt þegar hún hafði lokið samtalinu. Hún krosslagði fæt- urna með ýktri fyrirhöfn og einblíndi á okkur, sló taktinn með annarri löppinni þannig að hold- ið dúaði í netsokkunum og líktist blöðru, fylltri vatni til hálfs. Þegar hún sá að við horfðum á hana lyfti hún óhreyfðu glasinu fyrir framan sig og rændi berinu með tungunni. Ég gat rétt svo varist brosi. Hún sleikti neðri vörina og í gegn- um varalitinn sást í munninn sem var sprunginn og litlaus, einsog hún hefði sogið úr honum blóð- ið. Við skáluðum við hana. Hún kveikti sér í síg- arettu og blés reykjarhulu yfir sjálfa sig og bar- inn og okkur sem vorum að tæma glösin. Skyndilega tók hún hönd mína, setti stút á var- irnar og tottaði fremsta köggul löngutangar munaðarlega. Ég kippti hendinni að mér og sagði afsakandi að við hefðum bara komið til að drekka. Hún byrjaði að sótbölva okkur á tveim- ur tungumálum, hreytti formælingum út á milli varanna eins og brotnum tönnum. Við stóðum upp og fórum. Dyravörðurinn svarti elti og náði okkur í dyr- unum. Ég fékk bylmingshögg í kviðinn og heyktist saman, Krissi kjaftshögg og olnboga í andlitið sem slengdi honum í vegginn. Síðan var hurðinni skellt. Ég hallaði mér upp að ljósa- staur og kastaði upp. Súrbeiskur vökvinn kom út í gusum, ég rykktist til eins og enn væri verið að berja mig. Þótt ekkert virtist vera eftir kúg- aðist ég í nokkrar mínútur til viðbótar, þurrkaði síðan munnvikin með jakkaerminni og leit til hliðar þar sem Krissi stóð ringlaður á svip og án þess að taka eftir að blóðið streymdi úr nös- unum. Á leiðinni á hótelið rákumst við aftur á menn- ina tvo; knapinn fýldur, burðarmaðurinn enn þjakaðri á svipinn en fyrr. Hann benti á grasi- vaxna umferðareyju og spurði vongóður hvort það væri ekki góður staður en sá sem vafði handleggjunum um háls hans og fótum um mitt- ið neitaði. Eyjan væri of mjúk, hann gæti sokk- ið. Þeir siluðust áfram og runnu saman í einn mann þegar þeir fjarlægðust, risavaxinn krypp- ling. Þeir minntu mig á okkur Krissa – bundna saman en þó nær aldrei sammála – en ég var of máttfarinn til að hafa orð á því og það hefði hvort eð var verið þýðingarlaust, hann hefði verið ósammála. Ég lokaði mig inn á baðherbergi þegar við fundum loks hótelið og skolaði af mér kvöldinu. Mig verkjaði í allan líkamann. Á fornlegan gas- kútinn var bláletrað Made in Germany smáum stöfum undir tegundarheitinu Geysir, sem ég ímyndaði mér að væri vitnisburður um ein- hverja gamla þýska aðdáun á Íslandi. Kúturinn var óratíma að hita vatnið einsog hann hefði fengið duttlunga í kaupbæti með nafninu. Ég var lengi í sturtu og þegar ég kom fram var Krissi sofnaður í rúminu sínu í öllum fötum. Hann lá grafkyrr með annan handlegginn teygðan yfir höfuðið til að skýla sér fyrir birt- unni af neonljósunum fyrir utan. Ég festi blund eftir að hafa bylt mér til og frá í á að giska hálf- tíma, enn með adrenalínið ólgandi í líkamanum. Þegar ég vaknaði næsta morgun lá Krissi enn í sömu stellingu á rúminu, önnur höndin teygð upp, hin kreppt yfir brjóstkassann. Liturinn á andliti hans minnti á margþvælt koddaverið. Ég horfði á hann í korter, tuttugu mínútur, hálf- tíma – ég er ekki viss hversu langur tími leið – setti síðan tannburstann og óhreina sokka ofan í bakpokann og gekk út. Ég stoppaði ekki í af- greiðslunni; við höfðum greitt tvær nætur fyr- irfram. Ég held að ég hafi tekið leigubíl á braut- arstöðina, setið hljóður í aftursætinu og borgað mun meira en uppsett verð. Ég er samt ekki viss. Ég veit hins vegar að ég var enn þögull þegar ég steig upp í næstu lest sem hökti inn á stöðina; ég athugaði ekki einu sinni hvert hún var að fara. Ég var fljótur að finna mannlausan klefa og landslagið sem þaut brátt framhjá var líka mannlaust. Ég var einn á ferð, einog ég hef kannski alltaf verið. Einn farmiði; óljós áfanga- staður. Lestin æðir miskunnarlaust áfram eftir blóðugum lestarteinum Evrópu, óskiljanlegri stálflækju, að hvellinum stóra. Stundarkorn reyndi ég að ímynda mér að þessi ferðadagur myndi renna saman við alla hina – en núna get ég sagt með sanni að enginn dagur er eins á Int- er-Rail. Höfundur er rithöfundur. „Við vissum ekki hvort við færðumst raunverulega úr stað en færum ekki í hringi. „Enginn dagur er eins á Inter-Rail,“ hafði sagt í auglýsingunni. Orð sem virtust hafa ævintýralega merkingu; ótal járnbrautarspor sem renna saman í lygilegt völ- undarhús eða vafningsvið úr stáli.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.