Lesbók Morgunblaðsins - 24.07.2004, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 24.07.2004, Blaðsíða 11
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 24. júlí 2004 | 11 Bók Nadeem Aslam Maps forLost Lovers, eða Kort fyrir týnda elskendur dregur upp sérlega lifandi mynd af lífi innflytjenda í Bretlandi. Aslam var rúm ellefu ár að skrifa bókina en árið 1993 sendi höfundur- inn frá sér sína fyrstu bók Seas- on of the Rain- birds. Að mati gagnrýnanda breska dagblaðs- ins Guardian er lesandinn ekki lengi að láta heillast af þessari nýju bók Aslams, sem segir frá lífinu í hverfi byggðu fátækum innflytjendum sem margir hafa sætt misþyrmingum og búa nú á útjaðri samfélagsins þar sem lítið fer fyrir vonum og væntingum. Þar býr Shamas, fyrrum skáld og núver- andi félagsráðgjafi sem neitar að yfirgefa þetta hrörlega hverfi og sækist hvorki eftir virðingu annarra né að drottna yfir meðborgurum sínum. Sögupersónur Aslam eru einkar vel gerðar að mati gagnrýn- andans sem segir Maps for Lost Lovers óð til ástarinnar og lífsins þrátt fyrir ofbeldið sem söguna um- kringir.    Robert Kurson tekst mjög vel aðhalda athygli lesandans í nýj- ustu bók sinni Shadow Divers, eða Skugga kafararnir, að sögn gagn- rýnanda New York Times. Bókin er einskonar sambland ævintýrasögu og raunveru- legrar sagnfræðilegar ráðgátu. Shadow Divers segir sögu áhuga- kafara sem haustið 1991 uppgötva þýskan kafbát úr seinni heimstyrj- öldinni skammt undan strönd New Jersey. Miklir erfiðleikar reynast við að rannsaka flakið, sérstaklega er fækkar í hópi kafaranna þegar þrír þeirra farast í leitinni að svör- um við þessum dularfulla fundi.    Skáldkonan Sylvia Plath oghjónaband hennar og Ted Hughes eru viðfangsefni Diane Middlebrook í bókinni Her Hus- band: Hughes and Plath - A Marr- iage, eða Eig- inmaður hennar: Hughes og Platt - hjónaband eins og heiti hennar gæti útlagst á ís- lensku. Midd- lebrook vakti fyrst athygli fyrir skrif sín um Anne Sexton þar sem hún beitti þeirri nýju aðferð að nota upptökur Sex- ton af viðtalstímum við skjólstæð- inga hennar í miklum mæli. Að sögn Guardian er þó nokkuð ójafnvægi í skrifum Middlebrook að þessu sinni, þar sem hugleiðingar og tilfinningar Plath, með orðum skáldkonunnar sjálfrar, fá umtalsvert meira rými en Hughes. Plath virðist þá eiga samúð Middlebrook á meðan Hug- hes nær að heilla hana fullkomlega. Þannig verður Hughes ráðandi per- sóna í bókinni og telur gagnrýnandi Guardian það einna helst hafa þann kost í för með sér að hann sé fyrir vikið ekki sakaður eina ferðina enn um að hafa „myrt“ Plath.    Það er dularfullur blær yfir nýj-ustu sögu John Searles Strange but True, eða Ótrúlegt en satt. Bókin hefst á hörmulegum og dularfullum dauða Ronnie Chase á menntaskólaballi, en mörgum árum síðar er stúlkan sem hann fór með á ballið ólétt að því er virðist eftir Chase. Sögupersónur Searles eru óljósar í upphafi og nær höfundur- inn að sögn New York Times að byggja upp söguna hægt og rólega út frá einföldum grunni sem engu að síður heldur lesendum hugföngnum. Þannig gefur hann lesendum sterk- lega til kynna hvað gerist næst en gerir þá engu að síður meðvitaða um að þótt þá gruni sitt af hverju þá fari fjarri því að þeir búi yfir heildar- myndinni fyrr en við bókarlok. Nadeem Aslam Sylvia Plath Erlendar bækur SAMFÉLAGSÞRÓUN Vesturlanda undanfarnar tvær aldir hefur að miklu leyti mótast af tækni- framförum og tæknihyggju og heimspekingar hafa því eðlilega og í auknum mæli tekist á við spurningar sem tengjast mögulegri endastöð þessarar þróunar og því hvernig hinu mannlega muni vegna í fulltæknivæddri veröld. Sama má segja um skáldsagnahöfunda og skemmst er að minnast sögu franska höfundarins Michel Houellebecq, Öreindirnar, sem út kom á íslensku fyrir fáeinum árum og lýsir hinstu dögum mann- kyns sem tækniframfarir hafa úrelt. Það er síðan skemmtileg staðreynd að einn af þýðendum fræðiritsins Stríð og kvikmyndir eftir Paul Virilio er einmitt Friðrik Rafnsson, þýðandi Öreindanna, því enda þótt margt skilji á milli höfundanna tveggja má greina ýmiss konar tengsl, ekki síst hvað varðar umfjöllun um áhrif tækniþróunar á samfélagsheildina. Virilio er hins vegar þekktur fyrir dálítið sérviskulega sýn á tækni og „tækni- framfarir“ (Virilio myndi vafalaust kjósa að þetta orð væri haft innan gæsalappa) en hann vill í raun tengja mannkynssöguna alla, og tæknisöguna sérstaklega, hernaði og hertækni mun nánari böndum en jafnan er gert. Þannig má segja að í höndum Virilios sé sagan hervædd, hún er klædd brynju þegar hann rekur upphaf borgarmyndunar til varnarskipulags virk- isveggja og innilokaðra rýma eins og hann hefur gert annars staðar, eða þegar hann tengir upphaf iðnvædds efnahagsskipulags við kröfur nútíma- legs stríðsrekstrar. Í dag á lýðræðislegt þjóð- skipulag undir högg að sækja, í okkar heimshluta er vald hersins að aukast og þá á kostnað hins frjálsa og opna stjórnmálavettvangs hefur Virilio sagt en staðhæfing þessi kann að hljóma ankannalega í eyrum Evrópubúa sem margir hverjir geta lifað ævina á enda án þess að koma nokkurn tíma nálægt hermanni. Þó ber að hafa í huga að Virilio horfir að mörgu leyti vestur á bóg- inn til Bandaríkjanna, þar sem herbáknið er vissulega risavaxið, en einnig er hann að benda á þá staðreynd að jafnvel í friðsömum löndum líkt og Svíþjóð er hergagnaframleiðsla ein helsta orkuvél efnahagslífsins. Ljóst er líka að flestar helstu tæknibyltingar seinni hluta aldarinnar, fullkomnar farþegaflugvélar, tölvur og internetið svo nokkur dæmi séu nefnd, eiga rætur að rekja til tækniþróunar sem átti sér stað innan hersins. En þegar samfélagssagan er hervædd í gegn- um tæknisöguna veltur ýmislegt á því hvaða skil- greiningu er unnið með þegar talað er um „tækni“ og aðferðafræði þá sem liggur henni til grundvall- ar, raunvísindi, því ef horft er t.d. til skilgrein- ingar Johns Berger á myndlist sem „aðferð til að horfa“ og vísindi og tækni í framhaldinu skil- greind sem „aðferð til að öðlast skilning“ má ljóst vera að nálgun Virilios þrengir óþægilega að tæknihugtakinu með því að lóða það umsvifalaust við hermenningu. Hins vegar er það afar áhuga- verð kenning að hlutur stríðsrekstrar og her- menningar hafi jöfnum höndum verið vanmetinn þegar samfélagssagan er skrifuð, og sömuleiðis er erfitt að deila við Virilio um mikilvægi stríðs- kapítalisma í nútímanum þar sem fyrirferðar- miklar ríkisstjórnir ganga í eina sæng með fyrir- tækjasamsteypum til að halda úti stórum og dýrum her. Í Stríði og kvikmyndum er Virilio þó ekki á jafnpólitískum slóðum og víða annars staðar, at- hyglinni er beint að sambandinu milli stríðs, hraða, tækni og framsetningaraðferða eins og þær hafa þróast á öldinni frá ljósmyndum að kvik- myndum til hjáveruleika, tölvuherma og þekk- ingarýmisins. Eins og upptalning þessi gefur til kynna er umfjöllunarefni Virilios margþætt og ekki er bókin mjög löng þannig að freistandi er að lýsa henni með orði sem oft kemur fyrir í bókinni, þ.e. sem eins konar „leifturárás“ á lesandann. Virilio fer hratt yfir sögu, hann viðar víða að sér heimildum (úr ævisögum, dagatölum, flug- skýrslum, tækni- og vísindasögu, hergögnum) en sjaldan er fyllileg grein gerð fyrir uppruna þeirra sem er miður þar sem staðreyndaflaumurinn er mikill og staðhæfingar eru á hverju strái, margar sem gagnlegt væri að geta sannreynt. Það er kannski við hæfi að bók sem öðrum þræði fjallar um hraða, og hraðaaukningu, fleyti sér sjálf áfram á ofsahraða en stundum er þó sem sam- hengisleysi milli málsgreina, hálfkláraðar hugs- anir og dularfull söguleg innskot geri afrakstur- inn dálítið óreiðukenndan, líkastan síbylju sem virðist ganga fyrir eigin flæðikrafti en ekki stefna eftir neinum sérstökum farvegi. En þrátt fyrir galla í framsetningu hefur bókin margt fram að færa. Samhengið sem Virilio skap- ar milli stríðs og stríðstóla annars vegar og kvik- myndalistarinnar hins vegar er afar frumlegt og knýr lesanda til umhugsunar. Aftur og aftur get- ur lesandi átt von á því að líta upp úr bókinni með kollinn uppfullan af ferskum og óvæntum teng- ingum sem bókstaflega krefjast umhugsunar. Þannig er t.d. upphaf kvikmyndatækninnar í kvikmyndariffli Etienne Jules Marey líkust sér- pantaðri sögulegri táknmynd, svo smellpassar hún við tengslin sem Virilio birtir milli kvik- myndatækni í víðum skilningi og breytinga og þróunar í stríðsrekstri. Er þar 20. öldin að sjálf- sögðu í forgrunni. Með sífellt stærri herdeildir á dreif um vígvöll sem að lokum taldi þrjár heims- álfur varð að svara kröfunni um upplýsingar, vitn- eskju um stöðuna á vígvöllum, ferðir óvina, og hugsanleg skotmörk, með tæknilegum inngripum, tæknilegum lausnum. Tilfærslunni sem leiðir frá hershöfðingja sem stendur uppi á hæð og fylgist sjálfur með framgangi herja sinna til fjarskipta- tækni af ýmsum toga má lýsa sem umbreytingu frá hinu sjónræna til hins myndræna, frá hinu persónulega til hins kvikmyndalega, og þarna vill Virilio benda á nokkuð sem skiptir máli, þ.e. hvernig stríð verður sífellt óraunverulegra þegar því er miðlað í gegnum skjái, ljósmyndir, aðdrátt- arlinsur, sjónvörp, radara o.s.frv. Tæknileg miðl- un upplýsinga, aukinn hraði fjarstýrðra stríðstóla (sem þrengir að svörunartímanum sem mönnum er úthlutað til að bregðast við nýjum kringum- stæðum), kvikmyndin sem áróðurstækni á stríðs- tímum, tengsl heriðnaðar og kvikmyndafyrir- tækja og margt fleira er hér gert að umræðuefni. En það sem hlýtur að vekja sérstaka athygli er framsýni Virilios um áhrif tæknilegrar (fjöl) miðlunar stríðsreksturs, nokkuð sem margoft bregður fyrir eins og t.d. í eftirfarandi athuga- semd þegar hann svo gott sem lýsir helsta ein- kenni Persaflóastríðsins árið 1991, sem enn var tæpan áratug undan þegar bókin kom út: „hið óvænta fólst nú í myndum og táknum sem birtust allt í einu á stjórn- eða hermiskjám og stríðið líkt- ist æ meir endalausri kvikmynd eða sjónvarps- útsendingu.“ Lykilorðin hér eru reyndar ekki „kvikmynd“ eða „sjónvarpsútsending“ heldur „allt í einu“, og innsýn Virilio í hvernig nýtísku fjarskipta- og samskiptatækni, upplýsingahrað- inn, ásamt umbyltingum í samgöngum hafa gjör- breytt upplifun nútímamannsins af hefðbundnum tíma- og rýmismörkum eru meðal þess sem gagn- legast er í bókinni, og kallast á forvitnilegan hátt á við hvernig kvikmyndinni sjálfri var tekið í upp- hafi sem verkfæri til að yfirstíga einmitt slík tak- mörk. Auðvelt er því að mæla með bók þessari. Ring- ulreiðin sem stundum gerir vart við sig er skap- andi, og heildræn formgerð af einhverju ill- skilgreinanlegu tagi birtist lesenda þegar dregur að lokum (reyndar er síðasti kafli bókarinnar afar gagnlegur sem eins konar samantekt eða niður- staða) og þýðendur hafa náð að stilla saman strengi sína. Ekki er síður athyglisvert hvernig tekist hefur að færa hernaðar- og tæknitungumál, sem ekki hefur átt sér mikla tilvist í tungumáli okkar, í þjóðlegan búning en ég varð reglulega var við þá tilfinningu að ég væri að sjá ákveðin orð í fyrsta skipti á íslensku. Þetta er allt saman mjög gott og ritröðin sem bók þessi tilheyrir virðist í heild sinni vera mikið fagnaðarefni. Að vísu hefði ég viljað sjá inngang að bókinni þar sem fjallað hefði verið um feril Virilios og verk þetta sett í víðara hugmyndasögulegt samhengi, en slíkt vantar því miður. En að öðru leyti, svo notuð séu orð Virilios sjálfs, hefur „ nýtt verkfæri“ bæst við vopnabúr íslenskra fræðimanna með þessari út- gáfu. „Stórfenglegur sjón- leikur hinsta dags“ BÆKUR Kvikmyndafræði eftir Paul Virilio. Bergljót S. Kristjánsdóttir, Elísabet Snorradóttir, Friðrik Rafnsson og Gauti Kristmannsson íslenskuðu. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands. Reykjavík 2003. STRÍÐ OG KVIKMYNDIR: Aðdrættir skynjunarinnar D.W. Griffith í heimsókn í Somme-skotgröfunum í upphafi árs 1917. Myndin er úr bókinni Stríð og kvikmynd- ir og þar segir að Griffith hafi verið eini óbreytti kvikmyndagerðarmaðurinn sem fékk leyfi til að gera áróð- ursmynd á vígstöðvunum. Myndin hét Hjörtu heimsins (Hearts of the World). Hann var sleginn yfir því að hermennirnir sáu sjaldnast óvininn í bardögunum sem hann langaði að kvikmynda. Björn Þór Vilhjálmsson

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.