Lesbók Morgunblaðsins - 24.07.2004, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 24.07.2004, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 24. júlí 2004 F yrir 30 árum þótti flestum stjórnmálaskýrendum lítil ástæða til að taka ofsatrúarmenn alvarlega. Á leikvangi stjórnmálanna virtust trúarlegar for- sendur og tilvísanir í helgirit vera á undanhaldi og rök sem skiptu máli byggjast á veraldlegum forsendum sem sóttar voru í hagfræði og önnur vísindi. En nú er öldin önnur og trúarlegar öfgastefnur hafa veruleg áhrif á stjórnmál meðal kristinna þjóða, múslima og gyð- inga. Mestu þáttaskilin urðu líklega árið 1979 þegar Khomeini erkiklerkur tók völdin í Íran og samtökin Moral Majority undir forystu Jerry Falwell voru stofnuð í Bandaríkjunum. Um svipað leyti jukust áhrif gyðinglegra bókstafstrúarmanna á stjórnmál í Ísrael þar sem Verkamannaflokkurinn tapaði í fyrsta sinn fyrir Líkúd-bandalaginu í kosningum árið 1977. Í Egyptalandi sóttu strangtrúaðir múslimar í sig veðrið og 1981 myrti einn þeirra Anwar Sadat forseta landsins. Í mörgum öðrum löndum múslima hafa herskáar trúarhreyfingar reynt að ná völdum eða hafa áhrif á valdhafa. Hér má t.d. nefna Wahabíta í Sádi- Arabíu, Hamas samtökin í Palestínu og Talibana sem ríktu í Afghanistan frá 1996 til 2001. Í ágætri bók sem heitir The Battle for God fjallar enski trúarbragðafræðingurinn Karen Armstrong um sögu öfga- og bókstafstrúarhreyfinga í Ísrael, Egyptalandi, Íran og Bandaríkjunum. Hún bendir á ýmis samkenni þeirra og segir að þótt margir líti á þær sem leifar af gamaldags hugsun séu þær fremur ungar og orðnar til þar sem fólk upplifir iðn- og al- þjóðavæðingu, vísindalega hugsun, frelsi, jafnrétti og verald- arhyggju sem ógn við lífshætti sína og gildismat. Ef túlkun Armstrong á sögunni er rétt þá eru þessar hreyfingar gneistar af árekstrum gamla og nýja tímans fremur en framhald af dæmi- gerðum stjórnmálum í gamaldags samfélagi þar sem trúarleg gildi móta líf fólks. Veraldarhyggja okkar norðurálfumanna er afsprengi langrar sögu. Í kjölfar siðaskiptanna komu vísindabylting, upplýsing, iðn- væðing, kapítalismi og vaxandi einstaklingshyggja. Allt þetta stangast meira og minna á við hefðbundin trúarbrögð, hvort sem þau heita gyðingdómur, kristni eða íslam. Trúin á framhaldslíf lendir í vandræðum frammi fyrir vísindum sem kenna að hugsun og meðvitund séu afurð efnaferla og rafboða í heilanum. Goð- sagnir um sköpun heimsins stangast bæði á við þróunarkenn- inguna og heimsfræði sem segir allt aðra sögu um tilurð stjarna og sólkerfa. Í Biblíunni og Kóraninum eru líka lífsreglur sem rekast á kröfur um jafnrétti karla og kvenna og sjálfræði hvers manns yfir eigin lífi. Síðan á 17. öld hefur stór hluti af heimspeki Vesturlanda snúist um þessa árekstra nútímans við trúarbrögðin. Sumir for- ystumenn í heimspeki, eins og Spinoza og Hume ályktuðu að hefðbundin trúarbrögð væru úrelt og reyndu að grundvalla sið- ferði á veraldlegum forsendum og skilja mannlífið algerlega jarð- legum skilningi. En flestir helstu frumkvöðlarnir í heimspeki ný- aldar leituðu leiða til að sætta það dýrmætasta úr trúarbrögðunum við vísindi, upplýsingu og einstaklingshyggju. Þetta var ekki auðvelt verk og þurftu andans jöfrar eins og Des- cartes, Leibniz, Locke, Berkeley og Kant að taka á öllu sínu. Þó voru trúarbrögðin sem þeir reyndu að bjarga fremur vel undir það búin að sætta sig við nýja tíma, því með siðaskiptunum var tekið skref í þá átt að gera trúna að einkamáli þar sem persónu- legt samband einstaklings við guð sinn skipti meira máli en trúarlegir samfélagshættir eða kraftaverk og samspil þess yf- irnáttúrulega við veruleika sem vísindin voru búin að gegn- umlýsa og úrskurða náttúrulegan að öllu leyti. Hvort sem þessum heimspekingum tókst eða mistókst að sam- rýma vísindi og trú með rökréttum hætti er næsta ljóst að iðja þeirra hjálpaði mörgum að sætta sig við nútímann. Heimspekin varð eins og stuðpúði milli gamla tímans og þess nýja. Við þetta má bæta að í löndunum við norðanvert Atlantshaf gekk nútíminn í garð nógu hægum skrefum til að þjóðirnar löguðu gildismat sitt og samskipti jafnóðum að nýjum veruleika. Þar sem stjórn- málahreyfingar bókstafstrúarmanna hafa mest fylgi meðal al- mennings kom nútíminn hins vegar askvaðandi með brauki og bramli. Í byrjun 20. aldar þegar háskólamenn og tæknivæddir kapítalistar frá norðurríkjum Bandaríkjanna létu í vaxandi mæli til sín taka í sveitasamfélagi suðurríkjanna reyndu margir heima- menn að verja hefðbundna lífshætti með einstrengingslegri kreddufestu. Þeir mynduðu söfnuði og félög sem voru jaðarhópar í pólitík fram eftir öldinni, en áttu samt vaxandi fylgi að fagna. Þeir nýttu sér fjölmiðla og boðskapur þeirra náði eyrum fólks gegn um útvarp og sjónvarp og um 1980 voru þeir farnir að hafa veruleg áhrif. Eitthvað svipað virðist hafa gerst þegar reynt var að flytja vesturevrópska samfélagshætti til Egyptalands, Alsír og Íran eða sovéskan kommúnisma til Afghanistan. Það sem er dýrmætt í trúarlegri arfleifð verður ekki auðveld- lega orðað. Þegar best lætur geta trúarbrögð stuðlað að góðvild og samúð. Ef til vill getur traust á Guði veitt mönnum hugrekki og styrk, lotning fyrir honum gert þá mikla í auðmýktinni og göf- uga í lítillætinu. Ef trúarbrögðin hafa í raun og veru þessi góðu áhrif þá gera þau það með einhverjum hætti sem er erfitt að skýra og skilgreina. En bókstafstrúarmenn nútímans reyna að verja trú sína gegn vísindum, upplýsingu og framförum með því að negla niður kennisetningar og líta á þær sem einhvers konar beinharðar staðreyndir. Eitt aumkunarverðasta dæmið um þetta er andstaða „fundamentalista“ í Bandaríkjunum við þróun- arkenningu Darwins. Þeir hafa bitið í sig að sköpunarsagan í fyrstu bók Móse sé einhvers konar sagnfræðileg skýrsla um hvað gerðist fyrstu 7 dagana eftir að veröldin varð til. Þetta eru ekki aðeins afleit vísindi heldur líka afleitur kristindómur. Þegar tvö til þrjú þúsund ára gamlir sleggjudómar um samskipti kynjanna, ástir og hjónaband sem finna má í bókum Biblíunnar eru svo túlkaðir jafnbókstaflega og sköpunarsagan verður útkoman þankagangur sem mér þykir ekki gæfulegur. Þegar trú sem mönnum er hjartfólgin lendir í mótsögn við vís- indalega þekkingu eða þróun samfélagsins geta þeir brugðist við á a.m.k. þrjá vegu. Þeir geta í fyrsta lagi kastað trúnni. Í öðru lagi geta þeir reynt að aðlaga trúarbrögðin breyttum tíma, t.d. með því að túlka goðsagnir og helgisagnir upp á nýtt eða reyna að sýna fram á að það sem virðist vera mótsögn sé það ekki þegar öllu er á botninn hvolft. Í þriðja lagi er hægt að hafna öllu sem stangast á við trúarbrögðin, segja t.d. að þróunarkenningin sé lygi en sköpunarsagan bókstaflega sönn, jafnrétti kynjanna vit- leysa en hundgömul lög sem finna má í Kóraninum eða Biblíunni hafin yfir gagnrýni. Bókstafstrúarmenn hafa valið þessa þriðju leið. Eins og ég hef reynt að skýra er þeim nokkur vorkunn. Það er erfitt að aðlagast nútíma sem kemur blaðskellandi á miklum hraða. Þessi þriðja leið er að því leyti auðveldari að hún krefst hvorki djúpra pælinga né vitsmunalegra átaka. En hún er að því leyti erfiðari að fylgismenn hennar munu trauðla semja sátt við heiminn. Fái þeir ekki að stjórna þá verður hlutskipti þeirra urg- ur og beiskja yfir vaxandi veraldarhyggju. Nái þeir hins vegar völdum (eins og í Afghanistan eða Íran) verður útkoman harð- stjórn sem er andstæð öllu sem er gott og göfugt í siðaboðskap þeirra Jesú og Múhameðs og eins víst að þeir hljóti sömu örlög og fleiri harðstjórar, að fyrirgera sálu sinni. Bókstafstrú og stjórnmál Hvað gerist þegar bókstafstrú og vísindakenningar nútímans um manninn og heiminn rekast á? Bókstafstrúarmenn geta í fyrsta lagi kastað trúnni. Í öðru lagi geta þeir reynt að aðlaga trúarbrögðin breyttum tíma. Og í þriðja lagi er hægt að hafna öllu sem stangast á við trúarbrögðin, segja t.d. að þróun- arkenningin sé lygi en sköpunarsagan bókstaflega sönn. Á síðustu árum hafa trúarbrögð sett æ meira mark á stjórnmál heimsins. Eftir Atla Harðarson atli@ismennt.is Reuters Íran „Nái bókstafstrúarmenn völdum (eins og í Afghan- istan eða Íran) verður útkoman harðstjórn sem er and- stæð öllu sem er gott og göfugt í siðaboðskap þeirra Jesú og Múhameðs og eins víst að þeir hljóti sömu örlög og fleiri harðstjórar, að fyrirgera sálu sinni.“ Forseti Írans Mohammad Khatami ávarpar þingið fyrir skömmu. Höfundur er heimspekingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.