Íslendingaþættir Tímans - 18.05.1974, Blaðsíða 5
Kristján Tryggvason
klæðskerameistari, Isafirði
f. 19. marz 1906
d. 1. marz 1974
Ég sé fyrir mér kunnuglegt um-
hverfi, tignarlegt i firnum sínum og
mikilleik. Ég sé opna iskalda gröf, og
við hana stendur fjölskylda, frændur,
vinir og samborgarar Kristjáns
Tryggvasonar, klæðskerameistara og
kaupmanns á Isafirði. Til grafarinnar
hniga jarðneskar leifar hans. Þar með
er hans lifssaga stöðnuð, en mér er
nær að halda, að fleiri finnist sem mér,
að henni muni lengi lifvænt meðal
þeirra er hann þekktu og með honum
störfuðu.
Kristján Tryggvason var eitt sinn
vinnuveitandi minn, eins og kallað er.
Ég var svona rétt búin að hleypa
heimdraganum áður, en var ekkert
alltof hress yfir þvi, að eiga að leggja
hönd á það, sem þá voru kölluð fyrsta
flokks vinnubrögð, þar sem ég hafði
aldrei heyrt eða séð hvorki vinnu-
brögðin eða vinnuveitendurna.
Það, sem kemur mér til að senda
kveöju vestur að þessari gröf — (og
reyndar einnig að gröf meðeiganda
hans, sem þá var, þvi að einnig hann
er horfinn fyrir alllöngu) — það er það,
hversu ógleymanlegur timi það var er
ég vann undir þeirra stjórn.
Þá eimdi svo sannarlega eftir af þvi
i vitund margra þeirra tima manna,
að sér væri nú hvað, vinnuveitandi og
vinnuþiggjandinn, og var ég eflaust
ein af þeim, sem þannig hugsuðu. En
það langar mig sérstaklega að þakka
og minnast, hversu sérstakir mann-
kostir Kristjáns nutu sin i umgengni
viö starfsfólkið og annað hans sam-
ferðafólk. Ég man hann nú sem si-
spaugandi, glaðan, umburðarlyndan
og fyrst og fremst reyndi hann alltaf
að gera gott úr öllu.
Það eru mikil þáttaskil á Isafirði við
fráfall hans. Margur mun sakna vinar
istað, þvi að vinnustaður þeirra klæð-
skeranna á ísafirði i þá daga fannst
mér stundum likjast hressingarskála
um þjóðbraut þvera. Margur átti
þangað erindi, og þeir voru lika marg-
ir, sem litu þar við til að spjalla og
njóta samvista við þessa sérstæðu per-
sónuleika. Þaðan fóru allir með bros á
vör, þvi að allan daginn var Kristján
heitinn að gera að gamni sinu, og nut-
um við þess óspart saumastúlkurnar
hans.
Ég minnist hans nú að leiðarlokum,
sem ég standi við myndtjald, og fyrir
huga minn liða ótal sýnir.
Ég bjó undir sama þaki og f jölskylda
hans. Mér er i minni sá virðuleiki, sem
fylgdi fasi konu hans, og dæturnar
fannst mér, eins og stundum er sagt,
að hefðu fengið það bezta frá þeim
báðum. Tvær dæturnar eru á lifi, eina
höfðu þau hjónin misst barn að aldri.
Heimilið bar fagurt vitni um dugnað
hans og smekkvisi og einstakt hrein-
lætikonu hans.Þvivar hún grimm, ör-
laganóttin 6. júni 1946, þegar heimili
þeirra brann til kaldra kola, ásamt
verzlun og vinnustofum þeirra klæð-
skeranna.
Kona Kristjáns og yngri dóttir voru
fjarverandi. Eldri dóttir hans vakti
mig. Hús hinum megin við götuna var
að brenna. Við stóðum þrjú og horfð-
um á glerið I gluggunum bráðna og allt
var óstöðvandi og ekkert hægt að gera.
Þegar við höríuðum út úr húsinu blasti
við okkur mynd af dánu stúlkunni hans
á veggnum. Það augnablik var áhrifa-
mikið. Hann hljóp að myndinni, hróp-
aði nafn barnsins og sagði: ,,Nei, nei,
þú mátt ekki brenna”, og hann lagði
myndina 'að brjósti sér og fór með
hana út.
Heimilið var reist að nýju og hann
byggði það upp I anda við timans rás.
Enginn sá þau hjón brotna við þessa
raun, heldur taka fastara á. Þessi at-
burður er mér ógleymanlegur.
Lifsfjöri Kristjáns og hæfileikum gat
manni fundizt full þröngur stakkur
skorinn við svo einhliða vinnu I svo.
langan tima. En nú er þeirri sögu lok-
ið, er setti sinn svip á bæinn, — þar
sem hann er siðasti klæðskerinn, sem
kveður af þeim mörgu, sem um langan
aldur klæddi upp og gerði mannbor-
legri meginþorra Vestfirðinga.
Ég staldra við, — i 30 ár hafa leiðir
okkar ekki legið saman. En lífsreynsla
min hefur fært mér áréttingu á þeirri
skoðun, sem ég átti fyrir, að þar fór
góður maður, er Kristján var.
Nú fer Bimbý að heyra þegár pabbi
kallar, og nú fær hann svar. Grafir
þeirra eru luktar, og ástvinir glima við
gátuna miklu. Ég drúpi höfði hér i
fjarskanum og með þakklátum huga
horfi ég til baka. Það eru einmitt
fyrstu kynnin af veröldinni, sem dýpst
standa i huga manns og hjarta, og
meðan maður þekkir aðeins það, sem
gott er, fær hið illa ekki mótað sálina.
Ég tel það gæfu, að hafa eignazt svo
góðan húsbónda snemma á lifsleiðinni,
þvi að hina seinni sá ég alltaf i þvi
sama bjarta ljósi og hann.
Mér finnst ísafjörður hafa nú misst
mikið. Ég sendi þeim, sem enn muna
þessa daga og þær glöðu stundir, kær-
ar kveðjur.
Konu hans og fjölskhldu allri votta
ég samúð mina og flyt þeim þakkir
fyrir liðna tið.
Jónina Jónsdóttir
frá Gemlufalli
islendingaþættir
5