Lesbók Morgunblaðsins - 02.10.2004, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 02.10.2004, Blaðsíða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 2. október 2004 | 3 G uðbergur Bergsson hefur haft veg og vanda að sýningu á spænskri samtímalist sem opnuð verður í Gerðarsafni í dag. Guðbergur segir að hann hafi fengið hugmyndina að því að halda yfirlitssýningu á spænskri nútímamyndlist þegar hann heyrði fyrir rúmu ári að til stæði að halda spænska menningardaga í Kópavogi með þátttöku þarlendra tónlistarmanna og dansara. „Ég sá upphaflega fyrir mér að sýna líka verk eftir listamenn frá Portúgal. Portúgölsk menning er algjörlega óþekkt hér á landi og það hefði verið gott að tengja þessar tvær þjóðir á Pýrenea- skaganum. Þetta eru lönd sem kaupa eig- inlega allan saltfiskinn af okkur og ég held að það sé skylda Íslendinga að gefa menn- ingu þeirra gaum. En svo varð úr að þetta væri eingöngu spænsk hátíð. Ég sá fyrir mér að í tengslum við hana væri hægt að sýna stuttmyndir og fá hingað farandsöngv- ara, og gefa auk þess út þýðingar á spænsk- um og portúgölskum bókmenntum, en það gekk ekki heldur eftir. Íslendingar ráða illa við það sem er stórt og mikið.“ Aðeins hægt í gegnum kunningsskap Guðbergur setti sig í samband við vini og kunningja á Spáni og hóf að grennslast fyrir um hvort unnt væri að fá lánaðar myndir til sýningarinnar. „Þetta er gert í gegnum kunningsskap en ekki opinbera aðila, sem er að sumu leyti erfiðara, en auðveldara að því leyti að maður var miklu frjálsari. Þarna er ekki ríkjandi hinn opinberi smekkur, eins og oft er á slíkum sýningum. Það hefur hjálpað til að ég hef þýtt mikið úr spænsku og þekki vel til fólks í spænsku myndlistarlífi, kann- ast við suma listamannanna sem eiga verk á sýningunni.“ Í Gerðarsafni eru sýnd bæði myndverk og ljósmyndir. „Það sér maður yfirleitt ekki á svona sýningum, en með því móti fær maður betri yfirsýn yfir það sem er að gerast á hinu myndræna sviði. Sýningin spannar tímabilið frá 1948 og fram á okkar daga og tekur til verka eftir þá myndlistarmenn sem ruddu spænskri myndlist braut í Evrópu og í Bandaríkjunum. Þetta eru engir aukvisar, listamenn sem eiga verk á helstu söfnum heims, meðal annars einn þekktasti lista- maður Spánar í dag, Barcelo, en sýning á verkum hans var haldin í Louvre nýlega. Það er mjög erfitt að fá myndir eftir hann til sýningar vegna þess að tryggingarnar eru dýrar. Þetta er einungis hægt í gegnum kunningsskap. Það hefði verið gífurlega dýrt fyrir ríkið að standa fyrir sýningunni, því það hefði verið krafið um hærri fjárhæðir, fólk heldur að ríkið hafi svo mikið fé handa á milli. Það hefði auðvitað verið gaman að hafa líka málverk á sýningunni, unnin með olíu á striga, en vegna þess hve það er dýrt ákvað ég að fá bara verk sem unnin eru á pappír.“ Tilhneiging til fordóma Um 120 myndverk eru á sýningunni, frá Baskahéruðunum, Valensíu, Kastilíu og Katalóníu. „Það var auðvitað erfitt að gefa heildarmynd af spænskri samtímalist, en þetta eru myndir frá öllum héruðum Spánar og með því móti er hægt að gefa meiri yf- irsýn en yfirleitt er unnt á sýningum. Myndirnar eru fengnar að láni frá kunn- ingjum mínum, frá söfnum og úr einkasöfn- um. Það hefur tekið ansi langan tíma að velja þær og safna saman. Og ég þurfti að gæta þess að láta ekki eigin smekk ráða. Maður hefur tilhneigingu til þess að vera með fordóma og vilja sýna það sem fellur að manns eigin smekk, sem er eiginlega veik- leiki þeirra sem eru að halda opinberar sýn- ingar. Þannig að ég hugsaði mjög mikið um að þarna kæmi fram frjálslynt viðhorf til menningarinnar. Sýningin er ansi stór og sýningarskráin er mjög vegleg, um 160 síður. Við höfum vandað mjög vel til hennar, bæði í vali á myndum og umfjöllun um alla listamennina. Þar er fjallað um óhlutbundna list og hvern- ig spænsk samtímalist varð til, og svo skrifa ég líka um sögu ljósmyndarinnar á Spáni. Það má segja að rauður þráður í sýning- unni sé frelsi formanna, eða þörfin fyrir að vera frjáls og gera það sem maður vill, í huganum. Þegar ég kom til Spánar á sjötta áratugn- um var mikið andóf gegn þessari nýju myndlist. Á Spáni hafa alltaf verið miklar kenningar um myndlist, og hvað sé andlega séð á bak við hana, því myndlistin er að mestu leyti andleg hreyfing sem er gerð sýnileg með litum. Kunningjar mínir á Spáni skrifuðu mikið um myndlist og ég varð vitni að því þegar þessir sýningarsalir fyrir nútímalist komu fram, en frá þessu segi ég í sýningarskrá.“ Opinbert viðhorf til listarinnar ekki boðlegt Guðbergur kveðst lengi hafa haft áhuga á því að kynna spænska menningu fyrir Ís- lendingum, ekki aðeins bókmenntir heldur einnig myndlist. „Erindi þessarar sýningar til Íslendinga er fyrst og fremst að kynna það sem maður þekkir ekki og sýna það sem venjulegir ferðamenn sjá ekki. Og allt svona lagað auðgar þá þjóð sem fær þetta til þess að horfa á.“ Guðbergur nefnir að sýningarstjórinn, Luis Revenga, vinni um þessar mundir að sýningu á vegum spænska ríkisins í tilefni af því að 500 ár eru liðin frá fyrstu útgáfu á Don Kíkóta eftir Cervantes, sem Guðbergur hefur sjálfur þýtt á íslensku. Revenga hafi við uppsetningu sýningarinnar notað ýmsan efnivið frá Íslandi, myndir og viðtöl, og þannig sé íslenskri menningu komið á fram- færi á Spáni. „Það má segja að þetta sé ákveðin vöruskiptaverslun. Ég hef lengi haft hug á að koma upp sýningu á íslenskri myndlist á Spáni, en þar er enginn áhugi á opinberri sýningu. Þá kemur alltaf inn í kunningsskapur og þröngsýni. Þessar þjóð- ir, Spánverjar og Portúgalar, eru mjög þreyttar á hinu opinbera viðhorfi til menn- ingarinnar, vegna þess að þær hafa þurft að búa við það á meðan einræði var þar ríkjandi. Fyrir nokkrum árum var sett upp stór sýning á íslenskri list og hér á landi var sagt frá því að henni hefði verið mjög vel tekið, en um það var beðið í spænskum blöðum að það yrði ekki aftur komið með svo lélega sýningu, sem væri mörkuð af op- inberu viðhorfi til myndlistarinnar. Það væri ekki boðlegt.“ Þörfin fyrir að vera frjáls Yfirlitssýning á spænskri samtímamyndlist verður opnuð í Gerðarsafni í dag í tilefni af spænskri menningarhátíð í Kópavogi. Guð- bergur Bergsson sýningarstjóri segir að rauður þráður í sýningunni sé frelsi for- manna, eða þörfin fyrir að vera frjáls og gera það sem maður vill, í huganum. Guðbergur Bergsson „Erindi þessarar sýningar til Íslendinga er fyrst og fremst að kynna það sem maður þekkir ekki og sýna það sem venjulegir ferðamenn sjá ekki. Og allt svona lagað auðgar þá þjóð sem fær þetta til þess að horfa á.“ Eftir Aðalheiði Þorsteinsdóttur aith@mbl.is Morgunblaðið/Golli

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.