Lesbók Morgunblaðsins - 09.10.2004, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 09.10.2004, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 9. október 2004 V ið sem búum í „vestrænum lýðræðisríkjum“ erum vön því að geta sett okkur á dálítið háan hest. Lengi vel til- heyrðum við tiltölulega litlum klúbbi ríkja, þar sem lýðræði var viðtekið stjórnarform. Við lok kalda stríðsins varð gífurleg breyting; lýðræði er nú algengasta og eftirsóttasta stjórnarform ríkja. Engu að síður höldum við áfram að líta svo á að við séum til fyrirmyndar – við sendum eftirlitsmenn til að fylgjast með því að kosningar fari vel fram í vanþróaðri lýð- ræðisríkjum; samanburðurinn er okkur á flesta lund í hag. Getur verið að hinn hag- stæði samanburður verði stundum til þess að við gleym- um því að okkar eigið lýðræði hefur þróazt í áranna og aldanna rás – og að það sé langt í frá komið á endapunkt full- komnunarinnar? Samfélagsþróun og lýðræði Höfundur þessarar greinar ræddi fyrir skömmu ásamt fleiri blaðamönnum við Rich- ard Armitage, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna. Umræðurnar snerust að miklu leyti um Írak og Armitage var spurð- ur út í ummæli öldungadeildarþingmanns repúblikana, sem hafði sagt daginn áður að það þýddi ekki að búast við vestrænu lýð- ræði í Írak; kannski yrði það „rúmenskt lýð- ræði“. Svar Armitage var á þessa leið: „Okkar lýðræðiskerfi hefur þróazt hægt á mörgum árum. Í byrjun tuttugustu aldarinnar fengu konur ekki að kjósa í mínu lýðræðisríki. Það var ekki fyrr en 1965 sem Bandaríkjamenn af afrískum uppruna fengu að kjósa. Utan- ríkisráðherra Bandaríkjanna [Colin Powell] mátti ekki kjósa. Lýðræðiskerfi … þróast á löngum tíma. Og ég geri ráð fyrir að við því megi búast í Írak.“ Hvort heldur sem var í byrjun 20. aldar eða fyrir 1965 litu bæði Bandaríkjamenn sjálfir og umheimurinn vafalaust á Banda- ríkin sem eitt af fremstu lýðræðisríkjum veraldar. Samt hafa þær gífurlegu breyt- ingar orðið síðan, sem Armitage lýsti. Vest- rænt nútímalýðræði er afsprengi tiltekinnar samfélagsþróunar, sem of langt mál væri að rekja hér, en kapítalismi, skynsemishyggja og mótmælendatrú koma þar m.a. við sögu. Samfélag okkar heldur áfram að þróast og lýðræðið hlýtur að þróast með því. Það, sem við töldum fullnægjandi lýðræðislega stjórn- arhætti fyrir hálfri öld eða kannski bara fyr- ir áratug, hentar okkur ef til vill ekki í dag. Meginkrafan: Þátttaka Aukin hagsæld, meiri menntun borgaranna og upplýsingabyltingin hefur valdið því að meginkrafan um umbætur í vestrænum lýð- ræðisríkjum er um meiri þátttöku borg- aranna í hinu lýðræðislega ferli. Það er miklu minni munur en áður fyrr á kjósand- anum og hinum kjörna fulltrúa hans. Kjós- andinn hefur miklu betri forsendur en fyrir fáeinum áratugum til að mynda sér skoðun á flóknum úrlausnarefnum, tjá hana og taka afstöðu. Þá er eðlilegt að spurt sé hvort það sé eðlilegt að kjósendur fái aðeins að koma að ákvörðunum um stór mál með þeim hætti að velja á nokkurra ára fresti fólk til að tak- ast á við viðfangsefnin fyrir sína hönd. Víða hefur verið brugðizt við þessari kröfu fyrst og fremst með því að auka þátttöku hins almenna borgara í undirbúningi ákvarð- ana með því að virkja hann í umræðum og leita álits hans. Það er t.d. raunin í Frakk- landi eins og Sandrine Rui, annar frummæl- andinn á ráðstefnu Háskóla Íslands og Morgunblaðsins um lýðræði, lýsir hér í blaðinu. Hér á landi hefur þetta sömuleiðis færzt í vöxt á undanförnum árum, t.d. með íbúaþingum sveitarfélaganna, þar sem eink- um er leitað álits borgaranna varðandi skipulagsmál. Slíkt stuðlar ekki sízt að því að rjúfa einokun tiltölulega fámenns hóps embættismanna og sérfræðinga á hug- myndum um framtíðarskipulag í bæjum og borgum. Áratugum saman hefur hin við- urkennda aðferð við skipulag nýrra hverfa á Íslandi verið sú að sækja hugmyndir til ann- arra embættismanna og sérfræðinga í öðr- um löndum, í stað þess að spyrja fólkið, sem á að búa í hverfunum, hvað því finnist áður en setzt er niður við að skipuleggja. Al- menningur hefur eingöngu fengið að senda inn athugasemdir eftir á, við hér um bil full- mótað skipulag. Þetta er því þörf breyting. Það er umhugsunarefni hvort taka eigi upp lög- og stofnanabundið samráð við al- menning við stórframkvæmdir, eins og Rui lýsir að gerist í Frakklandi. A.m.k. kynni slíkt að bæta til muna umræðuhætti um slík- ar stórframkvæmdir og stuðla að því að all- ar upplýsingar, jafnt þær sem styðja að ráð- izt verði í framkvæmdir, sem og þær sem nota má sem rök gegn framkvæmdunum, séu snemma í ákvörðunarferlinu dregnar fram í dagsljósið og lagðar fyrir almenning. Menn geta t.d. velt því fyrir sér hvaða áhrif það hefði haft á framvindu máls á borð við ákvörðunina um byggingu Kárahnjúkavirkj- unar, hefðu slíkar aðferðir verið viðhafðar. Barátta fyrir beinu lýðræði Það er minna um að almenningi hafi verið gefinn kostur á að taka þátt í ákvörðuninni sjálfri með atkvæðagreiðslu. Slíkt fyr- irkomulag á sér langa hefð á stöku stað, t.d. í Sviss og í einstökum sveitarfélögum í Bandaríkjunum, en hefur enn sem komið er ekki orðið meginreglan í vestrænum lýðræð- isríkjum. Þar sker Ísland sig ekki úr; helzta undantekningin er atkvæðagreiðslan, sem Reykjavíkurlistinn efndi til um Reykjavík- urflugvöll árið 2001. Af og til á undanförnum árum hefur verið krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál, einkum þá mál sem miklar og djúp- stæðar pólitískar deilur hafa verið um. Í ljósi þess að lagarammann vantar, hafa ekki verið efni til að ráðast í slíkar atkvæða- greiðslur. Hins vegar má auðvitað velta því fyrir sér hvort það hefði ekki stuðlað að því að um mál á borð við Kárahnjúkamálið hefði ríkt meiri sátt, hver svo sem niðurstaðan hefði orðið, ef það hefði verið borið undir al- menna atkvæðagreiðslu og almenningur fengið tækifæri til að segja sína skoðun. Morgunblaðið hefur hvatt til þess frá árinu 1997 að leið almennra atkvæða- greiðslna yrði farin hér á landi í stórauknum mæli. Þeim hugmyndum var ekki alls staðar vel tekið í upphafi, en þær hafa mætt vax- andi skilningi meðal stjórnmálamanna, væntanlega vegna þess að þeir átta sig á að krafa almennings er sú sama. Stjórnarskráin í brennidepli Hinar gífurlegu deilur um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem settu svip sinn á sumarið, mörkuðu nokkur tímamót í þessu efni. Beiting forseta Íslands á 26. grein stjórnarskrárinnar beindi væntanlega aug- um margra að því hversu fráleitt það er að setja í vald eins manns hvort þjóðin eigi að fá að greiða atkvæði um mál eður ei. Deil- urnar, sem á eftir fylgdu um þau skilyrði, sem setja ætti fyrir því að niðurstaða þjóð- aratkvæðagreiðslu yrði bindandi, sýndu fram á að það mál þarfnaðist mun vandlegri skoðunar og undirbúnings. Nú virðist orðin samstaða um það á Alþingi að endurskoða eigi stjórnarskrána. Yfirlýsing Halldórs Ás- grímssonar forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi fyrr í vikunni, um að við þá endurskoðun verði að tryggja „lýðræð- islegan rétt almennings til að fá fram at- kvæðagreiðslur um mál sem miklu skipta“, sýnir að væntanlega er nú stór meirihluti á Alþingi fyrir slíkri breytingu. Jafnógagnlegar og deilur sumarsins voru á köflum, hafa þær þjónað því hlutverki að beina athygli stjórnmálamanna að stjórn- arskránni, sem var löngu tímabært. Stjórn- arskráin er auðvitað grundvallarplaggið í lýðræðislegri stjórnskipan okkar. Við endur- skoðun hennar þarf að leitast við að styrkja lýðræðið, ekki aðeins með því að tryggja að almenningur geti krafizt þjóðaratkvæða- greiðslna án milligöngu forsetans, heldur að skýra verkaskiptingu helztu stjórnvalda og styrkja þrígreiningu ríkisvaldsins, sem er ein grundvallarreglan í öllum lýðræðisþjóð- félögum. Netlýðræði? Efasemdamenn hafa talið að fjölgun þjóð- aratkvæðagreiðslna myndi leiða til mikils kostnaðar og fyrirhafnar. Þar kann nútíma- tækni að koma til skjalanna. Menn hafa í nokkur ár velt fyrir sér möguleikum Netsins í þessu efni og fyrir þremur vikum var í fyrsta sinn kosið á Netinu í þjóðaratkvæða- greiðslu í Sviss. Á þriðja þúsund kjósenda í fjórum úthverfum í Genf greiddu atkvæði á Netinu og notuðu til þess sérstök númer og aðgangsorð, sem þeir fengu úthlutað frá stjórnvöldum, auk þess sem gefa þurfti upp fæðingardag og -stað til að minnka hættu á misnotkun. Atkvæðagreiðslan gekk vel; kjós- endurnir greiddu atkvæði heima hjá sér, það tók þrettán mínútur að telja yfir tvö þúsund atkvæði og talið er að hættan á svindli eða að upp komist hvað menn kjósa hafi ekki verið á neinn hátt meiri en í hefðbundnum kosningum. Það er því þegar komin reynsla á notkun Netsins í þjóðaratkvæðagreiðslu og full ástæða til að skoða möguleika þess hér á landi. Ísland stendur flestum löndum framar í netnotkun og sú röksemd, að ekki hafi allir aðgang að Netinu, verður brátt jafnúrelt og sú röksemd gegn hefðbundnum kosningum að ekki eigi allir þess kost að fara á kjör- stað. Efasemdamönnum er hollt að hafa í huga orð Steins Ringen stjórnmálafræðipró- fessors á ráðstefnu Morgunblaðsins og HÍ, að hugsanlega þekkjum við ekki einu sinni í dag þær aðferðir, sem við munum í framtíð- inni nota til að ná markmiðum lýðræðisins. Alþjóðavæðing og lýðræði Það, sem hér hefur verið sagt, fjallar um lýðræði á vettvangi þjóðríkisins. Ekki verð- ur hins vegar skilið við umræður um það hvernig við getum bætt og eflt lýðræðið án þess að horfa út fyrir landsteinana. Margir, bæði á hægri og vinstri væng stjórnmál- anna, hafa áhyggjur af því að alþjóðavæðing dragi úr mætti lýðræðislegra stofnana í ein- stökum ríkjum. Ríkisstjórnir og löggjaf- arþing geta æ sjaldnar tekið ákvarðanir án þess að taka tillit til þess, sem gerist á al- þjóðavettvangi. Það er reyndar misskiln- ingur að alþjóðavæðingin gangi eingöngu út á ofurvald alþjóðlegra stórfyrirtækja, sem þvingi stjórnvöld til að lækka skatta, draga úr félagslegu öryggi og minnka ríkisútgjöld. Í flestum opnustu hagkerfum heims hafa ríkisútgjöld þvert á móti farið hraðvaxandi og hagur almennings batnandi undanfarna áratugi. Engu að síður hefur alþjóðavæðingin graf- ið undan fullveldi ríkja, í þeim skilningi að ekkert ríki getur farið sínu fram án þess að taka tillit til annarra ríkja og alþjóðlegrar þróunar. Í ljósi þess að í lýðræðisríkjum er alla jafna litið svo á að fullveldið liggi hjá fólkinu, má segja að þróunin skerði þann fullveldisrétt, sem við neytum þegar við göngum að kjörborðinu. Tvöfaldur lýðræðishalli Leiðin til að vinna gegn þeirri fullveld- isskerðingu, sem alþjóðavæðingin hefur í för með sér, er ekki að reyna að snúa þróuninni við eða einangra okkur frá hinni alþjóðlegu þróun. Alþjóðavæðingin; frjáls viðskipti, samgöngur og menningarleg samskipti við umheiminn hafa skilað okkur bæði miklum efnahagslegum hagsbótum og auknum lífs- gæðum í víðari skilningi. Sú leið, sem flest ríki hafa farið, er að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi með öðrum ríkjum til að takast á við þau vandamál, sem alþjóðavæðingin skapar, í sameiningu og leitast þannig við að vinna til baka þá fullveldisskerðingu sem þau hafa orðið fyrir. Á vettvangi Evrópu- sambandsins hafa ríki gengið lengst í þess- ari viðleitni; þau hafa meðvitað sett hluta af fullveldi sínu í sameiginlegan pott. Vandamálin liggja hins vegar í því hversu erfitt er að koma við lýðræðislegu taumhaldi í alþjóðlegu samstarfi. Fulltrúar ríkisstjórna gera málamiðlanir í gífurlega flóknum samn- ingaviðræðum. Þótt stjórnvöld reyni að taka tillit til almenningsálits þegar þau gefa samningamönnum sínum umboð, er aldrei nokkur leið að spyrja almenning álits á al- þjóðasamningum. Jafnvel þótt þjóðþing þurfi að samþykkja slíka samninga er ekki mjög sennilegt að þeim sé hafnað, því að þá er botninn dottinn úr samningaviðræðunum og þarf að byrja upp á nýtt. Menn vilja heldur hafa samning, sem þeir eru ekki fullkomlega ánægðir með, en engan. Þetta á almennt við um öll ríki. Ísland er hins vegar í þeirri sérkennilegu stöðu að hafa í raun falið alþjóðlegri stofnun, Evrópu- sambandinu, að semja fyrir sig stóran hluta þeirrar löggjafar, sem gildir á Íslandi. Þeir, sem taka ákvarðanir um þá löggjöf, sækja umboð sitt á engan hátt til íslenzkra kjós- enda. Þeir eru raunar nú þegar gagnrýndir fyrir að hafa mjög óljóst umboð frá kjós- endum í aðildarríkjum Evrópusambandsins; fyrirbærið er kallað lýðræðishalli. Þegar ákvarðanirnar hafa verið teknar, á Alþingi Íslendinga í raun ekki þann kost að hafna þeim, því að þá væri samningurinn um Evr- ópska efnahagssvæðið, sem fært hefur okk- ur miklar framfarir og hagsbætur, úr sög- unni. Þetta hafa sumir viljað kalla tvöfaldan lýðræðishalla – og er viðfangsefni, sem ekki verður horft framhjá ef menn vilja auka og bæta lýðræðið á Íslandi. Bæði okkar eigið samfélag og alþjóða- samfélagið, sem við hrærumst í, tekur stöð- ugum breytingum. Við verðum að fylgja breytingunum eftir og laga lýðræðishefð okkar að þeim. Lýðræði í heimi breytinga „Bæði okkar eigið samfélag og alþjóða- samfélagið, sem við hrærumst í, tekur stöð- ugum breytingum. Við verðum að fylgja breytingunum eftir og laga lýðræðishefð okkar að þeim,“ segir í þessari grein þar sem fjallað er um stöðu lýðræðis á Íslandi í al- þjóðlegu samhengi. Eftir Ólaf Þ.Stephensen olafur@mbl.is Morgunblaðið/Sverrir Pallborð Ráðstefnunni Betra lýðræði? lauk með umræðum þar sem þátt tóku Stein Ringen, Torfi Tulinius, Sandrine Rui, Sigurborg Kr. Hannesdóttir, Ingi- björg Sólrún Gísladóttir, Ólafur Þ. Stephensen, Aðalheiður Jóhannsdóttir, Bjarni Benediktsson og Karl Blöndal.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.