Lesbók Morgunblaðsins - 09.10.2004, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 09.10.2004, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 9. október 2004 Þ að kom vissulega á óvart þegar fréttist um liðna helgi að Richard Avedon væri allur; hefði látist af völdum heila- blóðfalls á sjúkrahúsi í Texas. Þessi risi í bandarískri ljós- myndun var að vísu orðinn 81 árs gamall, en á síðustu sextíu árum hefur hann aldrei slegið af, heldur hefur haldið áfram að skrá- setja og skapa ásýnd bandarískrar menn- ingar af einstökum þrótti. Þegar hann lést var hann í Texas að vinna að verkefni fyrir tímaritið New Yorker, að mynda kosn- ingaslag forseta- frambjóðendanna. Þá vann hann ótrauður að því að uppfylla samn- inga um nýjar bækur og ýmiss konar ljós- myndaverkefni sem áttu að endast honum næsta áratuginn, hið minnsta. Á þessu ári hafa því nokkrir helstu ljós- myndarar 20. aldar tekið sína síðustu ljós- mynd. Henri Cartier-Bresson, tísku- ljósmyndarinn Helmut Newton, fréttaljósmyndarinn Eddie Adams, og nú Avedon. Frægasti tískuljósmyndarinn Avedon hefur síðustu fimmtíu árin verið lif- andi ímynd tískuljósmyndarans – og jafn- framt fyrirmynd þeirra sem hafa látið sig dreyma um að hasla sér völl í þeim bransa. Avedon umbylti því sviði ljósmyndunar sem þekkt er sem tískuljósmyndun en hann var afar næmur á hvers kyns strauma í sam- félaginu og náði að beina þeim inn í mynd- heiminn. Í myndunum fangar hann frelsi, spennu og kraft í þeirri sköpun sem liggur að baki tískunni. Þegar Avedon kom fram á sjónarsviðið í lok seinni heimsstyrjaldarinnar, færði hann fyrirsæturnar úr vernduðu umhverfi stúd- íósins út í hversdagsraunsæi götunnar. Og það var sama hvaða hugdettur hann kom með varðandi tískumyndir, allar voru þær merktar hugkvæmni og óræðri spennu. Stíll Avedons varð strax auðþekktur – og er það í sjálfu sér merkilegt því efnistökin voru svo fjölbreytileg. Þrátt fyrir að vera frægasti ljósmyndari Bandaríkjanna – sess sem hann hélt einn eftir að landslagsljósmyndarinn Ansel Adams féll frá – þá var Avedon ekki mikið fyrir sviðsljósið. Til þess var hann einfald- lega alltof upptekinn. Hann vann sam- kvæmt stífri stundaskrá í stúdíóinu í rauð- brúna húsinu sínu á austurhluta Manhattan; myndaði tísku, portrett og auglýsingamynd- ir; og svo var hann iðulega á ferðinni út um heim að vinna að ólíkum verkefnum. Þegar tími gafst til sinnti hann hugðarefnum á sviði menningar og mannréttindamála. Orka hans virtist endalaus og hann gerði líka miklar kröfur til samstarfsmanna, eins og aðstoðarmanna í stúdíói og prentaranna sem prentuðu myndir hans. Þeir gáfust ófá- ir upp á fyrirganginum í karli. En Avedon hafði það sem Bandaríkja- menn kalla „dræf“ og það í ómældu magni. Hann setti sér markmið og hvikaði ekki frá þeim. Hann vildi líka stjórna þar sem hann var staddur, og það sést í ljósmyndum hans. Tæknilega eru þær afar vel gerðar; lýsingin er merkt honum, innrömmunin stílhrein, en síðast og ekki síst þá lúta fyrirsæturnar oft- ast hans stjórn – eða frekar járnaga. Og á það bæði við um tískumódel og þekkta stjórnmálamenn. Avedon setti sinn brag á myndefnið – og víst er að myndir hans geta verið miskunnarlausar og algjörlega lausar við skjall. Á stundum finnst manni hann jafnvel vera kvikindislegur við fólkið sem situr fyrir hjá honum. En þannig kvaðst hann líta undir yfirborð hlutanna. „Svona sé ég,“ sagði hann. Enginn sannleikur Eftir því sem leið á feril Avedons, gerði hann sífellt meira af því að taka portrett- myndir. Og portrettin hans eru oft auð- þekkt; fólkið er fyrir framan hvítan bak- grunn og eins og svífur þar í tómarúmi – það er ekkert sem augun beinast að annað en ásjónan á myndinni og tilfinningarnar sem þar birtast. „Portrett er ekki eft- irmynd,“ sagði Avedon eitt sinn. „Augna- blikið þegar tilfinningu eða staðreynd er breytt í ljósmynd er þá ekki lengur stað- reynd heldur skoðun. Það er ekki til neitt sem kalla má ónákvæmni í ljósmynd. Allar ljósmyndir eru nákvæmar. Engin þeirra er sannleikur.“ Og skoðun Avedons á fólkinu sem hann myndar er oft afar óvægin, einlæg á sinn hátt, og vissulega óvenjuleg. Hann brá upp glamúrsvipmyndum af þekktustu módelum síns tíma, en eftirminnilegri eru myndir af fólki úr menningargeiranum, eins og af Charlie Chaplin, Ezra Pound, Allen Gins- berg og Marilyn Monroe sem er eins og týnd í sjálfri sér. Þá er það Andy Warhol með genginu sínu í Verksmiðjunni, gömlu perluskreyttu konurnar sem kölluðu sig Dætur amerísku byltingarinnar og hinn lúni William Casby, fyrrum þræll. Þetta eru frægar myndir sem bera snilli Avedons vitni, sumar orðnar klassískar fyrir löngu. Árið 1962 var fyrsta einkasýning Avedons haldin í Smithsonian-safninu í Washington. Hann þakti veggi safnsins með myndum, með sterkri tilvísun í heim tímaritanna sem hann hrærðist í. Þegar kom fram á áttunda áratuginn fylgdist Avedon spenntur með þeirri viðurkenningu sem ljósmyndamiðill- inn var að öðlast í heimi myndlistarinnar, og sóttist mjög eftir að taka þátt í þeirri þróun. Síðan þá hefur enginn ljósmyndari haldið jafn margar sýningar í helstu söfnum Bandaríkjanna. Árið 1974 sýndi hann slá- andi portrettseríu af deyjandi föður sínum í Museum of Modern Art og ári síðar var stór sýning á portrettum hans í Marlbor- ough Gallery. Það var mikið vísað til þess- arra tveggja sýninga, í ræðu og riti, þegar fjallað var um áhrifamátt ljósmynda í sam- tímanum. Árið 1977 var sett upp yfirlitssýning á verkum Avedons í Metrópólitan safninu, sýning sem flakkaði eftir það um heiminn. Önnur stór yfirlitssýning var sett upp í Whitney safninu árið 1994 og enn ein, og aftur í Metrópólitan safninu, fyrir tveimur árum. Sýningin í Whitney safninu fékk frekar slæma dóma, ekki síst fyrir þá sök, að þar voru afar fáar tískumyndir; gagnrýn- endum þótti sem ljósmyndarinn reyndi að upphefja sig í listheiminum með því að út- lioka tískuna, sem þótti kannski ekki eins „fín“ og sjálfstæðu verkefnin hans, eins og portrettseríurnar. En valið á myndunum í Metrópólitan safninu var allt öðruvísi og þar þótti vera brot af öllu því besta sem Avedon hafði gert á 60 árum. Prentin flenn- istór – allt upp í sex metra breið – og allt handbragðið þótti meistaranum til sóma; þetta var sýning sem þótti staðfesta stöðu hans á hátindi píramídans. Og safnið þáði verkin öll að gjöf. Michael Kimmelman, gagnrýnandi New York Times, skrifaði um sýninguna: „Flestir ljósmyndarar reyna að hafa ljósmyndir sín- ar nógu grípandi til að fólk stöðvi við þær. Avedon gengur lengra en það. Hann ræðst á þig ... Og útkoman er ógleymanleg. Þú kemst ekki undan þessum myndum.“ Bandarísk skrásetning Og Avedon var iðinn við það síðustu tvo áratugi eða svo að endurvinna verk ferilsins á ýmsan máta. Hann hafði reglulega sent frá sér bækur með ljósmyndum, eins og Ob- servations (1959), með texta eftir Truman Capote; Nothing Personal (1964) með texta eftir gamlan skólabróður, James Baldwin; Portraits (1976) og In the American West (1985). Síðastnefnda bókin er kannski hans þekktasta, en í henni eru portrett af fólki sem ljósmyndarinn rakst á á ferðalögum á árunum 1978 til 1984. Þetta var fólk sem Avedon sagði standa fyrir ameríska vestrið á þeim tíma: fyrrum fangar, flækingar, drykkjumenn – ein frægasta mynd bók- arinnar sýnir hárlausan albínóa þakinn bý- flugum. Sumir sögðu þetta kaldhæðið port- rett af Bandaríkjunum en víst er þetta afar sterk myndröð. Avedon gerði síðan frægan útgáfusamn- ing árið 1993, um gerð átta ljósmyndabóka hið minnsta. Sú fyrsta, Sjálfævisaga eða Autobiograpy kom út 1993 og var ekki sú skrifaða frásögn sem sumir höfðu vænst, heldur mikill doðrantur með frásögn í myndum, gömlum og nýjum, tísku og portrettum, fjölskyldumyndum og fréttafrá- sögnum. Eins og áður sagði var Avedon að vinna að verkefni fyrir The New Yorker-tímaritið þegar hann lést. Það vakti gríðarlega at- hygli, a.m.k. innan ljósmyndaheimsins, þeg- ar hann var ráðinn fyrsti ljósmyndari þess, en þetta gamla og rótgróna tímarit hafði fram að því birt fáar ljósmyndir og litlar. Hann var titlaður „staff photographer“ en í tímaritinu U.S.A. Today var sagt að það væri eins og að kalla Michelangelo húsamál- ara í einhverju fyrirtæki. En Avedon sá þessa stöðu sem tækifæri til að þróa mynd- heim sinn frá tískunni. „Ég hef ljósmyndað nokkurn veginn alla í heiminum,“ sagði hann. „En það sem ég vonast til að geta gert er að ljósmynda fólk sem hefur afrekað eitthvað, ekki fræga fólkið, og hjálpa til við að skilgreina muninn þar á.“ Avedon var gefið leyfi til að gera „hvað sem hann vildi“ innan tímaritsins, og á liðnum áratug hefur hann oft á tíðum nýtt sér það leyfi á eft- irminnilegan hátt. Í The New Yorker hefur mátt finna hvað áhugaverðasta ljós- myndaefnið á prenti, á meðan önnur tímarit og dagblöð verða hvert öðru lík; apa kækina eftir hvert öðru. Myndir hans þar hafa verið afar fjöl- breytilegar; frumlegar tískuseríur, myndir úr viðamiklu myndasafni hans og portrett af fólki á borð við Christopher Reeve, Hillary Clinton, Derek Walkott og John Kerry. Avedon var New York-búi fram í fing- urgóma. Oft mátti sjá hann skjótast eftir götunum, smávaxinn og snöggan í hreyf- ingum, með mikið og liðað grátt hár. Með blaðabunka undir hendinni og hóp aðstoð- armanna með myndavélar og ljós í eft- irdragi. Eitt sinn vann ég við ljósmynda- uppboð til styrktar eyðnirannsóknum hjá Sothebys í New York, en Avedon stóð fyrir því. Hann setti upp stúdíó í uppboðshúsinu og sama gerðu fjórir aðrir ljósmyndarar, sem hann hafði fengið í lið með sér. Síðan mætti ríka fólkið í myndatöku og greiddi of fjár fyrir. Það var gaman að fylgjast með karlinum, sem var þá um sjötugt; hvar hann skaust milli viðskiptavina og ljósmyndara, gesta sem voru komnir að bjóða í myndir, eða dýranna sem voru statistar hjá sumum ljósmyndaranna. Hann var konungurinn í húsinu; átti salinn og vissi vel af því. Og vinkona mín hafði á orði að svona yrði þetta örugglega næstu áratugina – ef einhver næði 100 ára aldri yrði það Richard Aved- on. En það varð ekki raunin. Eftir að hafa unnið síðasta árið að því að skrásetja fram- boð þeirra Bush og Kerrys í Bandaríkj- unum, er Avedon horfinn af sjónarsviðinu og skilur eftir sig ljósmyndir sem í senn mótuðu og skráðu bandarískt mannlíf og menningu á seinni hluta 20. aldar. Ímynd tískuljósmyndarans Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is Á þessu ári hafa nokkrir helstu ljósmyndarar síðustu aldar smellt af í síðasta sinn, nú síðast Richard Avedon. Hann hefur síðustu fimmtíu árin verið lifandi ímynd tískuljósmyndarans – og jafnframt fyrirmynd þeirra sem hafa lát- ið sig dreyma um að hasla sér völl í þeim bransa. Avedon við myndavélina í stúdíóinu árið 1994. Ljósmynd eftir Patrick Demarchelier, sem er í dag aðalljósmyndari Harper’s Bazaar, en þeirri stöðu gegndi Avedon árum saman, áður en hann flutti sig yfir á Vogue. „Dovima með fílum“ Ljósmynd tekin í ágúst árið 1955 af módeli í Dior-kjól í fjölleikahúsi er ein af þekktustu tískumyndum Avedons – og ein kunnasta tískumynd ljósmyndasögunnar. Patrick Demarchelier/Reuters Richard Avedon/Reuters

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.