Morgunblaðið - 28.12.2003, Blaðsíða 23
ÞRÝSTINGUR EÐA EKKI ÞRÝSTINGUR Það vakti einmitt nokkurt umtal og
fjaðrafok í þjóðfélaginu, fjölmiðlum og innan kvikmyndageirans, að við styrk-
umsókn til Kvikmyndasjóðs voruð þið báðir skrifaðir fyrir handritinu og það gagn-
rýnt að forsætisráðherra væri á slíkri umsókn. Skilurðu þá gagnrýni?
„Nei,“ svarar Davíð, „ég botna ekkert í henni. Sjálfsagt hefði hún komið upp,
jafnvel þótt myndin væri aðeins byggð á smásögu eftir mig – að það hefði dugað til
að menn töluðu um ofboðslegan þrýsting á Kvikmyndasjóð. Ég hugsa að frekar hafi
verið til bölvunar fyrir Hrafn að mitt nafn var á umsókninni; þá gangast einhverjir
upp í því að tala um óeðlilegan þrýsting. Ég hef lengi verið svokallaður valdamaður
og ég veit að þrýstingur fer ekki þannig fram að nafn forsætisráðherrans sé fyrir
opnum tjöldum sett á einhverja umsókn. Þrýstingur verður með allt öðrum hætti.
Það var allt opið varðandi að ég hafði komið að handritinu. Að öðru leyti kom mér
þetta ekkert við; það er ekki einsog peningar hafi verið að hverfa til mín.“
Hrafn: „Það var reynt að nota þessa mynd til að koma pólitísku höggi á Davíð, en
hann kveinkaði sér aldrei og fór ekki á taugum.“
„Ég fann fyrir mikilli tortryggni og reiði út af þessu,“ heldur Hrafn áfram, „eink-
um frá kollegum mínum. Á síðasta aðalfundi Félags kvikmyndaleikstjóra tilkynnti
formaðurinn, Friðrik Þór Friðriksson, yfir alla fundarmenn að hann ætlaði að kæra
það að forsætisráðherra væri á umsókn til Kvikmyndasjóðs og hafði um það stór
orð; mér þótti sorglegt að þessi gamli félagi minn skyldi bregðast svona við og hart
að sitja undir slíku á fundi. Hjá öðrum þjóðum þar sem menn í æðstu stöðum eru
einnig skapandi listamenn, eins og Vaclav Havel forseti var í Tékklandi, þykir það
fagnaðarundur. Hjá okkur, í þessu mikla návígi, má eiginlega enginn gera neitt
nema vera á sínum bás; ef menn leyfa sér að fara pínulítið út fyrir hann er byrjað að
æmta og skræmta. Og eins og Davíð segir, ég held að það hafi frekar verið mér til
bölvunar að nafn æskufélaga míns, sem svo vill til að er forsætisráðherra, var á um-
sókninni. Erlendis þegar menn, sem áttu ekki í neinu persónulegu návígi við verkið,
fjölluðu um það, eins og dramatúrgar norrænu sjónvarpsstöðvanna, þá voru við-
brögðin aðeins á forsendum verksins sjálfs, sem þeim þótti skemmtilegt og vildu
styðja. Ég hafði þannig fjármagnað myndina uppí topp erlendis en þegar ég sótti
um framleiðslustyrk til Kvikmyndasjóðs Íslands á sínum tíma var því hafnað og
peningar frekar settir í vilyrði til mynda sem enn hafa ekki verið framleiddar. Það að
Kvikmyndasjóður brást varð til þess að erlenda fjármagnið fór að mestu í vaskinn,
því framlag úr honum var forsendan fyrir því. Auðvitað læðist sú hugsun að manni,
hvort sem hún er rétt eða ekki, að þarna hafi verið brugðið fæti fyrir mann. Fjár-
mögnun á þessari litlu mynd reyndist mér erfiðari og torsóttari en á öðrum og mun
dýrari og viðameiri verkum. Ekki tjáir að deila við dómarann og að lokum fékkst
styrkur úr sjóðnum, en þá var aðeins lítill hluti erlenda fjármagnsins enn til staðar.“
JARMAR HVORKI NÉ HAMRAR Myndin var forsýnd í bíói til að fullnægja skil-
yrðum Kvikmyndasjóðs en verður frumsýnd í sjónvarpi til að fullnægja skilyrðum
Sjónvarpsins og fer svo aftur í bíó á almennar sýningar. Þetta er dálítið sérkenni-
legt?
„Upphaflega átti myndin að verða sjónvarpsmynd,“ svarar Hrafn. „Síðan er
ákveðið að gera hana að bíómynd og sækja um í Kvikmyndasjóð. Þá detta tvær nor-
rænar sjónvarpsstöðvar út úr fjármögnuninni; eftir eru íslenska, sænska og finnska
sjónvarpið. Þegar ég svo fæ ekki styrk úr sjóðnum sit ég uppi með það að hafa bæði
misst sjónvarpsmyndina og bíómyndina hvað fullnaðarfjármögnun varðar. Ég varð
þá að hugsa dæmið upp á nýtt til að myndin fengist gerð. Og sú lausn sem fannst
var samþykkt af bæði Sjónvarpinu og Kvikmyndasjóði þótt hún sé vissulega
óvenjuleg og hafi ekki verið reynd áður. En allt þetta ferli er svo mikið að breytast.
Myndir eru frumsýndar á Netinu, í sjónvarpi, í bíó, jafnvel á myndböndum og
DVD, og þessi gamla sýningaröð er öll að riðlast. Ég raskaði henni ekki heldur
tæknin. Vel má vera að þessi röð gangi ekki upp; ég verð bara að bíða og sjá.“
Hrafn segir að sú mynd sem nú er orðin til eftir erfitt framleiðsluferli sé að uppi-
stöðu til sú sem hann hafði viljað gera. „Þetta er sú mynd sem ég vildi gera þegar ég
gerði hana þótt hún sé kannski ekki alveg sú mynd sem ég sá fyrir mér upphaflega.
Inni í mér er ég mjög sáttur við hana. Hún er allt öðruvísi en allt annað sem ég hef
gert. Kannski líkist hún mest mínum bernskubrekum.“
Davíð kveðst hafa verið búinn að sjá grófklipp af myndinni áður en hann settist í
sal Háskólabíós á forsýningunni, en samt hafi hún komið sér skemmtilega á óvart.
„Ég kom spenntur en um leið afslappaður í bíóið og hló án þess að finnast ég vera
asnalegur og þurfa að passa mig að hlæja ekki að eigin verki því þarna var komin
önnur saga, eitthvað nýtt. Í salnum voru ekki há hlátrasköll heldur skynjaði maður
hvernig menn hristust í sætum sínum og tístu undir niðri. Þannig er húmorinn í
þessari mynd. Það sem skipti mestu var að mér fannst myndin ganga upp. Og hún
jarmar ekki eða reynir að hamra inn í áhorfendur afstöðu sína eða boðskap. Svo eru
þarna fallegar senur eins og af sambandi þessarar góðu, gömlu mömmu við dreng-
inn sinn, Hannes; andstæðan við þá kvenímynd er hin nútímalega kona, sem er yf-
irmaður Hannesar á Eftirlitsstofnun, harðger og myndarleg með nýja sýn á hlutina.
Að ógleymdum stórleik Viðars í aðalhlutverkinu sem aldrei verður ofleikur. Það
eina sem ég er hræddur við er að fólk haldi að Viðar sé svona! Allt þetta fór af-
skaplega vel í mig. Mér finnst stemning í kringum þessa mynd; ég hef fundið á þeim
sem séð hafa að fólk er ánægt.“
HEIMUR HANNESAR – HUGARHEIMUR OKKAR Tökum Hannes H. Aðal-
steinsson, deildarstjóra leyfisveitingadeildar Eftirlitsstofnunar ríkisins, þennan
búralega en ósérhlífna og iðna kerfiskall og miðaldra mömmustrák sem gengst
mjög upp í stöðu sinni og því valdi sem henni fylgir – hafið þið kynnst þessum
manni í raunveruleikanum?
„Já, ég hef þekkt nokkra svona menn,“ svarar Davíð. „Það er svolítið merkilegt
að þeim finnst í hjarta sínu að þeir séu að gera fólki góðverk þegar þeir eru í raun-
inni aðeins að sinna skyldustörfum sínum og framfylgja fyrirmælum alþingis um
réttindi almennings. Það var eins og þessu starfsfólki kerfisins, sem flest var og er
gott fólk og prýðilegt, fyndist það ekki hafa nægilegan tilgang í lífinu án þeirrar til-
finningar að það væri að úthluta greiðum. Það vildi af einlægni gera góðverk, upp-
fylla einhvers konar hugsjón. Þetta var alveg nýtt fyrir mér þegar ég kom inn í kerfið
hjá Sjúkrasamlaginu. Hannes H. Aðalsteinsson lifir í þessum heimi. Hann telur sig
vera að gera góðverk þegar hann afgreiðir, með nauðsynlegum aga og reglufestu,
beiðnir fólks um leyfi og undanþágur, þótt allt sé að verða vitlaust á biðstofunni!
Því fleiri hömlur þeim mun meiri góðverk getur hann gert. Og sjálfur er ég alla
daga, þrátt fyrir mína pólitísku hugsjón, að skapa æ betri skilyrði fyrir slíkum góð-
verkum! Þjóðfélagið hefur þróast þannig, sem kemur betur fram í myndinni en sög-
unni, að allir kalla á þetta, hver með sínum hætti. Menn fárast yfir reglugerðarfarg-
ani en um leið og eitthvað kemur upp sem bitnar á þeim sjálfum rísa þeir upp og
krefjast þess að ríki eða sveitarfélög setji reglur sem komi í veg fyrir slíkt.“
Í myndinni koma einmitt oft fram, hvort sem er aðeins á hljóðrás eða einnig í
mynd, alls kyns fréttaviðtöl sem ganga út á að fréttamennirnir spyrja valdamennina
eitthvað á þessa leið: Verður ekki ríkið að taka á þessu máli? Verður ekki að setja
skýrari lög?
„Já,“ segir Davíð, „og á mínum stjórnmálaferli hefur sem næst önnur hver spurn-
ing sem ég hef fengið verið á þá leið. Og svo bregðumst við jafnan við einmitt með
þessum hætti, að setja fleiri lög og skýrari reglur. Því miður. Núna síðast lenti ég í
þessum bankamálum, þar sem ég hef haft trú á viðskiptalegu frelsi. Svo þegar mér
finnst menn farnir að notfæra sér það frelsi í ótæpilegum mæli verður það fyrst fyrir
mér að hugsa: Heyrðu, ég kemst ekki upp með annað en setja þetta í fastara form,
innansviga: reglur! Mér fannst það því mjög gott á mig um daginn þegar ég kom
heim úr vinnunni og var að fara yfir póstinn að eitt umslagið var merkt Eftirlits-
stofnun ríkisins. Ég hugsaði strax með mér: Andskotinn! Hefur þessi stofnun tekið
til starfa og verið skírð án þess að ég hafi vitað um það? Þarna var ég bölvandi og
ragnandi yfir þessu uns ég opnaði umslagið og tók upp úr því boðsmiða á forsýn-
ingu á Opinberun Hannesar!“
„HEFUR ÞESSI
STOFNUN TEKIÐ
TIL STARFA OG
VERIÐ SKÍRÐ ÁN
ÞESS AÐ ÉG HAFI
VITAÐ UM ÞAÐ?“
28.12.2003 | 23
FRELSIÐ SKAL VERJA MEÐ BOÐUM OG BÖNNUM