Morgunblaðið - 17.07.2004, Side 22
MINNSTAÐUR
22 LAUGARDAGUR 17. JÚLÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Selfoss | „Þetta kom nú til vegna þess að ég
lenti í smáveðmáli um síðustu áramót og sagði að
ég myndi raka mig þegar ákveðnu máli lyki. Ég
hélt að málið tæki stuttan tíma en svo varð ekki
og þegar kom að rakstri var hárið og skeggið
orðið nokkuð mikið. Einar Már Guðmundsson
rithöfundur bað mig að gera Friðriki Þór kvik-
myndagerðarmanni viðvart um þennan hárvöxt.
Hann var þá með kvikmyndun á Bjólfskviðu í
undirbúningi með öðrum og bað mig að skerða
ekki hár og skegg. Nú er ég búinn að fara í viðtöl
og hef lesið handritið og líst bara vel á þetta,“
segir séra Kristinn Á. Friðfinnsson, sókn-
arprestur í Hraungerðisprestakalli, en það hefur
vakið athygli fólks hversu hár og skegg hans er
mikið.
Séra Kristinn býr á Selfossi og hefur verið
prestur í 14 ár í prestakalli sínu en í starfi sínu
hefur hann lagt áherslu á að þjónusta samfélagið
með því að aðstoða fólk í ýmsum vandamálum
sem steðja að. „Þetta er sálgæsla sem hefur vax-
ið mjög og er nú orðin hátt í 90% af starfi mínu.
Hér er yfirleitt um að ræða persónuleg vanda-
mál ungs fólks, vanda einstaklinga í sálarnauð og
tilvistarkreppum og svo hjónaviðtöl. Ég legg
áherslu á að vinna að þessum verkefnum með
markvissu faglegu verklagi. Ég hef í vaxandi
mæli fengið fólk til mín frá heilsugæslunni sem
læknar vita að þarf á kerfisbundnum viðtölum og
handleiðslu að halda,“ segir séra Kristinn sem
hefur sótt sér aukna menntun á þessu sviði. „Ég
hef sérhæft mig í sálgæslu og nota sérstakar að-
ferðir við hana sem byggjast á markvissu verk-
lagi og viðurkenndri aðferðafræði sem skilar oft-
ast góðum árangri ef vilji skjólstæðinga er fyrir
hendi.
Það er mikil þörf á því að gefa fólki kost á að
tjá sig vel. Ég fer síðan yfir þá verkáætlun sem
ég hef í hyggju að starfa eftir og legg það undir
fólkið til samþykkis áður en við hefjumst handa.
Það tryggir stefnufestu og skilvirkni. Fólk er
stundum hrætt og kvíðið að tjá sig um viðkvæm
persónuleg mál og þá skiptir miklu máli að
byggja upp traust,“ segir séra Kristinn og enn-
fremur að þetta sé mjög gefandi þáttur í starfi
hans. „Það þurfa allir á því að halda að tala við
einhvern og eiga trúnað en í dag virðist sem hjón
eigi það til að fjarlægjast hvort annað og síðan
eru það fordómarnir í samfélaginu sem eru oft
hindrun fyrir þá sem eiga í vanda. Það vill enginn
láta dæma sig. Það þarf oft að byggja upp tengsl-
anet í kringum einstaklinga sem lifa í einangrun
og laða fram samfélag fyrir þá í gegnum sam-
starf við annað fólk og stofnanir,“ sagði Kristinn.
„Ég er á vissan hátt dálítið hræddur um stöðu
hjónabandsins og finnst að það sé alið um of á
sjálfselsku í samböndum fólks og það vanti meiri
ábyrgðartilfinningu. Það er mikil yfirborðs-
mennska í gangi. Fólki finnst það eiga sig sjálft
Prestsstarfið gefur manni
stórkostlegar stundir
Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
Leikari: Kristinn Ágúst Friðfinnsson, sóknarprestur í Hraungerðisprestakalli, á skrifstofu sinni.
og að það eigi rétt á hinu og þessu svo sem að
fara eitt út að skemmta sér, svo dæmi sé tekið.
Ég held að sjónvarpið og auglýsingarnar dragi
bæði egóið og dýrseðlið um of fram hjá fólki. Það
er hins vegar nauðsynlegt að fólk þreyi þorrann
og standi af sér stormana í stað þess að gefast
upp,“ segir séra Kristinn sem lítur á sálgæslu-
starfið sem sjálfsagða kærleiksþjónustu kirkj-
unnar við samfélagið og jafnframt besta sókn-
arfærið til að efla trúnaðinn við fólkið í landinu
þó að yfirleitt sé lítið talað um þennan þátt í
starfi kirkjunnar.
„Mér finnst dýrmætt og gaman að vera prest-
ur. Þetta er fjölbreyttur lífsmáti sem reynir á svo
margt í manni og það koma upp stórkostlegar
stundir af ýmsu tagi í starfinu sem maður gleym-
ir aldrei og svo er það þessi mikla og gefandi ná-
lægð við fólk sem vill takast á við lífið.“
Séra Kristinn Á. Frið-
finnsson er með ábúð-
armikið hár og skegg
Ítrekanir | Undanfarnar vikur hafa nem-
endur verið að staðfesta skólavist sína
næsta vetur með því að greiða innrit-
unargjöldin vegna haustannar 2004. Ein-
daginn var 5. júlí, og nú hafa 708 greitt
gjöldin, en á mánudaginn munu ítrek-
unarbréf fara í póst til þeirra 176 nemenda
sem ekki hafa greitt þau. Í ítrekunarbréf-
inu kemur fram að viðkomandi verði teknir
af nemendaskránni hafi þeir ekki gert
hreint fyrir sínum dyrum eigi síðar en
fimmtudaginn 22. júlí. – Nokkrir nemendur
eru á biðlista eftir skólavist.
Íþróttahúsið | Bygging íþróttahúss Fjöl-
brautaskóla Suðurlands er nú á lokastigi.
Föstudaginn 16. júlí er stefnt að verklokum
varðandi íþróttasalinn og tilheyrandi rými
en þriðjudaginn 27. júlí varðandi vest-
urálmu hússins en þar er m.a. að finna sex
bóklegar kennslustofur. Fyrri hluti ágúst-
mánaðar verður síðan nýttur til þess að
koma lausum búnaði og tækjum fyrir í hús-
inu. Ekki hefur verið ákveðið hvenær bygg-
ingin verður formlega vígð en hugsanlega
verður það um miðjan september.
Áhugi á Eyrarbakka | Áhugi er fyrir lóð-
um á Eyrarbakka en ESK ehf. í Reykjavík
hefur sótt um þrjár parhúsalóðir í Hjalla-
dæl á Bakkanum. Afgreiðslu umsóknar
þeirra var frestað í skipulags- og bygg-
inganefnd.
Sendiboðinn | Skipulags- og bygging-
arfulltrúi Árborgar hefur ákveðið að stað-
setning listaverksins Sendiboðans verði á
opnu svæði milli Langholts og „Fjallsins
eina“. Listaverkið hefur verið á nokkru
flakki og í ljós mun koma hvort þessi stað-
setning byggingarfulltrúa verður viðvar-
andi en bæjarráð fól honum að finna nýjan
stað fyrir listaverkið þegar óánægja kom
fram með staðsetningu á hringtorgi við
Suðurbyggð.
Skólaræsting boðin út | Eftirfarandi til-
boð bárust í ræstingu og hreingerningu á
Sunnulækjarskóla 2004–2007. Allar fjár-
hæðir eru án vsk. ÓS verktakar sf. buðu
351.637 kr. Ræstingarþjónustan sf. 644.258
kr. Gæðaræsting ehf. 570.193 kr. Iss Ísland
ehf. 515.333 kr. Moppan 986.059 kr. Enjo
690.979 kr. Bónbræður ehf. 565.570 kr.
Hreint ehf. 410.723 kr. Hreint ehf. Frá-
vikstilboð 373.567 kr.
Bæjarmál í Árborg
Laxamýri | Ólafur Atlason er þriðji
framkvæmdastjóri Garðræktarfélags
Reykhverfinga hf. í beinan karllegg.
Eru langfeðgarnir þeir einu sem stýrt
hafa starfsemi þessa 100 ára hluta-
félags sem er eitt af þeim elstu á land-
inu.
Garðræktarfélag Reykhverfinga
hf. starfar á Hveravöllum í Suður-
Þingeyjarsýslu. Það var stofnað 17.
júlí 1904 á Reykjum og verður því
hundrað ára í dag. Á stofnfundinum
voru 23 menn, flestir ábúendur í
Reykjahverfi. Baldvin Friðlaugsson
var fyrsti framkvæmdastjóri félags-
ins, þá sonur hans, Atli Baldvinsson.
Ólafur tók síðan við af föður sínum og
hefur rekið fyrirtækið í mörg ár. Ólaf-
ur og kona hans, Alda Pálsdóttir, eru
aðaleigendur fyrirtækisins eftir að
þau keyptu eignarhluti Kaupfélags
Eyfirðinga og Þingeyinga á árinu
2001 en kaupfélögin höfðu lengi verið
helstu bakhjarlar þess.
Gróðurhúsin á Hveravöllum eru
um 6900 fermetrar. Á þessu ári nem-
ur heildarframleiðslan allt að 190
tonnum og þar af eru tómatar um 160
tonn, gúrkur 16 tonn og paprikur 8
tonn. Þá er framleitt mikið af sum-
arblómum sem seld eru á vorin. Yfir
sumarið eru 16 heil störf í fyrirtækinu
en segja má að um 9 ársverk sé að
ræða fyrir utan verktakavinnu við
ýmsar framkvæmdir sem keypt er
þar fyrir utan.
Tómata- og gúrkurækt
frá árinu 1933
Fyrirtækið var landnemi á sínu
sviði og varð það að mæta ýmsum
örðugleikum í uppvexti sínum. Fyrstu
ár sín stóð félagið nær einungis að
kartöflurækt við hverina og 1910 var
uppskeran um 370 tunnur, en Þing-
eyingum þótti mikið hagræði á þeim
tíma að geta fengið þessa vöru keypta
á heimaslóðum. Sótti þá fólk úr nær-
sveitum vinnu við hverina haust og
vor. Auk kartöfluræktarinnar hafði
félagið dálitla rófnarækt, túnrækt og
engjaheyskap. Um tíma var heyöflun
allstór liður í rekstrinum.
Haustið 1933 var fyrsta gróðurhús-
ið byggt og var stærð þess 50 fer-
metrar og þremur árum síðan var
byggt annað hús helmingi stærra.
Þar með hófst tómata- og gúrkurækt
og horfið var frá heyöflun og kart-
öflurækt. Það var mikill áfangi og eft-
ir á sögðu menn að komið hefði ný
landbúnaðarframleiðsla, ný og holl
fæða suðrænnar ættar og með félag-
inu hefði atvinna í héraðinu aukist.
Undir stjórn Ólafs og Öldu hefur
Garðræktarfélagið áfram lagt áherslu
á að halda góðu sambandi við neyt-
endur í Þingeyjarsýslum. Það hefur
marga áskrifendur að grænmeti sem
felst í því að fólk fær sent vikulega yf-
ir sumartímann böggul með nýjum
tómötum, gúrkum og fleiru heim í
póstkassann.
Þá segir Ólafur að sumarblómasal-
an gefi tækifæri til persónulegra
kynna en mjög margir fá sér bíltúr á
vorin og kaupa blóm og aðra fram-
leiðslu um leið og þeir hitta þá sem
vinna í fyrirtækinu.
Ný tækifæri
Með nýjum eigendum koma alltaf
nýjar áherslur og hægt er að velta því
fyrir sér hvort hundrað ára fyrirtæki
sem hefur verið í stöðugri þróun í alla
þessa áratugi, ætli sér eitthvað fram á
veginn í garðræktinni á næstunni.
Ólafur segir tækifærin mörg en þau
kosti peninga vegna allrar þeirrar
tækni sem krafist er í nútímagróður-
húsum. Nefnir kostnað við að koma
upp búnaði til lýsingar og heilsárs-
ræktunar. Selja þurfi mikið af græn-
meti á háu verði til að það borgi sig.
Hins vegar sé áhugavert að geta víkk-
að út starfsemina með þessum hætti
og tekist á við ný tækifæri.
Maður fram
af manni við
stjórnvölinn
Morgunblaðið/Atli Vigfússon
Eigendur: Ólafur Atlason og Alda Pálsdóttir í einu af gróðurhúsunum á Hveravöllum í Reykjahverfi.
Tómatar tóku við af kartöflum hjá Garðræktarfélagi Reykhverfinga sem starfað hefur í heila öld
ÁRBORGARSVÆÐIÐ
LANDIÐ