Morgunblaðið - 04.11.2004, Síða 8
8 FIMMTUDAGUR 4. NÓVEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Ertu líka farinn að bíta, rakkinn þinn?
Poul Schlüter, sér-legur fulltrúi nor-rænu samstarfs-
ráðherranna, segir í nýrri
greinargerð um afnám
landamærahindrana á
Norðurlöndum, að með sí-
aukinni hnattrænni sam-
keppni sé mikilvægt að
Norðurlöndunum takist að
marka sér stöðu sem opið
og landamæralaust svæði.
Þróun Evrópusambands-
ins geri það takmark enn
brýnna og þá ekki síst
stækkun sambandsins
sem þýði einingu Evrópu.
„Hér hvorki getur né á
norræn samvinna að
keppa við evrópska sam-
vinnu heldur haga sínu í samræmi
við það. Helst ættum við að ná
skrefinu lengra varðandi hreyfan-
leika þegna milli norrænna landa
og viðskipti og fjárfestingar fyrir-
tækja yfir landamæri. Norðurlönd
ættu að vera brautryðjendasvæði
fyrir árangursríkan innri markað.
Sú vinna sem nú er hafin verður að
hafa í för með sér raunhæfar úr-
bætur,“ segir Schlüter í greinar-
gerð sinni, sem hann skilaði til
þings Norðurlandaráðs í Stokk-
hólmi.
Árangur hefur náðst
Schlüter hefur unnið að því und-
anfarin ár að skilgreina landa-
mærahindranir innan Norður-
landanna og benda á leiðir til að
leysa vandamálin. Hann segir í
greinargerðinni að nokkur árang-
ur hafi náðst í því starfi að afnema
landamærahindranir milli Norð-
urlandanna og orðið sé auðveldara
að starfa og stunda nám í öðru
Norðurlandi en heimalandinu.
Hingað til hafi frjáls för borgar-
anna verið í brennidepli, en á
næsta ári verði unnið að því að
ryðja úr vegi hindrunum sem
verða á vegi atvinnufyrirtækja.
Fram kom hjá Drífu Hjartar-
dóttur alþingismanni í umræðum
á þingi Norðurlandaráðs um
greinargerð Schlüters, að nærri
sex af hverjum tíu fyrirtækjum
mæti hindrunum þegar þau flytji
vörur sínar til annarra Norður-
landa. „Þetta ætti ekki að vera
raunin milli tveggja norrænna
grannlanda,“ sagði Drífa og bætti
við að staðan væri ekki viðunandi,
hvorki fyrir fyrirtækin né stjórn-
málamennina.
Í greinargerðinni er farið yfir
ýmis málasvið, vandamál eru skil-
greind, tillögur til lausnar og
hvaða niðurstöður hafi fengist. Á
blaðamannafundi þar sem Schlüt-
er kynnti greinargerðina, lagði
hann áherslu á að pólitískur vilji
yrði að vera fyrir hendi svo hægt
væri að leysa þau vandamál sem
við væri að glíma. Sem dæmi um
góðan árangur á þessu sviði væri
samningur um skráningu í þjóð-
skrá, sem samstarfsráðherrar
Norðurlanda skrifuðu undir á
mánudagskvöld í Stokkhólmi.
Samningurinn felur í sér að ekki
verður lengur þörf á norrænu
flutningsvottorði og því þarf ekki
að bíða eftir tilheyrandi pappírum
til að hægt verði að úthluta kenni-
tölu ef borgararnir koma ekki með
pappírana með sér.
Schlüter sagði á blaðamanna-
fundinum, að áður hefði staðan
verið sú, að ef t.d. Dani flytti til
Svíþjóðar og ætlaði að leigja sér
íbúð, hefði hann þurft að fá kenni-
tölu í Svíþjóð til að gera leigu-
samning. Slík kennitala fékkst
hins vegar ekki nema viðkomandi
hefði fengið þar húsnæði.
Þegar Schlüter var beðinn að
nefna dæmi þar sem pólitískur
vilji hefði ekki verið fyrir hendi,
sagði hann að samnorræni vinnu-
markaðarsáttmálinn, sem tryggir
að norrænir þegnar geti unnið að
vild í öðru norrænu landi, nái ekki
til um 750 þúsund manna, sem eru
frá ríkjum utan Norðurlandanna
en hafa fengið varanlegt atvinnu-
eða landvistarleyfi í einu ríkjanna.
Schlüter sagðist hafa lagt til að
íhugað yrði að vinnumarkaðar-
sáttmálinn næði til þessa fólks, en
norrænir vinnumálaráðherrar
hefðu ákveðið að hafna þeirri til-
lögu. Í staðinn verður skipaður
norrænn vinnuhópur sem á að
endurskoða norræna sáttmálann
um samnorrænan vinnumarkað.
Í greinargerð sinni nefnir
Schlüter sérstaklega vandamál
vegna íslenskrar nafnahefðar en
dæmi séu um það að yfirvöld í öðr-
um norrænum ríkjum hafi hafnað
tilmælum foreldra við að skrá ís-
lensku nöfnin. Schlüter segist
hafa borið vandann upp við
danska forsætisráðherrann og
kveikjan að því hafi verið lausn,
sem Svíar hefðu fundið á málinu.
Þar geti nú íslenskir borgarar,
sem hafa jafnframt sænskt ríkis-
fang, haldið eða hlotið það nafn
sem þeir kjósa í samræmi við ís-
lenska nafnahefð. Schlüter segist
hafa verið upplýstur um að vand-
inn sé til umfjöllunar sem liður í
vinnu nafnalaganefndar og sú
nefnd hafi sent frá sér álitsgerð
sem taki m.a. á slíkum vanda.
Schlüter segist hins vegar bíða
frekari umfjöllunar.
Fréttaskýring | Greinargerð um afnám
landamærahindrana á Norðurlöndum
Löndin marki
sér stöðu sem
opið svæði
Nærri sex af hverjum tíu fyrirtækjum
mæti hindrunum í viðskiptum
Poul Schlüter fyrrverandi forsætisráðherra.
Árangur hefur þegar náðst
í því að afnema hindranir
Í nýrri greinargerð um afnám
landamærahindrana á Norður-
löndum er lögð áhersla á að með
aukinni hnattrænni samkeppni
sé mikilvægt að Norðurlönd-
unum takist að marka sér stöðu
sem opið og landamæralaust
svæði. Nokkur árangur hafi þeg-
ar náðst í því að afnema landa-
mærahindranir milli Norður-
landanna og orðið sé auðveldara
að starfa og stunda nám í öðru
landi en heimalandinu.
gummi@mbl.is