Morgunblaðið - 04.11.2004, Qupperneq 16

Morgunblaðið - 04.11.2004, Qupperneq 16
16 FIMMTUDAGUR 4. NÓVEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ ERLENT TOM Daschle, leiðtogi demókrata í öldunga- deild Bandaríkjaþings, náði ekki endurkjöri í kosningunum á þriðjudag og repúblikönum tókst að auka meirihluta sinn í deildinni með mikilvægum sigrum í Suðurríkjunum. Þeir héldu einnig meirihluta sínum í fulltrúa- deildinni og útlit var fyrir að þeir bættu þar við sig um sex þingsætum. Repúblikanar voru öruggir um 54 sæti af 100 í öldungadeildinni og frambjóðandi þeirra var sigurstranglegur í Alaska þar sem úrslitin voru enn óráðin. Fyrir kosning- arnar voru repúblikanar með 51 sæti í deild- inni og demókratar 48. Einn þingmannanna er óflokksbundinn en hefur oft stutt demó- krata. Demókratar vonuðu í gær að einn þing- manna repúblikana, Lincoln Chafee frá Rhode Island, gengi til liðs við þá í öld- ungadeildinni. Chafee kvaðst ætla að íhuga að ganga í demókrataflokkinn ef George W. Bush forseti yrði endurkjörinn. Hann hefur oft gagnrýnt stjórn Bush og kvaðst hafa skrifað nafn föður hans, George H.W. Bush, á kjörseðilinn í mótmælaskyni. Fyrsti Kúbumaðurinn í öldungadeildinni Repúblikaninn Mel Martinez sigraði í tví- sýnum kosningum í Flórída og verður fyrsti kúbversk-bandaríski þingmaðurinn í öld- ungadeildinni. Repúblikanar sigruðu einnig í ríkjunum Georgíu, Norður-Karólínu, Suður-Karólínu og Louisiana eftir harða baráttu. Er þetta í fyrsta skipti sem repúblikani fær sæti í öld- ungadeildinni fyrir Louisiana frá stjórnar- farslegri endurskipulagningu Suðurríkjanna eftir að borgarastyrjöldinni lauk 1865. Er þetta í fyrsta skipti í rúm 50 ár sem flokksleiðtogi í öldungadeildinni nær ekki endurkjöri. Útgöngukönnun Associated Press bendir til þess að Thune hafi notið góðs af því að margir kjósendanna í Suður-Dakóta töldu siðferðisleg gildi og baráttuna gegn hryðju- verkastarfsemi skipta mestu máli í kosning- unum. Kosið var um 34 sæti í öldungadeildinni að þessu sinni. Demókratar áttu á brattann að sækja þar sem baráttan var í flestum til- vikum hörðust í ríkjum þar sem fylgi George W. Bush Bandaríkjaforseta er mikið. Í meirihluta í tólf ár í röð Útlit var fyrir að repúblikanar bættu við sig um sex þingsætum í fulltrúadeildinni og fengju að minnsta kosti 233 sæti af 435. Þeir voru öruggir um 229 sæti í gær og frambjóð- endur þeirra höfðu forskot í fjórum öðrum kjördæmum. Demókratar fengu minnst 200 sæti og frambjóðandi þeirra var með forskot í einu kjördæmanna. Fyrir kosningarnar voru repúblikanar með 227 þingmenn í fulltrúadeildinni og demókratar 205. Tvö þingsæti voru auð og einn þingmannanna var óflokksbundinn en studdi demókrata. Er þetta í fyrsta skipti í 70 ár sem repú- blikanar eru í meirihluta í fulltrúadeildinni í tólf ár í röð. Nánast allir sitjandi þingmenn fulltrúa- deildarinnar náðu endurkjöri. Búist er við að nokkurra daga bið verði á því að úrslitin í kosningunum til fulltrúadeildarinnar liggi fyrir. Líklegt var að kjósa þyrfti aftur í tveimur kjördæmum í Louisiana og úrslit voru enn óráðin í nokkrum sambandsríkjum. Repúblikanar lögðu mikla áherslu á að fella Tom Daschle, sem var fyrst kjörinn í öldungadeildina fyrir Suður-Dakóta árið 1986 og sat áður í átta ár í fulltrúadeildinni. Hann var síðast endurkjörinn 1998 og fékk þá 62% atkvæðanna. Kjörfylgi hans var 49% á þriðjudag og frambjóðandi repúblikana, John Thune, fékk 51%. Munurinn var um 4.500 atkvæði. Repúblikanar unnu óvænta sigra í þingkosningunum í Bandaríkjunum Felldu Tom Daschle og juku þingmeirihlutann Washington. AP, AFP. AP Tom Daschle ber sig vel og kveður stuðnings- menn sína í Sioux Falls í Suður-Dakóta í gær. Hann féll naumlega fyrir John Thune. DEMÓKRATINN Barack Obama sigraði með yfirburðum í kosningum í Illinois til öldungadeildar Bandaríkjaþings og hann verður eini blökkumaðurinn í deildinni á næsta kjörtímabili. Obama er 43 ára og sonur blökkumanns frá Kenýa og hvítrar konu frá Kansas. Hann sóttist eftir þingsæti, sem repúblikanar höfðu haft, og sigraði frambjóðanda þeirra, Alan Keys, íhaldssaman blökkumann. Sigur Obama var aðalfréttin í fjölmiðl- unum í Kenýa og mikill fögnuður var í þorpi forfeðra hans, Nyang’oma, í vestanverðu landinu. „Ég efaðist ekki um að hann myndi sigra, ég treysti Allah,“ sagði 83 ára gömul amma frambjóðandans, Sarah Onyango Obama. Héraðshöfðingjar komu saman í þorpinu og einn þeirra lýsti Obama sem „stærstu von Afríku og Kenýa“ er myndi treysta sam- band landsins við Bandaríkin. Mikil fátækt er í Nyang’oma og flestir þorpsbúanna búa í moldarkofum með stráþökum. Ástandið þar hefur versnað síðustu ár vegna alnæmisfaraldurs og at- vinnuleysis. AP Nýkjörinn öldungadeildarþingmaður í Ill- inois, Barack Obama, með eiginkonu sinni, Michelle, í Chicago eftir sigurinn. Sigri Obama fagnað í Kenýa Nyang’oma. AFP. MEIRA en tugur manna slas- aðist og slökkviliðsmaður lét lífið þegar flugeldaverksmiðja sprakk í bænum Kolding í Dan- mörku í gær, en í bænum býr fjöldi Íslendinga. Þrúður Helgadóttir, sem býr í Frede- ricia á sunnanverðu Jótlandi, segist hafa fundið höggbylgj- una frá sprengingunni. Þorleif- ur Gunnar Gíslason, nemi sem býr í um þriggja kílómetra fjarlægð frá slysstað, segist ekki vita til þess að Íslendingar hafi slasast í tengslum við elds- voðann. Hann segir um 80 Ís- lendinga vera með honum í skólanum þar sem hann stundar nám auk þess sem hann viti af fleiri Íslendingum í bænum. Þorleifur segir tugi rúðna hafa brotnað í miðbænum þar sem hann búi. Að hans sögn voru eldsupptök þau að tveir 20 tonna gámar, sem voru full- ir af flugeldum, sprungu í loft upp þegar verið var að flytja þá. Lögreglan lýsti yfir neyð- arástandi í bænum, lokaði svæðið af og rýmdi öll hús inn- an 1,5 kílómetra radíuss. Hún bað fólk í nágrenninu um að halda sig innandyra, með dyr og glugga lokaða og kveikt á útvarpinu. Slökkviliðsmenn börðust enn við eldinn í gær- kvöldi sem var mikill. Flugeldaverksmiðja springur í Kolding AP Fjöldi Íslend- inga býr í bæn- um en engan sakaði KOSIÐ var til embættis ríkisstjóra í 11 af 50 sambandsríkjum í Banda- ríkjunum á þriðjudag. Allt benti til þess að ekki yrðu breytingar á hlut- föllum milli flokkanna í þessum efn- um. Repúblikanar verða eftir sem áður með 28 ríkisstjóra og demó- kratar 22, að sögn CNN-sjónvarps- stöðvarinnar. Þrír ríkisstjórar voru endurkjörn- ir, repúblikaninn John Hoeven í Norður-Dakóta, repúblikaninn Jim Douglas í Vermont og demókratinn Mike Easley í Norður-Karolínu. Repúblikaninn Mitch Daniels, fyrrverandi yfirmaður fjárlagagerð- ar í Hvíta húsinu, velti úr sessi demókratanum Joe Kernan í Ind- iana en George W. Bush forseti beitti sér mjög í þágu Daniels. Á hinn bóg- inn sigraði demókratinn John Lynch repúblikanann Craig Benson í New Hampshire en Benson hafði setið eitt kjsörtímabil, að sögn Inter- national Herald Tribune. Mikil spenna var lengi vegna úr- slitanna í Missouri en þar sigraði repúblikaninn Matt Blunt keppinaut sinn, Claire McCaskill, með litlum mun. AP Mitch Daniels (t.v.), nýr ríkisstjóri Indiana, og eiginkona hans, Cheri, með aðdáendum í Indianapolis. Daniels var áður háttsettur starfsmaður Bush. Þrír ríkisstjórar náðu endurkjöri

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.