Morgunblaðið - 08.11.2004, Qupperneq 29
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 8. NÓVEMBER 2004 29
MINNINGAR
Ástkær vinur okkar, faðir, tengdafaðir, sonur
og afi,
JÓN STEFÁNSSON,
Götu,
Hrunamannahreppi,
verður jarðsunginn frá Skálholtskirkju
miðvikudaginn 10. nóvember kl. 14.00, en
jarðsett verður í Hrepphólakirkjugarði.
Ólöf Guðnadóttir,
Lilja Björg Jónsdóttir, Guðni Þór Valþórsson,
María Jónsdóttir, Eymundur Sigurðsson,
Ágúst Scheving Jónsson, Hildur Gylfadóttir,
Stefán Scheving Kristjánsson,
Ágústa Sigurdórsdóttir
og barnabarn.
Faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi
JÓN KRISTINN KRISTINSSON
Eystra Íragerði,
Stokkseyri.
Lést á Sjúkrahúsi Suðurlands Selfossi aðfara-
nótt 5. nóvember.
Ólafía Kristín Jónsdóttir, Sigurjón Jónsson,
Hafsteinn Jónsson, Erla Karlsdóttir,
Gylfi Jónsson, Dagbjört Gísladóttir,
Ófeigur Jónsson.
Verðmæti einnar mannsævi eru
ekki mæld í árafjölda. Þar eru önnur
og dýpri lögmál að verki. Höfundur
lífsins heldur sínum höfundarrétti og
við, mannfólkið, fáum ekki svör við
óréttlæti heimsins.
F.h. Krafts þakka ég Önnu Pálínu
Árnadóttur hennar óeigingjarna
framlag til Krafts í gegnum þau
fimm ár sem Kraftur hefur verið til,
þau sömu fimm ár sem Anna Pálína
tókst á við námskeiðið Krabbamein
og kynntist Kröbbu frænku. Við
þökkum fyrir það að hafa fengið að
kynnast henni, því við erum ríkari
manneskjur á eftir.
Minningin um Önnu Pálínu er
minning um gleði.
Við vottum Aðalsteini, börnum
þeirra og öðrum aðstandendum okk-
ar dýpstu samúð.
Fyrir hönd Krafts – stuðnings-
félags
Anna Ingólfsdóttir.
Sorgin ber að dyrum. Helst vildum
við breiða upp yfir haus, láta eins og
við værum ekki heima og vona að hún
fari framhjá. En við verðum að opna
og hleypa henni inn. Augun fyllast
tárum þegar húsið fyllist af gleði
minninganna og öll borð eru hlaðin
gjöfum. Gjafirnar eru veganestið
sem Anna Pálina Árnadóttir skildi
eftir handa öllu sínu fólki. Hún skildi
eftir veislu minninga fyrir nánustu að
njóta, dýrgripi til að halda fast að
hjartastað.
Anna Pálína var skemmtileg og
fyndin, hún var galgopi og hún var
háfleyg, hún var heimspekingur og
trúður. Anna Pálína var frumleg og
djúp. Hún var mikill og sannur lista-
maður, hún var einlæg, tilfinningarík
og sjálfri sér trú. Anna Pálína var
óhemju frumleg og heillandi og síð-
ustu árin var engu líkara en hún hefði
höndlað sannindi sem voru langt ofan
við það sem venjulegur maður getur
skilið. Anna Pálína var gjafmild og
hún gaf ekki aðeins sínu fólki heldur
öllum þeim sem vildu hlusta, finna og
sjá. Í sporin sín lagði hún hamingju,
fallega lífsýn, alúð og sköpunarkraft
áður en hún lagði í langferð með
englum.
Ef lífið er skóli þá var Anna Pálína
skipuð í prófessorsstöðu án þess að
hafa sótt um starfið. Lítil þjóð átti
ýmislegt ólært um lífið og dauðann,
hamingjuna, óttann, angistina, eilífð-
ina og allar stóru spurningarnar sem
allir þurfa að horfast í augu við, fyrr
eða síðar. Hún hafði frásagnargáfu
stórskálds og heimspeki hennar, líf-
speki og reynsla nýtist ekki aðeins
þeim sem berjast við einstakan sjúk-
dóm heldur má yfirfæra hana á allt
lífið og viðhorf til lífsins. Hún kenndi
okkur að með huganum einum getum
við snúið aðstæðum okkur í hag, tek-
ið ógn sem áskorun. Þótt dauðinn
komi fyrr eða síðar þá er lífið allt of
stutt hvort sem maður deyr ungur
eða gamall. Manni ber skylda til að
nýta þann tíma sem manni er gefinn,
hver dagur er hráefni til að skapa
eitthvað fallegt fyrir fjölskylduna,
listina, sjálfan sig eða heiminn.
Mikilhæf listakona hefur kvatt
jarðneska vist og stórt skarð er
höggvið í raðir íslenskra listamanna.
Það skarð verður ekki fyllt en verkin
tala um ókomna tíð. Sorgin á sinn
tíma, en gjafirnar vara að eilífu. Í
þeim leynist styrkurinn til að halda
áfram á lífsins gönguför og minning-
arnar varða leið.
Okkar dýpstu samúð vottum við
Aðalsteini, Árna Húma, Þorgerði
Ásu, Álfgrími, móður, tengdaforeldr-
um, systkinum og frændgarði öllum
á þungbærri stund.
Stjórn Rithöfundasambands Ís-
lands, framkvæmdastjóri og makar:
Kristín Helga Gunnarsdóttir,
Andri Snær Magnason,
Karl Ágúst Úlfsson,
Rúnar Helgi Vignisson,
Sigurbjörg Þrastardóttir,
Bragi Ólafsson,
Ragnheiður Tryggvadóttir.
Kveðja frá félögum í samtökum
íslenskra barna- og unglinga-
bókahöfunda, Síung
Það er komið að kveðjustund. Vin-
kona okkar, Anna Pálína, er fallin frá
eftir langa og hetjulega baráttu.
Ekkert okkar ber sigurorð af dauð-
anum, en hún leyfði ekki skugga
hans að myrkva líf sitt, heldur bar
höfuðið hátt og lifði heil og sönn alla
þá daga sem henni voru gefnir.
Anna Pálína hreif jafnt unga sem
gamla með söng sínum, en hún hafði
einstakt lag á að ná til barna. Það var
ekki síst vegna þess að hún kom fram
við þau af virðingu, eins og jafningja,
í stað þess að tala niður til þeirra eins
og við sem þykjumst vera fullorðin
gerum allt of oft. Börn eru næm á
það hvort fullorðnir koma fram við
þau af einlægni eða gera sér upp eitt-
hvert sérstakt viðmót sem þeir telja
vera við hæfi. Uppgerð var ekki til í
fari Önnu Pálínu. Það skildu börnin
og kunnu að meta. Það var unun að
fylgjast með henni þegar hún söng
fyrir börn. Lífsgleði hennar og út-
geislun bræddi öll hjörtun í áheyr-
endahópnum, hvort sem þau voru
feimin eða frökk, lítil eða stór og
hvert einasta litla bullutröll og um-
skiptingur söng með í viðlögunum af
hjartans lyst. Framlag Önnu Pálínu
og Aðalsteins til íslenskrar barna-
menningar er og verður ómetanlegt.
Söngfuglinn er þagnaður. En
söngurinn mun óma áfram í hugum
og hjörtum allra sem á hann hlýddu.
Það er söngur um gleði og von, söng-
ur um undur og fegurð lífsins. Hann
er áminning til okkar allra um að
njóta hvers einasta dags sem okkur
er gefinn.
Ragnheiður Gestsdóttir.
Það var kröftugur og skemmtileg-
ur hópur sem settist á skólabekk í
Kennaraháskólanum haustið 1985.
Við urðum A-bekkurinn. Hann þótti
erfiður því þar rökræddu menn ákaft
og höfðu sterkar skoðanir. Haft var á
orði að í bekknum væru of mörg gjós-
andi eldfjöll.
Þrátt fyrir þetta, eða ef til vill
vegna þessa, kynntumst við mjög vel
og urðum miklir vinir. A-bekkurinn
var samheldinn hópur. Anna Pálína
var í þessum hópi. Hún varð strax
áberandi. Hún var hæfileikarík og
samviskusöm og ákaflega sterkur og
heilsteyptur karakter.
Við áttum í Kennó þrjú ótrúlega
skemmtileg ár. Ár, sem mótuðu okk-
ur öll að einhverju leyti. Síðan skildi
leiðir eins og gengur. Bekkurinn hef-
ur þó alltaf haldið sambandi og við
höfum fylgst hvert með öðru. Auð-
velt var að fylgjast með Önnu Pálínu
í gegnum störf hennar. Hún varð
alltaf af og til á vegi manns; ef ekki í
eigin persónu þá í útvarpinu, í viðtali
einhvers staðar eða uppi á sviði að
syngja. Alltaf jafn geislandi. Anna
Pálína var í okkar huga ótrúlega já-
kvæð kona sem mótaði sér ákveðna
lífssýn. Jafnframt mótaði hún um-
hverfi sitt eins og best hefur sést á
verkum hennar síðustu árin.
Anna Pálína notaði tímann sem
hún fékk vel. Hún gaf óspart af sjálfri
sér. Hún fékk miklu áorkað og með
sinni sterku útgeislun og einlægni
tókst henni að miðla öðrum jákvæðri
lífssýn sinni, bjartsýni og dugnaði.
Anna Pálína fékk aðeins 41 ár í líf-
inu. Af þeim fengum við þrjú frábær
ár með henni. Núna, sextán árum
síðar, eru þau ár okkur enn í fersku
minni. Svo verður um ókomna tíð.
Fyrir það erum við þakklát.
Bekkjarsystkin úr KHÍ.
„Sleppiði óttanum“ sagði Anna
Pálína á Ingólfstorgi laugardaginn
16. október sl. Hún var að ávarpa fé-
laga sína í Krafti, samtökum ungs
fólks sem hefur greinst með krabba-
mein, og gríðarstóran hóp samferða-
fólks sem sýndi þessum hetjum sam-
stöðu með því að ganga í fylkingu frá
Hallgrímskirkju niður á Ingólfstorg.
Hún vissi að hún fengi líklega ekki
fleiri tækifæri til að ávarpa þessa vini
sína svo það var mikilvægt að skila-
boðin væru skýr. Og við sem eftir
stöndum getum tekið við þessum
boðskap og komið honum áfram.
Sleppum óttanum og lifum lífinu á
hverjum degi. Látum ekki fánýti og
smámuni skemma fyrir okkur daga
sem hægt er að njóta með óttalausri
gleði. Jafnvel þótt áföllin séu alvarleg
og sorgin mikil þá verðum við hvert
og eitt að finna leið til að „ganga sól-
armegin“ í okkar lífi.
Einhvern tímann í lok áttunda ára-
tugarins varð til óformlegur hópur
ungra manna sem fannst gaman að
hittast á kaffihúsi og síðar við
skemmtilegt borðhald. Einstaka
kvenmaður slæddist með í hópinn og
síðan vinkonur og makar. Margir fé-
laganna voru góðir tónlistarmenn en
sumir alveg lausir við slíka hæfileika.
Samt festist skammstöfunin SÓT við
hópinn og stendur T fyrir „tónlist-
armenn“. Aldrei hefur þessi fé-
lagsskapur orðið frægur af stórum
afrekum sem slíkur en lifað áfram af
gömlum og skemmtilegum vana. Fé-
lagarnir hafa eignast börn sem hafa
myndað tengsl sín á milli og tilefnin
til að hittast hafa orðið fjölbreyttari.
Aðalsteinn Ásberg var einn af
stofnfélögunum í SÓT og Anna Pál-
ína var öflug viðbót þegar þau festu
ráð sitt. Þau eignuðust börnin sín og
það var gaman sjá þau dafna. Börn-
um okkar hinna þótti ekki ónýtt að fá
að hitta þessa fínu og glaðlegu söng-
konu öðru hvoru og eiga hana fyrir
sig um stund.
Það var mikið áfall fyrir okkur öll
þegar Anna Pálína greindist fyrst
með krabbamein fyrir nokkrum ár-
um. En hún tók það að sér sjálf að
hjálpa okkur að vinna úr því með lífs-
gleði sinni og bjartsýni. Og úr því að
henni var ekki ætluð starfsævi af
venjulegri lengd ákvað hún að klára
sín verk í snarheitum. Hún gerði út-
varpsþætti, hélt tónleika, söng inn á
hljómplötur, hélt fyrirlestra og skrif-
aði stórmerkilega bók um lífsreynslu
sína. Eftir stendur ævistarf sem er
stærra en margra sem ná lögbundn-
um eftirlaunaaldri. Allt þetta gat hún
gert því Aðalsteinn og börnin, Árni
Húmi, Þorgerður Ása og Álfgrímur,
stóðu með henni í öllum hennar störf-
um. Við þekkjum engin hjón sem svo
vel hafa getað starfað saman og látið
sameiginlega drauma rætast. En nú
hefst nýr kafli í lífi Aðalsteins og
barnanna. Það verður kúnst að stilla
hljóðfærið þegar svo mikilvægur
strengur er slitinn en vonandi geng-
ur það með góðum stuðningi.
Um leið og við þökkum Önnu Pál-
ínu allt sem hún var okkur vottum við
okkar kæra vini Aðalsteini, börnun-
um og öllum ástvinum hennar inni-
lega samúð.
Ungir og gamlir SÓT-félagar.
Það hafa verið forréttindi að eiga
Önnu Pálínu fyrir vinkonu.
Að njóta og smitast af óþrjótandi
lífsgleði hennar og orku, sem ein-
kennt hefur hennar líf.
Að horfa á málin eins og við höfð-
um ekki séð þau áður, rökræða og
læra á hugarflug hennar. Hugarflug
sem stundum varð svo víðfeðmt og
mikið að hún bað okkur að kippa sér
niður á jörðina áður en hún flygi burt
frá okkur.
Að hlusta á sönginn hennar, heyra
hvernig röddin óx og dafnaði í gegn-
um árin, dást að henni á sviði og
fylgjast spenntar með hverjum nýj-
um geisladiski sem kom út.
Að vera þátttakandi í lífi vinkonu á
venjulegum degi, fylgjast með fjöl-
skyldunni stækka og deila með þeim
hátíðarstundum.
Við höfum glaðst yfir hverju ári og
mánuði sem við höfðum hana með
okkur eftir að hún greindist með
krabbameinið. Hún hefur kennt okk-
ur að lifa upp á nýtt og reyna að nýta
hvern dag án ótta. Það er veganesti
sem hún skilur eftir til okkar allra.
Við gleðjumst yfir vináttu okkar
og ómetanlegum tíma sem við áttum
saman. Lífið snýst jú um að gleðjast
og innantómar áhyggjur sendum við
lönd og leið.
Söknuð frænda bjóðum við vel-
kominn, þar til við hittumst allar aft-
ur.
Elsku Alli, Árni Húmi, Ása, Álf-
grímur og fjölskyldan öll, Guð og
góðir englar gæti ykkar allra.
Leynifélagið og fjölskyldur.
Miðsvetrartangó, uppáhaldssöng-
konan mín, falleg, skemmtileg, sér-
stök, vinkillinn alltaf óvæntur og nýr,
listamaður, gömul sál, vitur, prakk-
ari, svo kom í ljós þessi frábæri stíl-
isti, konan hans Alla og besti vinur,
mamma Árna Húma, Þorgerðar Ásu
og Álfgríms, dóttir Esterar, systir,
tengdadóttir, frænka, vinur.
Hún er farin frá okkur, kannski af
því að hennar tími var kominn,
kannski vegna þess að hennar bíður
hlutverk annars staðar, kannski
vegna þess að hún hafði komið á
framfæri við okkur því sem henni var
ætlað, ég veit það ekki, ég reyni ekki
einu sinni að svara.
Þetta verður allt í lagi sagði hún
sjálf og auðvitað verður það það, en
bara ekki alveg strax, við syrgjum,
við grátum, við minnumst, við verð-
um reið, leið, öskuvond, ósátt. „Eng-
in björg er í að barma sér. Brátt mun
sólin aftur ylja mér,“ hljómar í eyr-
um mér, Anna Pálína syngur fyrir
mig og huggar: „Viltu lifa til fulls?
Lifðu nú.“
Ég get ekki hætt að hugsa um
hana, ég vil ekki hætta að hugsa um
hana. Hún er hér. Augun spurul,
brosið ómótstæðilegt, röddin full
túlkunar, gleði, sannleika.
Ég þakka Önnu Pálínu þá kennslu-
stund sem líf hennar hefur verið mér,
að hafa kynnst henni hefur þroskað
mig, bætt, breytt, hvað við henni tek-
ur nú er ekki á mínu áhyggjusviði …
okkar hinna er að standa með ástvin-
um hennar, hlusta og minnast.
Við Jón þökkum fyrir fallega bros-
ið, hláturinn, tilsvörin, sönginn. Hún
gaf mikið, okkar er að meta þær gjaf-
ir. Við sendum innilegustu samúðar-
kveðjur til Alla, Árna Húma, Þor-
gerðar Ásu, Álfgríms, Esterar,
systkina, tengdaforeldra, fjölskyldu
og vina.
Guð blessi minningu Önnu Pálínu
Árnadóttur.
Ragnheiður Tryggvadóttir.
Anna Pálína, Anna Pálína, Anna
Pálína, Anna Pálína, Anna Pálína
með trilljón mismunandi tilbrigðum í
höfði mér, eins og ljóðið sem Hólm-
fríður flutti í fertugsafmælinu.
Anna Pálína – svo stórbrotin og
mögnuð, svo viðkvæm, svo sterk, svo
djúpvitur og spök, svo einlæg og
þroskuð, svo ung og svo gömul.
Anna Pálína velur mig fyrir vin-
konu. Á fyrsta skóladegi okkar í
Kennó, fyrir 19 árum og 2 mánuðum.
Við eigum að taka viðtal við bekkjar-
félaga. Anna Pálína spyr hvort ég
vilji vera memm.
Anna Pálína heldur að hún sé ólétt.
Ég líka. Við förum með þungunar-
próf í apótekið. Við fáum báðar já-
kvætt svar og flissum í símann. Við
erum ungar og óttalausar og lífið
leikur við okkur.
Anna Pálína er með krabbamein.
Hún situr í eldhúsinu mínu á Ægisíð-
unni og við grátum svolítið. Ég er
reið og skammast. „Af hverju fannst
krabbinn ekki fyrr?“ Hún segist ekki
hafa verið tilbúin í þetta verkefni
fyrr. Hún er æðrulaus og til í slaginn.
Anna Pálína fer í langa göngutúra
meðfram sjávarsíðunni. Ég fer með
og fæ að kynnast ritúalinu. Við biðj-
um og öndum saman og hún segir
mér frá tilfinningum sínum og upplif-
unum. Hún er með Kröbbu frænku í
hendi sér.
Anna Pálína tekur mataræðið í
gegn. Hún snæðir niðurskorna
ávexti í borðstofunni á Laufásvegin-
um. Hún er að styrkja ónæmiskerfið
og losa eiturefni úr líkamanum. Lík-
aminn fær aukinn kraft til að halda
krabbanum í skefjum.
Anna Pálína er beintengd við al-
mættið. Hún býður mér með í hug-
leiðslu. Sálin fer á flug og leikur sér í
ljósinu. Anna Pálína er í samstarfi við
æðri máttarvöld og veit að hún ræð-
ur við verkefnið sem henni var út-
hlutað. Hún tekur Kröbbu frænku í
sátt.
Anna Pálína þekkir óttann. Ég fæ
kvíðakast í stofunni heima hjá henni.
Hún leiðir mig til móts við óttann.
„Leyfðu óttanum að koma til þín,
slakaðu á og skoðaðu hvað hann vill
þér.“ Við bjóðum kvíðann velkominn
og umvefjum óttann.
Anna Pálína syngur með hjartanu.
Hún stendur á sviðinu í Salnum og
mig langar til að faðma hana að mér.
Tilfinningarnar flæða og ég er upp-
numin og þakklát fyrir þessa stund.
Anna Pálína óttast ekki dauðann.
Við erum á göngu í Skerjafirðinum
þegar hún kynnir mig fyrir dauðan-
um. Henni finnst hann ekki slæmur
kostur. Hún hefur velt því fyrir sér
að velja dauðann. Hún lifir áfram fyr-
ir okkur hin. Fyrir Aðalstein og
krakkana.
Anna Pálína breiðir út boðskapinn.
Hún miðlar af reynslu sinni, innsæi
og visku. Hún lýkur ætlunarverkum
sínu hverju af öðru. Hún fylgir Álf-
grími í skólann, fermir Þorgerði Ásu
og fylgist með Árna Húma fyrstu
vikurnar í framhaldsskóla.
Anna Pálína hefur lokið ætlunar-
verki sínu á þessari jörð. Ég er þakk-
lát fyrir hennar hlut í mínu lífi.
Ásdís Olsen.
Fleiri minningargreinar
um Önnu Pálínu Árnadóttur bíða
birtingar og munu birtast í blaðinu
næstu daga. Höfundar eru: Gunnar
og Gréta, Vala Þórsdóttir, Kjartan
Sigurjónsson, Elín María Guðjóns-
dóttir, Guðrún Þórðardóttir, Gunn-
hildur Óskarsdóttir, Sigríður E.
Halldórsdóttir, Sigríður Stefáns-
dóttir, Egill Friðleifsson, Rúna,
Bára Friðriksdóttir, Margrét Odds-
dóttir, Kristín Guðrún Gestsdóttir,
Sigríður Pétursdóttir, Pétur Grét-
arsson, Sigurlaug, Vilfríður, Rósa,
Jón Einar og Hólmfríður, Anna,
Álfhildur, Emil, Erla, Herbert og
Linda, Hjörtur Pálsson, Guð-
mundur Andri Thorsson, Lars S.
Haupe.