Morgunblaðið - 29.12.2004, Síða 27
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 29. DESEMBER 2004 27
UMRÆÐAN
HVARVETNA í hinum vestræna
heimi er frelsi háskóla talið á meðal
þeirra grunngilda sem nútímasam-
félög byggjast á. Slíkt frelsi er í raun
þríþætt, akademískt, stjórnunarlegt
og fjárhagslegt.
Akademískt frelsi
Í akademísku frelsi
felst frelsi háskóla-
stúdenta til lærdóms
og háskólakennara til
kennslu, þekkingar-
leitar og rannsókna án
takmarkana eða hindr-
ana vegna landslaga,
reglna og skipulags
viðkomandi háskóla
eða utanaðkomandi
samfélagslegs þrýst-
ings. Mikilvægi aka-
demísks frelsis varðar
ekki einungis kennara
eða nemendur, heldur
samfélagið allt. Það
eru langtímahags-
munir lands og þjóðar
að frelsi æðri mennt-
unar sé tryggt til þess
að frjáls þekkingar-
sköpun eigi sér stað án
íhlutunar ríkisvalds
eða hagsmunaaðila.
Þegar ríki, atvinnulíf eða aðrir hags-
munaaðilar stýra kennslu og rann-
sóknum með beinum hætti ráða
skammtímahagsmunir eða sérhags-
munir sem ganga gegn heildarhags-
munum samfélagsins.
Í Bandaríkjunum var sameigin-
legum grunnreglum um akademískt
frelsi komið á árið 1940 með sér-
stakri yfirlýsingu samtaka banda-
rískra prófessora og samtaka banda-
rískra háskóla. Hæstiréttur landsins
úrskurðaði árið 1967 að akademískt
frelsi nyti stjórnarskrárbundinnar
verndar og sagði bandarísku þjóð-
inni bera skyldu til að varðveita það
enda hefði slíkt óviðjafnanlegt gildi
fyrir hana, en ekki einungis þá kenn-
ara sem í hlut ættu.
Stjórnunarlegt frelsi
Það skiptir máli að háskólar ráði sér
stjórnunarlega og að þar gildi jafn-
framt skýrar og hlutlægar reglur
um ráðningar og uppsagnir akadem-
ískra starfsmanna. Sú vernd er
mikilvæg til að tryggja akademískt
frelsi þeirra en tækifæri skólanna til
að segja sömu starfsmönnum upp á
málefnalegum grundvelli, t.d. vegna
almennrar vanhæfni eða brots í
starfi, skipir einnig máli og þurfa
báðir þessir þættir að vera tryggðir
með þeim hætti að fullnægjandi sé.
Fjárhagslegt frelsi
Ef háskóli er háður fjárveitingum
frá einum aðila, opinberum eða
einkaaðila, getur slíkt takmarkað
frelsi hans, sérstaklega ef honum er
meinað að afla tekna frá öðrum. Há-
skólar eiga því skilyrðislaust að hafa
frelsi til að skapa sér tekjur með
kennslu, rannsóknum eða annarri
starfsemi.
Rekstrarform háskóla
og frelsi þeirra
Skipta má íslenskum háskólum í
þrjá flokka eftir því í hvaða rekstr-
arformi þeir eru.
Ríkisreknum háskólum er hætt
við ríkisafskiptum á öllum sviðum og
geta þar með verið háðir pólitískum
áhrifum valdhafa hverju sinni. Sag-
an geymir fjölda dæma um slík af-
skipti ríkisvaldsins af málefnum há-
skóla sinna, t.d. í Sovétríkjunum á
tímum kalda stríðsins. Akademískt
frelsi slíkra skóla hérlendis er þó vel
tryggt með ákvæðum almennra há-
skólalaga um ríkisháskóla og sérlög-
um um þá. Stjórnunarlegu frelsi
ríkisháskóla til að halda uppi eðli-
legri starfsmannastjórnun og gæð-
um í rannsóknum og kennslu eru
hins vegar veruleg takmörk sett,
sérstaklega með ákvæðum laga um
réttindi og skyldur opinberra starfs-
manna. Ríkisháskólar hafa jafn-
framt mjög takmarkað fjárhagslegt
frelsi.
Skóli sem á sig sjálfur og starfar í
samfélagslegum til-
gangi er hins vegar vel
til þess fallinn að
tryggja akademískt
frelsi enda er þetta
rekstrarform algeng-
asta rekstrarform há-
gæðaháskóla vestan-
hafs. Mikilvægt er þó
að um frelsisþættina
þrjá sé fjallað í skipu-
lagsskrá og reglugerð
skólanna. Sjálfseignar-
háskólar hafa stjórn-
unarlegt frelsi, bæði
hvað varðar almenna
stjórnun skólanna í
heild, stjórnun starfs-
mannamála, gæðamála
í kennslu og rannsókn-
um sem og eðlilega og
nauðsynlega þátttöku
kennara og annarra
starfsmanna í akadem-
ískri stjórnun slíkra
skóla. Sjálfseignarhá-
skólar hafa einnig fullt
fjárhagslegt frelsi til
tekjuöflunar.
Þriðja rekstrarformið sem nú er
til umræðu eru háskólar í eigu utan-
aðkomandi aðila. Skipulagsheild
sem er í eigu einhvers verður ávallt
háð eiganda sínum. Hluthafar eða
aðrir sem eiga háskóla, ráða honum
beint eða óbeint, enda eru ekki í gildi
hérlendis almenn lög eða reglur sem
setja skorður við slíku. Utanaðkom-
andi eignarhald skerðir því að
óbreyttu nauðsynlegt innra sjálf-
stæði háskóla. Akademísku frelsi
slíkra skóla er þá ógnað þar sem
ólíklegt er að fræðimenn eða kenn-
arar gangi gegn hagsmunum eig-
enda skólans. Stjórnunarlegu frelsi
eru jafnframt nokkur takmörk sett
þar sem skólinn stýrir sér ekki sjálf-
ur, heldur starfa stjórnendur hans í
umboði eigenda og erfitt er að
tryggja sjálfstæði fræðimanna og
kennara í slíku fyrirkomulagi.
Hlutafélagaskólar hafa hins vegar
fullt fjárhagslegt frelsi.
Niðurstaða
Það er mat mitt að frelsi háskóla sé
lykilatriði í starfsemi þeirra. Ég tel
jafnframt að frelsi og sjálfstæði há-
skóla sé grundvallaratriði fyrir ís-
lenskt samfélag í heild, þróun þess
og velferð. Við eigum að hverfa frá
ríkisreknum háskólum þar sem slíkt
rekstrarform tryggir ekki mikil-
væga þætti varðandi sjálfstæði há-
skóla og er hamlandi fyrir þá skóla
sem við slíkt rekstrarform búa.
Óheppilegt er að fara inn á braut
hlutafélagavæddra háskóla þar sem
slíkt rekstrarform tryggir ekki held-
ur fullkomið sjálfstæði háskóla.
Sjálfseignarform er heppilegast til
að tryggja frjálsa, sjálfstæða, öfluga
og framsækna íslenska háskóla. Þar
eigum við að fylgja fordæmi bestu
og virtustu háskóla Bandaríkja-
manna, sem flestir eru reknir sem
slíkir og Dana sem hafa breytt öllum
sínum háskólum í sjálfseignarstofn-
anir með breiðri pólitískri sátt í
danska þinginu.
Háskólasamfélagið hérlendis á
jafnframt að setja sér sameiginlegar
grundvallarreglur til að tryggja aka-
demískt frelsi, gæði í háskólastarfi
og sjálfstæði háskóla. Slíkri „stjórn-
arskrá“ íslenskra háskóla ættu allir
þeir skólar að lúta sem vilja bera
sæmdarheitið háskóli. Samstarfs-
nefnd háskólastigsins og ráðuneyti
menntamála eiga að hafa frumkvæði
að þessari mikilvægu vinnu.
Um frelsi háskóla,
stjórnun og
rekstrarform
Runólfur Ágústsson fjallar
um stjórnun háskóla
Runólfur Ágústsson
’Mikilvægi aka-demísks frelsis
varðar ekki ein-
ungis kennara
eða nemendur,
heldur sam-
félagið allt.‘
Höfundur er rektor á Bifröst.
✝ Herdís Einars-dóttir fæddist í
Borgarnesi 23. júní
1949. Hún andaðist á
sjúkrahúsi á Mall-
orca 12. nóvember
síðastliðinn. Foreldr-
ar hennar voru Unn-
ur Þórarinsdóttir frá
Bergskoti á Vatns-
leysuströnd, f. 15.
september 1913, d.
28. mars 1984, og
Einar Sigmundsson
frá Krossnesi í Álfta-
neshreppi, f. 6. jan-
úar 1906, d. 9. apríl
1988. Þau voru búsett í Borgar-
nesi. Systur Herdísar eru: 1)
Gunnþórunn Aðalsteinsdóttir, f.
1938, búsett á Akranesi, maki
Guðmundur Guðmundsson og
eiga þau þrjár dætur, 2) Jóhanna
Þ. Aðalsteinsdóttir, f. 1941, búsett
í Gautaborg, maki Valdimar Jó-
hannsson og á hún tvær dætur frá
fyrra hjónabandi og 3) Þóra Sig-
ríður Einarsdóttir, f. 1951, búsett
í Borgarnesi, maki
Eyjólfur Torfi Geirs-
son og eiga þau þrjú
börn. Árið 1978 gift-
ist Herdís eftirlif-
andi manni sínum
Miguel Calafat
Nadal bókara á
Mallorca, f. í Santa
Maria 1945. Börn
þeirra eru Einar Elí
Calafat, f. 24. júní
1977, og María Britt,
f. 27. ágúst 1982.
Herdís vann við
ýmis störf í Borgar-
nesi, þar til hún
flutti til Mallorca árið 1978. Her-
dís starfaði um árabil sem farar-
stjóri, lengst af fyrir Samvinnu-
ferðir/Landsýn, á Mallorca, en
vann auk þess við fararstjórn á
Benidorm og á Kanaríeyjum. Síð-
ast starfaði hún á vegum ferða-
skrifstofunnar Úrval/Útsýn.
Minningarathöfn um Herdísi
verður í Laugarneskirkju í dag og
hefst hún klukkan 15.30.
Við skrifum þessar línur til minn-
ingar um dásamlega móður sem var
kjarkmikil og barðist hetjulega fyrir
lífi sínu.
Mamma, þú hefur ávallt verið ein-
stök manneskja. Þessa síðustu daga
hefur komið í huga okkar fullt af
minningum þeirra ára sem okkur
auðnaðist að upplifa með þér, hlutir
sem við héldum að lægju undir hulu
gleymskunnar en standa okkur nú
skýrt fyrir hugskotssjónum.
Þrátt fyrir þá erfiðu tíma sem við
höfum upplifað með þér síðastliðið ár
þá var þessi tími líka inn á milli fal-
legur og gefandi. Þegar læknarnir
sögðu að þú gætir læknast, þá sagð-
irðu okkur að þú myndir gefa allt til
þess að sigrast á þessum sjúkdómi og
þú sagðir okkur að hafa ekki áhyggj-
ur, þú myndir verða með okkur í
mörg ár. Aðeins átta mánuðir liðu og
þinn tími kom, aldrei sáum við þig
fella tár en nú erum það við sem
syrgjum þig sárt.
Við efuðumst aldrei um að þú
myndir lifa og elsku mamma, það
gerðirðu, þú lifðir lífinu til fulls eins
og heilsan leyfði þér.
Þú fórst til Íslands gegnum Portú-
gal og öll þín íslenska fjölskylda gat
notið þess að hitta þig, þú sást landið
þitt, komst til baka brosandi einsog
alltaf með gjafir sem núna eru hluti af
minningu þinni og á þessum tíma
brosti lífið við okkur. Við óttuðumst
alltaf að sjúkdómurinn myndi breyt-
ast og versna og hugsuðum oft um að
við skyldum njóta hverrar mínútu
sem við áttum saman. Þú varst gullið
okkar, brothætt en samt alltaf með
bros á vörunum.
Þú sannaðir fyrir okkur hversu
ótrúleg manneskja þú varst þegar þú
fórst í ferðina til Króatíu, þú varst svo
ótrúlega veikburða en samt bjargað-
irðu þér á þinn einstaka máta.
Við gleymum aldrei síðasta kvöld-
inu heima áður en þú fórst til Króat-
íu, við sátum í sófanum og héldum ut-
an um þig og þú varst einsog lítil
stelpa. Við óttuðumst um þig því þú
varst á förum, en þú varst ákveðin í
að fara í þína draumaferð.
Mamma, við vitum þú ert hjá Guði
og við söknum þín svo ótrúlega mikið
og ef guð lofar þá fáum við að hittast
aftur, á meðan ertu fyrirmynd í okk-
ar daglega lífi.
Bless, elsku mamma
Einar Elí, María Britt.
Haddý mín. Þú varst tekin frá okk-
ur allt of fljótt. Stundum trúi ég því
ekki og skil ekki af hverju síminn
ekki hringir á kvöldin og við tölum
korterið okkar sem þú skiptir á milli
okkar Hönnu systur þinnar í Svíþjóð.
Þú var aldrei lognmolla í kringum
þig. Þú varst mikill mannþekkjari og
voru ást, virðing og umhyggja eig-
inleikar sem þú alltaf hefur sýnt fólki,
hvort sem það hefur verið fjölskyldan
þín, starfsfélagar eða allir farþegarn-
ir sem þú hefur verið fararstjóri fyrir
í gegnum árin.
Næturhrafn, það varstu. Samtölin
og rökræðurnar fram á rauða nótt,
það var eftirlæti þitt. Þegar við vor-
um saman, gátum við setið og spjall-
að þar til við sofnuðum fram á eldhús-
borðið. Þegar ég kom í heimsókn
vissirðu að þú kæmist ekki hjá því að
gera Paellu, það var hluti heimsókn-
arinnar. Oft hringdi síminn á heimili
mínu í Danmörku að nóttu. Hinum
megin á línunni tók á móti manni
ósofin en eldhress rödd. Hæ, Anna
varstu sofandi, ég get ekki sofnað og
mig langar að kjafta. Þrátt fyrir að
vera fjarri ættingjum og vinum þá
vissir þú nákvæmlega hvað var að
gerast hjá mér í Danmörku, því þú
fylgdist alltaf vel með þínum nán-
ustu.
Ég hef verið svo ótrúlega heppin,
bæði að eiga þig að sem ættingja og
vin. Ég man því miður ekki eftir
fyrstu árum barnæskunnar, en hef
ótal sinnum heyrt að þú hafir dekrað
mig upp úr skónum. Ég man fyrst
eftir mér með allar plöturnar þínar
dreifðar út um allt stofugólf hjá
ömmu Unni og afa Einari og líklega
ekki mörg 4 ára börn sem hafa fengið
að setja plötur á fóninn og leika sér
frjálslega með slíka hluti.
Elsku Haddý mín. Þín er sárt
saknað. Lífsvilja þínum og hugrekki
hélstu til hinstu stundar og í faðmi
fjölskyldu þinnar, með eiginmanni
þínum Miguel og börnum Einari Elí
og Maríu Britt kvaddir þú þennan
heim. Ég trúi og veit að þú ert nú hjá
Unni ömmu og Einari afa og í þeirra
faðmi getur manni aðeins liðið vel.
Elsku Miguel, Einar og María.
Guð veri með ykkur á þessari erfiðu
stundu.
Anna K. Eyjólfsdóttir.
Haddý frænka.
Þetta var það skyldmenni í móð-
urfjölskyldu konunnar minnar sem
ég heyrði fyrst nefnt og það var ein-
hver óræður ævintýrablær yfir öllu
sem henni viðkom. Þessi ætt sem
með réttu ætti að heita „Látrabjargs-
ættin“ sökum þessa mikla kliðs sem
dynur yfir þegar þær frænkur allar
koma saman státar af mörgum
kjarnakonum en ein var þó fremst
meðal jafningja og það var Haddý
frænka. Haddý var ein af þessum
manneskjum sem hafði til að bera
það sem nú myndi kallast fjölgreind
þ.e. hún gat nánast hvað sem var.
Hún var ótrúlega skörp og næm á allt
mannlegt og var fljót að lesa mann-
gerðir og tilfinningar. Ávallt dró hún
það besta fram hjá hverjum og gat
með réttu haft afskaplega gaman af
samferðafólki sínu, en aldrei þó með
neikvæðum formerkjum.
Ég átti því láni að fagna að geta all-
oft verið með Haddý við störf í eld-
húsinu á heimili hennar og Miguels
og þetta voru allt ógleymanlegar
stundir. Fyrir það fyrsta var Haddý
matarsnillingur og hafði lagt sig fram
um að læra mæjorgíska matargerð
og þar lærði maður allt um aïoli og
snigla, hráskinku, paellu, kartöflur
og hvítlauk, sobrasada og svona væri
hægt að telja endalaust. Þarna í eld-
húsinu naut maður ekki bara kennslu
í matargerð heldur komu á færibandi
bráðsmellnar sögur þar sem næmni
hennar á okkur hin naut sín til þess
ýtrasta.
Lærifaðir Haddýjar í majorgískri
matargerð var auðvitað stóra ástin í
lífi hennar hann Miguel og þvílíkt
mannsefni sem hún hafði náð sér í.
Miguel er maður með leiftrandi
kímnigáfu, rólegur og sjarmerandi
og sá ljúfasti maður sem ég hef
kynnst. Hans missir er mikill og erf-
iður. Og svo eru það börnin þeirra
þau Einar Elí og María Britt. Þau
hafa alltaf verið náin móður sinni og
upplifa nú erfiða tíma. Við hjónin not-
ið þeirra forréttinda að hafa haft þau
hjá okkur mörg sumur og verið mikill
fengur að, bæði fyrir okkur og stelp-
urnar okkar litlu. Nú í sumar áttum
við góðar stundir öll saman á Mall-
orka og nutum við hverrar stundar.
Elsku Miguel, Einar og María,
góður guð veiti ykkur styrk á erfiðum
stundum.
Ásgeir.
Það er nístandi staðreynd að þú ert
ekki hér lengur á meðal okkar. Minn-
ingarnar eru nú orðnar að dýrmæt-
um fjársjóði. Nú á aðventunni fæ ég
ekki lengur símtal frá Mallorca seint
á kvöldin og er spurð hvort ég sé búin
að baka eða þrífa eldhússkápana og
hvort að það sé snjór!
Frá blautu barnsbeini hefur þú
skipað svo stóran sess í lífi mínu,
varst frænkan sem alltaf var að gera
eitthvað svo spennandi, og áttir svo
mikið af framandi hlutum, stóra seg-
ulbandstækið, plötuspilarann, Bítla-
og Dylan-plöturnar sem ég stalst að
nota í gríð og erg. Og frá útlöndum
sem þú svo snemma byrjaðir að
heimsækja komstu alltaf með þvílík-
ar gjafir, ég gleymi aldrei útvíðu
skræpóttu hippabuxunum með hvíta
kögurbeltinu sem þú gafst mér, allar
litlu vinkonurnar mínar og allt hverf-
ið fékk að vita að þetta væri keypt
sko í Carnaby St. í London. Ég snerti
ekki jörðina í marga daga eftir á! En
það sem meira var, þú gast líka gefið
svo óendanlega mikið af sjálfri þér,
lífsgleðina, manngæskuna og húmor-
inn og hvað þú varst alltaf hrein og
bein, mér er svo minnistætt þegar við
sitjum í eldhúsinu hjá Þóru systur
þinni um ’88 og ég segi í einhverju
bríaríi að mig langi til að koma til þín
og vera nokkurskonar au-pair og
passa Einar Eli og Maríu Britt þá um
sumarið þegar þú myndir byrja í far-
arstjórastarfinu og gæti þá lært
spænsku um leið. Þú tókst mig á orð-
inu og varst fljót að bæta við að
krakkarnir þyrftu nú að ná íslensk-
unni betur. Þessi 6 mánuðir sem ég
dvaldi hjá ykkur eru mér ómetanleg-
ir og þrátt fyrir að mikið væri að gera
hjá þér þá gafstu þér alltaf tíma með
okkur fjölskyldunni. Við kjöftuðum
oft langt fram á nótt. Gleymdir ekki
að vera fararstjórinn minn, passaðir
að mér liðir vel og innritaðir mig í
spænskuskóla. Ég brosi núna í gegn-
um tárin þegar ég rifja upp þennan
tíma, þú varst einfaldlega ekkert fyr-
ir sól eða of mikinn hita. Einhvern-
tíma þegar þú komst heim úr
vinnunni í einhverri hitabylgjunni og
starðir á mig vera að strauja, gapandi
af undrun og sagðir: Alla! hvernig
dettur þér þetta í hug, þetta gerir
enginn heilvita maður hér á miðjum
degi, elskan mín, í svona hita, þú
þarft ekki að taka au-pair starfið
svona alvarlega og engdist af hlátri.
Og í vor svona mikið veik þegar við
komum til þín, þá varstu kominn í
farastjóragírinn fyrir okkur, þú ætl-
aðir ekki að gefast upp, heldur sigra.
Ég segi við dætur mínar og trúi því
að nú sért þú fararstjóri á nýjum en
góðum stað.
Elsku Haddý mín, hafðu þökk fyrir
allt og allt.
Adios, engillinn minn.
Elsku Miguel, Einar Elí og María
Britt, megi guð leiða ykkur og
styrkja í sorg ykkar.
Aðalheiður (Alla).
HERDÍS
EINARSDÓTTIR
Fleiri minningargreinar um Her-
dísi Einarsdóttur bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu daga.
Höfundar eru: Kjartan Trausti Sig-
urðsson; Gréta Matthíasdóttir.
MINNINGAR