24 stundir - 26.04.2008, Síða 46
46 LAUGARDAGUR 26. APRÍL 2008 24stundir
Eftir Hildi Eddu Einarsdóttur
hilduredda@24stundir.is
„Af hverju vildirðu aftur fá að taka
viðtal við mig?“ spyr Fanny forvitin
þegar hún hittir blaðamann á kaffi-
húsi í Hafnarfirði. Hún hefur búið
hér á landi í fjögur ár og starfað
sem barnfóstra og afgreiðslustúlka
í bakaríi Fjarðarkaupa. Í hverjum
mánuði sendir hún hluta af laun-
um sínum til Perú þar sem verið er
að byggja nýtt húsnæði fyrir fjöl-
skyldu hennar, sem alla tíð hefur
búið í litlum kofum án vatns og
rafmagns. Auk þess greiðir hún
fyrir háskólanám eins bróður síns
og lækniskostnað annars bróður,
sem er langveikur. Ekki er þó að sjá
á Fanny að henni þyki þetta vera
stórmál.
Viðtalið fer fram á móðurmáli
hennar, spænsku, en ástæðan fyrir
því er ekki sú að hún hafi ekki náð
góðum tökum á íslensku, því það
hefur hún vissulega. Þar sem það
kemur í hennar hlut að tala og
segja sína sögu er einfaldlega sann-
gjarnt að hún fái að gera það á máli
sem hún hefur fullkomið vald á.
Kröpp kjör
Fanny er þriðja í röðinni af sex
systkinum sem ólust upp við kröpp
kjör í dreifbýli í Perú. „Við bjugg-
um afar þröngt og urðum að ganga
töluverðan spöl til þess að sækja
bað- og neysluvatn. Aðgengi að
góðri menntun fyrir börn var ekki
gott, en á móti kom að við höfðum
nokkurt landsvæði til yfirráða og
gátum því ræktað okkar eigin mat
að hluta. En næstelsti bróðir minn
er langveikur og þess vegna þurfti
fjölskyldan að flytja til Lima, höf-
uðborgar landsins, fyrir 12 árum.
Þar er betra aðgengi að heilbrigð-
isþjónustu og menntun fyrir börn,
en þar er líka mun dýrara að lifa.
Húsið sem við bjuggum í þar var
ekki á nokkurn hátt reisulegra en
húsið í sveitinni þótt það kostaði
mun meira, ásamt því sem við
misstum möguleikann til þess að
rækta okkur til matar. Þannig má
segja að lífsbaráttan hafi harðnað
við komuna til höfuðborgarinnar,“
segir hún. Stuttu eftir komuna
þangað fékk hún vinnu sem barn-
fóstra hjá Matthildi Kristínu Hall-
dórsdóttur, fatahönnuði hjá ELM
design sem meðal annars hefur
starfsemi í Perú. Hjá henni starfaði
Fanny í mörg ár og kunni því afar
vel. „Svo kom að því að hún ákvað
að flytja til Íslands með syni sínum.
Hún spurði mig hvernig mér litist á
að koma með til Íslands og ég þáði
það eftir smáumhugsun.“
Fyrstu kynni af Íslandi
Eftir að Fanny hafði samþykkt
að koma með til Íslands tók við
mikil pappírsvinna. „Ég þurfti að
afla mér tilskilinna leyfa og lengi
vel leit út fyrir að ég fengi alls ekki
að flytja frá Perú til Íslands. En það
tókst að lokum og hingað var ég
komin sumarið 2004,“ segir hún.
„Fyrsta árið vann ég sem au-pair
hjá Matthildi en eftir það fór ég að
vinna sem afgreiðslustúlka í Fjarð-
arkaupum og þar er ég ennþá.“
Fanny hlær þegar hún rifjar upp
sín fyrstu kynni af Íslandi. „Ég
hafði heyrt ýmislegt um landið og
séð myndir. En þó svo að ég vissi að
hér snjóaði gjarnan á veturna var
ég ekki búin undir allan þennan
kulda. Sérstaklega kom mér á óvart
hvað hér gat orðið mikið rok og
rigning, og það um mitt sumar,“
segir hún og bætir því við að nú
hafi hún að mestu leyti náð að
venjast veðrinu. „Ekki þar fyrir að
mér verði ekki oft kalt. En ég er bú-
in að læra að ef manni líkar ekki
við veðrið þarf maður bara að bíða
í smástund.“
Góðar móttökur
„Mér finnst ég hafa fengið góðar
móttökur hér á Íslandi. Samstarfs-
félagar mínir í Fjarðarkaupum hafa
reynst mér ótrúlega vel og hvatt
mig áfram í að ná tökum á tungu-
málinu. Þegar ég byrjaði sögðu þau
við mig: „Við gefum þér 15 daga og
eftir það munum við eingöngu tala
við þig á íslensku og þú við okkur.“
Ég hélt það yrði mér ómögulegt en
sá fljótt að þetta væri eina vitið
enda lærði ég mest á þennan hátt.
Þau hjálpuðu mér mikið og pepp-
uðu mig upp, ekki síst þegar mér
fannst mér allar bjargir bannaðar
og hélt að ég gæti aldrei lært hvað
allar þessar brauðtegundir hétu.
Hvað þá að ég ætti eftir að geta
borið fram orðið fjögurrakorna,“
segir Fanny og hlær. Hún segir við-
skiptavini einnig hafa sýnt sér þol-
inmæði. „Að vísu kemur fyrir að
fólk haldi að ég skilji minna í ís-
lensku en ég geri, en það er ekki al-
gengt. Ég hef aldrei orðið vör við
rasisma eða fordóma í minn garð.
Þvert á móti verður fólk oft mjög
forvitið og áhugasamt þegar ég seg-
ist vera frá Perú. Ótrúlega margir
Íslendingar virðast hafa ferðast
þangað og ennþá fleiri tala smá
spænsku eða vilja læra hana.“
Dreymir um kokkanám
Þrátt fyrir langa og erilsama
vinnudaga tekur Fanny sér ýmis-
legt fyrir hendur í frítíma sínum.
Hún syndir til þess að halda sér í
formi, sækir helgihald í kaþólsku
kirkjunni í Hafnarfirði og hittir
vini sína um helgar. „Hér hef ég
eignast fjöldann allan af vinum.
Flestir þeirra eru frá spænskumæl-
andi löndum en nokkrir eru ís-
lenskir. Skemmtilegast finnst mér
að elda fyrir þá ekta perúskan mat.
Ceviche er í mestu uppáhaldi hjá
mér, en það er hrár fiskur mariner-
aður í sítrónu og með allskyns
meðlæti. Ég sakna matarins í Perú
sem er mjög góður og í raun
dreymir mig um að læra til kokks
og vinna við að elda perúskan mat,
hvort sem það væri hér á landi eða í
Perú. Ég er lærð hárgreiðslukona
en hef ekki starfað sem slík, enda
hef ég mun meiri áhuga á matar-
gerð en hárgreiðslu. Hver veit
nema ég reyni að freista þess að
komast í kokkanám hér á landi,“
segir hún dreymin. Það væri þá
ekki það fyrsta sem hún lærði á Ís-
landi þar sem hún hefur á þessum
fjórum árum lært að tala íslensku
og ensku og tekið bílpróf. „Ég keyri
um á litlum og frekar gömlum bíl
sem ég er búin að kaupa. Hann er
engin glæsikerra en hann dugar
mér afskaplega vel.“
Ánægð með lífið
Ljóst er að Fanny er ánægð með
lífið og tilveruna hér á landi og hún
viðurkennir að ef til vill sé hún
orðin of góðu vön.. „Ég er búin að
venjast þeim nútímaþægindum
sem ég ólst ekki upp við og farin að
taka þeim sem sjálfsögðum hlut.
Ráðgert er að fjölskyldan mín fái
húsnæðið, sem ég er að kaupa fyrir
hana í Lima, afhent í ágúst. Það er
ekki stór íbúð, en þó mun rúm-
betri en nokkurt húsnæði sem þau
hafa búið í og þar fá þau loksins
vatn og rafmagn. Ég held að þetta
verði ekki síst tímamót fyrir 19 ára
gamlan bróður minn sem er að
læra lögfræði í háskóla. Hingað til
hefur það tekið hann tvo tíma að
komast í strætó á milli heimilisins
og skólans, þannig að samtals eyðir
hann fjórum tímum á dag í strætó.
Nýja húsnæðið er mun nær háskól-
anum þannig að hann á eftir að
spara mikinn tíma,“ segir hún og
bætir því við að vitaskuld sakni
hún fjölskyldu sinnar. „En núna er
22 ára gömul systir mín komin til
Íslands að vinna sem au-pair í
Garðabænum, þannig að í það
minnsta fæ ég að hitta einn fjöl-
skyldumeðlim reglulega. Svo erum
við móðir mín með fastan vikuleg-
an símatíma um helgar og það
munar ótrúlega miklu að fá að
heyra í henni röddina. Eins og
mæðra er von og vísa spyr hún mig
iðulega margra spurninga; hvernig
gangi í vinnunni, hvernig veðrið sé,
hvort ég sé ekki orðin góð í ís-
lensku, hvort ég sé komin með
kærasta og svo framvegis.“
Ertu komin með kærasta?
„Nei, ég er laus og liðug,“ segir
hún og brosir. „Kannski á ég eftir
að kynnast einhverjum hérna á Ís-
landi áður en ég flyt aftur heim og
hugsanlega breyta þá framtíðar-
plönum mínum, en maður veit
aldrei. Eins og staðan er núna þá
langar mig að vera hér áfram um
eitthvert skeið, allavega í nokkur ár
í viðbót og flytja svo aftur heim til
Perú.“
Aldrei séð Íslending gráta
Spurð um muninn á Íslending-
um og Perúbúum segir Fanny hann
töluverðan. „Ég tók fljótlega eftir
því þegar ég kom að Íslendingar
virðast mun lokaðri en Perúbúar
og eru lítið fyrir að bera tilfinn-
ingar sínar á torg. Ég get sagt sem
dæmi að nú eftir fjögurra ára dvöl
á Íslandi hef ég aldrei séð Íslending
gráta. Heima í Perú væri mjög
ósennilegt að sjá engan utan nán-
ustu vina og fjölskyldu gráta eftir
svona langan tíma. Til að byrja
með fékk ég á tilfinninguna að Ís-
lendingar væru almennt frekar
kuldalegir en ég sá fljótt að það var
misskilningur í mér, því að þó svo
að fólk hér taki ekki alltaf á móti
manni brosandi og með faðminn
opinn eins og í Perú þýðir það ekki
að það sé óvinsamlegt. Menningin
er einfaldlega öðruvísi. Svo verð ég
að segja að mér fyndist gaman ef
Íslendingar dönsuðu aðeins meira.
Heima í Perú dansar fólk mikið sér
til skemmtunar og ég er þar engin
undantekning. Stundum fer ég á
Kaffi Cultura um helgar og fæ þá
útrás fyrir dansþörfina.“
Erfiðleikar í Perú
Fanny segist reyna að fylgjast vel
með gangi mála í þjóðfélaginu og
til þess horfi hún á fréttir og lesi
dagblöð. „Reyndar er það ekki allt-
Sátt við Íslandsdvölina Fanny á
hraunbreiðu í Hafnarfirði.
Fanny Merino Calle frá Perú
Er orðin góðu vön á Íslan
Fanny Merino Calle, 36
ára gömul starfsstúlka í
Fjarðarkaupum í Hafn-
arfirði, ólst upp í vatns-
og rafmagnslausum kofa
í dreifbýli í Perú. Nú býr
hún á Íslandi og þökk sé
henni flytur fjölskylda
hennar senn í rúmbetra
húsnæði í Lima með
helstu nútímaþægindum.
Vön rokinu Fanny komst fljótt að því að ef henni líkaði ekki við veðrið hér
dygði yfirleitt að bíða í nokkrar mínútur.
a
Ég hef aldrei orðið
vör við rasisma eða
fordóma í minn garð.
Þvert á móti verður fólk
oft mjög forvitið og
áhugasamt þegar ég seg-
ist vera frá Perú.