Lesbók Morgunblaðsins - 29.01.2005, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 29.01.2005, Blaðsíða 2
2 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 29. janúar 2005 ! Ég held að ég sé búinn með minn kvóta af ferðalögum til útlanda. Hvað er varið í að hanga á flugvöllum eða braut- arstöðvum með áhyggjur af farangrinum sínum og sam- ferðafólki? Að vera villtur í mengaðri stórborg, alltof sveittur – að reyna að ná í leigubíl, af því að maður er að verða of seinn eitt- hvert? Sú var tíðin að ég ferðaðist um Evr- ópu með Interrail-passa í vasanum, svaf í lestunum og nærðist á lofti. Ónei, ekki lengur. Þetta breytist með aldrinum. Þetta er lífsins gangur; á yngri árum þvælumst við um, látum skeika að sköpuðu og söfnum lífs- reynslu. Uppruni orðsins „heimskur“ er að vera mikið heima við, heimóttarlegur. Að fara ekki út fyrir túngarðinn til að auka víðsýn- ina. Við viljum bera okkur saman við aðr- ar þjóðir, upplifa ævintýri á fjarlægum slóðum. Síðan róumst við, vinnum úr reynslunni og reynum að „gera eitt- hvað“ (að vísu eru mamma og pabbi alltaf annaðhvort á Kúbu eða í Kína. En í mínu tilfelli eykst nægjusemin, ferð- irnar styttast – og ferðamátinn breyt- ist). Það skiptir ekki öllu máli að hafa komið sem víðast við, afgreitt sem flesta kílómetra. Ég man eftir Amerík- ana sem ég komst ekki hjá því að hlusta á. Hann var á sams konar Interrail- ferðalagi og ég. Hann sagði: “Well, I’ve done Spain, I’ve done France, Germany and Switzerland – pretty soon I’ll have done the whole of Europe (Interrail- passinn gildir í 30 daga). Ég hef, eins og flestir aðrir, vorkennt útlendingunum sem eru að paufast með hjólin sín í vegkantinum í rokinu og rigningunni. En svo tók ég hjólið með í útilegu eitt árið – og það opnaðist fyrir mér nýr heimur! Útlendingunum í rokinu er engin vorkunn. Það er fólkinu í bíl- unum, sem ber að vorkenna. Í bílnum fer maður á mis við lyktina, loftið, hljóðið; upplifunina við að ferðast um landið á viðeigandi hraða með til- hlýðilegri virðingu. Hver kannast ekki við að aka um sveitir, þar sem eitt fjall- ið er öðru líkt? Einn fjörður öðrum lík- ur? Ferðin fer að snúast um að fara sem hraðast framhjá þessu keimlíka landslagi, til að komast í Ásbyrgi, á Þingvelli, að Dettifossi. Þar sem maður skoðar náttúrufyrirbærið í augnablik – og svo ókei, hvert næst? Hjólreiðamaðurinn verður smám saman fíkinn í að komast á afskekktari slóðir, með minna nesti og fátæklegri útbúnað. Að leggjast til svefns í góðri gjótu eftir langan dag, er guðdómleg sæla. Um daginn var ég bíllaus seint síð- degis og þurfti að komast heim. Ég var búinn að taka strætó þann daginn og nennti því ekki aftur. Veðrið var ágætt, frekar hlýtt og fíngerður rigningarúði – þannig að ég ákvað að ganga heim. Ég kom við í Kringlunni, kúkaði og keypti mér kaffi í götumáli. Síðan rölti ég þetta í rólegheitum (nb. ekki „í hægðum mínum“) og sötraði mitt kaffi. Ég upplifði mig eins og útlending í Reykjavík. Eða jafnvel frekar eins og ég væri staddur í útlöndum. Ekki síst þegar ég fann daufa reyklykt – í erlend- um stórborgum er alltaf þoka og dauf reyklykt. Ég stundaði mitt „Innlit/útlit“ – sem felst í því að kíkja inn um gluggana hjá fólki. Án þess að stoppa þó, þar dreg ég mörkin. Það er í lagi að gjóa augunum inn, á eðlilegum gönguhraða. Síðan get- ur maður snúið við og gengið fram og til baka, aftur og aftur framhjá. Fólk var að byrja að elda, sumir voru að horfa á sjónvarpið – einn var að þrífa. Ég fékk þokkalegan þverskurð af lifnaðarháttum Reykvíkinga. Fyrir mér var þetta fullkomið ferða- lag (að vísu er mjög mikilvægt að vera nýbúinn að kúka. Hvenær líður manni betur?) En eins og ég segi, þessi nægjusemi er eitthvað sem kemur með aldrinum. Ég skal hætta að skrifa svona pistla þegar ég er orðinn alsæll með að vera einfaldlega bara búinn að kúka. Ferðalög Eftir Óskar Jónasson oj@internet.is Nokkuð dró til tíðinda í bandarískumfjölmiðlaheimi nú á dögunum erMichael Powell, formaður Banda-ríska fjarskiptaeftirlitsins (FCC), tilkynnti um afsögn sína úr embætti, sem hann hafði verið skipaður í frá árinu 2001 til ársins 2007. Powell var megindrifkrafturinn á bak við tilraunir til að rýmka gildandi lög um eignar- hald á bandarískum fjölmiðlamarkaði, og þykja fregnir af brotthvarfi hans benda til þess að rík- isstjórnin hyggist láta af þeirri tilslökunarstefnu sem Powell var einarður talsmað- ur fyrir. Powell stóð eins og kunnugt er fyrir samþykkt fjarskiptaeftirlitsins um af- nám laga sem bönnuðu fyrirtækjum að eiga dagblöð og ljósvakamiðla á sama markaðs- svæðinu, auk þess sem rýmka átti leyfilegt há- markshlutfall sem sjónvarpsstöðvar máttu eiga á Bandaríkjamarkaði úr 35% í 45%. Samþykktin vakti gríðarlega hörð mótmæli bæði stjórnmála- manna, hagsmunahópa og réttindasamtaka sem töldu slíkt lagaumhverfi bjóða heim fákeppni og takmörkun lýðræðislegrar umræðu á vettvangi fjölmiðla. Mótstaðan bar jafnframt árangur þegar ákvörðun fjarskiptanefndarinnar var hnekkt í áfrýjunardómstóli síðastliðið sumar. Segja má að þessari orrustu í hagsmunaátökum stórra fjölmiðlasamsteypna og almannahags- muna hafi lokið á fimmtudag er dómsmálaráðu- neytið tilkynnti, rétt í kjölfar fregna af brott- hvarfi Powells, að ríkisstjórnin hygðist ekki áfrýja úrskurði áfrýjunardómstólsins til hæsta- réttar og láta þannig af sókninni eftir því að fella fyrrnefndar hömlur á fjölmiðlamarkaði úr gildi. Á meðan viðtakendur bandarískra fjölmiðla hafa ástæðu til að fagna því að staðið hafi verið gegn þeirri hættu sem frekari þróun í átt til einsleitni á fjölmiðlamarkaði getur haft í för með sér, er ljóst að annars konar ógn við opna lýðræðislegu umræðu, þ.e. aukin ritskoðun að ofan, er nokkuð sem mikilvægt er að fylgjast grannt með. Nú síðast í vikunni bárust fregnir af því að Margaret Spellings, nýskipaður menntamálaráðherra Bandaríkjanna, hefði ávítt PBS-sjónvarpsstöðina fyrir að verja því al- mannafé sem stöðin er rekin fyrir, í að framleiða teiknimyndaþátt með lesbískum sögupersónum (og opinbera slíkan „lífsstíl“ fyrir börnum, þvert á vilja margra foreldra). Umræddur þáttur teiknimyndaraðarinnar „Póstkort frá Buster“ lýsir ferð kanínunnar Buster til Vermont-ríkis. Þátturinn, sem ekki hefur verið sendur út, fjallar fyrst og fremst um landbúnað og síróps- framleiðslu ríkisins, en meðal þess fólks sem sögupersónan hittir eru lesbíur, eða nánar til- tekið tvö lesbísk pör. Talsmenn PBS-sjónvarps- stöðvarinnar hafa tilkynnt að þessi tiltekni þátt- ur verði ekki sendur út á þeim rúmlega þrjú hundruð sjónvarpsrásum sem stöðin nær til, en neita að viðurkenna að athugasemdir mennta- málaráðherra hafi ráðið þeirri ákvörðun. Þessa aðför ráðuneytisins að tjáningarfrelsi og umburðarlyndi gagnvart ólíkum kynhneigð- um má í raun sjá sem anga af þeirri beinu og óbeinu ritskoðunarstefnu sem færst hefur í aukana í störfum fjarskiptaeftirlitsins undir Bush-stjórninni. Hér er um að ræða ritskoðun sem viðhöfð er undir merkjum velsæmisgæslu, hugtaki sem reynst getur vandskilgreint, og hefur fyrst og fremst einblínt á nokkurs konar dauðhreinsun sjónvarpsefnis af nokkru sem vís- að getur til kynlífs eða nektar. Mikil gangskör hefur verið gerð í velsæmiseftirliti með útsend- ingum ljósvakamiðla í formannstíð Michaels Powells undanfarin fjögur ár, en hann stóð fyrir því að stórauka sektir á ljósvakamiðla sem létu „ósiðsemi“ viðgangast í útsendingum sínum. Dæmi um áherslur og gildismat fjarskiptaeftir- litsins í siðgæðisstefnu sinni er 550 þúsund dala sekt sem stofnunin hefur gert Viacom fjölmiðla- samsteypunni að greiða eftir að hið ógnvænlega brjóst söngkonunnar Janet Jackson birtist óhul- ið í beinni útsendingu frá skemmtiatriðum í leik- hléi á Super Bowl-úrslitaleik á síðasta ári. Til fróðleiks má benda á að árið fyrir formanns- skipan Michaels Powells námu samanlagðar ósiðsemissektir til ljósvakamiðla í Bandaríkjun- um um 48 þúsund Bandaríkjadölum. Árið 2004 nam sú tala 7,7 milljónum dala. Ef litið er til þeirra aðila sem taldir eru líklegir eftirmenn Michaels Powells í formannsstól fjarskipta- nefndarinnar, er ekki ástæða til að vænta mik- illar stefnubreytingar, en sá sem einna líkleg- astur þykir, þ.e. repúblikaninn Kevin Martin, er þekktur fyrir enn einarðari afstöðu til vælsæm- isgæslu en fráfarandi formaður. Þegar leitað er skýringa á ákvörðun Bush- stjórnarinnar um að hverfa frá áfrýjun vegna tilslökunartilrauna fjarskiptaeftirlitsins, kemur á daginn að siðgæðisstefnan virðist spila þar ákveðna rullu. Í fréttum af ákvörðun dómsmála- ráðuneytisins, m.a. í New York Times á fimmtu- daginn sl., er haft eftir talsmanni ráðuneytisins að lögfræðingar hafi varað við því að áfrýjun vegna eignarhaldslaganna gæti beint sjónum hæstaréttar að tjáningarfrelsisákvæðum, sem gæti í kjölfarið veikt möguleika fjarskiptaeftir- litsins til þess að halda uppi háum fjársektum sem viðurlögum við ósiðsamlegu efni í fjölmiðl- um. Þessi staðhæfing er athyglisverð afhjúpun á því á hversu gráu svæði velsæmisritskoðun- arstefna fjarskiptaeftirlitisins í raun er. Velsæmi og frjálsræði Fjölmiðlar Eftir Heiðu Jóhannsdóttur heida@mbl.is ’Hér er um að ræða ritskoðun sem viðhöfð er undirmerkjum velsæmisgæslu, hugtaki sem reynst getur vandskilgreint …‘ I Málar íslensk málstefna málið inn í horn?Þessari spurningu svarar Guðrún Kvaran prófessor í mjög athyglisverðri grein í ritinu Málstefna – Language Planning sem er safn greina eftir íslenska og erlenda höfunda sem kom út í vikunni í bókaflokkinum Rit Íslenskr- ar málnefndar. Guðrún fjallar um vanda ís- lenskrar málstefnu í greininni sem er af ýms- um toga þótt stefnan hafi, að segja má, hlotið almennt samþykki meðal Íslendinga á síðustu öld – reyndar er hið almenna samþykki um stefnuna hugs- anlega hluti af vandanum. Mesti vandinn teng- ist þeim breytingum sem urðu á samfélaginu á síðari hluta síðustu aldar þegar gífurlegt magn upplýsinga flæddi yfir landið. Vegna mál- hreinsunarstefnunnar var krafan sú að allar þessar upplýsingar væru íslenskaðar, að fund- in yrðu íslensk orð um allt það sem hugsað var og gert. Við höfum hins vegar vart haft undan þrátt fyrir mikla nýyrðasmíði. Og, eins og Guðrún bendir á, þá verður ekki auðveldara fyrir lítið málsamfélag að standa gegn sívax- andi straumi. II Guðrún talar um að vandinn felist ekkisíst í því sm hún kallar tvöfalda aðferð ís- lenskrar málhreinsunar. Það þarf að halda orðaforðanum „hreinum“ sem þýðir að end- urnýjun þarf að fara fram í gegnum hinn svo- kallaða grunnorðaforða, „orðaforða sem er svo grunnur, ef svo má segja, að í honum eru næsta fá tökuorð úr grísku og jafnvel latínu, hvað þá öðrum tungumálum. Þetta merkir að endurnýjun orðaforðans takmarkast við orð og orðstofna af germönskum uppruna og í raun aðeins þá sem varðveittust á Íslandi“. Þessi aðferð hefur gert það að verkum, segir Guðrún, að til hefur orðið krafa um merking- arlegt gagnsæi þegar verið er að setja saman eða þýða hugtök. Krafan um gagnsæi beinir nýyrðasmíðinni enn frekar í grunnorðaforð- ann og takmarkar þannig mjög nýtingu á er- lendum tökuorðum. Tökuorðin eru hins vegar oft komin inn í talmálið áður en nýyrðið kemst í umferð. Þekking fólks nær þannig iðulega út fyrir móðurmálið. Guðrún segir ennfremur: „Ritmálið er nú staðlað og markað af rúmri öld málhreinsunar en á sama tíma virðist talmálið vera orðið mjög „mengað“ í samanburði.“ Seg- ist Guðrún hafa tekið eftir meira en litlum mun á rit- og talmáli á mörgum notkunarsviðum. „Raunar ætla ég að á sumum sérhæfðum svið- um sé risavaxið gap á milli rit- og talmáls, svo stórt að tala má næstum um tvö tungumál sé litið til orðaforðans eingöngu.“ III Sökum þessa kemst Guðrún að þeirriniðurstöðu að íslensk málstefna hafi með ósveigjanleika sínum „málað málið inn í horn að mörgu leyti og gert endurnýjun tungumáls- ins mjög erfiða“. Þetta er þó ekki stærsta vandamálið, að mati Guðrúnar, stærsti vand- inn er fjárskortur þeirra stofnana sem eiga að framfylgja stefnunni, „flestar aðgerðir stjórn- valda til að takast á við þessi mál virðast ann- aðhvort vera táknræn eða með of þröng mark- mið“, segir Guðrún og bætir við: „Ef við viljum forðast að koma íslenskri tungu fyrir í snotr- um glerskáp á safni eða koma í veg fyrir að notkunargildi hennar dragist saman niður í mállýsku við hliðina á ensku, þá verða stjórn- völd í þessu landi að fjárfesta gríðarlega í framleiðslu á þessu tungumáli á sem flestum sviðum.“ Neðanmáls Orð eru ofmetin. Orð eru bara hljóð sem við gefum frá okkur til að táknaákveðin hugtök. Ég hef með tímanum æ minni þolinmæði fyrir mönnumsem af kyni viðkomandi nafnorðs eða segja að skortur á íslenskri þýðingu á orðinu „identity“ skýrist af því að við erum svo fá að aldrei þarf að velta vöngum yfir hver viðkomandi sé. Ég skil ekki að menn skyldu sökkva sér inn í einhverjar orðmyndir og uppbyggingu setninga til að komast að einhverjum niðurstöðum sem eru svo hæpnar að jafnvel talnaspekingur mundi segja: „Nei, bíddu nú hægur, vin- ur!“ Sömuleiðis ofmeta menn vald og mátt orðanna. Orðið „innflytjandi“ er nei- kvætt, notum „nýbúi“ í staðinn. Síðan „nýr Íslendingur“ og svo koll af kolli. Helst eitthvað fimm orða óþjált hugtakasafn sem erfitt er að koma fyrir í slagorði og fátt rímar við. Einu sinni var talað um fávita. Síðan voru þeir kallaðir vangefnir, síðan þroskaheftir. Það virðist litlum máli skipta hve mörg nýyrði menn smíða á þennan hóp, alltaf munu sjoppustúlkur með tyggjó geta gert hann að níðyrði. "Díses! Ert’ eitthva’ vængefin?" Samtök ungra Gyðinga í Varsjá gáfu fyrir nokkrum árum út rit sem hét „Zydek“ (ísl.: litli Júðinn). Þessi hugmynd lýsir svolítið annarri hugmynd í orðapólitík. Í stað þess að fordæma notkun orðs voru vopn slegin úr höndum níð- inga og orðið gert að „sínu“. Fyrir nokkrum árum þótti hommi ljótt orð. Í dag þyk- ir ekki lengur tiltökumál að vera kallaður slíkur. Hefði verið betra ef menn hefðu haldið að skálda ný orð? Gauragaurar? Mannamenn? Viðsnúningar? Nú eru liðin sex ár síðan ég hélt kosningabaráttu til embættis hringjara Menntaskólans í Reykjavík undir slagorðinu „Slavann í skítverkin!“ Líklegast væri það stórfelld sögufölsun að halda því fram að miklar málpólitískar ástæður hafi þar legið að baki. Fyrst og fremst var ég að reyna að vera fyndinn og vinna kosningarnar. Sem tókst. Spurning um að endurnýta þetta einhvern tímann. Pawel Bartoszek Deiglan | www.deiglan.com Innflytjandi, nýbúi, nýr Íslendingur Morgunblaðið/Jim Smart Undirstaðan. Lesbók Morgunblaðsins Kringlunni 1, 103 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Umsjón Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýsingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.