Lesbók Morgunblaðsins - 29.01.2005, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 29.01.2005, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 29. janúar 2005 H ún var einn athyglisverðasti sellóleikari 20. aldarinnar, og fyrsta konan sem náði heimsfrægð af því að leika á þetta hljóðfæri sem lengi vel þótti „ókvenlegt“. Allt frá því hún spratt fram á sjónarsvið tónlist- arheimsins 16 ára gömul lék enginn vafi á því að hún var gædd óvenjulegum gáfum. Hún hafði þann einstaka hæfileika að geta „talað“ gegnum hljóðfæri sitt, með slíkum sannfær- ingarkrafti og ástríðu að sumum þótti nóg um. Hún átti það til að vera feimin og klaufsk í framkomu en um leið og hún tók upp sellóið lifnaði yfir henni; fyrir henni voru tónarnir eðlilegasti samskiptamátinn. Ferill hennar stóð í tólf ár og velgengni hennar virtust engin takmörk sett. En örlögin gripu harkalega í taumana. Árið 1973 var hún greind með mænusigg (MS) og hún kom aldrei fram op- inberlega eftir það. Brosmildi sellóleikarinn Jacqueline du Pré, sem lést árið 1987, hefði fagnað sextugsafmæli sínu sl. miðvikudag. Jacqueline, eða Jackie eins og hún var ávallt kölluð, ólst upp við tónlist frá fæðingu. Móðir hennar var píanóleikari og hafði lært hjá heimsþekktum kennurum á borð við Émile Dalcroze og Egon Petri. Jacqueline fór snemma að leika á píanóið lög sem eldri systir hennar æfði. Þegar hún var fjögurra ára heyrði hún í fyrsta sinn í sellói í útvarp- inu og eftir það varð ekki aftur snúið. „Ég vil spila á þetta hljóðfæri,“ til- kynnti hún móður sinni, og var umsvifalaust send í sellótíma. Hæfileikar ungu stúlkunnar komu strax í ljós, og þegar hún var ellefu ára hlaut hún virtan námsstyrk til að læra hjá William Pleeth, sem var aðalkennari hennar upp frá því og hún kallaði „sellópabba“ sinn. Hún átti það til að hrópa stundarhátt: „Ég elska sellóið mitt!“ Eitt sinn þegar fjölskyldan fór í útilegu var hún næstum óhuggandi, svo mikill var söknuðurinn eftir hljóðfærinu. Spenna og ástríða Jacqueline „debúteraði“ með tónleikum í Wig- more Hall 1961, sextán ára gömul. Efnisskráin gerði miklar kröfur og ekki minnkaði álagið við að vita að þarna var öll tónlistarelíta Lund- únaborgar samankomin. Hún fór ekki að finna fyrir sviðsskrekk fyrr en mörgum árum síðar, og var sallaróleg þrátt fyrir að væntingarnar væru himinháar. Í fyrsta verkinu, sónötu eftir Händel, tók að losna um A-streng sellósins, sem er grafalvarlegt mál eins og strengjaleik- arar vita. Þótt Jacqueline gerði sitt besta til að láta ekki bera á því, með því að spila hærra og hærra á strengnum, kom að því að strengurinn losnaði alveg. Hún afsakaði sig, fór baksviðs og lagfærði strenginn, og kom aftur geislandi inn á sviðið nokkrum mínútum síðar. Eftir þetta gekk allt eins og í sögu og strax morguninn eftir tóku tilboðin að streyma inn. Ári síðar lék hún í fyrsta sinn með fullskipaðri sinfón- íuhljómsveit, í verki sem hefur æ síðan verið nátengt nafni hennar: sellókonsertinum í e- moll eftir Edward Elgar. Hljóðritun hennar á verkinu frá 1965 hefur selst í milljónum ein- taka og snert áheyrendur um allan heim. Fyrir utan að hafa tæknilega hlið verksins algjörlega á valdi sínu bjó túlkun Jacqueline yfir óvenju- legri tilfinningalegri dýpt. Það var ekki nóg með að línurnar „syngju“, heldur var hver ein- asti tónn þrunginn spennu og ástríðu. Jackie lagði allt í sölurnar í spilamennskunni og há- rómantísk tónlist á borð við Elgar átti vel við hamslausan leikmáta hennar. Þrátt fyrir alla persónutöfrana og tónlist- argáfurnar var Jacqueline du Pré feimin og hlédræg. Hún þjáðist alla ævi af minnimátt- arkennd vegna þess hve illa hún var að sér í öðrum fögum en tónlist, enda hafði formleg skólaganga hennar þurft að víkja fyrir hljóð- færinu snemma á unglingsárum. Einkalífið var hins vegar með ævintýralegasta móti og Jacq- ueline átti í ástarsamböndum við heimsþekkta píanista á borð við Steven Kovacevich og Rich- ard Goode. En á aðfangadagskvöld 1966 hófst nýr kafli í lífi Jacqueline. Henni var boðið í veislu til píanóleikarans Fou Ts’ong, þar sem argentínski píanistinn Daniel Barenboim var einnig meðal gesta. Þau tóku tal saman og ekki leið á löngu þar til Jacqueline hafði tekið upp sellóið og Daniel var sestur við flygilinn. Þau léku saman fram á rauðanótt. Hún átti auð- veldara með að tjá hrifningu sína með F-dúr- sónötu Brahms og A-dúr-sónötu Beethovens en með orðum eða augnagotum. „Það var eins og við hefðum leikið saman alla ævi,“ sagði hún síðar. „Ég var þrumu lostin yfir því að ég gæti átt svo djúp samskipti við aðra manneskju.“ Jacqueline og Daniel Barenboim voru draumapar klassíska tónlistarheimsins: ung, falleg og óviðjafnanlega hæfileikarík. Það leið ekki á löngu áður en þau tilkynntu trúlofun sína, en hjónabandið var engu að síður hálf- gerð skyndiákvörðun. Við upphaf sex daga stríðsins í júní 1967 tóku þau sig til og flugu beina leið til Ísraels, þar sem þau héldu tón- leika fyrir hermenn og stríðshrjáða á hverjum degi. Þau gengu í hjónaband í Tel Aviv nokkr- um dögum eftir að stríðinu lauk og til að geta gifst Barenboim tók Jacqueline gyðingatrú, foreldrum sínum til mikillar armæðu. Gyð- ingahatur er lífseigt fyrirbæri og tekur á sig ýmsar myndir. Eftir að Jackie veiktist fékk hún að heyra frá ólíklegasta fólki (þeirra á meðal Galinu Vishnevskayu, eiginkonu selló- leikarans Mstislav Rostropovich) að veikindin væru hefnd Guðs fyrir að hafa játast gyð- ingdómi. Daniel Barenboim var þegar heimsfrægur píanóleikari þegar hér var komið sögu og einn- ig farinn að láta að sér kveða sem hljómsveit- arstjóri. Þau voru að mörgu leyti ólík: hann lífsnautnamaður sem reykti dýra vindla og drakk fínustu víntegundir, hún einföld ensk sveitastelpa sem hafði gaman af því að ganga um í rigningunni. Samband þeirra var á köfl- um stormasamt og jafnvel hin kraftmikla Jackie átti fullt í fangi með að halda í við eig- inmann sinn. Barenboim er frægur fyrir að halda fleiri tónleika en gengur og gerist. Hann getur haldið út á tónleikaferðalögum marga mánuði í einu og sagt er að hann þurfi ekki nema þriggja tíma svefn á nóttu. En tónlistin sameinaði þau. Á tónleikum þeirra og hljóðrit- unum er eins og einn hugur sé að baki flutn- ingnum, ein stefna og einn vilji. Blikur á lofti Eftir hveitibrauðsdagana tóku við endalausar tónleikaferðir og hljóðritanir. Þótt Jacqueline væri ávallt lífleg og brosmild kraumuðu skuggarnir undir niðri. Hún þjáðist af þreytu og svimaköstum, og stundum var henni svo kalt á höndunum að hún þurfti að æfa sig með vettlinga. Jackie hafði alltaf getað leitað til sellósins ef eitthvað bjátaði á, en nú voru vandamálin einmitt þar sem þeirra var síst að vænta. Spilamennskan varð sífellt erfiðari, og þar sem engin sjúkdómsgreining fékkst hélt hún sig vera að missa vitið. Sumarið 1971 af- lýsti hún öllum tónleikum og lýsti því yfir að hún hygðist taka sér ársfrí. Hvíldin virtist gera henni gott og hún tók aftur til við tónleikahald ári síðar, með Barenboim og Pinchas Zuker- man í Tel Aviv og á Proms-tónleikum í Lund- únum. En ekki leið á löngu þar til einkennin létu aftur á sér kræla, og nú stefndi í óefni. Jacqueline du Pré kom fram í síðasta skipti sem einleikari á tónleikum Fílharmóníuhljóm- sveitarinnar í New York undir stjórn Leon- ards Bernstein í febrúar 1973. Á fyrstu æfing- unni þurfti hún aðstoð við að opna sellókassann. Á tónleikunum sjálfum fann hún ekkert fyrir fingrunum og varð því að nota augun til að mæla út allar fjarlægðir á strengj- unum. Hljóðfærið sem áður hafði verið besti sálufélagi hennar hafði snúist gegn henni. Út- koman var hreinasta hörmung, og að tónleik- unum loknum fór Bernstein strax með Jackie til læknis. Svarið var það sama og hún hafði heyrt árum saman: of mikið álag, of margir tónleikar. Nú fóru í hönd átta örvænting- arfullir mánuðir: hún gat ekki æft sig, sam- búðin við Barenboim fór sífellt versnandi og sálrænt þrek hennar var við það að bresta. Það var ekki fyrr en í október að endanleg nið- urstaða fékkst: Jackie þjáðist af MS- sjúkdómnum og myndi aldrei geta leikið op- inberlega á ný. Næstu fjórtán árin háði Jacqueline du Pré hetjulega baráttu bæði á líkama og sál. Hún kenndi nokkrum nemendum meðan kraftar leyfðu og kom stöku sinnum fram opinberlega til styrktar góðgerðarstarfsemi; hún var sögu- maður í Pétri og úlfinum og lék á litla trommu í leikfangasinfóníu Leopolds Mozarts. Hún greip stöku sinnum í sellóið, en oft þurftu nem- endur hennar að stjórna bæði boganum og fingrum hennar. Undir lokin gat hún sig hvergi hreyft og hafði auk þess misst stjórn á máli sínu. Barenboim heimsótti hana eins oft og annasamur ferill hans leyfði, en tók að lok- um saman við píanóleikarann Elenu Bashki- rovu og stofnaði með henni fjölskyldu í París. Jacqueline du Pré lést á heimili sínu í Lund- únum 19. október 1987. Eftir lát hennar lýsti Barenboim henni með þessum orðum: „Hjá flestum öðrum tónlistarmönnum fær maður á tilfinninguna að aðeins hluti af degi þeirra sé helgaður tónlistinni, að æfa hana og flytja. Því var þveröfugt farið með Jackie. Hún eyddi öll- um deginum með tónlistinni. Hún var tónlistin. Þegar Jackie lék á selló gaf hún allt sem hún átti til. Samband hennar við tónlistina var svo fullt af ástríðu, og tilfinning hennar fyrir hljóð- færinu var slík að hún gat látið allt flakka. Sellóið hafði aldrei fyrr átt hljóðfæraleikara á borð við hana.“  Helstu heimildir: Carol Easton: Jacqueline du Pré – A Life (Summit Books, 1989) Hilary og Piers du Pré: A Genius in the Family (Vintage, 1997) Hún og sellóið voru eitt Brosmildi sellóleikarinn Jacqueline du Pré, sem lést árið 1987, hefði fagnað sextugs- afmæli sínu sl. miðvikudag. Hér er magnaður ferill hennar rifjaður upp. Eftir Árna Heimi Ingólfsson arniheimir@lhi.is Jacqueline og Daniel Barenboim Þau voru draumapar klassíska tónlistarheimsins: ung, falleg og óviðjafnanlega hæfileikarík. Höfundur er kennari í tónlistarfræðum við Listaháskóla Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.