Lesbók Morgunblaðsins - 29.01.2005, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 29.01.2005, Blaðsíða 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 29. janúar 2005 | 5 að hatri hennar á Grímhildi, konu Fáfnisbanans, síðar. Allar myndrænar umbúðir þessa líkamlega ástarsamlags Sigurðar og Brynhildar minna óneitanlega á „fantasíu“-myndir síðustu ára- tuga, sem hafa jú eins og allir vita ekki hvað síst nýtt sér ýmis fyrirbæri utan úr geimnum. Hvað sem öllum tæknibrellum og umbúðum líður tekst leik- stjóranum Uli Edel (gerði m.a. myndina „Dýragarðsbörnin“) að mörgu leyti vel upp. Aðalleikararnir Benno Fürmann og banda- ríska „Terminator“-leikkonan Kristanna Loken komast ágæt- lega frá hlutverkum sínum. Benno Fürmann er hæfilega „töff- aralegur“ Fáfnisbani, náungi sem lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna og ranglar í hálfgerðu rænuleysi á milli kvennanna tveggja sem bítast um ástir hans. Enda lætur leikstjórinn (sem er enn eitt frávikið frá fornum sögnum) Grímhildi byrla manni sínum göróttan ástardrykk sem veldur því að hann gleymir öll- um unaði fyrra ástarsamlags með Brynhildi og girnist konu sína eina. Kristanna Loken hefur á hinn bóginn alla líkamsburði til að hrífa áhorfendur og fá þá til að trúa því að hún sé viðþolslaus af kynferðislegri ófullnægju og löngun eftir ástum Sigurðar. Hún hefur mikinn kvenlegan þokka og henni tekst vel að koma til skila þeirri rafmögnuðu erótísku spennu sem veldur drottn- ingu Íslands sífelldu hugarvíli. Hún er heldur ekkert lamb að leika við. Gunnar fær t.d. ærlega ráðningu, þegar hann ætlar að hafa mök við konu sína, eftir að mágur hans, Fáfnisbaninn, er búinn að ríða vafurlogann fyrir hann. Þá gerir drottningin sér lítið fyrir og keflar hann á höndum og fótum, svo að hann fær sig hvergi hreyft. Það kemur því í hlut Fáfnisbanans að bregða yfir sig ægishjálminum öðru sinni og serða íslensku valkyrjuna, íklæddur dulargervi. Hin illræmda ræða Görings og viðtökurnar Þessari nýju stórmynd Ulis Edels um Niflungana hefur verið misjafnlega tekið í Þýskalandi. Það er reyndar ekki að undra, þegar haft er í huga að Niflungastefið hefur lengi verið bæði við- kvæmt og eldfimt mál í Þýskalandi. Þar veldur sjálfsagt miklu hin illræmda ræða sem nasistaforinginn Hermann Göring hélt á íþróttaleikvanginum í Berlín í byrjun ársins 1943, þegar um 300 þúsund þýskir hermenn voru innikróaðir og í þann mund að gjalda herfilegt afhroð eftir umsátur um borgina Stalíngrad. Í þessari víðfrægu tölu líkir marskálkurinn raunum þýska hers- ins við þær mannraunir sem Niflungar urðu að þola í fyrndinni – og vitnar þar til síðari hluta Niflungakvæðis, þar sem segir af örlögum Borgunda, eftir dauða Sigurðar. Göring segir í ræð- unni að Þjóðverjar eigi óviðjafnanlegt hetjukvæði, sem heiti „Barátta Niflunga“. Á sama hátt og þýskir hermenn í Rússlandi hafi Niflungar orðið að þola loga og eldsvoða, þeir hafi líka neyðst til að slökkva þorsta sinn með blóði og berjast til síðasta manns. Slík barátta sé nú háð í Rússlandi og að þúsund árum liðnum muni sérhver Þjóðverji hugsa til þessa bardaga með heilagri lotningu og minnast þess, að þrátt fyrir allt hafi sigur Þýskalands ráðist einmitt á þessum stað. Hvað sem líður aug- ljósum fáránleika þeirra orða, þá er vafamál að skáldskapur hafi nokkru sinni verið notaður jafn óhugnanlega og Göring gerði í þessari ræðu. Með skírskotun til hins forna kvæðis er lýðskrum- arinn að leika á viðkvæma strengi í brjóstum landa sinna. Hann notar kvæðið beinlínis til að réttlæta það, að þúsundir þýskra hermanna gangi í opinn dauðann við Stalíngrad. Hann veit að kvæðið hefur mikið vægi í vitund þjóðarinnar. Það hefur löngum verið talið sögulegur minnisvarði um alla bestu og göfugustu eiginleika Þjóðverja. Þess vegna sér hann sér leik á borði að nota það til að bera blak af þeim vitfirrta málstað sem býr að baki umsátrinu um Stalíngrad. Í ljósi þessarar sögu hafa þýskir gagnrýnendur m.a. bent á það að leikstjóranum Uli Edel hefði verið nær að gera gagnrýna mynd, sem tækist á við skuggahliðar Niflungastefsins, í stað þess að klæða það í búning fantasíu og ævintýris. Það er auðvitað skiljanlegt að þýskir gagnrýnendur séu við- kvæmir fyrir því að goðsagan um Fáfnisbanann sé klædd í svo léttúðarfullan búning. Á hinn bóginn má benda á að það er erfitt að fara með þessar fornu sagnir á annan hátt. Og vegna þess hvað þær eru fullar af „yfirnáttúrulegum“ hlutum eru þær ein- mitt kjörið efni í ævintýra- og spennumyndir. Hitt er líka í sjálfu sér býsna merkilegt að þessar þúsund ára gömlu sagnir um Fáfnisbanann og örlög hans skuli enn, við upphaf 21. aldar, nýt- ast sem efniviður í nútímalega spennumynd. Og ætti það ekki einmitt að vera umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga, sem eigum jú eins og allir vita flestum þjóðum meira af spennandi sögum og kvæðum frá miðöldum? Höfundur er heimspekingur. Niflungahringur í Hollywood-stíl „Og það verður að segjast að leikstjóranum Uli Edel tekst að búa til úr efninu þokkalegan bræðing í Hollywood-stíl.“ heillar í Þýskalandi ’Þessari nýju stórmynd Ulis Edelsum Niflungana hefur verið mis- jafnlega tekið í Þýskalandi. Það er reyndar ekki að undra, þegar haft er í huga að Niflungastefið hefur lengi verið bæði viðkvæmt og eld- fimt mál í Þýskalandi. Þar veldur sjálfsagt miklu hin illræmda ræða sem nasistaforinginn Hermann Göring hélt á íþróttaleikvanginum í Berlín í byrjun ársins 1943, þeg- ar um 300 þúsund þýskir hermenn voru innikróaðir og í þann mund að gjalda herfilegt afhroð eftir um- sátur um borgina Stalíngrad.‘ Loken og Edel Leikstjóranum Uli Edel, sem gerði m.a. myndina „Dýragarðsbörnin“, tekst að mörgu leyti vel upp í myndinni.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.