Lesbók Morgunblaðsins - 12.02.2005, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 12.02.2005, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 12. febrúar 2005 H ann notaði gríðarlega frægð sína og stöðu sem mennta- maður fólksins til þess að fá almenning til að hugsa aftur um lögmæti marx- ískrar greiningar.“ Svona komust marxistarnir og stofnerfðarfræðing- arnir Richard Lewontin og Richard Levins að orði í minningargrein um þróunarfræð- inginn Stephen J. Gould (1941–2002). Le- wontin, Gould og líffræðingurinn Steven Rose, sem einnig er marxisti, eru heimsins frægustu andstæðingar rannsókna sem reyna að sýna fram á erfðafræðilegan grunn mannlegs atferlis. Slíkar rannsóknir hafa í gegnum árin, oft réttilega, verið tengdar kynþáttafordómum og mannkynbótum sem leiðir iðulega til samlíkingar við hörmungarnar sem kynþáttahyggja þýskra nasista leiddi yfir heiminn. Hvað um marx- ismann? Eftirmælin sýna að það þykir ekkert til- tökumál að vera yfirlýstur marxisti. Ef Gould hefði hins vegar aðhyllst „lögmæti nasískrar greiningar“ hefði hann ekki kom- ist langt í lífinu. Hvernig stendur á því að enn geta menn stoltir tengst kenningum Marx og kennt Das Kapital í skólum meðan Hitler og hugmyndafræði hans er útlæg í flestum löndum? Þetta verður enn und- arlegra þegar litið er til þess að þrátt fyrir að grundvallast á gjörólíkum hugmyndum um líffræði og sálfræði mannsins „leiddi hugmyndafræði nasismans og marxismans til iðnvæddra drápa“. Fyrir þessu eru ef- laust margar ástæður en ein þeirra er sú staðreynd að marxisminn er nátengdur hugmyndafræðilegum grundvelli rannsókna í hug- og félagsvísindum á seinni hluta tutt- ugustu aldar, þ.e. atlætishyggju, enda var erfðafræðileg nálgun á mannlegt atferli gerð útlæg úr þessum greinum í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Af þessu leiðir að ef hugmyndafræðilegur grundvöllur marxismans er rangur þá fellur atlæt- ishyggjan um koll og öfugt. Það er því at- lætishyggjan sem skýrir að hluta af hverju margir mennta-, fræði- og stjórnmálamenn halda enn beinu eða óbeinu sambandi við grunnhugmyndir Marx. Þessir einstaklingar hafa hins vegar gert sig seka um hræðilega yfirsjón eða vísvitandi sögufölsun. Í nýlegri bók líffræðingsins Pauls Ehrlichs, Human Natures, sem er löng og ítarleg árás á erfðafræðilegra nálgun á mannlegt atferli, kemur þetta vel fram. Í stuttum kafla, „Genocidal Natures“, fjallar hann aðallega um fjöldamorð nasista, en minnist einnig á illvirki Japana og banda- manna í síðari heimsstyrjöldinni, auk hörm- unganna sem áttu sér stað á Balkanskag- anum og í Rúanda. Þegar bók Ehrlichs er lesin virðist ekkert athugavert við umfjöll- unina, en eftir lestur nýrrar bókar Stevens Pinkers, The Blank Slate, áttaði ég mig á því að Ehrlich eyddi ekki einu orði á fjölda- morðin sem voru framin í Austur-Evrópu, Kína og Kambódíu í nafni marxismans og atlætishyggjunnar, hugsjónir sem eru Ehrlich mjög hugleiknar. Er þetta yfirsjón eða sögufölsun? Þegar ég hugsa um allan þann fjölda bóka og ritgerða sem ég hef lesið þar sem erfðafræðileg nálgun á mann- legt atferli er tengd nasismanum er freist- andi að draga þá ályktun að hér sé um vís- vitandi sögufölsun að ræða. Þetta er líklega of harður dómur. Til marks um þetta rakst ég nýlega á grein eftir bandarískan líffræði- prófessor sem segir að „meðan atlæt- ishyggjan hefur ekki verið tengd við neitt nándar nærri eins stórkostlega illt og hug- myndafræði nasista um erfðafræðilega hreinan stofn, hefur hún leitt til verulegra kvala einstaklinga“. Þegar atlætishyggjan er tengd við marxismann og þetta tvennt við fjöldamorð, sem er alls ekki sárs- aukalaust fyrir okkur sem höfum stuðst við þessa hugmyndafræði, þá sést hversu barnaleg þessi ummæli eru. „Við erum sammála um gildi þess að búa til samfélag, sósíalískt samfélag, þar sem meira jafnrétti ríkir.“ Þessi orð létu Le- wontin, Rose og Leon J. Kamin falla í bók- inni Ekki í genunum okkar (1984), sem skrifuð var sem andsvar gegn erfðahyggju félagslíffræðinnar sem Edward O. Wilson hleypti af stokkunum árið 1975. Á þessum árum var jafnaðarstefnan á hátindi sínum í vestanverðri Norður-Evrópu, sem lá til grundvallar velferðarkerfunum sem þessar þjóðir byggðu upp á eftirstríðsárunum og miðuðu að því að skapa öllum jöfn tækifæri til menntunar og heilsugæslu. Á þessum ár- um var atlætishyggjan innan félagsvísinda einnig á hátindi sínu og hugmyndafræði hennar mótaðist af hugmyndinni um tabula rasa, óskrifuð tafla. Börnin fæddust í heim- inn hrein og ómenguð, sem aftur fól í sér að þau hafa öll sömu möguleikana og er það hlutverk velferðarkerfisins að skapa um- hverfi sem stuðlar að fullum þroska hvers einstaklings. Þetta er falleg hugsjón en vandamálið við hana er að Stalín, Maó og Rauðu Khmer- arnir, sem sögðu: „Einungis nýfædd börn eru ómenguð“, aðhylltust hana einnig. Upp- gjörinu við marxismann lýkur því ekki fyrr við áttum okkur á því að í röngum höndum er atlætishyggjan, í sinni ýtrustu mynd, jafnhættuleg og öfgafull erfðahyggja. Okk- ur er því hollt að hafa þessa staðreynd í huga næst þegar við tengjum erfðafræði- lega nálgun á mannlegt atferli sjálfkrafa við kynþáttafordóma, mannkynbætur og jafnvel nasismann. Maðurinn er afurð þróunar og því hljóta genin að hafa eitthvað með birt- ingarmynd atferlis okkar að gera. Vanda- málið er hins vegar, eins og heimspeking- urinn Peter Singer benti nýverið á, að kristin trú og marxisminn, eins ólíkar og þessar hugsjónir eru, „voru sammála um kröfuna um að hyldýpi sé á milli manna og dýra og því sé ekki hægt að beita þróun- arkenningunni á manninn“. Singer telur lausnina felast í „hjónabandi Marx og Darwins“, eins og félagsfræðingurinn Stephen Sanderson kallaði þessa hugmynd nýverið. Ef þessi samruni á að takast verð- ur hins vegar að eyða hræðslunni við erfða- fræðilega nauðhyggju sem enn er landlæg og kemur í veg fyrir upplýsta umræðum um tengsl erfða og mannlegs atferlis. Til marks um þetta birtist á síðasta ári leiðari í Journal of Medical Ethics, þar sem lífsiðfræðingurinn Richard Ashcroft velti upp tengslum siðfræðilegrar umræðu og erfðafræði í tilefni 50 ára afmælis uppgötv- unar Watson og Crick á byggingu erfðaefn- isins, DNA. Ashcroft hirtir samstarfsmenn sína í leiðaranum fyrir að hugmyndir þeirra „um hvað genin gera og hvernig“ stjórnist af „einfeldningslegum hugmyndum um erfðafræðilega nauðhyggju“. Af þessum sökum segir hann að lífsiðfræðingar verði að endurskoða einfeldnings- og óhjálplegar hugmyndir sínar um erfðafræðilegar orsak- ir. Síðan segir hann: „Við vanmetum stór- lega hvernig ólíkar hugmyndir um genið hafa ólíka hugmyndafræðilega byggingu, ólíkan skýringarmátt og mismunandi gerðir sönnunarstuðnings í þróunarfræði, sam- eindalíffærði, þroskunar- og læknisfræði.“ Lífsiðfræðingum og öðrum fræðimönnum utan lífvísinda er hins vegar nokkur vor- kunn því ástæða þess að hugmyndin um erfðafræðilega nauðhyggju lifir enn góðu lífi liggur að einhverju leyti í mennta- kerfinu, eins Steve Trumbo benti nýlega á. Í bandarískum háskólum er almennt ætlast til að nemendur taki inngangsnámskeið í líffræði; vitneskju sem þá bætist ofan á menntaskólalíffræðina, en Trumbo hefur áhyggjur af því hvernig slík námskeið eru kennd. Af kennslufræðilegum ástæðum seg- ir hann að alltaf sé byrjað á að tala um erfðafræði Mendels, sem einkenndist af beinu sambandi milli eins gens og eins eig- inleika, eða stökkbreytingu í bananaflug- unni þar sem breyting á einu geni veldur miklum og óeðlilegum breytingum á flug- unni. Umræðu um samspil erfða og um- hverfis í myndun lífverunnar segir Trumbo venjulega vera ónákvæma og sundurslitna. Flóknari atriði eins og sýnd gena, fjölgena erfðir, svörunarfall og arfgengi segir hann að séu sjaldan borin upp. Trumbo segist hins vegar ekki lengur hafa samvisku til þess að kenna lengur þessa einföldu erfða- fræði. „Munu nemendur mínir, sem heyra um genin fyrir samkynhneigð, brjósta- krabbamein eða geðklofa í kvöldfréttunum, verða færir um að botna í þessum upplýs- ingum? Eru þeir meðvitaðir um takmörkun ‚gena fyrir‘ orðfærisins? … Eru þeir meðvit- aðir um muninn á líkum og áreiðanleika?“ Trumbo efast um það. Árið 2002 skrifaði ég bók um erfðafræði og líftækni þar sem lögð var áhersla á að sýna fram á að úreltar hugmyndir og rang- ar forsendur lægju að baki erfðafræðilegri nauðhyggju. Ég talaði um fjölgena erfðir og samspil gena og umhverfis, en þessir þættir gera það að verkum að erfitt er að segja nákvæmlega fyrir um áhrif ákveðins gens á ákveðinn eiginleika. Síðan þá hefur bæst við enn einn óvissuþáttur. Í bókinni gekk ég út frá þeirri viðteknu skoðun að það væri línu- legt samband á milli hóps gena er liggja til grundvallar ákveðnu einkenni. Nýjustu rannsóknir hafa leitt í ljós að þetta er röng forsenda því „nýr skilningur okkar á stjórn- unarferlum í erfða- og þroskunarfræði hef- ur leitt í ljóst að nánast allir þeir ferlar sem leiða til venjulegra og óvenjulegra svip- gerða eru ólínulegir“. Smættarhyggjan sem liggur á bak við erfðafræðilega nauðhyggju er gjörsamlega úrelt. Það er kominn tími til að marxistar og aðrir andstæðingar erfðafræðilegrar nálg- unar á mannlegt atferli átti sig á því, eins og ég gerði fyrir tæpu ári: 1) Að mögulegt er að öðlast nýjan skilning á mannlegu at- ferli ef hug- og félagvísindamenn horfa með opnum hug til erfðafræðinnar, 2) sem ætti ekki að reynast þeim erfitt því hugmyndin um erfðafræðilega nauðhyggju er fræðilega úrelt, 3) um leið og þeir hugleiða að öfgafull atlætishyggja getur leitt til ómældra hörm- unga. Er uppgjörinu við marxismann ekki lokið? Uppgjörinu við marxismann lýkur ekki fyrr en við áttum okkur á því að í röngum höndum er atlætishyggjan, í sinni ýtrustu mynd, jafn- hættuleg og öfgafull erfðahyggja, segir í þessari grein. Er það of harður dómur að halda því fram að marxisminn hafi leitt til annarra eins voðaverka og erfðafræðin gerði í höndum nasista? Ef ekki, hvers vegna þykir þá ekkert tiltökumál að kenna sig við marx- isma enn í dag? Karl Marx „Hvernig stendur á því að enn geta menn stoltir tengst kenningum Marx og kennt Das Kapital í skólum meðan Hitler og hugmyndafræði hans er útlæg í flestum löndum?“ Eftir Steindór J. Erlingsson steindor@aka- demia.is Höfundur er vísindasagnfræðingur. ’Þegar bók Ehrlichs er lesin virðist ekkert athugavertvið umfjöllunina, en eftir lestur nýrrar bókar Stevens Pinkers, The Blank Slate, áttaði ég mig á því að Ehrlich eyddi ekki einu orði á fjöldamorðin sem voru framin í Austur-Evrópu, Kína og Kambódíu í nafni marxismans og atlætishyggjunnar, hugsjónir sem eru Ehrlich mjög hugleiknar. Er þetta yfirsjón eða sögufölsun? ‘

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.