Lesbók Morgunblaðsins - 22.10.2005, Síða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 22.10.2005, Síða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 22. október 2005 H vaða augum lítur sálgreiningin með- vitundina? Er hægt að þýða hug- tök hennar yfir á önnur svið, til dæmis gervigreindarfræði eða tölv- unarfræði? „Sálgreiningin leggur kannski ekki aðaláherslu á að skilgreina það hvað meðvitundin er í sjálfu sér. Hún er fremur upp- tekin af reynslu okkar af henni. Sál- greiningin spratt upp úr geðlæknisfræði og fyrir lækninn er meðvitund getan til að skynja og sá sem er meðvitundarlaus er líkt og sofandi og veit ekki af sér. Í ljósi þessa er grunnhugmyndin sú að vera sér meðvitandi um ástand sitt og um- hverfi. Innan sálgreiningarstefn- unnar er hugtakið líka notað, og þá í meira óhlutbundinni framsetningu, yfir það „svæði“ í starfsemi hugans sem við erum okkur meðvitandi um á hverjum tíma. Þetta meðvitaða „svæði“, sem reyndar er ekki stað- setjanlegt í heila sem slíkt, er að lík- indum miklu minna en það „svæð- i“sem við erum okkur ómeðvitandi um. Þessa staðreynd má kannski þýða yfir í vinsæla hugmynd um að við „notum ekki nema brot af heil- anum“. Meðvitund er þó fyrst og fremst hæfileikinn til að rýna í það sem gerist í huga manns á hverjum tíma. Það er áhugaverð hugmynd hvort staðsetja megi einhvers konar meðvitund einhvers staðar í líkama eða heila, en líklega eru hugmyndir sálgreiningar um þetta efni ekki auðsmættanlegar niður á það plan. Í frægri myndlíkingu líkti Sig- mund Freud, einn helsti kenn- ingasmiður sálgreiningarinnar, hug- anum við borgarísjaka þar sem meðvitund stendur upp úr kafinu, en undir niðri kokkar ýmislegt í dulvit- und. Ef við reynum að þýða þessa lík- ingu yfir á tölvunarfræði má kannski segja að meðvitund sé eins og vinnsluminni í tölvu, en virkni dulvit- undarinnar sé sú vinnsla sem á sér stað í baksviði. Hvernig nákvæmlega hugbúnaður og vélbúnaður spila saman og skila sér inn í heildarvirkni tölva verða aðrir en ég að skýra, en ég tel mig þó vita að hvor þarfnast hins, þó að kannski sá tími komi að „hugbúnaður“ og „vélbúnaður“ verði eitt eins og er í okkur. Ég heyrði nýlega býsna sannfær- andi samtal manns við tölvuna George á BBC. Það allt að því virtist að George hefði meðvitund og leitaði skilnings, en með misjöfnum árangri þó – kannski álíka skrýtið að tala við hann og að tala við sálgreininn sinn! Hvort George er fær um að skoða hug sinn, vera meðvitaður og sjálfs- rýninn, veit ég ekki, en líklegt er að ef tölva hefði slíka hæfni og hefði val um að beita henni myndi hún líklega nota hana.“ Mætti þá segja að sálgreiningin sé í eðli sínu praktísk? „Já, ég myndi segja það, og að kenning hennar sé mjög áhugverð sem slík. Langflestir sem hafa skrif- að um þekkingargrundvöll sálgrein- ingarinnar höfðu mikla reynslu af því að vinna með fólki í erfiðleikum og slík reynsla hefur tilhneigingu til að setja mann í samband við veru- leikann. Freud var taugalæknir og lagði upphaflega upp með það í rann- sóknum sínum að reyna að skýra starfsemi meðvitundar og huga end- anlega í ljósi taugafræða. Hann sá hins vegar, vegna skorts á rannsókn- artækni, enga möguleika á því á sinni tíð og smíðaði því huglægari kenn- ingu sem beitti hugtökum á borð við vitund, meðvitund, undirvitund, dul- vitund, sjálf-ið, það-ið og yfirsjálfið. Þótt hann skrifaði mikið um fræði- lega sálarfræði, nokkurs konar frum- sálarfræði (e. metapsychology) þar sem hann reyndi að útlista virkni hugans með vísindalegum hætti, og stundum jafnvel á heimspekilegan hátt, þá fjallaði hann fyrst og fremst um meðvitundina í ljósi vandamála sem tengdust reynslu fólks af meðvit- und og takmörkunum hennar. Sál- greiningin hefur fyrst og fremst verið upptekin af geðrænum vandamálum, jafnvel þó að hún hafi líka gagnast til að lýsa afurðum hugarstarfs í menn- ingu, listum og trú.“ Menjar reynslunnar Heldur þú að kenning Freuds hefði á einhvern hátt verið öðruvísi ef hann hefði haft aðgang að heilalíkönum nú- tímans og rannsóknaraðferðum taugalífeðlisfræðinnar? „Ég tel að kenning hans hefði í grunninn verið sú sama, en ef til vill sett fram á annan hátt. Freud ól með sér þann draum að geta staðsett sál- ræn fyrirbæri í líkamanum. Hann vonaðist líka til að við gætum kort- lagt geðsjúkdóma í taugum og heila. Hann byrjaði hins vegar í taugum en endaði í menningu. Hann sá að margt af geðrænum vandamálum átti rót í reynslu okkar og að hægt var að vinna með hana í sérstæðu samtali sem einblíndi á menjar reynslunnar í huga okkar, samtali sem beindi at- hygli bæði að reynslunni „hér og nú“ í meðferðinni en ekki bara þá, þegar það var „séð og heyrt“. Með þessu smættaði hann vissulega reynslu okkar af heiminum inn í hugarheim- inn, en jafnframt velti hann því fyrir sér hvort hægt væri, eða hvort þörf væri á, að smætta hana alla niður á hið lífeðlisfræðilega plan. Hann taldi hugsanlegt að staðsetja mætti sálræn ferli í heila, taugum eða annars staðar í líkamanum, en hann var hins vegar ekki viss um að það myndi leysa vandamál okkar. Það er hins vegar margt heillandi við þá hugmynd og margir hafa komið fram og þróað kenningar og lækn- isaðferðir í ljósi nýrrar þekkingar. Eitt það nýjasta er að nú er unnið að rannsóknum á eins konar minninga- eða hugarverkfræði sem miðast að því að breyta minningum fólks. Kannski munum við geta á tölvuskjá ,,eytt“ slæmum minningum og ,,skap- að“ góðar í dulvitund. Þetta er áhuga- vert en vekur líka margar sið- fræðilegar spurningar.“ Hversu ánægður ert þú með kenn- ingar sálgreiningarinnar? Ert þú freudisti, jungisti eða hvernig stend- ur þú gagnvart kenningum sálgrein- ingarinnar? „Ég er nú ýmislegt, og það eru ekki aðeins Freud og Jung heldur aragrúi af öðrum kenningasmiðum sálgreiningarinnar sem lögðu fram stórmerka sýn á heilbrigði og óheil- brigði okkar. Ég tel að margt af því sem hin klassíska kenning sálgrein- ingarinnar lagði fram sé enn í fullu gildi og ekkert komið í staðinn fyrir það. Þannig að ég er ánægður með kenningarnar þó að þar sé líka margt skrítið að finna. Margar nýrri kenn- ingar í sálfræði eru í endagreiningu samstiga, þó að hugtök og orðræða sé önnur, enda er enn verið að reyna að lýsa sama viðfangsefninu. Við búum nú yfir miklu meiri þekkingu á eðli hugarstarfseminnar en var til á tíma Freuds og Jungs og það er búið að lyfta grettistaki í meðferð geð- sjúkdóma með lyfjum. En grunn- hugmynd sálgreiningarinnar er samt að mínu mati í fullu gildi, það er að segja að það sé ómeðvituð virkni í huganum og að sú virkni geti gert okkur veik. Ekki nóg með það heldur tel ég að það sé alvarlegt og óábyrgt af fagaðilum að vilja ekki kannast þá innsýn sem sálgreiningarstefnan hef- ur í okkur sjálf, geðræn- og sál- fræðileg vandamál, stofnanir okkar og samfélagið í heild. Jung notaði þessa myndlíkingu um hugann: Ímyndaðu þér að þú sért staddur í landslagi um nótt þar sem ljósgeisli lýsir upp ákveðinn hluta. Það sem sést í þessu ljósi er það sem þú ert meðvitaður um, en fyrir utan það er ýmis virkni, hugmyndir, ímyndir og fleira sem þú veist ekki af undir venjulegum kringumstæðum. Þessi virkni getur engu að síður haft sín áhrif, þetta er dulvitund okkar. Í fyrstu kenningum Freuds var dulvit- undin líkamslífið, starfsemi heila og tauga, efnaskipti, ósjálfráð kerfi ým- iskonar, blóðrás, melting, hvatir o.þ.h. en síðar kom fleira til. Líkamshvatir, samkvæmt Freud, eru hrein líkamleg fyrirbæri sem birtast hins vegar sem sálrænar hneigðir, en þær eru sveigjanlegri og mótast í tengslum okkar við um- hverfi. Í flóknu samspili erfðafræði- lega skilyrts hvatalífs okkar og upp- lifunar okkar af því að vera til geta orðið til „duldir“, ómeðvitað efni sem við annaðhvort viljum ekki eða getum ekki gengist við í okkur. Þetta hefur alltaf með hvatalíf okkar að gera, en líka reynslu okkar, áföll, viðvarandi togstreitu eða ímyndaða reynslu okk- ar af öðrum. Duldir eru þannig knippi af sálrænni virkni sem hefur áhrif á hegðun okkar og hugsun. Að tak- marka hugmynd okkar um geð- og sálræn vandamál við erfðir, atferli eða hugræna þætti eina bendir til takmarkaðrar innsýnar í eðli þessara hluta. Meðvitund mótist ekki síst af reynslu okkar af öðru fólki. Ef við kæmum inn í heiminn og enginn tæki á móti okkur yrði ekki um mikla með- vitund að ræða. Hún þróast frá fyrstu dögum frumbernsku okkar í stöðugu samtali við umhverfið og er m.a. sam- sett úr reynslu okkar af öðru fólki sem á bústað í huga okkar og tilfinn- ingu. Þetta mótar hæfni okkar til að hafa meðvitund og gerir hana mögu- lega.“ Strengjabrúður hvatanna? Hugmyndin um sjálfið er að mörgu leyti nátengd hugmyndinni um með- vitundina og þess vegna er kannski erfitt að samþykkja klofning hugans milli meðvitundar og dulvitundar. Hvernig er sambandinu þarna á milli háttað? „Skýringarlíkanið er einföldun. En það vísar til reynds veruleika og það gerir það nothæft í sállækningum. Í gegnum lífið verðum við fyrir stöð- ugu áreiti frá umhverfinu og erum góðu heilli ekki meðvituð um allt sem við tökum inn. Mest af því sem við skynjum úr umhverfi okkar flæðir inn án vitundar okkar en safnast í sarpinn. Margháttuð starfsemi fer líka fram í líkamanum án þess að við séum okkur meðvitandi um hana. Út frá sjálfinu er munurinn á með- vitund og dulvitund kannski fyrst og fremst fólginn í hver ég vil vera og hver ég vil ekki vera. Hér er þá litið til þess hvað það er í okkur sem við viljum eða getum horfst í augu við og hvað ekki. Þetta tengist gjarnan gild- ismati og því sem við teljum við- unandi og viðurkennt. Við getum t.d. neitað að horfast í augu við einhverja hvöt, hneigð, líðan, hugsun eða ímyndir sem sækja að sjálfinu, því það er á skjön við gildismat okkar. Freud áleit að þetta kæmi fyrst og fremst til ef eitthvað færi úrskeiðis í þroska kynhvatar og/eða árás- arhvatar. Hann hittir í mark þarna, en nú vitum við reyndar að það eru líklega til mun fleiri hvatir, svo sem tengslahvöt, sköpunarhvöt, o.fl. Af- neitun sjálfs á innra lífi, þ.e.a.s. bæl- ing, getur skapað margvísleg vanda- mál í lífi okkar og miklu flóknari vandamál en að mínu mati margir sem sinna sállækningum í dag vilja viðurkenna. Lykillinn að heilbrigðri meðvitund er fólginn í góðu flæði milli meðvitundar og dulvitundar, annars getur meðvitund brugðist og farið að sjá hluti í annarlegu ljósi.“ Hvað með hvatalíf dulda og hneigða, að hve miklu leyti erum við strengjabrúður hvatanna? Hversu mikið vald höfum við yfir sjálfum okkur ef nokkuð? „Við vitum ekki hversu meðvituð við erum. Það er stóra spurningin. Lífið fer augljóslega sínu fram. Við virðumst hafa ákveðnar eðlislægar tilhneigingar til að hugsa eftir ákveðnum brautum, fara eftir ákveðnum mynstrum, sækja í ákveðna hluti og auðvitað teljum við okkur trú um að við séum okkur með- vitandi um þetta allt saman. Sálgreiningin setur aftur á móti stórt spurningarmerki við þetta og telur meira að segja meðvitund okkar og siðmenningu standa stöðug ógn af hvatalífi okkar og að það þurfi í raun- inni mjög lítið til að þessir kraftar taki völdin. Sálgreiningin lítur svo á að meðvitundin sé eins konar mögu- leiki sem getur vaxið upp úr hvatalífi ef líkami og hugur þroskist eðlilega. Samkvæmt myndlíkingu Jungs, sem við nefndum áðan, miðast sálgreining að því að færa ljósgeisla meðvitundar til í þeirri viðleitni að verða meðvit- aðri um ómeðvitað efni, m.a. hvatir, einmitt til að verða ekki leiksoppur þess. Það er í þessum skilningi sem sál- greiningin leggur aðaláherslu á að skoða hugtakið eða fyrirbærið með- vitund. Þetta hefur mikið hagnýtt gildi. Lítið atvik eða röð atvika, sér í lagi ef það blandast saman við gild- ismat, trúarhugmyndir, o.fl. getur hlaðið utan á sig og orðið að duld, einskonar knippi af hugmyndum, til- finningu og sálrænum ímyndum, sem við erum okkur ómeðvitandi um. Þetta fyrirbæri getur síðan farið að lifa sjálfstæðu lífi og valdið kvíða, þunglyndi eða ranghugmyndum.“ Vísindaleg kenning? Nú hefur sálgreiningin verið gagn- rýnd og til dæmis legið undir ásök- unum fyrir að vera gervivísindi af því að kenningar hennar séu ekki hrekj- anlegar. Hvaða mælikvarða getum við lagt á kenninguna? Er sálgrein- ingin vísindaleg kenning? „Það er margt í kenningu sálgrein- ingarinnar sem allir sem starfa að geð- og sállækningum taka sem gefin sannindi og virða sem slík. Dæmi um það eru kenningar um varnarhætti sjálfsins, s.s. afneitun, frávörpun, o.fl. Það er ekki mín deild að reyna að sýna fram á gildi fræðigreinarinnar með vísindalegri aðferð. Þetta er flókin deila þar sem margir er kall- aðir en fáir útvaldir. Hins vegar er aðferðin margreynd með endurteknum hætti í meðferð- arvinnu. Ég forðast að segja í end- urteknum rannsóknum því nútíma sálgreinandi skilgreinir sig ekki leng- ur sem rannsakanda og skjólstæðing sinn sem viðfang. Sálgreining er sam- starf tveggja aðila sem má kannski fremur líkja við nýtt tækifæri m.t.t. uppeldis þar sem spurningin ætti kannski að vera: Virkar uppeldið? Það er að mínu mati hættulegt að gleyma framlagi sálgreiningarinnar til rannsóknarinnar um manninn. Það mikilvægasta er ekki að reyna að verja kenninguna gagnvart raunvís- indum. Það sem mestu máli skiptir er hvort hún virkar þegar við leyfum okkur að skilja dýptirnar í framlagi hennar. Sem meðferðarform þarf hún að sanna sig með klínískum gögnum. Ég tel hana hafa gert það nú þegar, en fyrir þá sem vilja meiri mælingar má benda á að sú vinna er í gangi hér og hvar í meðferðarsam- félagi heimsins. Klínískar rannsóknir eru hins vegar nú á tímum spyrtar við margháttaða hagsmuni sem ekki hafa hag í að gefa gaum að langtíma- vinnu sálgreinenda og skjólstæðinga þeirra. Sálgreiningin er ekki í tísku sem stendur, og sem aðferð er hún gagn- rýnd fyrir að vera dýr og tímafrek, en mín skoðun er sú að þegar vandamál hafa verið að hlaða utan á sig, segjum t.d. í tuttugu til þrjátíu ár, þurfi vand- inn meiri yfirlegu en fæst í nokkrum tímum þar sem reynt er t.d. með snaggararlegum hætti að fá skjól- stæðing til að hugsa hlutina í nýju ljósi. Langtímavinna er kannski held- ur ekki svo dýr á endanum ef miðað er við sparnað í lyfjum, sjúkrahúsvist og vinnutapi. Þá gagnrýni að kenningar sál- greiningarinnar séu ekki afsann- anlegar og því ekki vísindalegar þar sem ekki er hægt að prófa þær mætti túlka sem vísbendingu um mögulegt algildi í kenningunni. Það er margt sem gerir sálgreiningu óaðlaðandi því þær raddir heyrast oft að þó að vinn- an „virki“ þá taki hún ekki aðeins of langan tíma heldur sé hún líka erfið og varasöm. Það er margt til í þessu en háværustu raddirnar koma yf- irleitt frá þeim sem hafa takmarkaða innsýn, menntun eða þjálfun til starf- ans. Sálgreinar sjálfir eru hins vegar tiltölulega sælir í sínu því þeir telja sig vita að aðferðin virki. Þeir sjá að hún geri fólk meðvitaðra um eigið ástand og þar af leiðandi heilbrigð- ara, ábyrgara og glaðara. Það er rétt að þroskinn er dýrkeyptur, í já- kvæðri merkingu þó, því við viljum gjarnan mara í hálfu kafi ómeðvitaðs lífs, halda áfram að vera veik og tak- mörkuð. Við höfum kannski rétt á að vera ómeðvituð, jafnvel í nafni vísinda, en siðferðilega nær réttur okkar aðeins að nefi næsta manns. Og gagnvart sjálfum okkur, ef ómeðvitaðir þættir í huga okkar ógna heilsu okkar og valda skaða, þá gæti reynst gagnlegt að komast til meðvitundar og finna út, svo vitnað sé í Grettisljóð Matt- híasar Jochumssonar – „Hvað veld- ur? Hver heldur?“.“ „Meðvitund um eigið ástand og umhverfi“ Í dag flytur Haukur Ingi Jónasson sálgreinir fjórða fyrirlesturinn í fyr- irlestraröðinni „Veit efnið af andanum? Af manni og meðvitund.“ Haukur Ingi mun fjalla um meðvitundina út frá hugmyndum og hugtökum sál- greiningarinnar. Fyrirlestur Hauks Inga, sem nefnist „Veit andinn af efn- inu?“, verður fluttur í Odda, stofu 101, kl. 14.00 og er öllum opinn. Morgunblaðið/Kristinn Haukur Ingi Jónasson „Sálgreiningin er ekki í tísku sem stendur, og sem aðferð er hún gagnrýnd fyrir að vera dýr og tímafrek, en mín skoðun er sú að þegar vanda- mál hafa verið að hlaða utan á sig, segjum t.d. í tuttugu til þrjátíu ár, þá þurfi vandinn meiri yfirlegu en fæst í nokkrum tímum þar sem reynt er t.d. með snaggararlegum hætti að fá skjólstæðing til að hugsa hlutina í nýju ljósi.“ Eftir Steinar Örn Atlason og Þórdísi Helgadóttur thordith@hi.is Steinar Örn er heimspekinemi og Þórdís er BA í heimspeki.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.