Lesbók Morgunblaðsins - 29.10.2005, Page 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 29. október 2005 | 3
of hávaðasamur staður fyrir okkur Ishiguro.
Við tökum leigubíl en vitum ekki hvert við
eigum að fara. Það er föstudagur, umferðin
þung, ég hef á tilfinningunni að ég hafi
startað einhverju sem muni ekki fara vel,
upp í hugann koma fullmargar senur úr
skáldsögu Ishiguros frá árinu 1995 The Un-
consoled, sögunni um ráðvillta og minn-
islausa píanóleikarann sem hefur algerlega
misst tökin á lífi sínu. Í aftursætinu drepum
við tímann með kurteisishjali. Gjaldmæl-
irinn tifar. Að lokum komumst við að sam-
komulagi um að viðtalið fari fram í lobbíi á
hóteli við Southampton Row.
Þegar ég hitti Kazuo Ishiguro var hann
nýbúinn að árita 2.000 eintök af skáldsög-
unni Never let me go, honum leið eins og
sálarlausum manni. Það lá beint við að
spyrja hann um þessa nýju sögu sem von-
laust er að endursegja: breskur heimavist-
arskóli, klónuð börn, líffæragjafar, börn
sem eiga skamma ævi fyrir höndum. Þetta
er áleitin saga, sorgleg og óhugnanleg, saga
sem fjallar um vináttu og ást, um dauðleik-
ann og leyndina sem umlykur líf okkar.
Kazuo Ishiguro: Ég hef aldrei haft áhuga
á líftækni eða klónun. Mig langaði að skrifa
stúdentasögu, sögu um nemendur í heima-
vistarskóla. Það eina sem ég vissi þegar ég
byrjaði á sögunni var að krakkarnir voru
ekki venjulegir, örlög þeirra voru í ein-
hverjum skilningi ráðin. Mig langaði ekki til
að skrifa sögu sem yrði túlkuð sem viðvörun
um það hvert líftæknin getur leitt okkur.
Ég hef áhyggjur af því en ég bind vonir við
hana á sama tíma. Mín saga hefur miklu
víðari skírskotun. Mig langaði til að skrifa
bók um ungt fólk sem á sér enga framtíð.
EG: Þetta er ákaflega sorgleg saga, nán-
ast óhugnanleg.
Kazuo Ishiguro: Já, hún er sorgleg vegna
þess að hún fjallar um dauðleikann. Sögu-
hetjurnar eiga ekki langt líf fyrir höndum,
þær lifa að öllum líkindum ekki miklu leng-
ur en til þrítugs. En þrátt fyrir hinar mjög
svo sérstæðu kringumstæður persónanna í
sögunni reyndi ég að bergmála það sem við
þurfum öll að ganga í gegnum. Okkur er
ekki gefinn langur tími, við eigum öll
skamma ævi fyrir höndum, en reynum hvað
við getum að bægja tilhugsuninni um dauð-
leikann frá okkur. Við gerum okkar besta.
Það er sorglegt en líka í einhverjum skiln-
ingi ákaflega fallegt.
EG: Ekkert getur bjargað söguhetjunum,
ekki einu sinni ástin.
Kazuo Ishiguro: Við viljum trúa því að
ástin bjargi lífi okkar. Við viljum trúa því
að ástin geti sigrað allt. Líka dauðann.
Þetta er ein af þeim goðsögnum sem við
notum til að halda lífi. Þótt það kunni að
hljóma undarlega þá er Never let me go í
mínum huga ein af mínum glaðlegustu sög-
um, hún er eingöngu sorgleg vegna þess að
persónurnar deyja og dauðinn er aðeins
sorglegur vegna þess að á meðan við lifum
sköpum við eitthvað sem er verðmætt, sam-
bönd, vináttu, eitthvað sem endist ekki að
eilífu. Um það fjallar Never let me go í
mínum huga.
EG: Að höfundarferli þínum og fyrri
verkum. Þú skrifar um ábyrgð og þú skrifar
um eftirsjá. Sjúkleg þörf Stevens bryta í
skáldsögunni The Remains of the day fyrir
að standa sína plikt verður til þess að hann
missir af því sem máli skiptir. Hann þjónar
röngum herra af slíku alefli að hann lætur
ástina ganga sér úr greipum. Svipað er upp
á teningnum í skáldsögu þinni An Artist of
the Floating World, þar sem listamaður
sem hefur sóað hæfileikum sínum í áróður
fyrir herská öfl horfist í augu við fortíð
sína. Sjálfsblekking, ábyrgð, eftirsjá, það
sem skiptir okkur máli þegar upp er staðið,
þetta eru algeng viðfangsefni í þínum verk-
um.
Kazuo Ishiguro: Já það er rétt, ég skrifa
um þetta. Sem skáldsagnahöfundur er ég
stöðugt að reyna að fá lesandann til að sjá
hlutina í nýju samhengi og spyrja um leið
stórra spurninga: Hvað skiptir okkur máli í
raun og veru? Hvernig getum við lifað
sómasamlegu lífi? Í bókum mínum bendi ég
á þá staðreynd að það er fátt auðveldara en
að sóa lífi sínu vegna þess að maður kemur
ekki auga á það sem máli skiptir. Ég hef
sannarlega skrifað um fólk sem hefur sóað
lífi sínu. Það hefur gert fáein, smávægileg,
mannleg mistök sem síðar reynast af-
drifarík. Í fyrstu bókunum mínum, A Pale
View of Hills, An Artist of the Floating
World og The Remains of the Day, skrifaði
ég um eldra fólk sem horfir um öxl, fólk
sem í góðri trú helgaði sig ákveðinni þjón-
ustu eða málstað, en kemur á efri árum
auga á mistökin sem gerð voru.
EG: Skáldsagan The Unconsoled, fjórða
skáldsagan þín, er gjörólík fyrstu bókunum
þínum. Yfirvegað raunsæi hefur vikið fyrir
draumi, jafnvel svima! Sumir töluðu árið
1995 um nýja tegund af leiðindum, aðrir um
minnislaust meistaraverk. Hvaðan kom
þessi saga?
Kazuo Ishiguro: Hún er miklu skipulagð-
ari en menn kunna að halda, menn halda að
hún sé stjórnlaus vegna þess að hún fjallar
um mann sem hefur misst tökin á lífi sínu.
Staðreyndin er sú að ég undibjó þessa sögu
vel og hafði feikilega gaman af því að skrifa
hana. Möguleikar mínir sem rithöfundur
voru miklu fleiri eftir að ég skrifaði The
Unconsoled og ég gæti vel hugsað mér að
skrifa eitthvað líkt henni í framtíðinni.
EG: Þetta er ógleymanleg bók.
Kazuo Ishiguro: Þakka þér fyrir. Hún
skipti mig miklu máli.
EG: Persónur í bókum þínum hafa til-
hneigingu til að nuddast utan í sögulega at-
burði, þær ofmeta stöðu sína og áhrif and-
spænis miklum viðburðum, eins og til
dæmis Banks í skáldsögunni When We
were Orphans, ævinlega með herfilegum af-
leiðingum. Í þeirri sögu skrifarðu enn og
aftur um sjálfsblekkingu og getuleysi, per-
sónur í verkum þínum berjast kannski ekki
við vindmyllur en þær eru allt eins líklegar
til að reyna að koma í veg fyrir heila heims-
styrjöld með stækkunarglerið eitt að vopni.
Kazuo Ishiguro: Ég er ekki í nánu sam-
bandi við söguna. Ég er ekki Primo Levi.
Ég var ekki í Ásvits og hef ekki lifað á
átakatímum. Ég skoða sögubækur eins og
kvikmyndaleikstjóri sem leitar að tökustöð-
um og leita að tímabilum sem ríma við þau
þemu sem ég ætla að fjalla um. Mig langar
ekki endilega til að skrifa um þægilegt líf
venjulegs Vesturlandabúa. Af þessum sök-
um verð ég annaðhvort að fara um önnur
lönd eða aftur í tímann og inn í fortíðina.
Þetta veldur mér áhyggjum. Mér finnst
stundum að ég misnoti söguna. Ég veit að
ég er tilbúinn til að „fara rangt með“ ef það
þjónar tilgangi mínum sem skáldsagnahöf-
undur.
EG: Þú tilheyrir kynslóð áhrifamikilla
breskra skáldsagnahöfunda, varst valinn í
upphafi níunda áratugarins í hóp bestu rit-
höfunda Breta af yngri kynslóðinni, ásamt
mönnum á borð við Julian Barnes, Graham
Swift, Salman Rushdie, Ian McEwan og
fleiri. Allir hafa þessir höfundar haldið
tryggð við skáldsöguna og skáldsagan virð-
ist njóta mikillar hylli sem bókmenntagrein
um þessar mundir. Samt sjá ýmsir þreytu-
merki. Hvað með þig sjálfan?
Kazuo Ishiguro: Ég trúi enn á mátt
skáldsögunnar. Hún nýtur meiri vinsælda
og virðingar nú um stundir en oft áður, að
minnsta kosti hér á Englandi. Og skáldsag-
an vekur athygli fjölmiðla. Hin margboðaða
hnignum skáldsögunnar hefur ekki átt sér
stað. Ég hef til dæmis gríðarlega trú á ung-
um höfundum sem nú eru að skrifa sínar
fyrstu bækur, höfundum sem virða engin
mörk á milli bókmenntagreina en skrifa
samt einhvers konar skáldsögur. Skáldsag-
an hefur ekki hörfað út á jaðarinn heldur er
hún miðlæg stærð í menningarlífi samtím-
ans hér á Vesturlöndum.
EG: Þú hefur náð gríðarlegu valdi á
skáldsagnaforminu, skrifar yfirvegaðan stíl,
bækur þínar eru feikilega vel byggðar, það
er allt pottþétt, allt á sínum stað. Sumir
saka þig um kulda.
Kazuo Ishiguro: Þegar ég byrjaði að
skrifa skáldsögur var ég búinn að semja að
minnsta kosti hundrað dægurlög og texta. Í
því fólst gríðarleg þjálfun og þannig afplán-
aði ég það sem ég kalla ,,sjálfsævisögulega
skeiðið“ á ferli rithöfundarins, skeiðið þegar
hann er upptekinn af sjálfum sér og skrifar
til að sýna hvað hann er flínkur án þess að
leiða hugann að listrænu gildi textans. Síð-
ustu dægurlagatextarnir sem ég samdi voru
mjög líkir fyrstu smásögunum mínum, en
ég hef kvatt þetta tímabil fyrir löngu. Varð-
andi skipulag og kulda finnst mér að höf-
undar eigi ekki aðeins að fylgja hugsun
sinni heldur einnig innsæinu. Ég vona að
það sjáist á mínum verkum.
EG: Þú nýtur mikilla vinsælda. Það fer
ekkert á milli mála hér í stórborginni að þú
ert nýbúinn að gefa út bók. Það eru myndir
af þér út um allt, gluggar bókabúðanna eru
gulir. Hefurðu áhyggjur af því að frægð þín
og persóna skyggi með einhverjum hætti á
innihald hinnar nýútkomnu bókar?
Kazuo Ishiguro: Höfundar á borð við
sjálfan mig eiga miklu fleiri lesendur nú en
fyrir tuttugu árum. Heimurinn hefur breyst
okkur í hag að þessu leyti. En sá böggull
fylgir skammrifi að höfundurinn sem per-
sóna fær gríðarlega athygli. Höfundurinn er
áhugaverður en aðeins upp að vissu marki.
Ég vil að menn ræði um bækur, en ekki um
skilnað höfundarins eða bernsku hans.
Skáldsögur eru í mínum huga ekki lítt dul-
búnar sjálfsævisögur. Auðvitað eru tengsl á
milli þess sem hefur komið fyrir mig og
þess sem ég skrifa. En þessi tengsl eru
flókin, mjög flókin. Það er letilegur túlk-
unarmáti að tengja allt sem stendur í skáld-
sögu við líf höfundarins.
EG: Gott og vel, hvað ertu að lesa?
Kazuo Ishiguro: Fávitann eftir Fjodor
Dostójevskí, ég á eftir áttatíu blaðsíður.
Hún er ekki eins góð og mig minnti. En
Dostojevskí les ég reglulega. Hann var
uppáhaldsrithöfundur minn þegar ég var
ungur. En ekki lengur. Djöflarnir eru þó
sannarlega frábærir. Dostójevskí er einn
þeirra höfunda sem maður heillast af þegar
maður er ungur. Nú sé ég allt of marga
galla hjá honum.
EG: Þitt fólk að öðru leyti?
Kazuo Ishiguro: Jane Austin, ég er nýbú-
inn að lesa allar hennar bækur aftur. Stór-
kostleg. Anton Tsjekov. Og fleiri. Annars
hef ég í seinni tíð tilhneigingu til að halla
mér að klassíkinni. Ódysseifskviðu Hómers
les ég linnulítið. Ég er orðinn fimmtugur og
verð að vanda valið. Ég er reyndar líka
hrifinn af yngri höfundum, mönnum á borð
við David Mitchell og Alex Garland.
EG: Að lokum, þú talar einhvers staðar
um sár sem vill ekki gróa. Hljómsveit-
arstjórinn Brodskí í skáldsögunni The Un-
consoled gerir það líka, talar um sár sem
heillar mann, sár sem maður sækist eftir að
snerta, sár sem aldrei grær og kallar á
huggun. Ég hef á tilfinningunni að þetta sár
tengist með einhverjum hætti því að skrifa,
ástæðunni fyrir því að þú skrifar skáldsögur
í stað þess að semja dægurlög ala Dylan
eða starfa í félagsþjónustunni, þar sem þú
komst við sögu á yngri árum?
Kazuo Ishiguro: Það er rétt. Sárið teng-
ist þörfinni fyrir að skrifa. Flestir rithöf-
undar sem ég þekki eru sómafólk en þeir
eiga það sameiginlegt að vera í undarlegu
ójafnvægi. Það er allt í lagi að borða með
þeim kvöldverð en undir yfirborðinu kraum-
ar eitthvað, tilfinningar, flækjur sem þeim
hefur ekki tekist að greiða úr. Skáldskapur
og listir tengjast að mínu mati einhverju
sem hefur aldrei gróið innra með manni. Sá
sem skrifar eða semur tónlist fer nálægt
þessu sári, hann snertir sárið og í snerting-
unni er fólgin huggun. Þegar þú skrifar um
eitthvað sem skiptir máli ferðu nálægt
þessu sári. Og þegar lesendum líkar verkið
er það vegna þess að það snertir sárið innra
með þeim. Um leið veitir verkið huggun.
Rithöfundar hafa hins vegar ekki alltaf er-
indi sem erfiði. Bilið á milli þess höfundar
sem gerir eitthvað sem skiptir ÖLLU máli
og höfundar sem er í raun bara „að vinna í
sjálfum sér“ er svo örmjótt að það er við
það að hverfa, verða að engu. Maður sér
það best þegar maður hugsar um Franz
Kafka. Það munar ekki nema því sem mun-
ar að hann sé glataður höfundur, hnikum til
fáeinum smáatriðum og Kafka verður einsk-
is virði, náungi sem er sjúklega upptekinn
af sjálfum sér og sínum litlu vandamálum.
En það er eitthvað ónefnanlegt sem veldur
því að allt sem hann segir og allt sem hann
skrifar verður að einhverju MIKLU, ein-
hverju sem við hefðum aldrei getað orðað
upp á eigin spýtur. Það er ekki mikill mun-
ur á þeim sem er aðeins upptekinn af sjálf-
um sér, annars vegar, og hins vegar miklum
listamanni sem talar í nafni okkar allra,
skilrúmið þarna á milli heldur hvorki vatni
né vindum.
Viðtalið var unnið upp úr útvarpsþætt-
inum Kazuo Ishiguro í London, sem frum-
fluttur var á Rás eitt hinn 15. maí síðastlið-
inn.
„… að snerta sárið“
Kazuo Ishiguro „Þegar ég byrjaði að skrifa skáldsögur var ég búinn að semja að minnsta kosti hundrað dægurlög og texta.“
Höfundur er rithöfundur og útvarpsmaður.