Lesbók Morgunblaðsins - 29.10.2005, Síða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 29.10.2005, Síða 9
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 29. október 2005 | 9 É g byrjaði að hugsa um þessa sögu 1997 en ég byrjaði þó ekki að skrifa hana fyrr en í fyrra. Ég vissi allan tímann um hvað ég ætlaði að skrifa og ég var meira að segja búinn að gera eins konar beina- grind að sögunni áður en ég byrjaði. Mér hefur aldrei tekist þetta áður með aðrar skáldsögur mínar,“ segir Ólafur Gunnarsson um Höfuðlausn, skáldsögu sína sem nýkomin er út. Í Höfuðlausn segir Jakob Ólafsson bílstjóri og trésmiður sögu sína frá því hann kemur ungur maður til Reykjavíkur og verður þátttakandi í því ævintýri sem kvikmyndun Sögu Borg- arættarinnar er sumarið 1919. Hann kynnist þar listafólki og verður ástfanginn af aðalleikkonunni og með honum kvikna draumar um frama á sviði ritlistar og kvikmyndagerðar. Rit- höfundurinn Gunnar Gunnarsson hefur áhrif á hann og Muggur verður vinur hans og varar hann ein- dregið við því að láta listamannsgrillurnar ná tökum á sér. Um haustið hverfur kvikmyndafólkið úr landi og Jakob verður ástfanginn af gullsmíðanemanum Ásthildi Björnsdóttur sem veikist af Parkinsonsveiki ekki löngu síðar. Hún leggst inn á Vífilsstaði, dóttir þeirra á fjórða ári fer til ættingja vest- ur á land og Jakob missir enn frekar tökin á tilverunni. Dramatísk saga um alþýðufólk. Ólafur þarf færri orð til að lýsa sögunni: „Þetta er saga um mann sem gægist inn í glamúrveröldina þar sem hann týnist.“ Byggði á upplifunum föður síns Hann segir að sagan sé að hluta til sprottin úr frásögnum föð- ur hans af því að hafa tekið þátt í kvikmyndatökum á Sögu Borgarættarinnar. „Þetta var mikil upplifun fyrir föður minn og ein af þeim minningum sem hann greip til þegar segja þurfti góða sögu. Honum var margt við þetta mjög minnisstætt eins og t.d. skapheiti leikstjórinn sem löðrungaði leikkonurnar ef hann vildi að þær felldu tár framan við kvikmyndavélina. Þegar saga Borgarættarinnar var sýnd í Nýja bíói 1960 þá fórum við feðgarnir þangað, uppábúnir, og þá rifjaði pabbi upp að við frumsýningu myndarinnar hér á Íslandi hefðu statistarnir fjöl- mennt og klappað óspart þegar þeim brá fyrir í myndinni.“ Jakob segir sögu sína í fyrstu persónu en þegar Ásthildur kemur til sögunnar skiptast þau á um frásögnina þar til yfir lýkur. „Ég nota hluta af lífshlaupi föður míns í þessa frásögn en persónan er að öðru leyti mjög ólík honum. Í raunveruleik- anum þá fylgdi Árni Óla, blaðamaður á Morgunblaðinu, kvik- myndaleiðangrinum en ég læt hann veikjast og Valtýr ritstjóri fær bílstjórann til að skrifa í hans stað. Það verður líka upp- hafið að rithöfundardraumum Jakobs.“ Ólafur fléttar saman skáldskap og sögulegum staðreyndum af sinni alkunnu íþrótt svo úr verður trúverðug Reykjavík- ursaga frá því í byrjun 3. áratugar 20. aldar. „Ég eyddi talsverðum tíma bæði á Kvikmyndasafni Íslands og Þjóðarbókhlöðunni. Starfsmenn beggja þessara stofnana voru mér mjög hjálpsamir og fundu fyrir mig alls kyns heim- ildir sem ég las og skoðaði. Á Kvikmyndasafninu var aðeins til eitt mjög lélegt eintak af Sögu Borgarættarinnar og vitað um annað eintak í Danmörku. Svo fannst heillegt og gott eintak af myndinni hjá Ríkissjónvarpinu. Um margt kom myndin mér á óvart. Ég átti von á því að sjá kalla og kellingar hlaupa skrykkjótt eftir rollum um móana en það var alls ekki þannig. Þetta er alvörubíómynd og hin flottasta þegar upp er staðið.“ Beið eftir réttri tóntegund Ólafur segir að sér hafi reynst næsta auðvelt að skrifa þessa sögu þar sem hún hafi gerjast lengi með honum. „Það er þó al- veg skýr ástæða fyrir því að ég skrifaði hana ekki fyrr. Ég fann bara ekki rétta tóninn til að byrja fyrr en núna. Tónteg- undin þarf að vera rétt.“ Hvað kveikti í þér að skrifa þessa sögu? „Ætli það hafi ekki verið ýmis viðfangsefni sem ég hef ekki getað tekið á fyrr. Móðir mín var parkinsonsjúklingur og það er nokkuð sem ég hef hvorki getað né viljað fjalla um áður. Það hefur einfaldlega verið mér of sársaukafullt að gægjast inn í þá veröld. En þetta er þó engan veginn saga foreldra minna og persónurnar fara allt aðra leið en þau gerðu þrátt fyrir að með þeim séu ákveðnir sameiginlegir drættir. Ímynd- unaraflið fær sitt pláss enda er þetta skáldsaga fyrst og síð- ast.“ Bók sem aldrei kemur út Og svo bendir hann á dæmi um erlenda höfunda sem skrifa af svo mikilli kunnáttu og geri svo gallalausar bækur að „ekkert er eftir handa lesandanum þegar bókinni er lokið“. En eru ekki gallalausar sögur það sem höfundar sækjast eftir? „Nei, það vantar viljann í höfundana til að taka áhættu.“ Hvernig gera þeir það? Eftir þögn kemur svarið: „Setja hausinn á sér undir fallöx- ina.“ Fallöxin er þá lesandinn og allt umfjöllunarsamfélagið sem grípur söguna úr höndum höfundarins og eignar sér hana, ríf- ur hana í sundur og skoðar frumpartana blygðunarlaust. „Þess vegna kólna tilfinningar manns til verksins mjög hratt eftir að það er komið út í veröldina. Þetta er ekki lengur manns eigið barn. Minn draumur hefur alltaf verið sá að eiga langa og stóra skáldsögu til þess að dedúa við árum saman, sem kæmi aldrei út.“ Ertu með slíka sögu í smíðum? Aftur þögn. „Ég hef reyndar verið að vinna að slíkri bók í hartnær tíu ár. Þetta er bók sem fjallar um Íslandsheimsókn landkönnuðarins Richards Burtons sumarið 1873 og skrifaði bókina Ultima Thule um Íslendinga. Þetta var merkilegur maður á marga lund, hann leitaði að upptökum Nílar og var fyrsti hvíti maðurinn sem komst inn í Mekka í Arabíu. Hann talaði lýtalausa arabísku og dulbjó sig sem araba. Hann kom hingað til Íslands til að kynna sér möguleika á brennisteins- vinnslu og skrifar í kjölfarið þessa ferðabók sem Íslendingar hafa aldrei viljað kannast við því hann dregur upp mjög svo ófagra mynd af Íslendingum.“ Ertu ákveðinn í að þessi bók muni aldrei koma út? „Ég segi það nú ekki en það er voða gott að eiga hana að í tölvunni.“ Lestu einhvern tíma sjálfur þínar eigin bækur? „Nei, ekki nema þá bara einn og einn kafla. Ég er hreinlega búinn að fá nóg af þeim þegar þær eru búnar. Sumir höfundar gera þetta en ég yrði bara ergilegur af því.“ Lestu mikið eftir aðra? „Ég gerði það, en það er bara farið að kosta mig svo mikið að skrifa mitt eigið og verður alltaf erfiðara og erfiðara. Ég þarf að hafa svo margfalt meira fyrir því núna en fyrir 20 ár- um. Ég skrifa hægar og stundum er þetta hreint kvalræði.“ Þegar ég spyr hvort hann hafi skýringu á þessu segir hann að glíman við tungumálið verði alltaf flóknari. „Möguleikarnir eru svo margir. Hvernig á að segja hlutina. Hvernig er hægt að lýsa þunglyndi betur en gert er í Egilssögu: „Egill drap höfði í feld sinn þennan vetur.“ Kannski á maður ekki að reyna að gera betur. En þetta verður samt sífellt snúnari glíma.“ Morgunblaðið/Kristinn Ólafur Gunnarsson| „Ég nota hluta af lífshlaupi föður míns í þessa frásögn en persónan er að öðru leyti mjög ólík honum.“ Saga um mann sem týnir sér ’Þess vegna kólna tilfinningar manns til verksins mjög hratt eftir að það erkomið út í veröldina. Þetta er ekki lengur manns eigið barn.‘ Ólafur Gunnarsson hefur sent frá sér skáldsöguna Höf- uðlausn sem JPV útgáfa gefur út. Ólafur hefur m.a. skrifað Öxina og jörðina sem hann hlaut Íslensku bókmenntaverð- launin fyrir 2003. Af öðrum skáldsögum Ólafs má nefna þrí- leikinn Blóðakur, Vetrarferðina og Tröllakirkju. Eftir Hávar Sigurjónsson havar@mbl.is Bækur

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.