Lesbók Morgunblaðsins - 10.12.2005, Qupperneq 2
2 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 10. desember 2005
Markhópar er orð á hvers mannsvörum. Markaðssetning hverskonar varnings verður að passavið ákveðna markhópa sem flokk-
aðir hafa verið á grundvelli alls konar mark-
aðsrannsókna sem fjöldi manns kemur að.
Fjölmiðlar eru engin undantekning. Sérblöð
eru mótuð fyrir sérstaka markhópa, sjón-
varps- og útvarpsþættir eru gerðir með
ákveðna markhópa í huga o.s.frv. Aldur er
mikilvæg breyta í markhópum og við 35 ára
aldurinn virðast eiga að verða ákveðin skil.
Verður maður fullorðinn þá? Hættir að fylgj-
ast með trendum og tísku og situr bara í út-
hverfinu sínu í jogginggallanum eftir vinnu á
milli þess sem börnunum er skutlað í íþróttir
og tónlistartíma? Ég veit það ekki.
Hjón sem ég þekki, bæði
36 ára, hafa handfjatlað
blað sem leit nýverið dags-
ins ljós í Svíþjóð, reyndar
sérstaklega ætlað lesend-
um á aldrinum 25–35 ára. Þeim fannst það
skemmtilegt þrátt fyrir allt. Þetta er blaðið
Diego, nafn sem Íslendingar þekkja sem
ættarnafn, en fær nýja merkingu sem DI ego,
þ.e. annað egó blaðsins Dagens Industri, sem
er virt sænskt viðskiptablað.
Þetta er sem sagt 130 síðna glanstímarit
sem kemur út annan hvern mánuð, ætlað
ungu fólki á framabraut í viðskiptum. Í fyrsta
tölublaðinu er t.d. fjallað um græjur, gallabux-
ur, gefin 23 ráð um hvernig á að virðast dug-
legri en maður er í vinnunni, skíði og skíðaföt,
veitingastaði í viðskiptahverfi Stokkhólms,
fasteignamilljónamæringa, útbrunna
stjórnunarráðgjafa, viðskiptahugmyndir og
karlmanninn sem tók við af metrósexúal
manninum: übersexual manninn! Margt sem
sagt mjög áhugavert og öðruvísi en í öðrum
fjölmiðlum.
Ég tilheyri markhópnum að hluta, þ.e.
aldurinn passar við mig en ég er reyndar ekki
í bissness, en þetta virkar. Ég er ekki búin að
lesa allt sem mig langaði í blaðinu, bara tvær
greinar, þ.e. um gallabuxurnar og aðra um
gamla sjónvarpsþætti. Þar skellti ég upp úr
nokkrum sinnum og mundi eins og gerst hefði
í gær þegar ég sat sem krakki límd fyrir fram-
an sjónvarpið á miðvikudagskvöldum og
horfði á Dallas.
Dallas er nefnilega að koma aftur í kvik-
myndaformi, nema greinin sé bara skemmti-
legur uppspuni. Bruce Willis á að leika J.R. ef
Larry Hagman fær að ráða en einnig eru
nefndir Burt Reynolds og John Travolta.
Brad Pitt verður Bobby, Catherine Zeta-
Jones Pamela og Melanie Griffith Sue Ellen. Í
grein Hönnu Malmodin í Diego voru rifjuð
upp minnisstæð atriði úr Dallas-þáttunum:
Tvö klassísk stóðu upp úr að mati greinarhöf-
undar og það síðarnefnda er snilld: Bobby
lendir í umferðarslysi og deyr í þáttaröðinni
frá 1985 en stígur síðan sprellifandi út úr
sturtunni undir lok þáttaraðarinnar frá 1986.
Síðan kemur skýringin: Pamelu var bara að
dreyma! Grein sem smellpassaði markhópn-
um sem ég tilheyri, þ.e. fólki upp úr þrítugu
þar sem margir muna eftir miðvikudagskvöld-
unum.
Greinin um þessa karlrembusápu sem þætt-
irnir voru vakti upp einhverja nostalgíu og
einhvern veginn gat ég fundið eitthvað sem ég
kannaðist við í þessum skrifum. Það er líklega
það sem maður leitar m.a. að í þeim fjöl-
miðlum sem maður velur sér. Eitthvað sem
maður getur tengt við eigin reynslu eða veru-
leika. Þetta hlýtur að standa í einhverjum
markaðsrannsóknaniðurstöðum.
Hver á mínum aldri man t.d. ekki eftir sím-
tölunum í Dallas, þ.e. hvernig þeim lauk: Ein-
hver kúrekinn lagði tólið snögglega á eftir að
hafa sagt eitthvað mikilvægt um olíuviðskipti
eða framhjáhald, en hafði aldrei fyrir því að
segja „bless“ eða „við heyrumst“. Þetta athæfi
kallar greinarhöfundurinn síðan að „gera
Dallas“. Mér fannst þetta fyndið. Enda til-
heyri ég markhópnum.
Diego fær bráðum samkeppni því annað
glansviðskiptatímarit er að koma á mark-
aðinn. Það nefnist Passion og er gefið út af
viðskiptavikuritinu Affärsvärlden. „Passion er
lífsstílstímarit sem veitir innblástur og áminn-
ingu um að lífið er ekki bara vinna,“ segir á
vef Affärsvärlden.
Lífsstíll viðskiptafólks er vinsælt umfjöll-
unarefni víðar en í Svíþjóð. Financial Times
hefur lengi gefið út mánaðarritið How to
spend it sem er skemmtileg lesning þótt
pyngjan sé ekki þung. Ég tilheyri kannski
ekki markhópnum eftir allt saman.
Í markhópnum eða ekki
’Þetta er blaðið Diego, nafn sem Íslendingar þekkjasem ættarnafn, en fær nýja merkingu sem DI ego, þ.e.
annað egó blaðsins Dagens Industri, sem er virt sænskt
viðskiptablað. ‘
Fjölmiðlar
Eftir Steingerði
Ólafsdóttur
steingerdur@mbl.is
I Breska leikskáldið og andófsmaðurinnHarold Pinter hlýtur nóbelsverðlaunin í bók-
menntum í dag. Hann getur reyndar ekki veitt
þeim viðtöku sjálfur vegna veikinda en á mið-
vikudaginn hélt hann nóbelsræðu sína í beinni
útsendingu á netinu sem hann hefði annars flutt
við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi í dag. Hann
þakkaði fyrir sig með eitruðum sendingum til
ráðamanna valdamestu þjóða heims og hern-
aðarbrölti þeirra fyrr og nú. Nóbelsverðlauna-
hafar hafa raunar löngum verið harðskeyttir
pólitískir gagnrýnendur
– eða að minnsta kosti
samfélagslega ábyrgir í verkum sínum – og vík-
ur Pinter því ekki langt frá hefðinni þótt það sé
reyndar óvenjulegt að hann hefur varla starfað
sem rithöfundur svo heitið geti í tuttugu ár
heldur miklu fremur sem andófsmaður. Í ræðu
sinni spyr Pinter reyndar: Hvað hefur orðið um
siðferðisvitund okkar?
II Pinter beinir spjótum sínum einkum að ut-anríkisstefnu Bandaríkjamanna og Breta
en það hefur verið helsta umfjöllunarefni hans
síðustu tvo áratugi eða svo en þeim tíma hefur
hann ekki varið til leikritaskrifa heldur aktífrar
andstöðu við ríkisstjórnir þessara landa. Ræðan
er þannig eins og ágætis upprifjun á mörgum
þeim greinum sem Pinter hefur skrifað und-
anfarin ár í nafni málstaðarins – og sem fyrr er
hann magnaður. Titill ræðunnar er Art, Truth
& Politics eða List, sannleikur og stjórnmál og í
samræmi við hann leiðir Pinter okkur frá sann-
leikann í listum til sér hjartfólgnara máls sem
er sannleikurinn í stjórnmálum. Munurinn er sá
að í listum er enginn einn sannleikur til, í listum
er enginn greinarmunur gerður á raunveru-
leika og óraunveruleika eða sannleika og lygi,
en þegar kemur að samfélagslegum eða póli-
tískum veruleika verður maður að spyrja: Hvað
er satt? Hvað er lygi? Pinter bendir hins vegar
á að stjórnmálamenn séu sjaldnast uppteknir af
sannleikanum, þeirra ær og kýr séu völdin. Og
til þess að halda völdum segir hann nauðsynlegt
fyrir stjórnmálamann að fólk sé fávíst um það
hvernig hlutirnir eru í raun og sannleika. „Við
lifum því í þéttriðnu neti lyga sem við sækjum
okkur næringu í,“ segir Pinter. Eftir örstutta
lýsingu á því hvernig verk hans verða til upp úr
einni setningu, einu orði eða mynd fjallar hann í
löngu máli um utanríkisstefnu Bandaríkjanna
frá lokum seinni heimsstyrjaldar sem hann seg-
ir hafa snúist um að styðja við eða stofna til
allra þeirra hægriöfgasinnuðu herstjórna sem
sögur fara af þessi sextíu ár. Hann segist eiga
við Indónesíu, Grikkland, Úrúgvæ, Brasilíu,
Paragvæ, Haítí, Tyrkland, Filippseyjar, Gvate-
mala, El Salvador og auðvitað Síle: „Hörmung-
arnar sem Bandaríkjamenn ollu Sílebúum árið
1973 verður aldrei hægt að má burt og aldrei
hægt að fyrirgefa.“ Hann segir að hundruð þús-
unda manna hafi látið lífið í þessum löndum.
„Eða hvað? Dó allt þetta fólk? Og hefur dauði
þess verið settur í samband við utanríkisstefnu
Bandaríkjanna? Svarið er já,“ segir Pinter,
„þetta fólk dó og dauði þess tengist utanríkis-
stefnu Bandaríkjanna. En þú myndir bara aldr-
ei hafa frétt af því.“ Og Pinter heldur áfram:
„Það gerðist aldrei. Það gerðist aldrei neitt.
Jafnvel á meðan það var að gerast gerðist það
ekki. Það skipti ekki máli. Það kom engum við.
Glæpir Bandaríkjanna hafa verið kerf-
isbundnir, viðvarandi, grimmilegir, sam-
viskulausir en samt hafa mjög fáir talað um þá í
raun og veru. Maður verður að viðurkenna að
Bandaríkjamenn hafa komið sér upp mjög vís-
indalegri misnotkun á valdi um heim allan á
sama tíma og þeir sigla undir fána hins algóða
afls. Þetta er eitursnjöll, jafnvel bráðfyndin og
einstaklega vel heppnuð dáleiðsla.“
III Í lok ræðunnar dregur Pinter þá ályktunað það sé nauðsynlegt fyrir okkur að
reyna að skilgreina hvað sé raunverulega satt í
þessum heimi. Það sé skylda okkar. Ef við
heykjumst á því pólitíska verkefni eigum við
enga möguleika á að endurheimta mennsku
okkar. Pinter spyr í ræðunni hvað hafi orðið um
siðferðisvitund okkar. Gárungarnir kunna að
spyrja á móti: Hvað varð um bókmenntirnar?
Neðanmáls
!
Ég er búsettur í Hollandi þar
sem enginn þekkir mig og ég
gæti logið hverju sem er um
sjálfan mig – væri ég þannig
innrættur – eða jafnvel hafið
nýtt líf og lagað það gamla að
skáldskap og uppspuna. En
það er svo sem ekkert merki-
legt við það. Ég bý á stúdentagarði og
flestir hér eru í sömu aðstöðu. Þau gætu
öll alveg eins logið að mér eins og ég að
þeim. Hins vegar bý ég yfir forréttind-
um sem fáir í húsinu geta státað af. Ég
kem frá landi sem fæstir vita nokkuð
um en margir eru spenntir að heyra frá.
Ég hef reyndar orðið fyrir von-
brigðum með hversu fáir sem ég hef
kynnst hafa búist við eskimóum og snjó-
húsum – ég hefði glaður viljað ljúga þau
full af sögum til að styðja við þá staðal-
ímynd – en allt það furðulega sem fólk
virðist vita um land og þjóð hefur komið
mér skemmtilega á
óvart. Einn daginn
kom maður upp að
mér og spurði hvort
það væri satt að all-
ir hati hunda í Reykjavík? Ég svaraði
að sjálfsögðu játandi – dýravinir eru fá-
séðir á klakanum og hundavinir þeirra
sjaldgæfastir, einkum og sér í lagi þeg-
ar kemur að lagasetningum og borgar-
skipulagi. Sjáðu til, Íslendingar ganga
enn með úreltan ótta við sullaveikina í
genunum og þykjast sjá ímyndaðan óvin
sinn í saklausum fésum þessara indælu
ferfætlinga. Erlendir kunningjar bú-
settir í Reykjavík voru svo furðu lostnir
að þeir töldu sig knúna til að klippa út
niðurstöður könnunar í dagblaði um
hvort leyfa ætti hunda á Laugaveginum
– í þeirra landi þykir hundafrelsi svo
sjálfgefið að slík vitleysa kæmist ekki
einu sinni á blað, hvað þá í prentun.
Næsta spurning! Er satt að nöfnin í
símaskránni séu flokkuð eftir fyrsta staf
fornafna? Smíðar íslenskan sér ávalt
nýyrði í stað tökuorða? Ef þú myndir
hitta samlanda frá því fyrir þúsund ár-
um, er það satt að þið gætuð talað sam-
an og skilið hvor annan á skynsamlegan
máta?
Þessar spurningar eru kannski ekki
sérstaklega spennandi – en hunda-
spurningin er einkar áhugaverð. Hvers
konar ímynd hefur smitast út fyrir
strendurnar ef gæi frá meginlandinu
spyrst fyrir um hundahatrið sem ein-
kennir smáborgarahátt Reykvíkinga?
Ég veit ekki hvernig þessari neikvæðu
ímynd tókst að fljúga yfir hafið, en ég
fagna henni hástöfum og tek duglega
undir! Málið er nefnilega að þessi gæi
er nánast einsdæmi. Flestir sem ég hef
hitt búa yfir óeðlilega hástemmdri
ímynd af Íslandi og sjá landið með of-
birtu í augum sem griðastað ofsafeng-
innar náttúru þar sem listamenn og
álfadrottningar búa í sátt, samlyndi og
friðsæld í einhvers konar bóhemískri
Tolkien-paradís. Hvað ég nýt þess að
brjóta niður tálsýnina! Já, við hötum
hunda – láttu orðið berast félagi, alla
leið til heimalandsins!
Það var einkum fyrsta mánuðinn
minn hér að ég rausaði og röflaði í sí-
fellu um stíflugerðir, stríðsbrölt, dýra-
hald og ýmislegt sem fara mætti betur
hér á landi. Dregið hefur úr þessu und-
anfarið, þar sem flestir sem ég um-
gengst eru orðnir þaulkunnugir skoð-
unum mínum og ég eignast ekki marga
nýja vini. Aumingja fólkið sem reyndi
að hefja kurteisislegt samtal við mig
fékk yfir sig heilu fyrirlestrana. „Mig
hefur ávallt dreymt um að ferðast til Ís-
lands,“ hefur það sagt og ég svarað um
hæl: „Drífðu þig áður en við sökkvum
því!“ – og þá varð ekki aftur snúið.
Manneskjan sogast ofan í áróðurs
maskínu bitra Íslendingsins sem nýt-
ir hvert tækifæri til að vinna gegn
hræsnaralyginni um draumalandið Ís-
land sem breiðist um heiminn líkt og
eldur í sinu. Og þá spyr fólkið: Hvers
vegna hatarðu landið þitt? Og þá svarar
sá bitri: Hvað áttu við? Ég elska landið
mitt! Það er ímynd þess sem ég þoli
ekki.
Eftir Gunnar Theodór
Eggertsson
gunnaregg-
@gmail.com
Hata allir
hunda í
Reykjavík?
Fyrir utan það að sérhver bókmenntaunnandi hefur náttúrlega sínarskoðanir á tilnefningum á hverju ári (hvar er ljóðlistin? hvar erSjón?) bera [Íslensku bókmennta]verðlaunin þess merki að þau eru
stofnuð af útgefendum í markaðssetningarskyni. Það þarf að borga með
bókum sem eru lagðar fram, og tilnefningar koma fram snemma á jóla-
vertíðinni og þar með aðalsölutímanum. Það skýrir líka þá miklu viðkvæmni
sem er í kringum tilnefningarnar, aðstandendur bókanna eiga erfitt með að
líta á þau einsog hvern annan leik, þar sem þriggja manna dómnefndir tjá
smekk sinn. En engu að síður hefur þetta kerfi kosti: Þrátt fyrir allt ber
nefndunum að horfa til innihalds, þannig að þær tilnefna ekki endilega þær
bækur sem útgefendur eru að leggja áherslu á í markaðsherferðum sínum.
Þannig hafa tilnefningar oft vakið athygli á bókum sem annars fer alltof lítið
fyrir. Reynslan hefur sýnt að tilnefningar geta verið söluhvetjandi fyrir
vandaðar en lítt áberandi bækur, en þær virðast sem betur fer ekki draga
úr sölu bóka sem ekki hljóta tilnefningu. Semsé: Bókmenntaverðlaunin geta
vakið athygli á góðum bókum, sem er að sjálfsögðu bara jákvætt. Og loka-
nefndinni hefur oft tekist vel upp með verðlaunahafa (alltént til skamms
tíma, svo maður sé nú hógvær). En auðvitað væri óskandi að við bættust
verðlaun þar sem markaðssetningarsjónarmið væru víðs fjarri [...]. Hér má
að vísu ekki alveg gleyma DV-verðlaununum (Jónasar-nóbelnum), sem hafa
oft myndað skemmtilegt mótvægi með tilnefningum sínum og verðlaunum
að vori. Þau hafa hins vegar þann ókost að vera ekki peningaverðlaun, og
peningar eru nú einu sinni það sem íslenskir höfundar, á þessum dverg-
vaxna markaði, þurfa á að halda til að sinna sköpun sinni.
Halldór Guðmundsson
www.hg.gsmblogg.is
Önnur
bókmenntaverðlaun
Morgunblaðið/Kristinn
Týndir í Túristalandi.