Lesbók Morgunblaðsins - 10.12.2005, Page 5

Lesbók Morgunblaðsins - 10.12.2005, Page 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 10. desember 2005 | 5 greiðslur og atkvæðaskiptingu í akademíunni á nokkrum fundum í október 1955 og þar kemur fram að tillagan um skiptingu verðlaunanna milli Gunnars og Halldórs hlaut engan stuðn- ing fundarmanna þegar til átti að taka; sjálfur studdi Martinson Halldór einan. Ef eitthvað þvældist fyrir Gunnari innan akademíunnar, annað en skiptar skoðanir um ágæti hans sem höfundar, kann það líka að hafa verið pólitísk fortíð hans. Nú er rétt að taka það fram að ég tel það fjarri sanni að Gunnar hafi verið nasisti. En þýsk stjórnvöld hömpuðu honum mikið allan fjórða áratuginn og hann var tíður gestur þeirra, þáði af þeim margvíslegan heiður og forðaðist að gagnrýna þau, lýsti þvert á móti ánægju með uppbygg- ingu hins „nýja Þýskalands“ einsog það var kallað. Í febrúar og mars 1940 hitti hann bæði Göbbels og Hitler í Berlín, en sá vafasami heið- ur hlotnaðist fáum erlendum listamönnum, hálfu ári eftir að heimsstyrjöldin var hafin. Af þessum sökum gengu í Danmörku þær sögur eftir stríð að Gunnar hafi verið nasisti og þótt þær færu ekki hátt, bar ákaflega lítið á Gunnari í danskri bókmenntaumræðu eftir þetta, líktog hann hafi orðið persona non grata. Þessar raddir gætu hafa borist akademíunni til eyrna, hvort heldur frá Danmörku eða Íslandi, og sú saga lifir í fjölskyldu Gunnars að haft hafi verið samband við hann frá Stokkhólmi og hon- um sagt frá því að babb væri komið í bátinn meðal annars vegna umræðna um meinta nas- íska fortíð hans. Gunnari, sem var ákaflega stoltur maður að ekki sé sagt einþykkur, mis- líkaði þetta stórum og fór símtalið að lokum svo að hann skellti á.8 Nú leist akadem- íumönnum að vísu ekkert á kommúnisma Hall- dórs, en Svíar – sem höfðu verið hlutlausir í stríðinu – voru enn viðkvæmari fyrir hvers kyns ásökunum um nasistadaður, sem var lík- lega ein helsta ástæða þess að þeir veittu Winston Churchill Nóbelsverðlaunin árið 1953. Að mínum dómi réði þó tvennt mestu um að Halldór varð ofan á í atkvæðagreiðslum aka- demíunnar, að því gefnu að hann var talinn merkur rithöfundur. Annars vegar hafði Hall- dór, allt frá því hann var fyrst tilnefndur 1948, notið mikils stuðnings í sænskum blöðum og meðal sænskra gagnrýnenda. Margir máls- metandi sænskir bókmenntamenn hvöttu til þess bæði 1953 og 1954 að honum yrðu veitt verðlaunin. Hins vegar hafði það úrslitaþýð- ingu að hann skyldi skrifa á íslensku – end- urvekja íslenska frásagnarhefð og gera ís- lenskuna að heimsbókmenntamáli að nýju, einsog það var orðað; þetta kemur skýrt fram bæði í rökstuðningi akademíunnar og lýsingu Selanders á umræðum innan hennar. Hér háði það Gunnari sem hafði upphaflega gert honum kleift að gerast atvinnuhöfundur – að hann skyldi skrifa á dönsku. Og auðvitað hefur þetta haust 1955 verið honum erfitt; sé sagan um skeytið sönn, voru það ekki pólitískir andstæðingar Gunnar sem lögðu stein í götu hans, heldur vinir hans og forystumenn „borg- aralegra“ afla á bókmenntasviðinu. Erfitt er að ímynda sér þann höfund sem ekki yrði bitur í kjölfar slíkrar atburðarásar. En segjum nú að atvikin hefðu hagað því svo að Gunnar hefði fengið verðlaunin með Hall- dóri. Ef til dæmis rithöfundurinn Stellan Ar- vidson, sem skrifaði bók um Gunnar sem hann var afar lengi að koma saman, hefði lokið verki sínu fyrr og reynst Gunnari jafn öflugur tals- maður í Svíþjóð og Peter Hallberg Halldóri. Ef hugmyndir um kvikmyndun Aðventu, sem voru til umræðu í Bandaríkjunum á stríðs- árunum, hefðu leitt til farsællar niðurstöðu og útgáfa á bókum Gunnars á ensku hefði tekið fjörkipp í kjölfarið. Hvað mætti ímynda sér að hefði gerst í kjölfarið? Í fyrstu sér maður fyrir sér einlægan og mikinn fögnuð á Íslandi, líka meðal stjórn- valda. Við hefðum sloppið við vandræðagang Morgunblaðsins þegar Halldór fékk verðlaun- in, og auk Alþýðusambandsins og Bandalags íslenskra listamanna hefði íslenska rík- isstjórnin tekið á móti höfundunum – ef við segjum að þeir hefðu hist á bryggjunni í Reykjavík, annað komandi að austan en hinn frá Kaupmannahöfn, kurteisir og elskulegir hvor við annan enda báðir sannfærðir um að hinn væri næstbesti höfundur Íslands. Þjóð- viljinn hefði líka tekið niðurstöðunni fagnandi, og látið gagnrýni sína á Þýskalandsferðir Gunnars, sem Magnús Kjartansson ritstjóri dró uppúr pússi sínu 1954 af því honum mislík- aði ræða Gunnars um kalda stríðið á Heimdall- arfundi, kyrrt liggja um hríð. Niðurstaðan hefði vakið nokkra furðu og jafnvel gagnrýni erlendis, hvorugur höfund- urinn var verulega stórt nafn á sumum mál- svæðum, en það hefði í fyrstu ekki haft teljandi áhrif hér – sigur Íslands og íslenskra bók- mennta hefði verið aðalefnið í öllum hátíð- aræðum. Íslenska ríkið hefði ekki dregið í fjörutíu ár að koma Skriðuklaustri í það horf sem gefendur, hjónin Gunnar og Franzisca, höfðu hugsað sér. Ritsafn Gunnars hjá Al- menna bókafélaginu hefði selst gríðarlega, og hugsanlega hefði höfundurinn ekki notað síð- asta aldarfjórðunginn til að þýða sjálfan sig, heldur hrist af sér beiskju og slen og skrifað nýjar bækur. Í veruleikanum sendi hann frá sér sína síðustu skáldsögu, Brimhendu, árið áður (1954). Þótt Gunnar hafi aldrei verið neinn stjórn- málaleiðtogi, hefðu verðlaun honum til handa eflt til muna sjálfstraust hægri manna á menn- ingarsviðinu, þar sem þeir töldu sig eiga undir högg að sækja. Gunnar var ötull forystumaður í Almenna bókafélaginu frá stofnun þess, og með honum sem Nóbelsverðlaunahafa hefðu borgaraleg öfl eignast mikilsvert menningar- pólitískt tákn sem hefði getað veikt stöðu vinstri manna. Því meginþýðing Nóbelsverð- launanna er heimafyrir – ekki síst hjá smáþjóð einsog Íslendingum. Þetta má marka til dæmis af því að verðlaunin höfðu fyrst um sinn engin sérstök áhrif á útgáfumál Halldórs Laxness í hinum enskumælandi heimi. Auðvitað hefði niðurstaðan líka valdið deil- um á Íslandi að fagnaðar- og veislutíma liðn- um. Þetta er í miðju köldu stríði, deilendur hefðu ekki dregið dul á með hvorum þeir héldu og báðum hlaupið kapp í kinn. Og eftir því sem árin liðu hefði Gunnar rétt einsog Halldór orð- ið að svara erfiðum spurningum. Hann hefði verið krafinn um uppgjör vegna afstöðu sinnar til Þýskalands nasismans rétt einsog Halldór vegna Stalíns, en slíkur hugsunarháttur var mjög fjarri Gunnari. Miklu meira hefði verið skrifað um verk hans, bæði gott og vont, ævi- saga hans væri komin út í tveimur bindum og Hallgrímur Helgason hefði vakið mikla athygli fyrir bók sína “Höfundar Íslands“. Og helstu skáldsögur hans væru fáanlegar í kilju á ís- lensku, en sem stendur er engin slík á markaði hér. Eitt er alveg víst: Gunnar Gunnarsson hefði ekki verið þurrkaður jafn rækilega út úr danskri bókmenntasögu og raunin hefur orðið. Á níunda áratug síðustu aldar var gefin út dönsk bókmenntasaga hjá Gyldendal í níu stórum bindum, sem verður að teljast nokkuð langt mál um þetta efni. Sjöunda bindið fjallar um árin 1901-1945 og er yfir 600 blaðsíður að stærð. Þar er Gunnar Gunnarsson ekki nefnd- ur á nafn. Á þessu ári, 2005, hefur komið út stór dönsk bókmenntasaga í einu bindi (Hov- edsporet – dansk litteraturs historie, Gyld- endal). Þar er rætt bæði um Eddukvæði og Ís- lendingasögur og skáldið Egil Skallagrímsson. En Gunnar Gunnarsson er ekki nefndur á nafn – frekar en William Heinesen, og er þá fokið í flest skjól. Þetta eru erfið örlög höfundi sem einn helsti danski gagnrýnandinn á þriðja ára- tugnum taldi með merkustu höfundum á danska tungu (Otto Gelsted). Samanburður er alltaf smekksatriði, en að mínum dómi er meiri breidd og meiri frjómátt- ur í höfundarverki Halldórs Laxness en Gunn- ars Gunnarssonar. Halldór átti ennfremur auð- veldara með að fylgjast með nýjum tímum og nýjum hugmyndum, í þjóðfélagsmálum og bók- menntum. En það má ekki verða til þess að við sem fáumst við íslenska bókmenntasögu gleymum bestu verkum Gunnars; þvert á móti eiga þau skilið vandaða krítíska umfjöllun og útgáfu svo þau haldi áfram að vera lesin af ís- lenskum almenningi, enda þótt hann hafi ekki fengið Nóbelinn…  Tilvísanir Sjá Nobelpriset i litteratur – Nomineringar och utlåtanden 1901-1950, 2 bindi, útg. Sænska akademían, Stokkhólmi 2001. 2 Ingeborg Sigurjónsson: „Ég var skáldi gefin – Minningar um Jóhann Sigurjónsson frá árunum 1912-1919“, Tímaritið Helgafell 1944, bls. 260 3 Sjá bók Otto Gelsted: Gunnar Gunnarsson, Kaupmannahöfn 1926. 4 Blað Einars, Þjóðstefna, 30/11 1916 5 Sjá bréf Stellan Arvidson til Gunnars í bréfasafni Gunnars á Þjóðarbókhlöðu, t.d. 22/2 1955. 6 Bréfaskipti Sten Selander og Dag Hammarskjöld eru á handritadeild Konunglega bókasafnsins í Stokkhólmi 7 Sbr. Morgunblaðið, 4/12 2005, en bók Hannesar var ekki komin úr prentun þegar greinin var skrifuð. Heimild hans var Franzisca Gunnarsdóttir, sonardóttir skáldsins og trúnaðarmaður. 8 Heimild mín er Gunnar Björn Gunnarsson, sonur Franz- iscu Gunnarsdóttur. Sagan um samskipti Gunnars og aka- demíumanna þetta haust, einsog fjölskylda Gunnars þekkir hana, er nokkru lengri og bíður betri tíma. Nóbelinn … Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Hvað ef Gunnar hefði hlotið Nóbelinn? „Í fyrstu sér maður fyrir sér einlægan og mikinn fögnuð á Íslandi, líka meðal stjórnvalda. Við hefðum sloppið við vandræðagang Morgunblaðsins þegar Halldór fékk verðlaunin, og auk Alþýðusambandsins og Bandalags íslenskra listamanna hefði íslenska ríkisstjórnin tekið á móti höfundunum – ef við segjum að þeir hefðu hist á bryggjunni í Reykjavík, annar komandi að austan en hinn frá Kaupmannahöfn, kurteisir og elskulegir hvor við annan enda báðir sannfærðir um að hinn væri næstbesti höfundur Íslands.“ Á myndinni eru Gunnar og Halldór í áttræðisafmæli Páls Ísólfssonar 1973. Höfundur er bókmenntafræðingur og rithöfundur og er um þessar mundir að skrifa bók um Gunnar Gunn- arsson og Þórberg Þórðarson, hliðstæður og andstæður í ævi samtímamanna.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.