Morgunblaðið - 23.06.2005, Qupperneq 26
26 FIMMTUDAGUR 23. JÚNÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MENNING
„SÉRSTÆÐ blómamálverk lista-
mannsins eru ólík öllum öðrum út-
listunum á náttúru eða grasafræði.
Í þeim er að finna ótrúlega ná-
kvæmni og flókna innviði; þau eru
nánast staðfræðileg í áþreifanleika
sínum.“ Svo hljóðar umsögn dóm-
nefndar Carnegie Art Award, einna
stærstu myndlistarverðlauna sam-
tímans, sem valið hefur Eggert
Pétursson myndlistarmann sem
handhafa annara verðlauna þeirra
árið 2006.
Þessi myndlistarverk Eggerts
sem hlotið hafa þessa viðurkenn-
ingu eru fínleg málverk af íslensk-
um jarðargróðri. Það er líkt og að
horfa ofan í íslenskan móa að
sökkva sér í að horfa á mynd eftir
hann – þar gefur að líta kunn-
uglegan geldingahnapp og hunda-
súru, baldursbrá og lambagras, svo
eitthvað sé nefnt. Strigarnir eru
misstórir, allt frá því að vera á
stærð við venjulegt blað, upp í að
vera mannhæðarháir og -breiðir og
eru tvö slík verk af stærstu gerð
hluti af Carnegie-sýningunni nú.
Eggert segir náttúruna hafa
fylgt sér lengi, frá barnæsku og inn
í það starf sem síðan varð ævistarf
hans – myndlistina. „Ég er alinn
upp í sumarbústað á sumrin, og
byrjaði þar að skoða náttúruna í
kring um mig, þekkja nöfn, teg-
undir, liti og afbrigði. Þetta rann
svo saman við myndlistarsköpun
mína; ég stundaði nám við nýlista-
deild Myndlista- og handíðaskólans
á sínum tíma, en hafði verið bæði í
Myndlistarskóla Reykjavíkur og á
námskeiðum allt frá því að ég var
unglingur – enda hafði ég alltaf
ætlað mér að verða myndlistar-
maður. Ég teiknaði mikið og reyndi
oft að teikna blóm þegar ég var lít-
ill,“ segir Eggert og dregur fram
mynd sem hann teiknaði sex ára
gamall með kúlupenna á blað. „Ég
þekki nú þarna nokkur blóm. Þetta
hefur ekki breyst mikið hjá mér,“
segir hann og bendir um leið á eitt
af nýkláruðu málverkunum í vinnu-
stofunni hjá sér.
Grasafræðingur draumurinn
Sé myndinni snúið við getur að
líta mann með staf og bakpoka í út-
færslu hins sex ára upprennandi
myndlistarmanns. „Draumurinn var
að verða grasafræðingur,“ segir
Eggert og hlær.
En þó að grasafræðingurinn hafi
ekki orðið ofan á, heldur mynd-
listarmaðurinn, fylgdu grösin hon-
um engu að síður. Á fyrstu sýningu
sinni eftir útskrift árið 1979 í Gall-
eríi Suðurgötu 7 sýndi Eggert
blómaþrykk, og árið 1983 var hann
beðinn um að myndskreyta Ís-
lenska flóru eftir Ágúst H. Bjarna-
son. „Smátt og smátt fóru grösin að
koma í auknum mæli inn í mynd-
listina hjá mér og tóku að lokum al-
veg yfir. Engu að síður myndi ég
segja að verkin mín væru á mörk-
um þess að vera abstrakt og ein-
hvers sem fólk þekkir.“
Bara fólk sem deyr
Carnegie Art Award eru til-
einkuð norrænni samtímamálaralist
og er sýningunni ætlað að endur-
spegla það besta og áhugaverðasta
sem þar gerist. Hugtakið málaralist
er oft á tíðum túlkað mjög frjáls-
lega, til að mynda hafa listamenn
sem einkum fást við myndbönd og
ljósmyndir hlotið verðlaunin, þó
margir fáist við málverkið sem
slíkt, eins og Eggert sjálfur.
Aðspurður um stöðu málverksins,
sem svo oft hefur verið sagt dautt,
svarar hann að hlutir og hugmyndir
geti ekki dáið. „Það er nú bara
mannfólkið sem deyr. Þannig að
mér finnst líkingin að vissu leyti
ekki eiga við,“ segir hann en bætir
við að málverkið sé nú til dags í allt
annarri stöðu en það var áður fyrr.
„Ég er einn af þeim sem hafa ekki
alltaf séð þennan mun milli til-
raunamyndlistar og hinnar hefð-
bundnu. Ég lít til dæmis sjálfur á
mig sem konseptlistamann – geri
það af einhverri þrjósku. En fyrir
mig persónulega hentar málverkið
mjög vel. Með því móti hef ég get-
að unnið heima, ég hef aldrei verið
hrifinn af tækjum eða slíku, og mér
myndi aldrei henta að hafa hundrað
manns í vinnu fyrir mig. Mér hent-
ar vel að geta unnið á þann hátt
sem málverkið krefst, í kyrrþey.“
Ekki ljóst hvað breytist
Aðspurður segist Eggert ekki
vita á þessari stundu hverju Carn-
egie-verðlaunin muni breyta fyrir
hann, en það komi væntanlega í
ljós þegar sýningin sjálf fer af stað.
„Þetta eru auðvitað mjög þýðingar-
mikil verðlaun. Bæði er upphæðin
há og í þeim felst mikil viðurkenn-
ing. En ég hugsa ekki að þau muni
breyta verkunum sjálfum neitt,
nema þá ef þau setja enn meiri
pressu á mig. Það er alltaf mikil
eftirspurn eftir verkunum mínum
sem er erfitt að anna. Það skánar
kannski ekki,“ segir hinn nýbakaði
Carnegie-verðlaunahafi, Eggert
Pétursson, að síðustu.
Myndlist | Eggert Pétursson hlýtur önnur verðlaun Carnegie Art Award árið 2006
Lít á mig
sem konsept-
listamann
Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Ég er einn af þeim sem hafa ekki alltaf séð þennan mun milli tilraunamyndlistar og hinnar hefðbundnu. Ég lít til
dæmis sjálfur á mig sem konseptlistamann – geri það af einhverri þrjósku,“ segir Eggert.
Í málverkum Eggerts koma fyrir íslenskar jurtir og blóm.
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur
ingamaria@mbl.is
CARNEGIE Art Award eru ein stærstu
myndlistarverðlaun sem veitt eru í dag.
Til þeirra var stofnað árið 1998 af sænska
fjárfestingarfélaginu D. Carnegie & Co.,
til að styðja framúrskarandi listamenn á
Norðurlöndum og efla norræna samtíma-
málaralist, en skilningur á því hugtaki er
mjög breiður af hálfu þeirra sem veita
verðlaunin. Í fyrstu voru verðlaunin veitt
árlega, en frá árinu 2004 hafa þau verið
veitt annað hvert ár.
Carnegie Art Award er í raun þríþætt-
ur viðburður, sem felur í sér farandsýn-
ingu valinna listaverka, skráningu sýning-
arinnar í bókarformi og afhendingu
verðlaunanna sjálfra, sem veitt eru þrem-
ur listamönnum er eiga verk á sýningunni
ásamt styrk til yngri listamanns.
Alls nemur verðlaunaféð í ár 2,1 milljón
sænskra króna og voru 115 listamenn til-
nefndir til verðlaunanna að þessu sinni,
þar sem 21 komst í úrslit og taka þar með
þátt í sýningunni og bókinni, en þar af
eru valdir fjórir til að veita verðlaununum
sjálfum viðtöku. Verðlaunaupphæðin sem
fellur Eggerti Péturssyni í öðru sæti í
skaut hljóðar upp á 600.000 sænskar
krónur, tæpar 5,2 milljónir ísl. kr.
Alls eiga fjórir íslenskir myndlistar-
menn verk á Carnegie Art Award í ár;
auk Eggerts þeir Steingrímur Eyfjörð,
Finnbogi Pétursson og Jón Óskar Haf-
steinsson. Aldrei hafa fleiri Íslendingar
verið tilnefndir til verðlaunanna en nú, en
Eggert og Steingrímur tóku ennfremur
þátt árið 2004.
Íslenskur myndlistarmaður hefur einu
sinni áður hlotið verðlaunin, og lenti þá
einnig í öðru sæti. Það var Hreinn Frið-
finnsson, sem hlaut þau árið 2000.
Frásagnarleg málverk
Að þessu sinni er það sænska listakon-
an Karin Mamma Andersson sem hlýtur
fyrstu verðlaun, eina milljón sænskra
króna, fyrir frásagnarleg málverk sín. Ár-
um saman fjallaði hún um norræna nátt-
úru í verkum sínum og tefldi henni gegn
þjóðsögum og goðsögnum, en í seinni tíð
hefur landslagið vikið fyrir innanhús-
senum, þar sem er enn er að finna ýmiss
ummerki náttúrunnar. Karin Mamma
Andersson tók einnig þátt í Carnegie-
sýningunum árið 1998 og 2000.
Finnska listakonan Petra Lindholm
hlýtur þriðju verðlaun að upphæð 400.000
sænskar krónur fyrir ljóðrænt mynd-
bandsverk sitt „Uns“. Með því að flétta
saman hljóð og myndskeið „málar“ lista-
konan eins konar draumsýn þar sem
áhorfandinn fylgir í humátt á eftir ungri
konu á ferð í gegnum borg að næturlagi.
Styrk upp á 100.000 sænskar krónur
hlýtur sænski listamaðurinn Sirous Nam-
azi, sem er upprunalega frá Íran. Namazi
hlýtur styrkinn fyrir verk sitt „Skilti“ sem
vekur upp minningar um auglýsinga-
skiltin sem standa meðfram þjóðvegunum,
en bera engin skilaboð; þess í stað endur-
speglar það væntingar áhorfandans sjálfs.
Verk Namazis snúast um mannlega eigin-
leika og uppruna.
Dómnefnd Carnegie-verðlaunanna að
þessu sinni skipa Lars Nittve frá Moderna
Museet í Stokkhólmi, sem er formaður,
Ina Blom frá Oslóarháskóla, Maaretta
Jaukkuri frá háskólanum í Þrándheimi og
Kiasma-listasafninu, Halldór Björn Run-
ólfsson frá Listaháskóla Íslands, Poul Er-
ik Töjner frá Louisiana-listasafninu og
Suzanne Pagé frá Nútímalistasafni
Parísarborgar.
Til Íslands í júní 2006
Carnegie Art Award-sýningin verður
formlega opnuð í Henie Onstad-lista-
miðstöðinni í nágrenni Oslóar hinn 28.
september 2005, þar sem verðlaunin
verða ennfremur opinberlega afhent. Að
venju mun sýningin verða sett upp í kjöl-
farið í höfuðborgum allra Norður-
landanna, auk Nice og Lundúna, og verð-
ur hún opnuð á Íslandi í Listasafni
Reykjavíkur, Hafnarhúsi, hinn 10. júní
2006, þar sem hún mun standa til 20.
ágúst sama ár.
Ein stærstu myndlistarverð-
laun sem veitt eru
HALLDÓR Björn Runólfsson, lektor
við Listaháskóla Íslands, situr í dóm-
nefnd Carnegie Art Award í ár. Hann
segir Eggert Pétursson vel að öðru
sætinu kominn.
„Hann er það svo sannarlega, og þó
fyrr hefði verið,“ segir hann og bætir
við að þeir dómnefndarmenn sem
mæltu með Eggerti í annað sætið hafi
fengið óskiptan stuðning Suzanne Pagé
frá Nútímalistasafni Parísarborgar, en
í nefndinni situr jafnan einn utan-
aðkomandi fulltrúi, sem ekki kemur frá
Norðurlöndum. „Henni fannst hann al-
veg einstakur, og hann er það líka. Ég
veit ekki um nokkurn annan listamann
sem er að gera verk eins og hann ger-
ir. Og jafnvel þó að verksvið hans sé
þröngt – hann fæst eingöngu við blóm,
jurtir og grös í málverkum sínum –
verða verkin hans aldrei leiðigjörn eða
eins. Hann finnur sífellt nýjan flöt á
þessu viðfangsefni sínu.“
Halldór Björn segir það mikið fagn-
aðarefni að Eggert skuli hljóta verð-
launin. „Og eins það, að við skulum
eiga fjóra fulltrúa frá Íslandi. Það er í
raun ótrúlegt, í ljósi þess hvað við er-
um fámenn þjóð miðað við hin Norður-
löndin. Það ber greinilega sterkri
stöðu íslenskra myndlistarmanna
vitni.“
Sterk staða
íslenskra mynd-
listarmanna