Morgunblaðið - 15.08.2005, Side 26

Morgunblaðið - 15.08.2005, Side 26
26 MÁNUDAGUR 15. ÁGÚST 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Hannes ÞórðurHafstein fæddist í Reykjavík 14. októ- ber 1938. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítala – há- skólasjúkrahúss sunnudaginn 7. ágúst. Foreldrar hans voru Ásgerður Sigurðardóttir Haf- stein húsfreyja, f. 10. október 1914, d. 8. október 1976, og Sigurður Tryggvi Hafstein skrifstofu- stjóri, f. 6. janúar 1913, d. 21. ágúst 1985. Bróðir Hannesar er Sigurður Hafstein, f. 11. október 1940. Hannes kvæntist 26. nóvember 1960 Ragnheiði Valdimarsdóttur, f. 26. apríl 1941. Foreldrar hennar voru Ásta Júlía Andrésdóttir hús- freyja, f. 16. desember 1913, d. 15. nóvember 1996, og Valdimar Stef- ánsson ríkissaksóknari, f. 24. sept- ember 1910, d. 23. apríl 1973. Börn Hannesar og Ragnheiðar eru: 1) Ásgerður Katrín, f. 7. júní 1963. Maður hennar er Carl Heggli f. 9. janúar 1963. Dætur þeirra eru Margaux, f. 8. september 1991, Christina, f. 26. nóvember 1993, og Alexandra, f. 3. september 1999. 2) Ásta Ragnheiður, f. 16. mars 1967. Maður hennar er Jón Kristinn Guðmundsson, f. 22. október 1965. Synir þeirra eru Hannes Ingi, f. 28. maí 1991, og Valdimar Krist- inn, f. 18. september 1992. 3) Valdimar Tryggvi, f. 12. október 1972. Kona hans er Birna Anna Björnsdóttir, f. 18. apríl 1975. 4) Soffía Lára, f. 23. janúar 1976. Maður hennar er Árni Þór Árnason, f. 11. apríl 1975. Dætur þeirra eru Eva Örk, f. 26. október 1996, og Tara Sól, f. 17. maí 2000. Hannes lauk lög- fræðiprófi frá Há- skóla Íslands árið 1965. Hann starfaði lengst af í utanríkis- þjónustunni. Hann hóf störf í sendiráði Íslands í Stokkhólmi árið 1965, starfaði eftir það sem varafasta- fulltrúi í Brussel og sem skrif- stofustjóri í ráðuneytinu en var skipaður sendiherra árið 1981. Ár- ið 1983 varð hann sendiherra gagnvart alþjóðastofnunum í Genf og jafnframt ýmsum Afríkuríkj- um. Hannes tók við starfi ráðu- neytisstjóra árið 1987. Hann var aðalsamningamaður Íslands í samningaviðræðum milli EFTA og Evrópusambandsins sem leiddu til EES-samningsins og helgaði sig því starfi eingöngu frá 1990. Hann tók við starfi sendiherra í Belgíu, Lúxemborg og Liechtenstein og gagnvart Evrópusambandinu í Brussel árið 1991 og lagði þar m.a. grunn að aðild Íslands að Scheng- en-samningnum. Árið 1997 var Hannes skipaður í framkvæmda- stjórn ESA. Hann varð síðar for- seti stofnunarinnar og gegndi því starfi til dauðadags. Útför Hannesar verður gerð frá Dómkirkjunni í dag og hefst at- höfnin klukkan 13. Gleði og örlæti eru orðin sem fyrst koma upp í hugann þegar ég hugsa um heimili tengdaforeldra minna, Hannesar og Ragnheiðar. Ég hafði heyrt talsvert af þeim hjónum áður en ég hitti þau sjálf í fyrsta sinn og virtist öllum mjög í mun að segja mér frá því hvað þau væru einstök. Vinir barna þeirra lýstu því hvernig heim- ili þeirra hefði alltaf staðið þeim öll- um opið og iðulega verið fullt út úr dyrum dag og nótt, allan ársins hring. Þeir sem höfðu kynnst þeim í starfi þeirra erlendis lýstu því hvað Hannes og Ragnheiður hefðu alltaf verið boðin og búin að hýsa, keyra, hjálpa, vera til staðar fyrir alla þá sem þess þurftu hverju sinni. Þegar ég síðan kynntist þeim sjálf skildi ég allt það sem mér hafði verið sagt og svo miklu meira til. Þarna voru hjón sem sýndu í orði og verki að heimili þeirra væri líka heimili allra sem þangað komu og þar skyldi öllum líða vel. Sem var vissulega raunin, enda annað ekki hægt í návist þeirra hjóna sem sjálfum leið svo augljóslega vel. Það er auðvelt að tala um Ragn- heiði og Hannes í sömu andrá. Þeim sem þekktu þau er ljóst að þau sáu ekki sólina hvort fyrir öðru. Svipur- inn á Hannesi þegar Ragnheiður var að segja frá einhverju rosalegu er svipur sem er gaman að muna. Hvernig hann brosti út í annað og réð sér svo varla fyrir kæti þegar sögunni lauk. Jafnvel þó að hann hefði heyrt hana áður og hún væri sögð til að setja nýrri fjölskyldumeð- limi inn í málin og/eða skemmta gest- um. Það fór heldur ekki á milli mála hvað Hannes var börnum sínum og barnabörnum hlýr og ástríkur pabbi og afi. Hann var jafnframt mikill og náinn vinur þeirra. Það var líka eft- irtektarvert hvað hann sýndi prakk- araskap barnabarna sinna mikinn skilning og þolinmæði og fannst hon- um þau eiginlega alltaf mjög fyndin, sama hversu langt var gengið. Enda átti hann trúnað þeirra og þau sögðu honum óhikað frá öllum uppátækjum sínum. Hannes sagði skemmtilega frá og var mikill og lúmskur húm- oristi. Hann talaði mikið við börnin í fjölskyldunni og kenndi þeim svo ótal margt sem þau eru lánsöm að búa að. Afi er ennþá með okkur því hann er í hjörtum okkar, sagði ung dótt- urdóttir Hannesar fyrir nokkrum dögum. Hún hefur rétt fyrir sér og Hannesar verður minnst vel og lengi í gleði og af þakklæti. Guð blessi minningu hans. Birna Anna Björnsdóttir. Fáir menn hafa haft eins afgerandi og mótandi áhrif á utanríkisþjónustu Íslands og Hannes Hafstein. Á starfsferli sínum sem spannaði lið- lega fjörutíu ár kom hann víða við og markaði á hverju skeiði spor sem enn sér stað. Hann hélt beint frá prófborði til starfa við sendiráð Íslands í Stokk- hólmi árið 1965. Þetta voru ár ólgu og stúdentaóeirða og íslenskir stúdent- ar sem vekja vildu athygli á kröfum sínum brugðu á það ráð að taka sendiráð Íslands. Það varð ekki gert nema með því að bera hinn unga sendiráðsritara út með valdi. Einn hinn róttæku tökumanna sagði mér löngu síðar að engan mann hefði hann síðar virt jafn mikils og þennan jafnaldra sinn sem hann tók þátt í að bera út sem fulltrúa hins borgara- lega Íslands. Það varð hins vegar verkefni Hannesar sem deildarstjóra heima í ráðuneyti frá 1970 að vinna að rót- tækum kerfisbreytingum á fyrir- komulagi og starfsháttum sendiráða, sem miðuðu að því að tryggja stöð- ugleika, jafnræði og gagnsæi við ákvörðun kjara og aðbúnaðar starfs- manna og má segja að sá grunnur sem þar var lagður standi enn. Hann hafði og umsjón með flutningum ráðuneytisins í nýtt og betra hús- næði. Það er þó frammistaða Hannesar í EES-viðræðunum sem að öðrum af- rekum hans ólöstuðum mun halda nafni hans á lofti um ókomin ár. Hann kom ekki vanbúinn að því verki. Hann aflaði sér dýrmætrar reynslu sem varafastafulltrúi í fasta- nefnd Íslands gagnvart NATO og í sendiráði í Brussel á átakatímum 1974–1979 við eftirmál þorskastríða og þróun þátttöku Íslands í evr- ópskri fríverslun. Síðar var hann skrifstofustjóri ráðuneytisins og samningamaður í fiskveiðisamning- um 1979–1983 og sem fastafulltrúi gagnvart alþjóðastofnunum í Genf 1983–87 tókst honum eftir mikið samningaþóf að ná samstöðu innan EFTA um fríverslun með sjávaraf- urðir. Reyndist það ómetanlegt veganesti þegar kom að samninga- viðræðum við Evrópusambandið. Við starfi ráðuneytisstjóra tók hann 1987. EES-viðræðurnar voru eitthvert stærsta verkefni íslenskrar stjórn- sýslu. Þrjátíu ára uppsafnaða laga- arfleifð Evrópusambandsins þurfti að greina og bera saman íslenska löggjöf, skilgreina íslenska hagsmuni og markmið og tryggja þeim braut- argengi í flóknum samningaviðræð- um þar sem fyrst þurfti að fá hljóm- grunn fyrir íslensk sjónarmið innan EFTA og síðan tryggja þá áheyrn sem þurfti í viðræðum við Evrópu- sambandið. Þar reyndist ekki nóg að sannfæra framkvæmdastjórnina heldur þurfti að tryggja baklandið hjá aðildarríkjum ESB og Evrópu- þinginu. Ekki var síður mikilvægt að ná sátt innanlands um hverjar áherslurnar ættu að vera og ekki alltaf auðvelt að leggja málin upp með þeim hætti að hægt væri að sannfæra ólíka hagsmunaaðila um hvaða leið skyldi fara. Pólitísk ábyrgð lá að sjálfsögðu hjá ráðherra og ríkisstjórn og þar var stefnan rétt af eftir því sem þurfti enda átti Hannes trúnað pólitískra yfirboðara sinna, ekki aðeins Jóns Baldvins Hannibalssonar utanríkisráðherra heldur ríkisstjórnarinnar allrar. Hæfileikar og reynsla Hannesar nýttust til hins ýtrasta í hlutverki hans sem verkstjóri og aðalsamn- ingamaður í öllu þessu ferli. Skipu- lögð vinnubrögð og nákvæmni sam- fara einstökum hæfileika við að skilja kjarnann frá hisminu öfluðu honum virðingar allra samstarfsmanna sem gat á stundum verið nokkrum ótta blandið því hann átti bágt með að þola óþarfa vífilengjur eða undan- brögð og gat þá verið skorinorður svo undan sveið. Orð þjóðskáldsins, afa hans og nafna, áttu hér við; þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur og lífsanda starfandi hvarvetna vekur. Þegar kom að samningaviðræðum gat hann haldið spilunum þétt að sér eins lengi og þurfti og kippti sér hvorki upp við þrýsting né hörð við- brögð viðsemjenda. Hann undi sér vel á ystu nöf eins lengi og stætt var þar en gat þó líka höggvið á hnútinn þegar útséð var um það hversu langt yrði komist. Því fer fjarri að bestur árangur náist í samningaviðræðum með fláttskap eða flærð. Þvert á móti voru það heilindi Hannesar og tiltrú og traust viðsemjenda sem skilaði þeim árangri sem náðist. Hann sagði ekki annað en það sem hann gat stað- ið við og átti innistæðu fyrir. Í tvígang komust EES-samningar í uppnám eftir að niðurstaða hafði náðst í samningaviðræðum. Annars vegar þegar Evrópudómstóllinn hafnaði þeim lausnum sem fundist höfðu um rekstur sameiginlegs dóm- stóls og hins vegar þegar Svisslend- ingar felldu EES-samninginn í þjóð- aratkvæðagreiðslu. Í báðum tilfellum litu samstarfsþjóðir okkar ekki síst til Hannesar til að finna þær lausnir sem dygðu. Það féll í hans hlut að semja fyrir hönd EFTA-ríkja um nýjar lausnir og rekstur sérstaks EFTA-dómstóls. Hann getur því með réttu kallast guðfaðir samnings- ins ekki aðeins á Íslandi heldur al- mennt. Við lok starfsævi sinnar sat Hann- es sem stjórnarmaður og síðar for- seti ESA. Á þeim vettvangi talaði hann af þeim þunga að orð hans voru ekki í efa dregin. Þar stóð hann vörð um grundvallaratriði samningsins til síðustu stundar. Þótt Hannes flíkaði ekki tilfinning- um sínum lét hann sér annt um sam- starfsfólk sitt og gat sýnt fádæma natni og alúð þegar á þurfti að halda. Raunin var reyndar sú að gamalt samstarfsfólk leitaði til hans löngu eftir að samstarfi lauk enda var hann með eindæmum ráðhollur. Hann gat verið meinfyndinn og laumaði frá sér kviðlingum við tækifæri. Söngmaður var hann góður og ef Puccini-aríur heyrðust flautaðar á göngum ráðu- neytisins vissi maður að Hannes var þar á ferð. Hann var gæfumaður í einkalífi sínu, átti gáfaða og glæsi- lega konu og fjögur mannvænleg börn. Þau hjónin Ragnheiður og Hannes voru sem eitt, hans styrkur óx í skjóli hennar. Þegar allt lék í lyndi gat hann ekki án hennar verið. Þegar veikindi herjuðu á tók hann þeim með æðruleysi en reiddi sig á stuðning hennar og kærleika. Utanríkisráðuneytið er stolt af því að hafa átt afburðamann sem Hann- es í röðum sínum. Minning hans mun lengi lifa og æ vera starfsmönnum þess hvatning til dáða. Gunnar Snorri Gunnarsson, ráðuneytisstjóri. Fundum okkar Hannesar bar fyrst saman í nefnd um starfsemi Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA- dómstólsins árið 1995. Hann var þá sendiherra Íslands gagnvart Evr- ópusambandinu og mér var kunnugt um að hann hafði verið aðalsamn- ingamaður landsins í löngum og ströngum viðræðum sem leiddu til undirritunar EES-samningsins. Hannes tilheyrði því hópi EFTA- brautryðjenda sem höfðu áorkað því sem margir töldu ómögulegt á þeim tíma, þ.e. að koma á tengslum milli EFTA og Evrópusambandsins með það að leiðarljósi að þegnar og fyr- irtæki í EFTA-ríkjunum nytu óhindraðs aðgangs að innri markaði ESB. Það reyndi ekki einungis á diplóm- atíska hæfileika Hannesar þegar dómstóll Evrópubandalaganna sendi frá sér neikvætt álit varðandi EES í desember 1991 heldur kom traust lagaþekking hans þar einnig að góð- um notum. Framlag hans skipti sköpum þegar leitað var lausna á ýmsum þeim vandamálum sem steðj- uðu að EES-samningnum. Þá hefur mér einnig verið sagt að þegar útlit var fyrir að Austurríki, Finnland, Noregur og Svíþjóð gengju í ESB haustið 1994 hafi Hannes einn og sjálfur samið við framkvæmdastjórn ESB um áframhaldandi starfsemi EES þar sem Ísland yrði eina EFTA-ríkið. Nefnd um starfsemi ESA og EFTA-dómstólsins er skipuð sendi- herrum þeirra þriggja EFTA-ríkja sem aðild eiga að EES-samningnum. Nefndin gegnir veigamiklu hlutverki í stjórnkerfi EES einkum þegar kemur að skipun fulltrúa í fram- kvæmdastjórn ESA og dómara við EFTA-dómstólinn. Verkefni nefnd- armanna eru flókin og margþætt. Staða þeirra sem sendiherrar landa sinna býður þeim að verja hagsmuni ríkisstjórna landanna en jafnframt ber þeim að tryggja sjálfstæði ESA og dómstólsins gagnvart þessum sömu ríkisstjórnum en það skiptir meginmáli fyrir framkvæmd EES- samningsins. Það liggur í hlutarins eðli að þessar stofnanir eru á tíðum umdeildar í EFTA-ríkjunum. Hann- es sinnti báðum þessum hlutverkum með aðdáunarverðum hætti og af þeirri kostgæfni og trúmennsku sem einatt einkenndi störf hans. Hannes var skipaður í fram- kvæmdastjórn ESA árið 1997. Stofn- unin á að tryggja efndir EES/EFTA- ríkjanna á skuldbindingum þeirra samkvæmt EES-samningnum og hefur hún náið samstarf við fram- kvæmdastjórn ESB. Sú mikla virð- ing sem Hannes hafði áunnið sér í samningaviðræðunum við fram- kvæmdastjórnina sem staðfastur en sanngjarn samningamaður kom sér einkar vel í þessu nýja starfi. Hannes tók við embætti forseta Eftirlitsstofnunar EFTA árið 2004. Í forsetatíð hans jókst samstarf ESA við ESB á sviði samkeppnismála vegna fyrirhugaðra breytinga og nú- tímavæðingar á því sviði innan ESB. Hannes hafði næmt auga fyrir mik- ilvægi þróunar innan EES og gerði sér grein fyrir því að væri EFTA ekki þátttakandi í nýju samevrópsku neti á sviði samkeppnismála gæti það dregið úr mikilvægi EES-samnings- ins. Frá efnahagslegu sjónarmiði hef- ur EES-samningurinn borið ríkuleg- an árangur. Eitt dæmi um þennan árangur er uppgangur á fjármagns- markaði á Íslandi og hefur þróunin þar orðið til þess að nú er vísað til ís- lenskra fjárfesta í Evrópu sem „nýrra víkinga“. Öll þrjú EES/ EFTA-ríkin hafa náð góðum árangri á sviði efnahagsmála. Hannes átti stóran þátt í því að gera þennan ár- angur mögulegan með starfi sínu sem aðalsamningamaður í EES-við- ræðunum og vegna starfa sinna í framkvæmdastjórn ESA og sem for- seti ESA. Þekking Hannesar á málefnum sem varða EES var í sérflokki. Hann var ötull talsmaður þess að grund- vallarmarkmið EES um einsleitni og gagnkvæmni væru virt og honum var vel ljóst að ESA og EFTA-dómstóll- inn gegndu veigamiklu hlutverki í þessu sambandi. Á 10 ára afmælishá- tíð EFTA-dómstólsins í október sl. flutti Hannes létta kvöldverðarræðu með bros á vör. Hárfínt skopskyn hans fór ekki framhjá neinum þegar hann sagði að Eftirlitsstofnun EFTA væri að sönnu sjálfstæð stofnun og lyti aðeins tvenns konar yfirvaldi: Guði almáttugum og EFTA-dóm- stólnum. EFTA-dómstóllinn kveður með djúpri virðingu einstakan fagmann, diplómat og vin. Carl Baudenbacher, forseti EFTA-dómstólsins. „Ert þú þessi frægi Hannes?“ – spurði Gro Harlem Brundtland, for- sætisráðherra Noregs, þegar ég kynnti fyrir henni Hannes Hafstein, aðalsamningamann Íslands í samn- ingum EFTA-ríkjanna við Evrópu- sambandið um Evrópska efnahags- svæðið. Það sem við köllum EES í daglegu tali. Tónninn gaf til kynna að henni þætti nokkuð til þess koma að taka í höndina á þessum alræmda samningaþjarki Íslands. Þeir eru ekki margir, embættismenn íslensk- ir, sem forsætisráðherrar í útlöndum leita uppi á alþjóðafundum til þess að mega kasta á þá kveðju. Stjórnmála- foringjum, hverrar þjóðar sem þeir eru, er yfirleitt flest annað betur gef- ið en örlæti í garð annarra. Þessi saga segir því meira en mörg orð um þau bæði – Gro Harlem og Hannes. Starf aðalsamningamanns Íslands í EES-samningunum við Evrópu- bandalagið var hápunkturinn á starfsferli Hannesar Hafsteins. Hafi einhverjir haft um það efasemdir fyr- irfram, að Hannes væri réttur maður á réttum stað í því vandasama hlut- verki, þá velktist enginn í vafa um það eftir á. Hvorki við, sem bárum pólitíska ábyrgð á samningsgerðinni, né viðsemjendur okkar, hið harð- snúna samningagengi Evrópusam- bandsins, sem hefur samningatækni að atvinnu alla daga ársins. Ísland fór í þrígang með forystu fyrir EFTA-ríkjunum á samningstíman- um, þ.á m. bæði í upphafi og á enda- sprettinum. Áður en sest var að samningaborði lak það út í sænsku pressunni að sænski utanríkisvið- skiptaráðherrann þáverandi, Ulf Dinkelspiel, væri með böggum hildar yfir því að eiga þjóðarhagsmuni sænska ríkisins undir „litla“ Íslandi. Þær raddir þögnuðu fljótlega. „Þessi frægi Hannes“ – sem Gro Harlem vildi fá að berja augum – lét ekki að sér hæða. Hvað var það sem gerði Hannes Hafstein að rómuðum samn- ingamanni fyrir hönd EFTA- ríkjanna og Íslands? Var hann svona miklu snjallari lögfræðingur en hið þrautreynda lagaklækjagengi ESB í Brussel? Áreiðanlega ekki. Kunni hann tollskrá Evrópusambandsins betur en höfundar hennar? Varla. Hvað var það þá? Hann vissi einfald- lega flestum öðrum betur hvað skipti máli – og hvað ekki – fyrir umbjóð- endur sína. Hann gat verið sveigj- anlegur þegar kom að aukaatriðum og kunni að láta það líta út sem fórn- fýsi í nafni sanngirni. En þegar kom að aðalatriðum – þessu sem við köll- um þjóðarhag – var hann óhaggan- legur með öllu svo að jaðraði við ósvífni. Þá dugðu engar fortölur, engar umvandanir, engar skírskot- anir. Ekkert hreif. Jafnvel þótt samningamenn samstarfsþjóða, sem sátu okkar megin við borðið, sár- bændu okkur í nafni samstöðunnar að sýna sanngirni og slá af ýtrustu kröfum, sat Hannes klossfastur við sinn keip. Því til áréttingar lagði reykjarkófið úr pípu „Hr. Nei“, eins og hann var stundum uppnefndur, fyrir vit viðsemjenda svo að þeim súrnaði í augum og þeir sáu vart handa sinna skil. Ég hef stundum velt því fyrir mér síðar, hvernig farið hefði, ef reykingar hefðu þá þegar verið bannaðar í kanselíum Evrópu. Það er engan veginn sjálfgefið, því HANNES ÞÓRÐUR HAFSTEIN

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.