Fréttablaðið - 12.02.2003, Side 24
Forsætisráðherraefni og fram-bjóðandi Samfylkingarinnar í
fimmta sæti í Reykjavík norður ger-
ir nú harða hríð að kommúnista-
prestinum Davíð Oddssyni og hans
fylgifiskum fyrir ríkisforsjárhyggju
og afskiptasemi á hinu heilaga mark-
aðstorgi Mammons. En það er
grundvallarréttur allra landsins
barna að fá að þjóna Mammoni án
gerræðislegra afskipta æðstuklerk-
anna sem svo lengi hafa hreiðrað um
sig í ríkishofinu. Ný siðaskipti eru í
nánd. Manni verður hugsað aftur til
ársins 1550 þegar síðasti kaþólski
biskupinn á Íslandi, landsfaðirinn
mikli Jón Arason, var handtekinn
ásamt sonum sínum og leiddur undir
öxina á gráum nóvembermorgni.
FORSÆTISRÁÐHERRAEFNIÐ
boðar nýja siðbót og píetisma meðal
Mammonsdýrkenda. Aflátssölur í
formi starfslokasamninga skulu
aflagðar svo og frjáls og ókeypis að-
gangur sægreifa að Himnaríki og
landsfaðirinn mikli Davíð Oddsson
skal leiddur undir lýðræðisöxina.
Frægt er hversu óhönduglega tókst
til forðum tíð við hin fyrri siðaskipti
þegar mörg axarhögg þurfi til að
losa höfuð gamla biskupsins frá
bolnum, og ekki er laust við að mað-
ur hafi áhyggjur af því að eitthvað
kunni að fara úrskeiðis við fyrirhug-
aða aftöku 10. maí næstkomandi
þegar vígamaðurinn Össur kreppir
sína vönu fingur um hið pólitíska ax-
arskaft og reiðir hátt til höggs.
FORSÆTISRÁÐHERRAEFNI og
frambjóðandi Samfylkingarinnar í
fimmta sæti í Reykjavík norður boð-
ar hina Nýju siðbót sem farið hefur
sem eldur í sinu um gjörvalla Evr-
ópu og sameinað hin gömlu kóngs-
ríki og furstadæmi í eitt alsherjar-
bandalag frjálsra viðskipta sem
hafnar óskeikulleika og forystu
Patríarkans í Washington.
BOÐBERAR hinnar Nýju siðbótar
tala tungum og mæla spádómsorð:
„Sjá, vér boðum yður mikinn fögn-
uð. Hinir síðustu munu nú verða
fyrstir. Nýir peningar skulu koma í
stað hinna gömlu. Baugur Norður-
ljósa mun lýsa yfir land og þjóð, án
afskipta Ríkislögreglustjóra eða
skattheimtumanna. Hölt fyrirtæki
munu ganga og blindir fá ókeypis
aðgang að Sýn. Vér boðum yður
nýja frjálshyggju fyrir gamla.“
Sagt er að 45% landsmanna styðji
hina Nýju siðbót. Ó, hvílíkir tímar,
hvílíkir siðir! ■
SÍMANÚMER FRÉTTABLAÐSINS: 515 75 00, fax: 515 75 16 Ritstjórn: 515 75 05, fax: 515 75 06, ritstjorn@frettabladid.is
Auglýsinga- og markaðsdeild: 515 75 15 - fax 515 75 16, auglysingar@frettabladid.is Dreifing: 515 75 00, dreifing@frettabladid.is
VI Ð S EG J U M F R É T T I R SM Á A U G L Ý S I N G AS Í M I N N E R 515 7500
Bakþankar
Þráins Bertelssonar
Ný siðbót
Sporléttir sölumenn
www.eignanaust.is
Sími 551 8000 • Fax 551 1160
Vitastíg 12 • 101 Reykjavík