Fréttablaðið - 22.07.2006, Síða 52
22. júlí 2006 LAUGARDAGUR32
Johnny Depp er greinilega timbraður, þar sem hann situr í sal Claridge-hótelsins í Soho
hverfi í London. Enn með stírur í
augum og röddin ívið lægri en
venjulega. Kannski engin furða
þar sem kvöldið áður var haldinn
heljarinnar gleðskapur í tilefni
velheppnaðrar frumsýningar Pir-
ates of the Caribbean 2. Honum
virðist ekkert sérstaklega skemmt
að svara spurningum þessa stund-
ina. Johnny er hins vegar sérstak-
lega kurteis maður og svarar
öllum spurningum með virðingu
fyrir spyrjandanum, sama hversu
kauðslega þær hljóma. Hann gefur
sér tíma til að hugsa og reynir að
vera hnyttinn í tilsvörum.
Depp þykir greinilega mjög
vænt um Jack Sparrow, sjóræn-
ingjann sem hann leikur í Pirates
of the Caribbean, því húðflúrið
sem sést á hendi sjóræningjans í
myndinni er ekta; útlínur af þresti
með nafninu Jack ritaðar undir.
Hann á eftir að leika rulluna í
þriðja sinn sem er nýlunda því
Depp hefur aldrei svo mikið sem
leikið í framhaldsmynd áður.
„Ég hef bara aldrei leikið í
„smelli“ þannig að framhalds-
myndir komu aldrei til tals áður,“
útskýrir leikarinn. „Mér leist bara
mjög vel á hugmyndina. Ég varð
hlessa yfir hversu vinsæl fyrri
myndin var og er það í rauninni
ennþá. Ekki síst á hversu vel
persóna Jack Sparrow féll í kram-
ið. Það gaf mér styrk. Á sínum
tíma áttu sumir af „betur klæddu“
einstaklingunum hjá Disney erfitt
með að sætta sig við hvernig ég
lék hlutverkið. Sú staðreynd að
leikur minn varð svona mikið
atriðið í velgengni myndarinnar
veitti mér byr undir báða vængi.“
Jack og Keith
Depp mótaði persónu sjóræn-
ingjans með Keith Richards, gít-
arleikara The Rolling Stones, í
huga með ýktum tilburðum, til
dæmis ráfar Sparrow rosalega
þegar hann gengur.
„Ég fékk hugmyndina að göngu-
laginu eftir að hafa þolað gífurleg-
an hita. Ég lokaði mig inni í gufu-
baði í langan tíma, en ég mæli
samt eindregið á móti því. Þegar
maður lokar sig inni í gífurlegum
hita í langan tíma er nánast eins
og maður sé í vímu, og maður
sveigir fram og til baka. Manni
líður mjög illa í líkamanum og
maður neyðist því til að ganga
svona. Þar fann ég hugmyndina
aðlíkamstjáningu Jacks, án efa.
Talandinn er frá Keith Richards.“
Gítarleikarinn hefur einmitt
samþykkt að koma fram í þriðju
myndinni og bregður sér þar í
hlutverk föður Sparrows. „Ef hann
drepur sig ekki með því að detta
úr kókóstré áður. Keith hefur
áhuga og þetta lítur allt mjög vel
út. En fyrir mér er þetta ekki orðið
að veruleika fyrr en gæinn mætir
á tökustað í búningnum sínum.“
Þrátt fyrir allt telur Depp sig
ekki enn kominn í náðina hjá þeim
jakkafataklæddu hjá Disney. „Ja,
þeir eru nú ekki búnir að sjá
Pirates 3 ennþá. Ég átti einmitt
þetta samtal við Gore Vebrinski,
leikstjóra myndarinnar, á dögun-
um. Við vorum sammála um það
að ef það sem við erum að gera
gerir þá ekki taugaveiklaða, þá
erum við ekki að sinna starfi okkar
sem skyldi. Það verður gaman að
sjá viðbrögð þeirra við þriðju
myndinni.“
Heillandi lífsmáti sjóræningja
Í einu atriði myndarinnar tekst
Jack Sparrow einhvern veginn að
koma sér í stöðu höfðingja frum-
byggja á framandi slóðum. Ætt-
bálkurinn talar sitt eigið tungumál
og fljúga heilu setningarnar á
milli Jacks og „þegna hans“ á
þessu undarlega tungumáli. Maður
veltir því fyrir sér hvort þetta sé
byggt á einhverju raunverulegu
tungumáli, eða hvort þetta sé bara
spunnið á staðnum?
„Bæði,“ svarar Johnny hrein-
skilnislega og brosir. „Tungumálið
var ekki beint í handritinu, en við
vorum búin að búa til einhvers
konar hugmynd að því fyrir. Síðan
gerðum við það ögn klámfengnara
og skítugra og skutum atriðið.“
Depp segir margt heillandi við
líf sjóræningja. „Ætli það sé ekki
frelsið? Alla langar til þess að vera
algjörlega frjáls og engum
háður.“
Hann segir það ekki síst
ánægjulegt að hlutverkið hafi
vakið mikla lukku meðal barna.
„Augljóslega snertir það mann
töluvert að sjá lítinn krakka upp-
klæddan eins og Jack Sparrow.
Það að maður geti haft svona mikil
áhrif á jafn ungt barn með vinn-
unni sinni er magnað. En ég hefði
nú reyndar alveg getað séð fyrir
mér litla krakka klædda sem Ed
Wood eða Edward Scissorhands
eftir að ég kláraði þær myndir.
Það hefði verið gaman.“
Bæði yfirmaður Disney og
framleiðandinn Jerry Bruckheim-
er hafa viðurkennt að stefnan sé
að gera fleiri Pirates-myndir eftir
að tökum á þeirri þriðju lýkur.
Depp gefur ekkert upp um hvort
hann taki þátt í þeim.
„Eins og er hef ég ekkert á dag-
skránni eftir að tökum á Pirates 3
lýkur. Ef Jerry vill halda áfram að
ráða mig í vinnu, þá á ég auðvitað
eftir að vera ánægður með það. Ég
ætla bara að fara í þá átt sem ég
enda á að fara í, hvert það verður
veit ég bara ekki ennþá.“
Í Barbie-leik eftir vinnu
Þegar tími gefst reynir Depp að
slaka á með börnunum sínum. „Ég
reyni bara að hanga eins mikið
með þeim og ég get, á stöðum sem
símar hringja ekki. Börnin mín
hafa mikil áhrif á það hvernig ég
vinn. Þau eru ekki ennþá búin að
sjá þessa mynd, því ég var ekki
viss um hvort hún sé of ógeðsleg.
Ég er kominn á þá skoðun að það
verði allt í lagi fyrir þau að sjá
hana. Ég leik mér mikið í Barbie
með börnunum mínum, eins og
allir gera, og þá prufa ég kannski
á þeim nokkrar raddir. Yfirleitt
biðja þau mig um að hætta og tala
bara venjulega. Það hefur bara
gerst einu sinni að dóttir mín bað
mig um að halda áfram að leika
persónu eftir að ég byrjaði að
prófa þetta. Það var þegar ég var
að reyna að finna rödd handa
Willie Wonka. Það var stór breyt-
ing í mínu lífi að verða pabbi. Þá
uppgötvaði ég hversu miklum
tíma maður hafði eytt í bölvaða
vitleysu.“
Hann segir að það séu vissu-
lega aðrar persónur en Sparrow
sem hann gæti hugsað sér að leika
aftur.
„Mér fannst alltaf eins og við
hefðum getað gert framhald af
Edwards Scissorhands. Eins og
við hefðum ekki alveg nýtt alla þá
möguleika sem sú persóna bauð
upp á. Ég sakna persónanna eftir
að tökum á myndunum lýkur.
Maður verður stundum nokkuð
dapur þegar vinnunni lýkur, því
maður veit að maður á aldrei aftur
eftir að vera þessi sama persóna.
Ég hlakka nú ekki mikið til að
þurfa að kveðja Jack Sparrow,“
segir kafteinn Johnny Depp að
lokum.
Annað strandhögg
sjóræningjans
JACK SPARROW Depp byggði persónuna á Keith Richards, gítarleikara The Rolling Stones, en bætti að auki við ýktum tilbrigðum á borð við ráfandi göngulag.
BESTU HLUTVERK JOHNNY DEPP
CRY BABY - Johnny Depp vakti mikla athygli í kvikmyndinni Cry Baby þar sem hann lék
Wade “Cry Baby” Walker undir stjórn John Waters. Kvikmyndin er skemmtilega kaldhæðið grín á
kostnað söngvamynda á borð við Grease. (1990)
EDWARD SCISSORHANDS - Tim Burton fékk Depp til að túlka utan-
garðsmanninn og furðufuglinn Edward Scissorhands sem óvænt er hrifsaður inn
í hina venjulegu veröld. Stórkostlega stíliseruð mynd og frábær leikur Depp gerir
Scissorhands að einni eftirminnilegustu kvikmynd síðari ára. (1990)
ED WOOD - Enn og aftur tóku þeir Depp og Burton saman höndum þegar ævi B-mynda-
kóngsins Ed Wood voru gerð skil. Kvikmyndin var öll í svart/hvítu en Martin Landau fékk Óskar-
inn fyrir túlkun sína á Bela Lugosi. (1994)
CHARLIE AND THE CHOCOLATE FACTORY - Depp blómstrar
alltaf undir stjórn Burtons og fór hreinlega hamförum sem súkkulaðiframleið-
andinn Willy Wonka. Litadýrðin ræður hér ríkjum og hugmyndaflug Burtons
virðist nánast ótakmarkað. (2005)
PIRATES OF THE CARIBBEAN - THE CURSE OF THE BLACK PEARL -
Mörgum kom það í opna skjöldu þegar Depp gekk til liðs við framleiðandann Jerry Bruckheimer,
sem hingað til hefur verið þekktastur fyrir að framleiða sumarsmelli, en leikarinn á hvað stærst-
an þátt í því að sjóræningja-æði ríkir um þessar mundir.
Sjóræninginn Jack Sparrow snýr aftur á hvíta tjaldið í sumar í myndinni
Pirates of the Caribbean: Dead Man‘s Chest. Sem fyrr er það Johnny Depp
sem ljær Sparrow líf en myndin hefur slegið í gegn svo um munar. Birgir
Örn Steinarsson ræddi við Depp á dögunum.
„Mér fannst alltaf eins og við
hefðum getað gert framhald af
Edwards Scissorhands. Eins og
við hefðum ekki alveg nýtt alla
þá möguleika sem sú persóna
bauð upp á. Ég sakna persón-
anna eftir að tökum á mynd-
unum lýkur.“