Fréttablaðið - 20.04.2007, Page 40

Fréttablaðið - 20.04.2007, Page 40
BLS. 8 | sirkus | 20. APRÍL 2007 „Ég hef oft þurft að stappa í mig stálinu til að fara ekki að gráta vegna þess hversu erfitt þetta hefur verið en ég hef aldrei fundið fyrir því að vilja losna út úr þessu eða nenna ekki að leika Silvíu Nótt. Það er gríðarlega erfitt að leika svona spuna, maður þarf alltaf að vera á tánum og einbeittur. Það er gífurlegt álag og ég viðurkenni að stundum var ég við það að bugast. En spennan við að leika þennan karakter er svakalega mikil. Síðan er ég líka svo stolt af þessum gjörningi okkar og það skiptir öllu máli,“ segir Ágústa Eva. Auðvelt að fara úr karakter Eftir þriggja ára keyrslu sem Silvía Nótt liggur beinast við að spyrja hvort þetta ofdekraða og kjaftfora ólíkindatól sem Silvía er sé ekki orðinn hluti af Ágústu Evu? Er ekkert erfitt fyrir hana að fara úr gervinu? „Línan er óljós ennþá. Þótt fólk viti að þetta er leikið þá gerir það sér ekki alveg grein fyrir því. Það á erfitt með að greina á milli. Núna þegar ég er komin út úr skápnum og er bara Ágústa Eva þá er fólk samt að koma upp að mér og spyrja hvort ég geti gefið því eiginhandaráritun. Þá er ég beðin um að skrifa Silvía en ekki Ágústa Eva. Þannig að nafnið mitt er Silvía hjá rosalega mörgum. Ég vona bara að fólk vilji ekki að að ég sé Silvía Nótt. Það er rosalega gaman að leika Silvíu Nótt en ég held að það sé ekkert sérstaklega skemmtilegt að vera hún. Hún er afskaplega grunnhygginn og týndur einstakling- ur. Það er ekkert grín að vera Silvía Nótt,“ segir Ágústa Eva og hlær. Og hún heldur áfram: „Þótt ég leiki Silvíu Nótt þá er ég ekki hún og það er ekki eins og ég hafi verið með víbratorinn á lofti á hverju kvöldi andsetin að reyna að koma mér úr karakter. Það er ótrúlega gott að anda og slaka á eftir Silvíu. Fólk vissi ekki hver ég var fyrir utan Silvíu Nótt en ég er bara stelpan sem var að leika Silvíu Nótt í Eurovision og Evu Lind í Mýrinni á sama á tíma. Það var ekkert mál að hoppa á milli. Robert De Niro hefur leikið mörg hlutverk en hann er samt bara Robert De Niro í lok dagsins.” Enginn milljónamæringur Sögur hafa gengið um að Ágústa Eva hafi grætt mikla peninga á því að leika Silvíu Nótt. Birt var frétt í Séð og heyrt þar sem því var haldið fram að hún hefði fengið 40 milljónir fyrir nýjustu þáttaröðina Silvia Night frá Skjá einum. Ágústa Eva segir það af og frá að hún hafi orðið rík á þessu ævintýri en bendir réttilega á að þetta hafi verið nánast hennar eina vinna undanfarin þrjú ár og hún hafi fengið greidd laun í samræmi við það. „Ég er ekki rík. Fjölmiðlar virka svona. Það spurðist út að við hefðum fengið 40 milljónir til að gera þessa þáttaröð. Hún var tekin upp um allan heim með miklu fleira fólki en við vorum vön. Það kostaði þessa upphæð en því var slegið fram eins og ég hefði fengið það í minn vasa. Það selur miklu meira að segja að ég hafi fengið 40 milljónir. Það er ekki verið að ljúga en sannleikanum er hagrætt,“ segir Ágústa Eva og virðist lítið kippa sér upp við það þótt fréttir séu slitnar úr samhengi. „Við erum ekki í þessu fyrir skjótfenginn gróða. Við leggjum allt okkar í þetta. Þetta er ástríðan okkar. Þetta er vinnan mín og ég lifi á þessu en ég er ekki milljónamæringur. Ég hefði hins vegar getað verið á árshátíðum ef ég hefði viljað maka krókinn almennilega. Þá hefði ég verið úti um allt. Silvía Nótt hefði getað mætt í fermingarveislur og fengið fimmtíu þúsund kall fyrir en það stangast líka á við hugmyndina á bak við karakterinn. Er Silvía manneskja sem myndi mæta á árshátíð? Ég bara spyr. Hún hefur nánast aldrei troðið upp þrátt fyrir óteljandi beiðnir. Ég held líka að fólk myndi ekki vilja fá hana því það er aldrei að vita hvað gerist,“ segir Ágústa Eva. Subbulegt að tala um einkamál Það er ekki hægt að fara í felur með það að Ágústa Eva er afar myndarleg ung kona og hafa ástarmál hennar oftar en ekki ratað á forsíður tímarita og blaða. Hún var til að mynda spyrt við Frosta Logason í Mínus og tökumann á Skjá einum. Hún vill hins vegar sem minnst tjá sig sjálf um ástarmál sín. „Ef Silvía væri hérna þá myndi hún láta gamminn geysa um þetta efni en mér finnst mín einkamál ekkert sérstaklega spennandi. Mér finnst það eiginlega bara subbulegt að tala um það. Ég get ekki stjórnað því hvað fólk sér og hvað fólk skrifar um en ég get dregið línu. Ég hef ekki áhuga á tilfinningaklámi í fjölmiðlum.“ Ertu á lausu? „Guð veit það, ég veit það en þú veist það ekki,“ segir Ágústa Eva og flissar. Fær aulahroll í viðtölum við sjálfa sig „Mér finnst ekki gaman að vera í viðtölum, finnst það hreinlega ekki spennandi. Þegar ég er Silvía Nótt þá er ég að leika og þá er hægt að segja og gera hvað sem er en svo eru hlutirnir aðeins flóknari þegar maður er sjálfur í viðtali. Þá fæ ég aulahroll og hugsa af hverju ég sé að segja þetta og hitt. Mér finnst gaman að vera í sviðsljósinu þegar ég hef afsökun. Ég á það til að vera feimin og mér finnst vandræðalegt þegar ég þarf að segja mínar skoðanir opinberlega. Ég myndi aldrei hleypa neinum fjölmiðli inn til að skoða nýja sófann minn eða kúkinn í klósettinu. Ég er bara ekki þannig,“ segir Ágústa Eva í byrjun viðtalsins. Þegar Silvíu-brynjan er fallin og meikið horfið úr andlitinu vill hún helst fá að vera í friði. Silvía er fín fyrir ferilskrána Þegar talið berst að því hvað framtíðin ber í skauti sér segir Ágústa Eva margt spennandi vera fram undan. „Það er alltaf eitthvað í gangi. Fólk má búast við öllu af okkur. Við hjá Meistara alheimsins höfum nú sleppt hendinni af Silviu Night. Hún er komin í hendurnar á öðrum aðilum sem sjá um útrásina á plötunni Goldmine og þáttaröðinni sem við gerðum á ensku. Það verður gaman að fylgjast með því ævintýri,“ segir Ágústa Eva. Platan virðist ganga vel í landann og er komin í fyrstu sæti yfir söluhæstu plötur á Íslandi. Það gefur góð fyrirheit fyrir framhaldið erlendis enda er allt á fullu við að undirbúa strandhögg á erlendri grundu. „Það er verið að skipuleggja uppákomur og tónleika erlendis en ég veit ekki hversu mikinn þátt ég þarf að taka í því. Ef við höldum tryggð við karakterinn þá verður þetta skemmti- legt. Ef við förum hins vegar að fylgja einhverjum meikreglum, vera bara töff og ekki segja neitt dónalegt þá erum við bara orðin Nylon, sem er hundleiðinlegt. Ef þetta ævintýri floppar þá er það frábært og í anda Silviu,“ segir Ágústa Eva, sem þarf varla að kvíða verkefnaleysi þegar Silvíu Nótt sleppir. „Ég held að það sé fínt fyrir ferilskrána að hafa leikið Silvíu. Ég er meira en Silvía Nótt. Ég hef fengið fullt af tilboðum um að leika í bíómyndum og á sviði. Ég hef hins vegar ekki haft tíma til að taka að mér nein önnur verkefni en það er augljóst að listamannaferli mínum lýkur ekki með Silvíu Nótt. Ég er í þeirri stöðu að geta valið úr verkefnum og tel mig vera lánsama. Það eru ekki allir í sömu stöðu og ég en mér finnst listamenn ekki nógu duglegir sjálfir við að skapa eitthvað heldur sitja á rassinum og bíða eftir að verkefni komi upp í hendurnar á þeim. Það þarf að sýna frumkvæði og Silvía Nótt er lifandi sönnun þess að slíkt getur vel gengið.“ Spurð hvort það sé eitthvað utan leiklistar sem hana langi til gera segir Ágústa Eva svo ekki vera. „Mig langar ekki að gera neitt annað eins og stendur. Ég veit hins vegar ekkert hvernig mér líður á morgun. Kannski verð ég komin með mótórhjóla- bakteríu þá. Hver veit,“ segir Ágústa Eva að lokum. oskar@frettabladid.is REYKJAVIK STORE LAUGAVEGI 86-94, S: 511-2007 HÁPUNKTURINN Ágústa Eva sést her í gvervi Silvíu Nætur í Eurovision-keppninni í Aþenu. Hún segir það hafa verið frábært þegar allur salurinn baulaði á Silvíu. SIRKUSMYND/VALLI „SILVÍA NÓTT HEFÐI GETAÐ MÆTT Í FERMINGARVEISLUR OG FENGIÐ FIMMTÍU ÞÚS- UND KALL FYRIR EN ÞAÐ STANGAST LÍKA Á VIÐ HUGMYNDINA Á BAK VIÐ KARAKTERINN.“

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.