Fréttablaðið - 08.08.2007, Page 34
Málverk í Hafnarborg
Á morgun kl. 17 verður opnuð í
Hafnarborg sýning á málverk-
um bandarísku listakonunnar
Joan Perlman. Joan er skóluð í
San Francisco Art Institute og
hún hefur haldið einkasýningar
og tekið þátt í samsýningum víða
um Bandaríkin. Jafnframt því að
vera starfandi listamaður hefur
hún starfað sem kennari við
háskóla í Bandaríkjunum, m.a.
California State University og
Sonoma State University.
Perlman hefur lengi haft mik-
inn áhuga á Íslandi. Hún hefur
kynnt sér íslenska menningu og
þekkir vel sögu landsins. Árið
1995 kom hún hingað í fyrsta
skipti, þegar henni var boðið að
halda fyrirlestur í Nýlistasafn-
inu. Eftir að Joan hafði komið til
Íslands í fyrsta skipti varð hin
hrjúfa náttúra landsins algengt
viðfangsefni í málverkum lista-
konunnar. Joan Perlman leitast
við að túlka landslagið, reynir að
fanga dulúð þess.
Hafnarborg er opin alla daga
nema þriðjudaga frá kl. 11 til 17,
fimmtudaga er opið til kl. 21.
Sýningunni lýkur 9. september.
Frítt er í hafnfirsk söfn í boði
Glitnis. -
Kammertónleikar á Klaustri hafa nú verið árlegur við-
burður á tónlistarsumrinu í sextán ár. Hátíðin hefur
jafnan verið haldin nálægt töðugjöldum í ágúst og
lendir að þessu sinni á komandi helgi, 10. til 12. ágúst.
Þetta er annað árið í röð sem mezzósópransöngkon-
an Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir er listrænn stjórnandi
hátíðarinnar, en það er Menningarmálanefnd Skaftár-
hrepps sem stendur fyrir hátíðinni og naut lengi full-
tingis Eddu Erlendsdóttur píanóleikara. Rétt eins og
Edda áður er Guðrún Jóhanna einn helsti drifkraftur
hátíðarinnar en auk hennar koma þar fram á þrennum
tónleikum þau Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari,
Elena Jáuregui fiðluleikari og þeir Francisco Javier
Jáuregui og Robert Brightmore sem leika á klassíska
gítara. Allir tónlistarmennirnir eru búsettir erlendis,
bæði hinir íslensku og gestirnar sem koma lengra að.
Í ár er bryddað upp á þeirri nýjung að frumflytja
nýtt íslenskt tónverk. Hátíðin fór þess á leit við tón-
skáldið Huga Guðmundsson og skáldið Kristján Þórð
Hrafnsson að þeir semdu sungið eintal fyrir mezzó-
sópran, fiðlu og tvo klassíska gítara og ber verkið
heitið Réttu orðin. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem
Kristján leggur ljóð að lagi og er nýnæmi að tiltæk-
inu.
Auk framangreinds verks mun Guðrún flytja tvo
spænska ljóðaflokka, eftir Turina og Montsalvatge,
og kantötu Haydns, Arianna a Naxos. Guðrún er eins
og fleiri af listamönnum Klausturdaga verðlaunuð í
bak og fyrir: hlaut nýverið verðlaun sem besti flytj-
andi ljóðatónlistar í alþjóðlegri söngkeppni á vegum
Zamora-borgar á Spáni, en í fyrra hlaut hún verðlaun
sem besti túlkandi tónlistar Joaquíns Rodrigo í
alþjóðlegri keppni í Madríd sem ber nafn tónskálds-
ins. Víkingur fékk Íslensku tónlistarverðlaunin 2006
sem Flytjandi ársins, meðal annars fyrir leik sinn á
Kammertónleikum á Kirkjubæjarklaustri í fyrra. Í
ár munu áheyrendur fá að heyra hann takast á við
hina frægu sónötu Beethovens Pathétique og Sónötu
nr. 3 í h-moll eftir Chopin.
Það var Chopin sem staðhæfði að ekki væri til neitt feg-
urra en að hlusta á gítar, nema þá kannski á tvo. Gest-
ir Kammertónleikanna munu fá að hlýða á samleik
spænska gítarleikarans Franciscos Javiers Jáuregui
og enska gítarleikarans Roberts Brightmore en þeir
munu flytja saman dansa úr tónverkum eftir Manu-
el de Falla. Francisco Javier og Robert munu einn-
ig flytja ýmsar perlur gítartónbókmenntanna, eftir
Mompou, Houghton og Domeniconi. Spænski fiðlu-
leikarinn Elena Jáuregui mun leiða íslenska áheyr-
endur inn í hinn heillandi tónlistarheim Spánar með
leik sínum á verkum eftir Manuel de Falla og Pablo
Sarasate.
Það er því fjölbreytni í fyrirrúmi á Klaustri í ár: tón-
list frá Haydn til Huga Guðmundssonar, virtúósa-
einleiksverk og kammerverk.
Tónleikarnir verða haldnir í Félagsheimilinu
Kirkjuhvoli föstudaginn 10. ágúst kl. 21.00, laugar-
daginn 11. ágúst kl. 17.00 og sunnudaginn 12. ágúst kl.
15.00. Kostakjör eru í boði fyrir þá sem kaupa miða á
alla tónleikana. Upplifun er að gista í nágrenni Kirkju-
bæjarklausturs til að njóta þar tónlistar og náttúru-
fegurðar undir lok sumarsins og er fólki ráðlagt að
panta gistingu í tíma. Upplýsingamiðstöð Skaftár-
hrepps tekur við miðapöntunum.
Danska hljómsveitin JAZIRKUS
treður upp á Gauknum í kvöld. Hún
hefur ferðast með Jónasi Sigurðssyni
um landið og gert það gott.
JAZIRKUS hefur starfað síðan 2003 í
Kaupmannahöfn með sína blöndu af
djassi og kaffihúsabræðingi.