Tíminn - 22.08.1982, Blaðsíða 9

Tíminn - 22.08.1982, Blaðsíða 9
SUNNUDAGUR 22. ÁGÚST 1982 9 menn og málefni Áróðurinn gegn sjávarútveginum má ekki villa þjóðinni sýn Auðæfin frá sjávarútveginum l>að er staðreynd, að síðasta áratuginn hefur orðið meiri efnahags- breyting á íslandi en áður er dæmi um. Hagskýrslur sýna, að kaupmáttur verkamannalauna hefur aukizt um rúman þriðjung á þessum tíma, meðan líti! kaupmáttaraukning hefur orðið í mörgum öðrum löndum. Kaupstaðir og kauptún hafa tekið slíkri breytingu, að þessir staðir mega margir hverjir teljast óþekkjanlegir miðað við það, sem áður var. Svo miklar hafa framfarirar orðið þar. Það væri ekki óeðlilegt, að menn veltu því fyrir sér, hvaðan hafa komið þau auðæfi, sem hafa gert mögulegar hinar miklu framfarir og auknu velmegun á íslandi á síðasta áratugn- um. Svarið er augljóst og einfalt. Að langmestu leyti hafa þessi auðæfi komið frá sjávarútveginum. Sigur íslendinga í landhelgisbaráttunni og stórfelld efling fiskiskipastólsins og fiskiðjuveranna hafa lagt grundvöllinn að hinum miklu framförum og bættu lífskjörum á undangengnum árum. Þessum staðreyndum vilja menn gleyma nú, þegar á móti blæs hjá sjávarútveginum, eins og raunar öllum atvinnuvegum hér og annars staðar, en staða sjávarútvegsins er að því leyti lakari í bili, að til sögunnar hefur komið mikill aflabrestur. Nokkrar spurningar Nú rísa upp sjálfskipaðir spekingar á ýmsum götuhornum og hrópa af lífs og sálarkröftum: Það hefur átt sér stað alltof mikil fjárfesting í sjávarútvegin- um, fiskiskipastóllinn er orðinn alltof stór og fiskiðjuverin einnig. Það hefði átt að beina peningunum, sem fóru í sjávarútveginn, eitthvað annað. En hvert þá? Hvaða atvinnuvegur er arðvænlegri á íslandi en sjávarút- vegurinn? Hvaða atvinnuvegur er frekar undirstaða þess, að lífvænlegt er á íslandi? Hvaða atvinnuvegur tryggir frekar tilveru flestra kaupstaða og kauptúna? Enn má spyrja: Ber stóriðjan, sem ýmsir eru að lofsyngja, sig betur en sjávarútvegurinn um þessar mundir? Hvað sýna reikningar álbræðslunnar og járnblendiverksmiðjunnar? Og enn má spyrja: Er það aðeins á sviði sjávarútvegsins, sem fjárfesting hefur ef til vill orðið meiri á vissum sviðum en góðu hófi gegndi? Hvernig er með verzlunarhúsnæði? Hefur það ekki verið byggt úr hófi fram? Hvernig er með vissar iðnaðargreinar, þar sem fyrirtækin geta framleitt margfalt meira en hægt er að selja? Hvernig er það með innflutning bíla og ýmissa vinnuvéla? Hefur þar verið stillt í hóf? Skaðlegur áróður Þessum spurningum mættu menn gjarna velta fyrir sér, en þó einkum spekingamir, sem sjá hvergi of mikla fjárfestingu nema í sjávarútveginum. Vitanlega má halda því fram, að fiskiskipastóllinn sé of stór, þegar miðað er við ríkjandi aðstæður, eftir að loðnuveiðamar brugðust og afla- brestur varð á þorskveiðum. Menn verða hins vegar að hafa í huga, að loðnuveiðar munu hefjast að nýju, þorskveiðar verða aftur með eðlileg- um hætti og sennilega aukast með auknum friðunaraðgerðum og síðast, en ekki sízt, að vannýttir og ónýttir eru stórir fiskstofnar innan 200 mílna markanna og sem aðrar þjóðir munu krefjast að fá að veiða, ef íslendingar gera það ekki sjálfir. Þjóðin má ekki láta þann áróður, sem nú er rekinn gegn sjávarútvegin- um, villa sér sýn. Ef hún ætlar að búa vel í landinu, verður hún að láta stjórnast af þeirri staðreynd, að hann er frá náttúmnnar hendi mikilvægasti og arðvænlegasti atvinnuvegur íslands. Árásirnar á sjávarútvegsráðherra Um langt skeið hefur íslenzkur stjórnmálamaður ekki verið eins rægður og ofsóttur af andstæðingum sínurn og Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra. Allt hefur verið tínt til í þeim tilgangi að reyna að ófrægja hann. Einkum hefur verið reynt að nota það gegn Steingrími, að hann hafi leyft óeðlilega mikla aukningu fiskiskipa- stólsins og komi það að sök nú, þegar loðnuveiðarnar stöðvast og aflabrest- ur verður á þorskveiðum. Annar hefði hins vegar verið tónninn, ef loðnuveiðarnar hefðu aukizt og þorskstofninn verið að styrkjast, eins og menn væntu að yrði árangurinn af útfærslu fiskveiðiland- helginnar og á vafalaust eftir að verða. Staðreyndin er annars sú, að Steingrímur Hermannsson á miklu minni þátt í aukningu skipastólsins en andstæðingar hans vilja vera láta. Þetta byggist á eftirgreindum stað- reyndum: 1. Þegar Steingrímur Hermannsson varð sjávarútvegsráðherra veturinn 1980, var hafin smíði eða veitt lánsloforð til smíða á fiskiskipum, sem námu samanlagt 5200 smálestum, þar af 8 togarar og tvö stór nótaskip. 2. Þegar Steingrímur Hermannsson varð sjávarútvegsráðherra, voru fiski- skip á frílista, þ.e. innflytjendur þurftu engin leyfi frá stjórnvöldum, ef þeir gátu greitt þau af eigin ramleik eða þurftu ekki samþykki fyrir lánum. Tveir togarar, samtals um 1000 smálestir, voru fluttir inn með þessum hætti, nokkru eftir að Steingrímur varð ráðherra. Fiskiskip hafa nú verið tekin af frílista. 3. í stjórnartíð Steingríms Her- mannssonar hefur það verið aðalregla að leyfa ekki innflutning á fiskiskip- um, nema skip hafi verið selt úr landi eða tekið úr notkun. 4. Undantekningar frá áðurgreindri reglu eru örfá skip, sem ráðstafað hefur verið til útgerðarstaða, sem höfðu orðið út undan og afkoma fólks þar byggðist á því, að úr yrði bætt. Undantekningarlaust hefur þetta ver- ið stutt af viðkomandi þingmönnum úr öllum flokkum. Erfiðasta ráðherraembættið Þegar þessara staðreynda er gætt, er ljóst, að Steingrímur Hermannsson hefur reynt að halda aukningu skipa- stólsins í hófi, en ýmis frávik, sem stöfuðu m.a. frá fyrirrennurum hans, hafa gert þetta örðugra en ella. Þrátt fyrir það, hefði skipastóllinn nú verið nokkurn veginn í jafnvægi, ef stöðvun loðnuveiðanna hefði ekki komið til sögu. Vegna þess áfalls, getur reynzt nauðsynlegt að stöðva innflutning og nýbyggingu fiskiskipa um nokkurt skeið, t.d. tvö ár. Aðstaða sjávarútvegsins hefur verið slík síðan Steingrímur Hermannsson varð sjávarútvegsráðherra, að ekkert annað ráðherraembætti hefur verið erfiðara á þessum tíma. Hvað eftir annað hefur stöðvun fiotans verið yfirvofandi. Fyrir ötula forgöngu Steingríms Hermannssonar hefur því verið afstýrt og það átt drýgstan þáttinn í þeirri velmegun, sem verið hefur á íslandi síðustu ár, ef miðað er við flest önnur lönd. Steingrímur Hermannsson á vissu- lega annað skilið en róg fyrir þennan mikilvæga árangur. Thatcher og Reagan Það mætti vel ætla af forustugrein- um stjórnarandstöðublaðanna að hvarvetna ríki nú gott ástand í efnahagsmálum nema á íslandi. ísland sé eiginlega eina landið í heiminum, þar sem glímt sé við efnahagslega erfiðleika. Það er vissulega full ástæða til þess fyrir almenning að líta út fyrir landsteinana og gera sér grein fyrir því, hvort þetta sé svona í raun og veru, að fsland sé eina landið, þar sem erfiðlega sé statt í efnahagsmálum. Hvernig væri t.d. að reyna að fá einhverja nasasjón af efnahagsástand- inu í Bretlandi, en Geirsarmurinn dásamar mjög þá stjórnarstefnu, sem fylgt er þar um þessar mundir. Á Bretlandi er atvinnuleysi að verða svipað og það var verst á kreppuárun- um milli heimsstyrjaldanna. Mörg stóriðjufyrirtæki eru rekin með tapi, eins og t.d. stál- og álverksmiðjur, og geta því aðeins keppt á heimsmarkað- inum, að þau fái margvíslega opinbera fyrirgreiðslu. Fjöldi minni fyrirtækja hefur orðið gjaldþrota að undanförnu. Lífskjör láglaunafólks og millistétta hafa farið versnandi. En hefur þá ekki Ronald Reagan tekizt betur í Bandaríkjunum og er stjórn hans ekki góður vitnisburður um ágæti þeirrar stefnu, sem Geirs- armur Sjálfstæðisflokksins boðar? Því miður er sagan svipuð þar og í Bretlandi. Atvinnuleysi fer sívaxandi, lífskjör láglaunafólks og millistétta versnandi. Hrun vofir yfir stóriðjufyr- irtækjum, eins og stálverksmiðjum og bifreiðaverksmiðjum, og Reagan sér þar helzt til bjargar að leggja á innflutningstolla og aðflutningshöft. Minni fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota þúsundum saman. Stórkostlegur og vaxandi halli er á fjárlögum og nýlega samþykkti þingið mestu skattahækk- unarlög, sem sögur fara af, þótt það væri aðalkosningaloforð Reagans að lækka skattana. Kjör bænda verða því aðeins viðunandi, að hægt sé að selja mikið af korni til Sovétríkjanna. Þannig væri hægt að fara land úr landi, þar sem skoðanabræður Geirs- armsins stjórna. Þar er hvarvetna sama sagan. Vaxandi atvinnuleysi, versnandi lífskjör láglaunafólks og millistétta, taprekstur margra stóriðn- fyrirtækja og gjaldþrot þúsunda minni fyrirtækja. Hjá sósíaldemókrötum Svipað er einnig ástandið í þeim löndum, þar sem sósíaldemókratar og sósíalistar stjórna, t.d. Danmörku. Þar er eitthvert mesta atvinnuleysi í heiminum og fer sívaxandi. Hjá þeim leiðtoga sósíaldemókrata, sem þykir hafa reynzt einna bezt, Helmut Schmidt, sígur nú á ógæfuhlið í efnahagsmálum, enda fer fylgi hans og flokks hans hratt minnkandi. Og ekki hefur Mitterrand enn tekizt að ráða við efnahagserfiðleikana í Frakk- landi. Þeir hafa frekar aukizt en minnkað í stjórnartíð hans. Staðreyndin er sú, að það ríkir í heiminum efnahagskreppa, sem hefur hvarvetna hinar verstu afleiðingar, en íslendingar hafa sloppið betur en flestir hingað til. Það eiga þeir að verulegu leyti núverandi ríkisstjórn að þakka. Góðir möguleikar Þótt íslendingar glími nú við mikinn efnahagsvanda, eins og nær allar þjóðir, mega menn ekki fyllast svartsýni. Efnahagskreppunni erlend- is mun linna og íslendingar ættu þá að geta treyst á hagstæðara verð á útflutningsvörum og rýmri markaði. Loðnan og þorskurinn hafa ekki yfirgefið íslandsmið, þótt dregið hafi úr göngum þeirra um stund. Það er því full ástæða til þess að rifja hér upp þau ummæli, sem Steingrímur Hermannsson lét falla í lok viðtals við Tímann 6. júní síðastliðinn: „En þótt allt, sem ég hefi sagt, kunni fyrst og fremst að einkennast af svartsýni, efast ég þó ekki um mikla möguleika íslenzku þjóðarinnar til enn aukinnar hagsældar og betra mannlífs. Ört batnandi afkoma undan- farinna ára hefur blindað okkur. Við höfum ekki náð að fóta okkur á toppnum, en það hlýtur að takast." Möguleikar þjóðarinnar til aukinn- ar hagsældar og betra mannlífs felast ekki aðeins í fiskimiðunum, vatnsafl- inu og gróðurmoldinni. Þeir búa öðru fremur í framtaki og hæfni þjóðarinn- ar sjálfrar. Ef íslendingum tekst að fóta sig nú og snúast af manndómi gegn aðstcðj- andi erfiðleikum, er vissulega ekki ástæða til að kvíða framtíðinni. Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri, skrifar

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.