Tíminn - 08.12.1982, Blaðsíða 9

Tíminn - 08.12.1982, Blaðsíða 9
MIÐVIKUDAGUR 8. DESEMBER 1982 9 menningarmál Okkar maður á kvennafari — „Vinur vors og blóma” eftir Anton Helga Jónsson Anton Helgi Jónsson: Vinur vors og blóma Iðunn 1982 ■ Þetta er fysta skáldsaga Antons Helga Jónssonar, en hann hefur áður gefið út tvær ljóðabækur og hlutu býsna góða dóma. Þetta er að verða lögmál meðal ungu skáldanna; að þau kveði sér hljóðs með ljóðum en leggi síðan fyrir sig prósa. Skýringin finnst mér ekki liggja í augum uppi, svo ólík sem þessi form eru; Anton Helgi sagði í nýlegu viðtali að hann hefði hér áður fyrr bara ekki haft tíma til að skrifa samfelldan texta og því ort ljóð. En sem sé; hér er hann kominn með skáldsögu og efni hennar er að sönnu ekki ýkja frumlegt. Það er maður sem heitir Magnús sem býr með konu sem heitir Katrín; hann vinnur við höfnina eftir að hafa verið á sjónum, hún á barn með ókunnum aðila og bróður sem er byltingarsinni. Svo vill þannig til að Magnús fellur í freistni, þar sem er eiginkona auðugs frænda hans; Þau fara að halda framhjá hvort sínum maka og afleiðingin verður sú að Katrín hendir Magnúsi út; skömmu síðar er eiginkona frændans á bak og burt og allt er í volli hjá okkar manni, eins og Magnús er gjarnan kallaður í sögunni. Alla bókina út í gegn er Magnús að vesinast fram og aftur án þess að geta gert upp við sig hvað hann vill; hann er tvístígandi og ögn ráðvilltur, og ekki öruggur með sig gagnvart konum - slíkir menn hafa vaðið uppi í bókum ungra rithöfunda frá ómunatíð en ekki síst nú hin síðari ár. Eini munurinn á Magnúsi og nokkrum öðrum nýlegum kollegum hans er í rauninni sá að Magnús er ekki stúdent, eins og til mynda Guðjón Einars Kárasonar. Uppivöðslusamur sögumaður Þetta er þá sagan, í stuttu máli. Hún er hvorki nýstárleg né óvenjuleg í eðli sínu; aftur á móti munu ýmsir vafalaust telja efnistök Antons Helga til tíðinda. Hann er ekkert að fara í felur með sinn hlut í sögunni,eða réttara sagt: með hlut sögumannsins sem er líka ungur rithöfundur og heitir að minnsta kosti Anton, ef ekki Helgi Jónsson. Það er látið uppi að þessi Anton hafi eitt sinn kynnst Magnúsi er þeir unnu saman; Þá hafi nefndur Toni ákveðið að skrifa söguna niður og hefur hér með gert það. Og hann er uppivöðslusamur sögumað- ur; er óspar á eigin hugleiðingar dóma um sögupersónurnar, neðanmálsgreinar með ýmsum bollaleggingum og athuga- semdum og svo framvegis. Toni þessi bregður meira að segja einu sinni spjaldi á loft þegar okkar maður hefur samfarir við Katrínu til að styggja nú ekki siðgæðisvitund lesenda; Meðal annarra innskota sögumanns er glúrin neðan- málsgrein sem leitast við að útskýra fyrirbærið „vigdísar viðmót “; sjá blaðsíðu 33 í bókinni... Og hver er þá tilgangur Antons Helga Jónssonar með þessum áberandi þætti nafna síns í sögunni? Ég hneigist að vísu til að álíta að sagan hafi upphaflega verið öllu hefðbundnari að gerð, en Antoni Helga síðan blöskrað sósíal-realisminn og því blandað sögumanninn í leikinn, en þó er augljóst að Anton sögumaður gegnir mikilsverðu hlutverki í bókinni. Það er nefnilega misskilningur sem meðal annars kom fram hjá einum ritdómara fyrir stuttu að tengsl Tona og Magnúsar séu ekki önnur en þau að Toni sé að skrifa sögu Magnúsar. Anton þessi er þvert á móti í býsna nánum tengslum við okkar mann; hann er faðir barns Katrínar. Það er, skal tekið fram, hvergi sagt berum orðum í bókinni en svo sterklega gefið í skyn á nokkrum stöðum að ekki verður um villst. Og þegar þetta er haft í huga breytir bókin að sjálfsögðu um svip. Þá skýrist af hverju Toni hefur yfirleitt áhuga á þessari næsta venjulegu sögu, og sömuleiðis hvers vegna sögu- hetjan Magnús er ekki sýnd í neitt sérlega glæsilegu ljósi. Ef lesandi hefur áttað sig á þessu atriði má líka hafa gaman af ýmsum athugasemdum sem falla í garð sögumannsins Tona en hann lætur sem ekki komi sér við. Þungamiðja sögunnar tengsl sögumanns og persóna Þannig séð gerist sagan á tveimur sviðum, ef svo má að orði komast; annars vegar er hin sósíal-realíska saga Magnúsar, og hins vegar sjálf frásögn sögumannsins sem er, þegar að er gáð, hreint ekki hlutlaus og kippir því í rauninni öllum stoðum undan blessuðum sósíal-realismanum. Þetta er vitanlega þungamiðja sögunnar, en ekki kvenna- fars- og ólánssaga Magnúsar. Samt er það einmitt sú saga, um „ástir og örlög“ eins og segir í undirtitli bókarinnar, sem vinur vors og blóma stendur og fellur með.Sósíal-realisminn lætur ekki að sér hæða. Takist Antoni og Antoni ekki að skapa trúverðugar persónur og áhuga- verða atburðarás eru sniðug ,fiff um tengsl sögumanns og persóna til lítils. ■ Anton Helgi Jónsson Ég er svo þeirrar skoðunar að þeim félögum hafi tekist einmitt það; þegar á heildina er litið. Aðalpersónur eru flestar haganlega gerðar (með áður- nefndum fyrirvara um að þeim er ekki „hlutlaus" lýst) og á það einkum við um stúlkuna Katrínu og sjálfan okkar mann. Magnúsar er sem fyrr segir hálfgert rekald og því tekst Antoni/Antoni vel að koma til skila; ég er þó hrifnari af lýsingu þeirra félaga á hinni eilítið kaldlyndu Katrínu sem ekki ætlar að brenna sig framar. Aukapersónur ýmsar eru flestar mikli síðri, og greinilega ekki lögð dins mikil rækt við þær. Þannig er hin eldri ástkona Magnúsar ansi loftkennd persóna, og maður hennar, frændi og nafni okkar manns, ekki annað en endurómur af óteljandi skáld- lega sinnuðum afhafnamönnum í ís- lenskum bókmenntum. Bróðir Katrín- ar, Vilhjálmur, á sér sömuleiðis mörg fordæmi á bókum, en er ekki ólaglegur í sjálfu sér. Kosningar vega þyngra En atburðarásin? Það er eins og ég hef drepið áj einkum vesin Magnúsar í kvennamálum sem sagan fjallar um, og ég mátti hafa mig allan við að hafa áhuga á því efni er leið á bókina. Frásögnin er að mínum dómi bæði hnitmiðaðri og sannferðugri í fyrri hluta bókarinnar en hinum síðari, og þar losnar aukinheldur um stílinn - sem er að vísu nokkuð frjálslegur bókina út í gegn. Anton Helgi gerir til dæmis töluvert af því að rita eftir framburði, einkum barnamál. Hann reynir líka að stíla frásögnina eftir hugarástandi okkar manns, sérstak- lega á síðustu blaðsíðum bókarinnar þegar Magnús ráfar viti sínu fjær um götumar í Reykjavík. Margt heppnast vel, annað síður, en þegar á heildina er litið vega kostirnir þyngra en gallarnir. Vinur vors og blóma er að mörgu leyti athyglisverð frumsmíðogtilraun höfund- ar með sögumanninn góðra gjalda verð. Með svolítið agaðri vinnubrögðum hefði sagan þó getað orðið betri og ég ætla að lesa næstu bók eftir Anton Helga. Illugi Jökulsson Illugi Jökulsson skrifar um bækur. Valið úr vinsælum bréfum Mánasilfur Safn endurminninga IV. Gils Guðmundsson valdi efnið og sá um útgáfuna. Iðunn. ■ Hér em birt minningabrot 32 manna og mun óhætt að segja að þetta fjórða bindi er ekki miklu síðra þeim sem á undan eru. Höfundum er raðað í stafrófsröð og því er Björg Magnúsdótt- ir ljósmóðir fremst en Örlygur Sigurðs- son listmálari síðastur. Þetta eitt ætti að nægja til að minna á hve breidd þessara frásagna er mikil og hve víðtæk lífs- reynsla býr þeim að baki. Hér koma skólamenn fram, Sigfús Blöndal í menntaskólanum í Reykjavík, Sigurður á Arnarvatni í gagnfræðaskól- anum á Möðmvöllum og Finnur Jónsson á háskólaárunum í Kaupmannahöfn þegar deilurnar voru um Schierbech landlækni og Raskhneykslið átti sér stað. Halldór Laxness og Davíð Stefáns- son minnast æskuára í föðurgarði: Gísli Konráðsson og Símon Eiríksson fara til sjóróðra suðuráland. Sigurðurlngjalds- son og Matthías Þórðarson rifja upp skútulífið. Séra Jón Þumlingur lýsir kvölum sínum vegna galdraofsókna, sr. Jón Auðuns ræðir um huggun eilífðar- trúarinnar og sr. Friðrik Friðriksson segir af því er hann ætlaði að steypa sér í hafið af því honum þótti of seinvirkt fyrir ungan mann og hraustan að drekka sig í hel í brennivíni. Þessi upprifjun er gerð til að benda á hversu víða við er komið og hvílík fjölbreytni er innan spjalda þessarar bókar. Hvort sem menn vilja leggja sig eftir þekkingu á íslensku þjóðlífi fyrr og síðar eða blátt áfram glæða skilning sinn á mannlegu eðli er góðan feng að sækja í svona safnrrit. Vinsældir minningabóka er alkunna og því er ekki að undra þó að mörgum falli vel í geð þegar valdir eru kaflar úr slíkum verkum. Og gott er til að vita að þær raddir sem heyrðust fyrir nokkmm árum og töluðu af lítilsvirðingu um þá bókmenntagrein eru nú þagnaðar. Þar með er ekki sagt að allt sé gott í greininni. En þegar úr er valið af viti og smekkvísi kemur fram góð bók. Og svo er hér. H. Kr. ■ Gils Guðmundsson Norðlenzkt sveitarskáld Guðmundur Guðmundsson frá Nýjabæ í Kelduhverfi Kvæði og stökur Reykjavík 1982 Útgefandi: Dætur skáldsins. ■ Höfundurinn fæddist 1879 og dó 1933. Nú kemur hér í bókarformi sýnishorn af kveðskap hans. Því er fylgt úr hlaði með minningarorðum um höfundinn sem inngangi að bókinni. Þau ritar Sigurður Gunnarsson frá Skógum. Guðmundur í Nýjabæ hefur kunnað að yrkja og með sóma skipað rúm í hópi alþýðuskálda sinnar kynslóðar. Hann hefur fyrst og fremst ort til að auka á hátíðleika ýmsra merkisstunda í sveit sinni. Tækifæriskvæðin eru því fyrirferð- armest í þessu kveri hans. Það hefur lengi verið lenzka að gera lítið úr tækifæris skáldskap og má það þá merkilegt kallast með þjóð sem á mörg frægustu og ástsælustu Ijóð sín úr þeim hópi, meira að segja sjálfan þjóðsönginn. Auðvitað eru tækifærin, minningastundirnar tækifæri til að nota skáldgáfuna og orðsins list, svo sem hver og einn maður til. Hitt er svo jafn eðlileg afleiðing þessara mála, að kvæði bóndans í Nýjabæ snerta þá sem tengdir eru Kelduhverfi og Norður Þingeyjar- sýslu öðruvísi en þá sem fjarlægari eru. Eins er á það að líta að nálega hálf öld er horfin síðan skáldið féll frá. ■ Norma E. Samúelsdóttir Hinu má treysta, að sitthvað er vel sagt í þessu kveri svo að ljóðelskir menn sem þola aldamótaskáldskap á annað borð, mega vel njóta. Svo mun um þessa stöku: Hylur blika haf og strönd hríð sem hvikar geiminn sé ég blika betri iönd bak við svikaheiminn. Hér skal líka birt erindi úr Vorþrá: Leiddu að eyrum hörpuhljóminn, hundrað radda ástamál. Ljúfa fugla unaðsóminn aldrei láttu verða tál Leystu, ó leystu dauðadóminn sem dæmdi vetur minni sál. Þetta skilja þeir, sem beðið hafa batans í vorharðindum. H.Kr. Kvæði og stökur Guðmundar frá Nýjabæ fást í bókabúðum í Reykjavík og Akureyrí, bókabúð Þórarins Stefáns- sonar á Húsavík og bókabúðinni á Kópaskeri. Móðir við glugga Norma E. Samúelsdóttir. Tréð fyrír utan gluggann minn. Mál og menning. Rcykjavík 1982. ■ Erlendur Jónsson ■ Móðirin, húsmóðirin horfir út um glugga íbúðar sinnar í borginni og virðir fyrir sér prýði borgarinnar, gróður trjágarðanna, meðan hugurinn er bund- inn heimili og fjölskyldu og störfunum vegna þeirra. Þannig er þetta ljóðakver til orðið. Og þannig hygg ég að höfundur nái a.m.k. stundum athygli lesandans með óvissu sína, kvíða og spurn. „Er hægt að höndla himininn. Sit ég ailtaf hjá þér tré? Eg horfi út um gluggann og leita svars. Litir sumarkvöldsins dofna Lauf trjánna verða svört.“ Ég finn ég er bara lítill hlekkur sem þarf haldgóða keðju. Ástin skilaði hlýju, sorgin skilaði tárum, kvíðinn bærir enn á sér. „I hamingju minni við að hafa ykkur böm finn ég þó til kvíða, þessar dýrmætu stundir sem maður fyrirfram saknar.“ Þannig hugsar hún og þannig finnur hún til, húsmóðirin við glugga sinn í borginni okkar á þessari stundu. H. Kr. Trúverðug skýrsla Erlendur Jónsson Heitu árin. Almenna bókafélagið. ■ í þessu kveri endursegir Erlendur æskuminningar sínar frá stríðsárunum. Fyrsti kaflinn heitir blátt áfram: Stríðs- minningar. Þar segir m.a. „Stríð er leikur með nýjum hlutverk- um. Kontóristinn segir upp og fer í Bretavinnu. Barnakennarinn verður túlkur - mikilvæg persóna! Þorpsskáldið yrkir um „ástandið" og kemst í blöðin. Konan bakarans opnar veitingastofu og selur fish and ships. Gamli presturinn - stúdent fyrir fimmtíu árum úr latínuskól- anum - lætur tilleiðast að taka ungmeyj- ar í enskutíma. Piparmeyjar fá sér falskar tennur og trúlofast. “ Ég vona að lesendur njóti þessa þó að ekki sé skipt í línur eins og skáldið gerir. Annar þriðjungur bókarinnar nefnist Sjónleikur í þorpi. Þar stendur bakari þorpsins sem prúðbúinn greifi á sviðinu þegar tjaldið er dregið frá og annað eftir því. Þorpsbúar hlakka til að sjá hvernig greifi elskar. Blandað er saman viðhorf- um fólksins um leik kunningjanna á sviðinu og einkalíf þeirra hversdagslega. í síðasta þætti bókarinnar ber mest á endurminningum úr vegavinnu þar sem „Þegar vinnu lýkur er stokkið upp á bílpall og haldið heim. Lækkandi sól fyilir malargryfjuna að baki rauðum bjarma. A árbakkanum: hvít tjöld, sveipuð blárri móðu kvöldsins.“ Hér er rétt skipt í línur svo að engu sé spillt. Þeim sem eru nógu gamlir til að muna stríðsárin kemur margt kunnuglega fyrir en ekki mun þetta teljast veigamikill skáldskapur. Miklu fremur er það sæmi- lega trúverðug skýrsla. H. Kr. Halldór Kríst- jánsson skrifar um bækur.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.