Tíminn - 09.01.1983, Síða 9
SUNNUDAGUR 9. JANÚAR 1983
9
menn og málefni
Hversu areiðanlegar eru
efnahagsspár sérfræðinga?
■ Hætt er við að þeir mörgu, sem
telja hagfræðina fremur vafasöm vís-
indi, hafi enn frekar sannfærst í þeirri
skoðun sinni á nýliðnu ári.
Margoft hefur verið bent á þá breiðu
og djúpu gjá, sem svo oft hefur
myndast á milli þess, sem hagvísinda-
menn spá um líklega framþróun efna-
hagsmálanna, og hins, sem í raun og
veru gerist. Þetta er vel þekkt fyrir-
brigði jafnt hér á landi sem í löndunum
í kringum okkur, þar á meðal í
Bandaríkjunum, þar sem hagspeking-
ar eru nær óteljandi og mikið á þá
hlustað.
Það er gömul tugga, að erfitt sé að
spá og þá alveg sérstakleg um framtíð-
ina. Þetta á þó oft við, og alveg
sérstaklega þegar hagfræðingar reyna
að geta sér til um líklega þróun
íslenskra efnahagsmála. Það höfum
við heldur betur fengið að reyna
síðasta árið eða svo.
Þegar flett er í ritum Þjóðhagsstofn-
unar - sem er aðalráðgjafi og upplýs-
ingaaðili ríkisstjórnar og Alþingis um
efnahagsmál - kemur þetta berlega
í ljós.
Tökum nokkur dæmi.
Spá í október 1981
í Þjóðhagsáætlun fyrir árið 1982,
sem lögð var fram á Alþingi 22.
október 1981, var fjallað ítarlega um
horfur í efnahagsmálum á árinu 1982.
Þar var m.a. gert ráð fyrir eftirfar-
andi:
Að þjóðarútgjöld, án birgðabreyt-
inga, yrðu um 0.5% minni en þau voru
á árinu 1981.
Að útflutningsframleiðslan gæti vax-
ið um nálægt 4% á árinu 1982, en þar
sem gera yrði ráð fyrir nokkurri
birgðasöfnun væri ólíklegt að útflutn-
ingur ykist um meira en rúmlega 3%
- eða svipað og varð árið 1981.
Að vöruskiptajöfnuðurinn, reiknað-
ur á verðlagi ársins 1981, yrði nokkuð
hagstæðari á árinu 1982 en árinu á
undan. Afgangur á vöruskiptajöfnuði
yrði líklega svipaður á árinu sem
hlutfall af þjóðarframleiðslu og varð á
árinu 1981, eða um 2.5% af þjóðar-
framleiðslu. Þessi afgangur yrði svip-
aður og hallinn á þjónustuviðskiptun-
um, þannig að utanríkisviðskiptin
yrðu í heild í jafnvægi á árinu 1982.
Að þjóðarframleiðslan myndi vaxa
um 1% eða svo á árinu 1982, og að
þótt aukning þjóðartekna yrði nokkru
minni vegna versnandi viðskiptakjara,
þá yrði þó . um að ræða aukningu
þjóðartekna sem næmi 0.5%.
í Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun
fyrir árið 1982, sem lögð var fram um
sama leyti - í október 1981 - var
reiknað með að verðbólgan milli
áranna 1981 og 1982 yrði um 33%.
Með þessa spá í veganesti héldu
landsmenn inn í nýja árið - 1982.
Spá í mars 1982
Fimm mánuðum síðar - eða í
marsmánuði árið 1982 - birtist ritið
„Úr þjóðarbúskapnum", en það rit
hefur Þjóðhagsstofnun gefið út reglu-
lega allt frá árinu 1974. Þetta rit var
hið þrettánda (!) í röðinni og fól í sér
úttekt Þjóðhagsstofnunar á framvind-
unni árið 1981 og horfum í íslenskum
efnahagsmálum á árinu 1982, sem þá
var komið þrjá mánuði á leið, ef svo
má að orði komast.
í þeirri spá fyrir árið 1982, sem
Þjóðhagsstofnun lagði fram í þessu
riti, var farið að draga nokkuð úr þeirri
bjartsýni, sem ríkt hafði í október
1981, en þó var spáð allsæmilegri
þróun á árinu 1982. Lítum á hvað
marsspáin hafði að segja um sömu
þætti efnahagsmálanna og vitnað var
til hér að framan úr októberspánni.
í marsspánni var því spáð að
þjóðarútgjöld yrðu nokkru minni en í
októberspánni; myndu minnka um
rösklega 1% á árinu.
Gert var ráð fyrir, að útflutnings-
verðmæti myndi aukast að raungildi
um rösklega 2% frá árinu 1981, en að
vöruinnflutningur héldist óbreyttur,
sem hefði í för með sér, að vöruskipta-
jöfnuður á .föstu verðlagi ársins 1981
myndi batna nokkuð á árinu 1982, en
yrðu þó óhagstæður um 0.5% af
þjóðarframleiðslu (var óhagstæður um
1% árið 1981). Þjónustujöfnuðurinn
yrði óhagstæður um tæplega 4% af
þjóðarframleiðslu, og þar með yrði
viðskiptajöfnuðurinn óhagstæður um
4.4% af þjóðarframleiðslu - sem væri
minni halli en 1981, en það ár var
viðskiptahalli um 5%.
Marsspáin gerði ráð fyrir því að
þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur
myndu dragast saman um 1% á árinu
1982 - í staðinn fyrir að 1% vexti var
spáð í október 1981.
Reiknað var með 42% verðbólgu á
milli áranna 1981 og 1982.
Eins og af þessu sést töldu sérfræð-
ingar, að í mars 1982 hefði útlitið fyrir
árið í heild nokkuð dökknað, en þó
ekki breyst í grundvallaratriðum-eins
og reyndin varð þó.
Spáíjúní 1982
Svo liðu þrír mánuðir og þá - í júní
1982 - birti Þjóðhagsstofnun nýja
skýrslu. „Framvinda efnahagsmála
1982“ heitir hún, og þar eru fyrri spár
stofnunarinnar um þróunina á árinu
teknar til endurskoðunar. Þá fyrst - á
miðju árinu - koma, að hluta til að
minnsta kosti, í ljós í hvaða vandræði
stefndi í framleiðslu- og markaðsmál-
um landsmanna.
í júníspánni var gert ráð fyrir, að
þjóðarútgjöldin, án birgðabreytinga,
yrðu aðeins lítið eitt minni en árið
1981. (í okt. var spáð 0.5% samdrætti,
í mars rösklega 1%)
Nú var hins vegar komið betur í ljós
hvert stefndi í utanríkisviðskiptunum,
og því spáð að vöruútflutningur myndi
dragast allnokkuð saman, en vöruinn-
flutningur vera óbreyttur, sem þýddi
að hallinn í vöruskiptum við útlönd
yrði meiri en árið 1981. Því var einnig
spáð að halli í þjónustuviðskiptum
yrði líklega ekki minni en árið á
undan, og því væru horfur á að
viðskiptaballinn á árinu yrði talsvert
meiri en árið 1981, ef til vill 8-9% af
þjóðarframleiðslu. Þetta var um tvö-
falt meiri halli en spáð var í mars 1982.
Reiknað var með því í júníspánni
að verðbólgan á milli áranna yrði um
45%.
Spá í september 1982
En sérfræðingarnir voru ekki skildir
að skiptum við árið 1982. í september
síðastliðnum birtist enn á ný vfirlit
Þjóðhagsstofnunar um framvindu
efnahagsmála fyrir árið 1982. Þá var
auðvitað mestur hluti ársins liðinn og
orðin veruleg breyting á spám Þjóð-
hagsstofnunar um efnahagslega út-
komu ársins, í samræmi.við þann
veruleika sem við blasti að fyrstu átta
mánuðum ársins liðnum.
Septemberspáin var af þessum
sökum sú raunhæfasta. Þar var gert
ráð fyrir að þjóðarútgjöldin, án
birgðabreytinga, yrðu lítið eitt meiri
en á árinu 1981 (áður alltaf spáð
samdrætti).
í utanríkisviðskiptum var því nú
spáð að vöruútflutningur myndi drag-
ast saman um 12.5% að magni, en
vöruinnflutningur um nær 2%, sem
myndi þýða að vöruskiptahallinn yrði
rúmlega 5% af vergri þjóðarfram-
leiðslu. Jafnframt var gert ráð fyrir
svipuðum halla í þjónustujöfnuði, sem
samanlagt þýddi að viðskiptahallinn
yrði um 10.5% af þjóðarframleiðslu.
í þessari spá var jafnframt reiknað
með því að þjóðarframleiðslan drægist
saman um 3.5% á árinu 1982, en
þjóðartekjur um 4%.
Reiknað var með að verðbólgan
milli ára yrði um 50%.
Þróun þessa ellefu mánuði
Ef reynt er að draga saman það, sem
hér hefur verið rakið, er það í stuttu
máli sem hér segir:
Á þessu ellefu mánaða tímabili - frá
október 1981 til septembers 1982 gera
sérfræðingarnir fjórum sinnum spá um
útkomu efnahagsmála á árinu 1982.
Ljóst er að fyrstu spárnar, ekki bara
októberspáin 1981 heldur líka spáin í
mars 1982 og að hluta til júní-spáin
1982, er í hrópandi ósamræmi við
það,sem raunverulega gerðist, þótt
auðvitað yrðu spárnar líkari raunveru -
leikanum eftir því sem á árið leið -
enda óhjákvæmilegt.
Spáin um þjóðarframleiðslu ársins
1982 breyttist þannig úr 1% aukningu
í 3.5% samdrátt.
Spáin um þjóðartekjur breyttist úr
0.5% aukningu í 4% samdrátt.
Og spáin um viðskiptahallann
breyttist frá því, að spáð var upphaf-
lega að utanríkisviðskiptin yrðu í heild
í jafnvægi, en í september 10.5%
viðskiptahalla.
Spáin um þjóðarútgjöldin breyttist
sennilega minnst - eða frá því að vera
1% minni en árið 1981 í að vera lítið
eitt meiri en það ár.
Það er óneitanlega athyglisvert að
skoða þessa þróun á spám sérfræðing-
anna. Ekki endilega vegna þess að
þörf sé á að sakfella einn eða neinn,
-heldur fyrst og fremst til þess að gera
sér Ijósari grein fyrir því en áður, hvað
í raun og veru er að marka spár af
þessu tagi. Hversu óskynsamlcgt það
er í raun og veru að taka spár
hagfræðinga um framtíðina mjög al-
varlega.
Auðvitað er það svo að spár þessar
eru settar fram af sérfræðingum með
margvíslegum fyrirvörum. En þeir
vilja oft gleymast og tölurnar sem þeir
setja fram verða eðlilega aðalatriðið.
Þar er í raun og veru verið að treysta
því að mat sérfræðinganna á forsend-
um og líkum - en þar verða þeir
auðvitað að velja og hafna þegar margt
kemur til greina- sé rétt. Ef þetta mat,
og þar með val, er rangt, þá vcrða
útreikningarnir, spárnar, það líka. Og
það er auðvitað skýringin; mat og val
forsenda var rangt.
Vinnugögn
stjórnmálamannanna
Spár sérfræðinga um líklega þróun
efnahagsmála eru vinnugögn stjórn-
málamannanna, sem þurfa að taka
ákvarðanir um efnahagsaðgerðir. Á
útreikningum þeirra og spám eru
einnig frásagnir fjölmiðla um horfur í
efnahagsmálum yfirleitt byggðar.
Stundum virðist almenningur, fjöl-
miðlar og stjórnmálamenn, ekki taka
þessum spám með þeim fyrirvörum,
sem nauðsynlegt er. Slíkar spár hafa
óhjákvæmilega mótandi áhrif á al-
menningsálitið á hverjum tíma. Þá
hljóta þær að hafa leiðandi áhrif á
stjórnmálamennina, sem taka þurfa
ákvarðanir á grundvelli þeirra upplýs-
inga, sem fyrir þá eru lagðar af
sérfræðingunum.
Þaö ætti eiginlega að liggja í augum
uppi, að aðgerðir í efnahagsmálum
geta ekki verið miklu traustari en þær
upplýsingar um efnahagslífið, sem,
aðgerðirnar cru byggðará. Eðaerekki
forsenda fyrir raunhæfum aðgerðum á
hverjum tíma sú, að liægt sé að gera
sér nokkuð raunhæía grein fyrir því,
hvernig málin standa, og geta sér þess
til mcð raunverulegum líkum, hver
þróunin verði með eða án aðgerða? Sé
sú forsenda ckki í lagi hljóta aðgerðir
á henni byggðar að missa marks að
verulegu leyti.
Þegar litið er í þessar fjórar spár -
og þróun mála á nýliðnu ári er skoðuð
með hliðsjón af þeim - þá hljóta
margir að efast stórlega um áreiðan-
lcika þeirra spádóma, scm sérfræðing-
ar setja fram um líklega þróun efna-
hagsmála. Er ckki hægt að bæta þarna
eitthvað úr með breyttum vinnubrögð-
um? Ef ekki, þá verður að taka spám
um framvindu efnahagsmála með mun
meiri fyrirvörum og efasemdum í
framtíðinni en hingað til. Allt annað
væri að blekkja sjálfan sig.
í opna skjöldu
Reynslan á nýliðnu ári hlýtur jafn-
framt að vckja spurningar um, hvort
líta verði á spár sérfræðinga um horfur
í efnahagsmálum á þessu ári sem
bjartsýnisspár. Það sem hér hefur
verið rakið um árið 1982 bendir
óneitanlega til þess, að ætla megi að
veruleikinn verði frekar óhagstæðari
cn sérfræðingarnir spá heldur en hitt.
Nú eru þær horfur, sem rætt hefur
veriö um að undanförnu, síður en svo
glæsilegar. Það þykir því ef til vill ekki
sérlega uppörvandi að gera ráð fyrir
þeim möguleika, að veruieikinn kunni
að veröa enn svartari. En kannski er
það, því miður, raunhæfast.
í yfirlýsingu, sem bankastjórn og
bankaráð Seðlabankans sendi frá sér á
þriðjudaginn í tilefni af lækkun á gengi
íslensku krónunnar í kjölfar fiskverðs-
hækkunarinnar, var boðuð greinar-
gerð um stöðuna í íslenskum efnahags-
málum um þessar mundir og horfurnar
á næstunni. Þessi skýrsla birtist vænt-
anlega mjög fljótlega. Forvitnilegt
verður að sjá hverju þar verður spáð
um framvinduna á þessu ári, en rétt að
minnast þess við lestur þeirrar skýrslu,
eins og annarra plagga af svipuðu tagi,
að eitt er spá sérfræðinga og annað
veruleikinn sjálfur. Því miður er oft á
tíðum, og að því er virðist í sívaxandi
mæli, mikið bil þar á milli. Það mætti
kannski helst líkja þessum spárn hag-
fræðinganna við veðurspár, en þær eru
m.a. alræmdar fyrir að vara alltof
sjaldan við óveðrum fyrr en þau eru
skollin á - samanber hressilegan bylinn
á þriðjudagsmorguninn var. Efna-
hagsáföllin árið 1982 dundu á lands-
mönnum meira og minna framhjá
öllum spám sérfræðinganna eins og
bylurinn sniðgekk veðurfræðingana.
Vonandi er hægt með raunsærri
spám að komast hjá því, að illviðrin í
efnahagslífi okkar á þessu nýbyrjaða
ári komi okkur að óvörum og í opna
skjöldu.
- ESJ
Elías Snæland Jónsson, Q
ritstjóri w.