Tíminn - 09.10.1983, Page 9
SUNNUDAGUR 9. OKTÓBER 1983
Wimmu
9
menn og málefni
„Gæfuna er hvergi að finna
nema í vinnu og baráttu”
Meginvinnan
bíður ykkar
■ í sumar voru liðin 45 ár frá stofnun
Sambands ungra Framsóknarmanna
og mun þess minnzt á fundi stjómar
SUF nú um helgina. Stofnþingið var
haldið á Laugarvatni og stóð í fjóra
daga.
Fyrir þá, sem þarna mættu, er
ánægjuleg endurminning að fletta tíð-
indum frá stofnþinginu, en þar er m.a.
að finna ávarp frá Jónasi Jónssyni, sem
þá var formaður flokksins, og ræður,
sem þáverandi ráðherrar flokksins,
Hermann Jónasson, Eysteinn Jónsson
og Skúli Guðmundsson, fluttu á fund-
inum.
Þótt mikil fjárhagskreppa ríkti í
landinu á þessum tíma, ríkti mikil
bjartsýni og sóknarhugur í ávörpum
og ræðum forustumannanna, en þó
ekki minni hjá stofnendunum.
í ávarpi Jónasar Jónssonar, sem var
staddur erlendis, sagði m.a. á þessa
leið:
„En þó að ykkur finnist allmikið
hafa verið unnið á Laugarvatni, þá er
það aðeins byrjun á miklu meira verki
sem þar mun verða unnið á komandi
árum.
Sú kynslóJ, sem vaknaði til mikils
starfs á morgni yfirstandandi aldar,
hefir sýnt í verki skilning á því hve
ísland er gott land, fagurt og auðugt að
náttúrugæðum. Á Laugarvatni hefir
verið gert átak einnar kynslóðar, mikil
vinna í sjálfu sér, en þó aðeins örlítil
byrjun á því að fullnota hin miklu
náttúrugæði fyrir landsins börn.
Hlutverk ykkar, ungu Framsóknar-
menn, er að taka fundarstað ykkar
Laugarvatn á táknrænan hátt. Þar
leggur landið fram mikil náttúrugæði.
Þar hefir núverandi kynslóð lagt
grundvöll að þjóðnýtu starfi. En meg-
invinnan er eftir. Og hún bíður ykkar.“
Landnemar skapa
sér sjálfir störf
Eysteinn Jónsson talaði fyrstur ráð-
herranna. Hann sagði m.a.:
„Við búum í lítt numdu landi.
Alstaðar blasa verkefnin við. Landið
verður hinsvegar aldrei unnið til fulls,
ef æskulýðurinn aðhyllist einhliða
kenningar kröfumannanna.
Verulegt landnám og nýsköpun get-
ur ekki átt sér stað nema æska landsins
sé þess reiðubúin að leggja að sér
nokkurt erfiði og skapa sér þannig
starf þeirrar tegundar, sem þjóðar-
heildin þarfnast mest. ísland hefði
aldrei byggst ef landnámsmennirnir
hefðu ekki sjálfir skapað sér starf þótt
í byrjun væri örðugt, ef þeir hefðu t.d.
ekki byrjað á landnáminu fyrr en þeim
voru tryggðar fastar tekjur eftir kaup-
gjaldsreglum nútíðarinar. Á sama hátt
verður landnámi hér ekki haldið
áfram, ef unga fólkið bíður og bíður
eftir því að fyrir það opnist starf með
taxtakaupi kaupstaðanna, ef unga
fólkið er ekki reiðubúið til þess að
leggja á sig erfiði til þess að skapa sér
rúm og starf í framleiðslunni eins og
forfeðurnir hafa gert. Þjóðin þarfnast
ungra manna, sem vilja og þora að
sækja brauð sitt í skaut íslenzkrar
náttúru.
Framsóknarflokkurinn lítur á það
sem eina sína höfuðskyldu, að styðja
slíka æskumenn og starfsemi þeirra.
Hann mun framvegis sem hingað til
líta á það sem sitt hlutverk, að standa
á verði gegn þeim, sem seilast eftir
arðinum af starfi þeirra."
Eysteinn Jónsson vék síðan að því,
að Framsóknarmenn töldu sig ekki
ráða yfir neinum töfraráðum, en hins
vegar þrautreyndum úrræðum. Hann
sagði:
„Við Framsóknarmenn höldum því
ekki fram, að við eigum neinn töfra-
sprota, og að allt sem aflaga fer og
erfitt reynist, geti lagast af hans völd-
um án fyrirhafnar.
Við höldum aftur á móti hinu fram,
að meginúrræði þau, sem við bendum
á, séu duglegum mönnum samboðin
og hafi verið reynd undir erfiðum
kringumstæðum með góðum árangri."
í vinnu og baráttu
Hermann Jónasson ræddi um lífs-
Fulltrúar á stofnþingi S.U.F.
■ Myndin var tekin við Geysi. — Á myndina vantar allmargt fulltrúa, en hins vegar eru
um 14 gestir með á myndinni. Alls sóttu 104 fulltrúar þingið.
hamingjuna í ræðu sinni. Hann sagði:
„Hið dásamlega við lífið er það, að
hagur og gæfa einstaklinganna og þjóð-
félagsis fara saman. Þróttmikill og
ábyrgur einstaklingur, sem heyir lífs-
baráttuna með elju og karlmennsku,
er hollur sjálfum sér, því gæfuna er
hvergi að finna nema í vinnu og
baráttu. Sá, sem hefir allt til alls og
þarf ekkert fyrir því að hafa, verður
aldrei hamingjusamur. Lífshamingjan
er í því fólgin, að erfiða og sigrast á
erfiðleikunum og jafnvel bíða annað
slagið ósigur; því meiri og hreinni
verður gleðin yfir sigrinum; sólskins-
dagar eru okkar gleðistundir, vegna
þess að við höfum ekki alltaf sólskin,
•og birta sumarsins vegna þess að við
höfum dimma vetur. Þannig er lífs-
hamingjan. Skúrir og skin verða að
skiptast á - það er einnig fullvíst, að
það nær enginn langt fram né öðlast
karlmennsku og þor nema sá, sem
leggur mikið á sig, mætir miklum
erfiðleikum og jafnvel hættum og heyir
harða baráttu til að yfirstíga þær.“
Síðar í ræðunni boðaði Hermann
Jónasson setningu í þróttalaganna og
stofnun garðyrkjuskólans. Þá gat hann
þess, að unnið væri að athugun á
saltframleiðslu með aðstoð hverahit-
ans, sérstaklega á Reykjanesi. Hann
sagði síðan:
„Verkefnin eru sannarlega óþrjót-
andi í þessu landi, og mun það sannast
stöðugt betur með hverju árinu, að
„hér er nóg um björg og brauð
berirðu töfrasprotann,
þetta land á ærinn auð,
ef menn kunna að nota ann“.
Raunverulega er það því frá mínu
sjónarmiði þannig, að þó lífsbaráttan
sé hörð í dag, þá eru möguleikarnir svo
miklir og óleyst verkefni framundan
svo mörg, að það hefir aldrei verið
ánægjulegra en nú að vera þróttmikill,
ungur maður á íslandi. Það er að vísu
alltaf til, að menn bíði ósigur, en það
eru meiri möguleikar en nokkurn tíma
áður til að vinna stór og nytsöm verk
og mikla sigra.
En í afkomu okkar á þesu landi,
baráttu okkar fyrir brauði og fyrir
menningu þjóðarinnr, er þó eitt nauð-
synlegt og það er að við finnum
töfrasprotann, því hann er það, sem
allt veltur á. En hann er hæfni okkar
og þrek til átaka, ábyrgðartilfinning
okkar hvers gagnvart öðrum, og að við
getum lært að vinna saman sem heild.“
Myndasöfn
í hugarheimi
Skúli Guðmundsson ræddi um at-
vinnumálin, en vék að minningu þjóð-
arinnar í ræðulokin. Hann sagði:
„Það hafa orðið miklar og stórstígar
framfarir í verklegum efnum á íslandi
á síðustu tímum, því verður ekki
neitað, þótt þar sé mikið ónumið. En
þrátt fyrir þessar miklu framfarir á því
sviði, þá stöndum við ekki jafnfætis
öðrum þjóðum í því efni. Það er á öðru
sviði, sem íslendingar hafa komizt til
jafns við menn annarra þjóða:
„Vor myndasöfn, þau gnæfa
í hugarheimi,
svo hátt sem andi býst í
jarðnesk orð,
og hirðmál er vór tunga
í goðageimi,
þar greppar sækja eld við
konungsborð,"
segir Einar Benediktsson.
Það eru þessi myndasöfn í hugar-
heimi, sem þarf að geyma og auka við.
Það er íslenzka tungan, sem við fyrst
og fremst eigum að varðveita svo að
hún verði áfram „hirðmál í guða-
geimi". Við þurfum að varðveita tung-
una og hið andlega líf. Eitt lítið ljóð
eða lag, ein vel kveðin staka getur
hafið okkur upp úr erfiðleikum hvers-
dagslífsins.
„Það er líkt og ylur í
ómi sumra braga.
Mér hefir hlýnað mest á því
marga kalda daga.“
Kaldir dagar munu vissulega koma
yfir þessa þjóð og þetta land í framtíð-
inni, eins og áður, og við þurfum að
vera menn til þess að taka á móti
köldum dögum, því þá - ef við erum
menn til að taka á móti köldum
dögum, - þá kunnum við að meta
sólina þegar hún skín.“
Hættulegasti
óvinurinn
Það féll í minn hlut sem fyrsta
formanns SUF að segja lokaorðin á
þinginu. Orð mín hafa bersýnilega
mótazt nokkuð af því, að mikið sund-
urlyndi var í landinu, en heimsstyrjöld
yfirvofandi, og því bar þjóðinni að
þoka sér saman, eins og síðar varð. Ég
sagði m.a.:
„írski stjórnmálamaðurinn de Val-
era, hefir nýlega sagt að íslendingar
ættu ekki nema einn hættulegan óvin,
sundurlyndið. En sá óvinur gæti líka
verið hættulegri sjálfstæði þjóðarinnar
en allir aðrir andstæðingar hennar til
samans.
Þeir, sem fylgjast með hinum harðn-
andi átökum milli stéttanna hér á
landi, munu hiklaust fella svipaðan
Þórarinn Þórarinsson,
ritstjóri, skrifar
dóm um íslenzkt þjóðlíf um þessar
mundir.
Af hverju stafar sundurlyndið?
Það á rætur sínar í því, að menn
kunna ekki að vinna saman. Þeir meta
eigin hag svo mikils, að þeir geta ekki
tekið réttlátt tillit til annarra og af því
rísa deilurnar. Hver stétt hugsar ein-
göngu um sig og miðar kröfur sínar við
það, en lætur sig afkomu heildarinnar
eða annarra stétta engu skipta. Hinar
efnameiri, fámennari stéttir hafa byrj-
að þessa baráttu en hinir hafa síðan
fylgt í fótspor þeirra. Það er þessi
eigingirni stéttana og tillitsleysi til
annarra, sem skapar sundurlyndið í
þjóðfélaginu og er sá „hjartans ís“,
sem er mesti voði þjóðarinnar.
Það er rétt, að þjóðin býr nú við
ýmsa fjárhagslega erfiðleika, markaðs-
töp, verðfall, fiskleysi, fjárpest o.s.frv.
En þeir eru hverfandi litlir hjá þessu
andlega öfugstreymi. Þó að hér léki
allt í lyndi, fiskafli væri nægur og
markaðir góðir, gæti sundurlyndið og
eigingirnin verið jafnmikil plága fyrir
þjóðina. Það er eins og skáldið segir,
að hvorki „sól né vor“ koma að gagni,
þegar „hjartans ís“ hefir náð tökum á
þjóðinni.
Þennan andlega ís verður því að
bræða, ef þjóðin á að halda manndómi
sínum, menningu og sjálfstæði.“
Samvinna í
stað sundurlyndis
í framhaldi af þessu fórust mér
þannig orð:
„í Englandi stendur nú þingræðið
föstustum fótum og enska heimsveldið
ber vott um meiri stjórnarhæfileika en
nokkurt annað stórveldi, sem sagan
greinir frá. Margir skýra þetta á þá
leið, að enskir stjórnmálamenn standi
öðrum framar sem málamiðlunar-
menn. Þeir kjósi að jafnaði samkomu-
lagsleiðina meðan nokkrir slíkir mögu-
leikar séu fyrir hendi. í fljótu bragði
virðist þetta bera vott um veikleika og
undanhald, en reynslan sýnir hinsveg-
ar, að mesti styrkleiki brezka heims-
veldisins hefir iðulega verið fólginn í
slíkum vinnubrögðum. Það getur verið
sigursælt í bili, að beita ofbeldi og
fylgja lögmáli hnefaréttarins. En slíkt
hefnir sín jafnan, þegar til lengdar
lætur. Það helzt lengur og betur á hinu,
sem unnið er með friði.
Það er þessi hæfileiki Englendinga,
sem veldur því líka að innanlandsdeil-
ur hafa aldrei risið þar svo hátt, að þær
hafi ógnað heimsveldinu, en það eru
einmitt slíkar deilur, sem hafa átt
mestan þátt í glötun annarra heims-
velda. Englendingar hafa að vísu deilt
innbyrðis, en i hvert sinn, sem reynt
hefir eitthvað á þjóðina til átaka út á
við, hafa sannazt á þeim ummæli Eirars
Benediktssonar:
Þegar býður þjóðarsómi
þá á Bretland eina sál.
Við eigum að stefna að því að slíkt
hið sama megi segja um þjóð okkar.
Við eigum að hafa það markmið, að
jafna deilur og ósætti innbyrðis með
samkomulagi og friði. Við eigum að
vinna gegn hinni gagnlausu og skað-
legu stéttabaráttu, stefna að því að
bræða hinn andlega ís og láta sam-
heldni og samvinnu þjóðarþegnana
koma í stað sundurlyndisins."
Vegna sérstakra atvika mun ég ekki
geta sótt fund ungra Framsóknar-
manna nú um helgina, eins og ég hafði
ætlað mér. Ef ég hefði sagt þar nokkur
orð, myndi ég helzt hafa tekið mér í
munn hvatningu Jónasar Jónssonar:
Meginvinnan er eftir. Það hafa unnizt
margir sigrar og orðið miklar framfarir
á þeim tíma, sem liðinn er frá stofnun
SUF. Samt er meginvinnan eftir, sem
er fólgin í því að gæta arfsins og
margfalda hann.