Tíminn - 18.03.1984, Blaðsíða 2
2
SUNNUDAGUR 18. MARS 1984
helgarpár
Agnes Bragadóttir skrifar
■ Einn maður öðrum fremur, hefur gjarnan verið nefndur guðfaðir bjórsins á íslandi, en það er Davíð Scheving Thorsteinsson, sem hér kneyfar
ölið á Gauk á Stöng. Tímamyndir Róbert
Bjór á íslandi innan tíðar?
Margt bendir til þess að Alþingi sé ekki
stætt á því að svæfa þetta mál í nefnd,
eins og svo margir óttast að verði
■ Ég óttast það mest að ágætur kollegi
minn hafi haft rétt fyrir sér sl. mánudag,
þegar við sátum nokkrir blaðamenn yfir
kaffibolla á kaffistofu þingsins og rædd-
um bjórinn langþráða, en kolleginn góði
sagði þá: „Þetta fer aldrei alla leið í
gegnum þingið. Þeir þora ekki að taka
þingsályktunartillöguna til afgreiðslu,
því þá eru þeir um leið að taka afstöðu
til þess hvort þeir ætla að vera með eða
móti. Þeir þora einfaldlega ekki að vera
með opinbera afstöðu í þessu máli - þeir
telja atkvæðamissinn vísan hvort sem
þeir eru með eða móti. Því á þetta mál
einfaldlega eftir að sofna í nefnd.“
Um hvað var hann svo að ræða, hann
starfsbróðir minn? Jú, hann var að ræða
þingsályktunartillögu þá sem nokkrir
þingmenn hafa tekið sig saman um að
flytja, þess efnis að við næstu almennu
kosningar hvort sem það verða nú
sveitarstjórnarkosningar eða alþingis-
kosningar, þá verði kjósendum gefinn
kostur á því að sýna vilja sinn varðandi
framtíð áfengs öls á íslandi. Það eru nú
öll ósköpin - að leyfa borgurum landsins,
sem á annað borð hafa náð kosninga-
aldri, að segja til um það hvort þeir vilji
leyfa sölu áfengs öls á landinu.
Það cr með hálfum huga, sem ég
dirfist að pára um viðkvæmnismál allra
viðkvæmnismála hér á landi - bjórmálið
- því ég geri mér fulla grein fyrir því að
bindindispostular landsins munu taka
þessum greinarstúf af takmarkaðri hrifn-
ingu, þar sem ég ætla nú að lýsa þeirri
skoðun minni að það sé ekkert annað en
hrein valdníðsla að koma í veg fyrir að
þjóðin sjálf fái að segja hug sinn í þessu
máli.
Verði sú niðurstaða þessa máls, sem
hér að ofan er spáð af einum starfs-
bræðra minna, þá er það ekki niður-
staða, heldur frestur, sem hlýtur að
teljast gálgafrestur. Ég segi gálgafrestur,
því ef þingmenn eru hræddir við að falla
í næstu kosningum, af þeirri einföldu
ástæðu, að þeir hafi tekið afstöðu til þess
hvort leyfa beri þjóðinni að segja hug
sinn í þessu máli, þá geta þessir sömu
þingmenn ekki státað af miklum afrek-
um á Alþingi. Sé það eina mælistikan á
það hvort þingmenn eru sætis síns á
þingi verðir, þá eru þeir með öllu
óverðugir. Fyrst ég á annað borð ræðst
í að ræða þctta mál lítillega, get ég ekki
látið hjá líða að rifja upp ummæli
nokkurra alþingismanna sl. haust, hér í
Tímanum, þegar ljóst var að þingsálykt-
unartillagan um þjóðaratkvæðagreiðsl-
una kæmi fram og Tíminn framkvæmdi
þá vísi að skoðanakönnun meðal þing-
manna. Það vekur athygli að það eru
ekki hin hefðbundnu flokksbönd sem
ráða afstöðu þingmanna, eins og glöggt
kom fram er Tíminn ræddi við þingmenn
um afstöðu þcirra 22. nóvember sl.
Auðvitað voru fjölmargir sem ekki vildu
eða þorðu að gefa upp afstöðu sína, en
þeir sem lýstu sig andvíga því að bjór
yrði leyfður hér á landi voru samtals 21.
Það vekur athygli þegar nánar er litið á
skiptingu þessa 21 þingmanns, að 80%
þingflokks Alþýðubandalagsins, 8
þingmenn, lýsa sig andvíga slíku leyfi,
50% þingflokks Framsóknarflokksins,
eða 7 þingmenn, en hvorki formaður
flokksins né varaformaður flokksins
voru í þeim hópi, 50% þingflokks Al-
þýðuflokksins voru einnig á móti, eða 3
þingmenn, en aðeins 3 þingmenn Sjálf-
stæðisflokksins af 23 þingmönnum
flokksins eða um 13%. Er ekki óhætt að
draga þá ályktun af þessari nokkurra
mánaða niðurstöðu, sem mögulega er
ekki spegilmynd stöðunnar í dag, að
tilhneigingin til ríkis/þingforsjár sé hvað
sterkust í Alþýðubandalaginu, eða
a.m.k. í þingflokki þess? Ég held að mér
sé næstum því óhætt að fullyrða að
einstrengingsleg afstaða alþýðubanda-
lagsþingmanna í þessu máli endurspegl-
ar ekki afstöðu óbreyttra félaga Alþýðu-
bandalagsins.
En það voru ummæli einstakra þing-
manna sem urðu mér að umtalsefni hér
að ofan: Guðrún Helgadóttir, þingmað-
ur Alþýðubandalagsins var ein þing-
manna þeirra sem leyfði sér að vera
bjórnum fylgjandi og sagði m.a. í því
sambandi: „Ég vil miklu heldur sjá börn
landsmanna drekka bjór út undir vegg
heldur en ákavíki."
Hjörleifur Guttormsson tók ekki af-
stöðu til málsins er hann var spurður en
aðrir þingmenn Alþýðubandalagsins
voru ákveðnir á móti, þannig að ofan-
greind afstaða Guðrúnar verður að skoð-
ast sem talsverð hugdirfska af hennar
hálfu.
Þeir Steingrímur Hermannsson for-
maður Framsóknarflokksins og Halldór
Ásgrímsson virðast nokkuð einir á báti
í þingflokki Framsóknarflokksins hvað
varðar afstöðu með bjórnum. Sjö þing-
menn Framsóknarflokksins lýstu sig
andvíga bjórnum, en aðrir þingmenn
flokksins að formanni og varaformanni
undanskildum voru ýmist óráðnir, eða
þeir voru fylgjandi þjóðaratkvæða-
greiðslu, þó svo að þeir persónulega
væru mótfallnir bjórnum. Steingrímur
Hermannsson sagði m.a.:„Ég hef alltaf
verið fylgjandi því að sterkur bjór væri
leyfður, ef hann er seldur í ÁTVR.“
Halldór Ásgrímsson sagði m.a.: „Landið
er alls ekki bjórlaust, og ég er því þeirrar
skoðunar að það þurfi að klippa á þessa
sýndarmennsku og selja bjór í áfeng-
isverslunum."
Það er einmitt það. Ég held að það sé
mál. til komið að við hættum þessari
sýndarmennsku og viðurkennum þá
staðreynd að ísland er ekki bjórlaust
land. Hérviðgengst heimabruggun bjórs
í öðru hverju húsi, án þess að nokkur
amist við því, nema þá helst bruggarinn
sjálfur, sem farinn er að þreytast á allri
fyrirhöfninni, (Ég hef 9 ára reynslu).
Hér labbar sig ölþyrstur maður inn á
Gauk á Stöng og fær sér það sem nefnist
bjór á þeim stað - hann lokar augunum
og reynir að ímynda sér að um þýskt eða
danskt gæðaöl sé að ræða, en hér er
einfaldlega um venjulegan pilsner að
ræða sem er styrktur eins og það nefnist,
með ákveðinni áfengistegund, sem heyr-
ir auðvitað undir hernaðarleyndarmál
staðarins. Nú hafa fjölmargir sótt um að
fá að reka staði í líkingu við Gaukinn. í
heimahúsum styrkja menn sem ekki
nenna eða kunna að brugga, pilsnerinn
sinn með einföldum Klára, til þess að fá
nú gamalkunnu bjórstemminguna og
meðfylgjandi stjörnur í augun. Aukin
heldur er það gullnáma allra smyglara að
flytja inn bjór (flugliðar ogsjómenn gera
þetta í stórum stíl) og selja síðan við
ránprís ölþyrstum Löndum smygl sitt.
Gangverð á 24ra dósa kassa, þar sem
hver dós er 35 centilítrar er um 1200
krónur og gangverð á 24ra dósa kassa
með stórum dósum, um 50 centilítrar, er
17 til 1800krónur. Ekki króna af þessum
veglegu upphæðum rennur í ríkiskass-
ann margumtalaða, og veitti sjálfsagt
ekki af þessa dagana, þegar hvern eyri á
að nota til þess að kítta upp í fjárlagagat-
ið stóra.
Áfengismenning Landans hefur sjald-
an fengið lof fyrir að vera á háu plani og
það ekki að ósekju. Nú gefst hins vegar
gullið tækifæri til þess að breyta þessari
„menningu" okkar til hins betra, því
verði sú hugmynd ofan á, að hefja
bruggun áfengs öls hér á landi og dreifa
því síðan eingöngu í verslunum ÁTVR
og á vínveitingastöðum, þá væri þar með
kominn vísirinn að betri og hóflegri
umgengni við Bakkus, a.m.k. fyrir
marga. Ég hugsa að þá myndu færri
ungmenni fá sér ákavíti undir vegg, en
þau gera í dag. Ég hugsa að þá verði
minna um það að unglingsstúlkur á
bilinu 13 til 15 ára svolgri í sig heilli
flösku af vodka yfir eina helgi. Ég hugsa
að þó svo að nýjabrumið verði til þess
að um einhverja aukningu verði að ræða
í áfengisdrykkju Landans fyrst eftir að
bjórinn verður leyfður, þá verði sú
raunin, að drykkjumenning og meðför
öll á áfengum drykkjum batni í þá veru.
að neysla sterkra drykkja dragist stór-
lega saman. Ég hugsa að ef Halldór frá
Kirkjubóli og aðrir bindindisfrömuðir
landsins hætta að berja höfðinu við
stein, hætta að sjá skorpulifur á hverju
horni um leið og þeir heyra orðið bjór
og hætta að sjá ofsjónum yfir „böli“ því
sem það hefur í för með sér fyrir land
vort og þjóð að til séu fjölmargir ein-
staklingar sem kjósa fremur að fá sér
einn ljúffengan öllara en rammsterkt
vodka í kók, að þá geti ríkt um mál þetta
nokkur friður. Við gætum hugsanlega
sest niður yfir góðri ölkrús og rætt málin
á rólegan hátt, án fordóma og sleggju-
dóma - án óvildar og rætni. Auðvitað
verða menn að viðurkenna skiptar
skoðanir á þessu sviði sem öðru - þeirra
sannleikur er annarra lygi. En menn, og
þá einkum þingmenn, megi ekki sýna
það karakterleysi að láta þetta mál,
þingsályktunartillöguna góðu, sofna í
nefnd eins og spáð er, því hver sem
þeirra eigin skoðun er varðandi bjórinn,
þá á þjóðin heimtingu á því að fá að
segja sjálf hug sinn til þessa máls - það
er lýðræði. Það væri nú þokkalegt til
afspurnar ef meirihluti Alþingis skákaði
í skjóli þingræðis og hafnaði lýðræðinu í
reynd.
★ Samkvæmt skoðanakönnun DV vilja 80% þjóðarinnar
þjóðaratkvæðagreiðslu um bjórinn.
★ Hunsar Alþingi vilja meirihluta þjóðarinnar
um þjóðaratkvæðagreiðslu?
★ Sofnar þingsályktunartillagan um bjórmálið í nefnd á Alþingi?
★ Þora þingmenn ekki að taka opinbera afstöðu til bjórmálsins?
★ Geta bindindispostularnir látið af ofskynjunum sínum
hvað varðar skorpulifur á hverju horni?
★ Verður seldur alvöru bjór á Gauk á Stöng og öðrum
stöðum innan tíðar?