Tíminn - 08.07.1986, Blaðsíða 7

Tíminn - 08.07.1986, Blaðsíða 7
TíminrL 7 Þriðjudagur 8. júlí 1986 VETTVANGUR Páll Pétursson, alþingismaður Hausana af, hausana af Landbúnaðarráðherra opinber- aði nýlega skýrslu sem heitir „Landnýting á íslandi ogforsendur fyrir landnýtingaráætlun." Skýrsla þessi er samin af nefnd er landbún- aðarráðherra skipaði í framhaldi af þingsályktun frá 1984, en flutn- ingsmenn þeirrar tillögu voru Davíð Aðalsteinsson, Þorvaldur Garðar Kristjánsson, Helgi Seljan, Ingvar Gíslason og Jóhanna Sig- urðardóttir. Ályktun Alþingis hljóðar svo: „Alþingi ályktar að fela ríkis- stjórninni að hlutast nú þegar til um að undirbúningi og vinnu við land- nýtingaráætlun verði hraðað. Við gerð slíkrar áætlunar verði lögð áhersla á sem hagkvæmasta nýt- ingu og varðveislu landgæða. Gerð verði kostnaðaráætlun um landnýtingarskipulag sem taki til allra meginþátta landnýtingar. Áætlunin verði lögð fyrir Alþingi og á grundvelli hennar verði tekin ákvörðun um framkvæmdahraða. “ Þessa ályktun fékk landbúnaðar- ráðherra í hendur og skipaði hann eftirtalda menn í nefnd til þessa starfs: Sveinbjörn Dagfinnsson ráðuneytisstjóra formann, Birgi Þorgilsson Ferðamálaráði íslands, 'Bjarna Reynarsson Borgarskipu- lagi Reykjavíkur, Eyþór Einarsson Náttúruverndarráði, Gísla Júlíusson Landsvirkjun, Hákon Sigurgrímsson Stéttarsambandi bænda, Hermann Sveinbjörnsson iðnaðarráðuneyti, Ingva Þorsteins- son Rannsóknastofnun landbúnað- arins, Jakob Björnsson Orkustofn- un, Leif Kr. Jóhannesson Stofn- lánadeild landbúnaðarins, Ólaf R. Dýrmundsson Búnaðarfélagi íslands, Sigurð Blöndal Skógrækt ríkisins, Sigurð G. Þorsteinsson Framkvæmdastofnun ríkisins, Stefán H. Sigfússon Landgræðslu ríkisins, Zóphanías Pálsson Skipu- lagi ríkisins. Nefndin réði sér verk- efnisstjóra Andrés Arnalds. Þrátt fyrir það að nefndin væri óvenjufjölmenn vekur það óneit- anlega talsverða athygli að í hana var enginn bóndi skipaður og varð- ar þó þá stétt nokkru hvernig landnýtingu verður háttað í fram- tíðinni. Skýrslan er löng og prentuð með litum á vandaðan pappír. Lýsir nefndin þar viðhorfum sínum til núverandi ástands en telur vanta upplýsingar og pólitískar ákvarð- anir til þess að hún geti lagt fram „eiginlega og raunhæfa landnýting- aráætlun“. Vitna ég til skýrslunnar á bls. 97 þar sem þeir félagar telja upp hvað á skorti. „Fara þarf yfir öll lagaákvæði er varða landnýtingu og benda á pólitískar ákvarðanir sem taka þarf í því sambandi, svo sem um: ★ Nýja byggðastefnu miðað við núverandi ástand og horfur. ★ Stefnu í framleiðslumálum landbúnaðarins er miði að eflingu landgæða. ★ Landnýtingarstefnu með tilliti til ferðamennsku og útivistar. ★ Stefnu um eignarrétt á landi, afnotarétt og ábyrgð með tilliti til viðhalds landgæða. Ákvæði um bætur eða eignamám ef gróður- vernd eða önnur náttúruvernd er aðkallandi. ★ Stefnu um langtímaáætlun í landvernd og landgræðslu með vel skilgreindum markmiðum og áföngum. ★ Stefnu og langtímaáætlun í skógrækt, svo sem varðveislu og eflingu núverandi skóglendis, nytjaskógrækt og ræktun nýrra úti- vistarskóga. ★ Stefnu í náttúruverndarmálum sem tekur tillit til alhliða landnýt- ingar. Aðalþröskuldurinn Hvað varðar aðalvandamálið, landbúnaðinn, þá vitna ég til > skýrslunnar á bls. 93. „Landbúnaður er lang áhrifa- mestur landnýtingarþátta og skipu- lag hans ræður miklu um svigrúm til annarrar landnýtingar. Um 4000 bændur stunda nú framleiðslu mjólkur og kindakjöts. Miðað við núverandi tíekni, afurðir og mark- aðsaðstæður virðist hins vegar ekki vera starfsgrundvöllur fyrir fleiri en 2000 til 2500 bændur í þessum búgreinum. { framtíðinni má jafn- vel reikna með að enn færri bænda verði þörf til að anna innanlands- markaði fyrir kjöt og mólk, þar eða framleiðslueiningar munu sennilega stækka, framleiðni auk- ast og neysluvenjur breytast." í forsendum þeim sem nefndin gefur sér segir á bls. 42: að einungis þurfi rúmlega 1000 bændur til að framleiða þá mjólk sem ríkisvaldið samdi um við bændur í fyrra að fullt verð yrði greitt fyrir verðlags- árið 1985-1986, þ.e. 107 millj. lítra, en um 1950 bændur stunda nú kúabúskap. Þá gerir nefndin ráð fyrir því að ennþá dragi úr kindakjötsneyslu og sauðfé þurfi að fækka um 35-45% frá því sem gekk í sumarhögum 1985 eða um helming frá því sem sauðfé var flest 1978. Meginniðurstaðan er þá sú, að til þess að hér verði komið við skynsamlegri landnýtingu þurfi að fækka sauðfé um helming frá 1978 eða 35-45% frá því sem gekk í högum 1985. Hrossum þurfi að fækka um a.m.k. 13 þúsund og bændum í hefðbundnum búgrein- um um nálega helming. „Hausana af, hausana af,“ sagði drottningin í Lísu í Undralandi forðum. Þerta verður aðgengilegra vegna þess að nefndin kemst að þeirri niðurstöðu á bls. 93, að „Byggðin er dreifð á belti umhverfis hálend- ið, sem gerir búsetu í landinu bæði erfiða og dýra.“ Bændafækkunin Ég vil taka það fram að ég er í mörgu sammála ýmsum atriðum í skýrslunni. En ég er gjörsamlega á öndverðum meiði hvað varðar bændafækkunina. Bændum á ís- landi á ekki að þurfa að fækka að mun frá því sem nú er. Ef skynsam- lega er á málum haldið á að vera hægt að skapa sveitafólki viðun- andi tekjur og svipaða lífsaðstöðu og öðrum þjóðfélagsþegnum og láta neytendum í té góða búvöru á hóflegu verði án verulegrar fækk- unar bænda. Ef af verulegri fækkun bænda yrði þá mundu smærri bændur að öðru jöfnu gefast upp fyrst. Þeirri stefnu hefur verið haldið mjög ákveðið fram af ýmsum undanfarið að svo skuli gert. Það er einnig það sjónarmið sem ég les út úr marg- nefndri skýrslu. Smærri bændurnir eru ekki vandamálið, vandamálið eru stóru búin og þess vegna er þessi stór- bændastefna forkastanleg. Búskapur er aðferð við að lifa, meira að segja eftirsóknarverð aðferð. Hóflega stór fjölskyldubú hafa reynst skila bestum arði og ánægjulegustu lífsformi. Mörg stóru búin eru rekin með allt of miklum tilkostnaði, bæði í vélvæð- ingu, aðkeyptum aðföngum .og að- keyptri vinnu og óheyrilegum fjár- magnskostnaði svo og þrældómi eigenda. Það sem þarf að gera er að smækka stóru búin og það er þar sem ríkisvaldið á að verja endur- skipulagningarfé landbúnaðarins. Það verður að setja skorður við framleiðslumagni einstakra búa og gera stórbændum og stórhuga frumbýlingum kleyft að minnka við sig með opinberri aðstoð, svo sem með því að létta á skuldum þeirra sem ráðist hafa í fjárfesting- ar sem útheimta ógnariéga fram- leiðslu og kaupa af þeim vélabúnað ■. sem þeir hafa keypt sér og þurfa ekki að nota. Með því að ná niður stóru búunum gætu eigendur þeirra átt ánægjulegri og hægari framtíð án þess að rauntekjur þeirra minnkuðu og þá væri unnt að auka framleiðslurétt smærri bænda og skapa þeim viðunandi afkomu- möguleika í framtíðinni. Þá er höfuðatriði að koma skipulagi og stjómun á alla landbúnaðarfram- leiðsluna. Það er glapræði að reyna að draga harkalega úr dilkakjöts- framleiðslu með stjórnunaraðgerð- um en láta aðra kjötframleiðslu óhefta. Það verður að setja kvóta á allar kjöttegundir, annað er fásinna. Þá voru mjög mikil mistök að gefa frjálsa smásöluálagningu á dilkakjöt. Reynslan hefur sýnt að kaupmenn kunna sér ekki hóf er þeir fengu frjálsar hendur. Þá kem- ur vel til greina að mínu mati að verja hluta af endurskipulagning- arfé landbúnaðarins til þess að greiða dilkakjöt niður í því skyni að örva neysluna, vegna þess að dilkakjöt er of dýrt núna. Þá verður að breyta kjötmati þannig að neyt- andinn fái það kjöt er hann kýs að kaupa. Lömb offituð á káli gefa aldrei annað en skemmt kjöt. Misráðin notkun fjármuna Miklum fjármunum er varið til endurskipulagningar í landbúnaði. Einkum hefur verið reynt að örva loðdýraframleiðslu og kaupa kvóta af bændum. Hvað varðar kvóta- kaupin þá eru þau mislukkuð. Sér- staklega þegar ekki hefur verið sinnt um að blanda sveitarstjórnum í málið. Heil byggðarlög geta verið orðin óbyggileg fyrr en varir, vegna skipulagslausra kvótakaupa. Tímabundin leiga á kvóta er rétt- lætanleg. Menn hafa verið hvattir mjög til loðdýraræktar og það hefur verið gert mjög auðvelt fyrir bændur að hefja loðdýrabúskap. Loðdýrarækt er áhættusöm, sérstaklega þegar lífdýrasala innanlands kemur ekki til. Loðdýrarækt er það sveiflu- kennd og áhættusöm að ég held að heppilegra væri að reka hana með öðrum búskap, svo að fjölskyldan þurfi ekki að eiga allt sitt undir henni einni. Sama gildir um aðrar aukabú- greinar, af þeim getur verið veru- legur styrkur og viðbót við hefð- bundna búvöruframleiðslu búsins og það er ráðlegra heldur en ein- hæfur búskapur. Kanínurækt hent- ar t.d. vel sem viðbót við of lítið bú. Fiskiræktina hafa bændur því miður nú þegar misst að verulegu leyti úr höndunum á sér og í allt of stórum mæli í hendur útlendinga. Víða má þó hafa styrk af veiði og fiskirækt ennþá. Skárri úrræði Með hóflegum styrk af aukabú- greinum, auknum heimaafla, skynsamlegri nýtingu hlunninda, ferðaþjónustu, bættri hrossarækt og tamningu og hagnýtingu ann- arra tekjumöguleika sem til falla, samfara verulegri minnkun stóru búanna ætti ekki að þurfa að hrekja neina bændur úr hefð- bundnum búskap. Verulegur sam- dráttur byggðar og stækkun ein- stakra búa er ennfremur mjög óskynsamleg landnýting þar sem beitarálag stóreykst í þéttbýlli sveitum en aðrar ónýttar. Ekki fann ég þess neinn vott í umræddri skýrslu að nefndarmenn hefðu velt þvt fyrir sér á hverju þessi þjóð lifir og verður að lifa, enda þótt glögg grein sé gerð fyrir hinni stórvægilegu byggðaröskun undanfarinna ára. Þjóðin lifir ekki á því að við snúumst hver við annan eða pröngum hver á öðrum. Nei, þjóðin lifir á því sem hún framleiðir, því sem hún dregur úr sjónum, því sem landið gefur af sér og því sem menn búa til með höndum sínum og hugviti. Það er bændanna að yrkja jörð- ina og nýta hana skynsamlega og án þess að ganga á gæði hennar. Þeir eru ekki of margir að því starfi. Landbúnaðarstefnunni verður að breyta og hverfa frá hinni óskynsamlegu og ósiðlegu stór- bændastefnu. Páll Pétursson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.