Tíminn - 14.05.1988, Blaðsíða 7
Laugardagur 14. maí 1988 Tíminn 7
iværur vegna oTDeiais, naroræöis
og ólöglegrar handtöku bornar undir
„Lögreglan hittir menn á viðkvæmari stundum en ella og sér æði
margt, sem aðrir verða aldrei varir við. Lögreglumenn þurfa að taka
ákvarðanir, sem oft á tíðum eru umdeildar síðar. Það er því enginn
vafi á því, að innan opinbera geirans er starf lögreglumanna með því
erfiðara sem gerist. Ég held því alveg hiklaust fram.“
Það er Böðvar Bragason, lögreglustjóri næstum 300 manna lög-
regluliðs í Reykjavík, sem tekur svo afdráttarlaust til orða. Að undan-
förnu hefur mætt á honum vegna ásakana um ofbeldi og harðræði
lögreglunnar auk þess, sem Ijóstrað var upp um að hún fylgdist náið
með ferðum þekkts hvalfriðunarsinna, á meðan fram fór ráðstefna
hér á landi um nýtingu sjávardýra.
Almenningi koma njósnir af slíku
tagi á óvart, - fáir höfðu raunar gert sér
grein fyrir að þeir, sem halda uppi
lögum og reglu, meti það svo að þörf
sé á njósnum - og menn verða óhug
slegnir, þegar fréttist af því, að fangar
handleggsbrotni í skiptum við
lögreglumenn í fangageymslu. Eða að
menn lendi í átökum við lögreglumenn
á götum úti.
Dæmi þess er skammt að minnast og
er tilefni til viðtals við lögreglustjóra
nú.
„Ég hef ákveðið að taka upp þá
stefnu alfarið," segir Böðvar, „að
lögreglan svari fyrir sig á opinberum
vettvangi að svo miklu leyti sem hún
getur og upplýsi þann þáttinn, sem snýr
að henni í kærumálum.
Það gest nú ekki öllum að því, hér
innan stofnunarinnar. Það verður að
gæta að því, að lögreglan getur ekki
rætt eins opinskátt um málavexti og
margar aðrar ríkisstofnanir geta gert.
Aftur á móti fer ég fram á það, að
hún fái hlutlausa meðhöndlun í
fjölmiðlum.“
- Er hægt að bregða ljósi á þá
atburði, sem gerðust um síðustu helgi,
þegar lögreglumanni og vegfaranda
laust saman á götu úti?
„Varðandi það mál, er ég búinn að
svara því til, sem hægt er á þessari
stundu,“ svarar Böðvar. „Allar kærur
eru undantekningarlaust skoðaðar.
Það fer svo eftir framvindu
rannsóknarinnar hvenær hægt er að
taka ákvarðanir.
í þessu máli áttu fjórir einstaklingar
hlut að máli, - tveir lögreglumenn, sá
sem kærir og fyrrverandi eiginkona
hans.“
Konan er leigubílstjóri og ók bílnum,
þegar lögreglan stöðvaði þau fyrir of
hraðan akstur. Manninum leiddist
þófið á meðan lögreglan ræddi við
konuna og afréð að hafa tal af
lögreglunni sjálfur. Afskipti hans
enduðu með því, að lögregla neytti
aflmunar við að handtaka hann.
Maðurinn var allsgáður og á leið til
vinnu sinnar. Hann hefur ekki áður
komið við sögu lögreglu.
„Mikill greinarmunur var á milli
frumframburðar lögreglunnar annars
vegar og hinna tveggja hins vegar. Það
varð til þess, að ég ákvað að vísa
málinu til frekari rannsóknar hjá
Rannsóknarlögreglu ríkisins, beinlínis
með það fyrir augum að þeir komist að
hinu sanna.“
RLR hefur borist kæran, en af
rannsókn málsins er ekkert frekar að
frétta að svo stöddu. Málið er tvíþætt,
því að lögregla kærir manninn fyrir
hindrun í starfi, en hann kærir lögreglu
fyrir harðræði og ólöglega handtöku.
- Er rétt að vísa lögreglumönnum,
sem hafa verið kærðir fyrir að beita
ofbeldi, tímabundið úr starfi?
„Sama dag og fréttin af þessum
atburði var fyrst gefin út og öllum
mætti vera ljóst að málið var í skoðun
hringdi í mig blaðamaður utan úr bæ.
Hann spurði óðar um það, hvort búið
væri að víkja viðkomandi
lögreglumönnum úr starfi.
Ég sagði við þennan mann, að fyrst
yrðum við að athuga málavexti og
byrja á réttum enda.
í lögum um opinbera starfsmenn er
yfirmönnum veitt heimild til að leysa
menn frá störfum eða veita þeim
áminningar fyrir yfirsjónir og því um
líkt. Til þessara hluta kemur fyrst,
þegar menn hafa áttað sig á um hvað
málið snýst. Það er einmitt það, sem
verið er að gera núna hjá RLR. Þá fyrst
er hægt að taka ákvörðun um hvort eigi
að beita þessa menn viðurlögum eða
ekki. Það er þá byggt á mati á þeim
staðreyndum, sem fyrir liggja.
Það verður að gæta að því, að
brottvikning úr starfi er enginn dómur
yfir viðkomandi. Það segir einfaldlega,
að líkindi hníga í þá átt, að eitthvað
hafi farið úrskeiðis og að það þyki rétt
að viðkomandi sé ekki í starfi þangað
til að dómur gengur.
Það er bara della ef ég á að leysa
lögreglumenn frá starfi undir eins og
maður kemur til mín og kvartar undan
þeim. Slíkt bara gengur ekki. Það
verður að vera fótur fyrir slíkum
ásökunum.
Ég gagnrýni það af einurð, að menn
setji þumalskrúfurnar á yfirmenn um
að þeir taki ákvarðanir, áður en þeir
hafa fengið nægileg gögn í hendurnar
til þess að þær geti verið teknar af
skynsemi. Það er í þessu ljósi sem ég
segi, að fjölmiðlum veiti ekki af að átta
sig á innviðum þessa kerfis okkar. Það
er þó ennþá frumregla í íslenskum
rétti, að maður er saklaus þar til búið
er að sanna sekt hans.“
- Fréttir af njósnum lögreglunnar,
ofbeldi í fangageymslu og nú síðast
kæru vegna harðræðis og ólöglegrar
handtöku hljóta að rýra álit almennings
á lögreglunni.
„Ég tel að almenningur eigi rétt á því
að fá að vita um störf lögreglu, - bæði
þau sem eru jákvæð og þau sem eru
neikvæð. Ég biðst alls ekki undan því
að fjölmiðlar flytji fréttir af
lögreglunni, hvort sem þær eru góðar
eða vondar. Þær veita stofnuninni
aðhald. Það eina sem ég bið um, er að
fjölmiðlar gæti velsæmis og sanngirni í
fréttaflutningi, en taki ekki of mikið
upp í sig að órannsökuðu máli.“
Spurður segir Böðvar að í áranna rás
hafi það ekki verið óalgengt, að
lögreglumenn hafi orðið fyrir meiðslum
og örkuml. Þeir lögregluþjónar, sem
áttu þátt í handtökunni um siðustu
helgi, hlutu þó enga áverka, að því best
er vitað.
„Hvað er þetta stórt brot af allri
þeirri starfsemi, sem fram fer hjá
lögreglunni?,“ spyr Böðvar og á við
mál, sem lögreglan fær á sig kærur
vegna. „Við skulum fyrst taka dæmi af
því, þegar óhapp varð í
fangageymslunni og maður
handleggsbrotnaði. Hér eru gistingar á
ári hverju sennilega um sjö þúsund. Og
því miður eru ekki allir gestir í góðu
ástandi þegar þeir koma.
Þá ræðum við um atvik, sem á sér
stað við radarmælingar um síðustu
helgi. Það er algengt, að framkvæmdar
séu á annað hundrað svipaðar aðgerðir
á einum degi. -*
Ég vil að menn athugi þetta í þessu
ljósi einnig. Það er ekki hægt að gera
þá kröfu, að ekki gerist óhöpp. Ég er
þó ekki að afsaka nokkurn skapaðan
hlut. Ein kæra er einni of mikið. En
það verður að líta á málin frá fleiri en
einni hlið, þegar svo víðtækt starf, sem
starf lögreglumannsins er, er skoðað."
- Gera menn óbærilegar kröfur til
lögreglunnar?
„Það verður að gera miklar kröfur til
hennar og við setjum markið hátt. Til
þess er einmitt stofnun eins og
Lögregluskóli ríkisins og ég held að
hann sé ein af þessum stóru forsendum
fyrir því, að við getum verið með
lögreglu sem er treystandi.
Lögreglustarfið þarf að læra og það
er afskaplega krefjandi fyrir marga.
Menn hætta í lögreglunni vegna þess að
þeim finnst álagið of mikið. Þeir þurfa
að vera vel að sér um ýmsa þætti
þjóðlífsins og vita hvernig beri að
bregðast við ólíklegustu og sorglegustu
atburðum.“
- Félagar þess lögreglumanns, sem
handtók þann unga mann, sem síðar
handleggsbrotnaði í snerru í
fangageymslu, segja að hann hafi verið
reyndur laganna vörður og afskaplega
vandaður í alla staði.
„Hann hafði verið lengi í
lögreglunni, það er rétt. Og aldrei
bárust neinar kvartanir undan honum
fyrr en þetta á sér stað. Þeir
lögreglumenn, sem eiga hlut að máli
um síðustu helgi, höfðu sömuleiðis
hreinan skjöld.
Sé tekið mið af þeim málafjölda, sem
lögreglan fæst við, og hvers konar
atvik, eru klögumál og kvartanir fáar. “
- Gera umdeild atvik undanfarið
lögreglu erfiðara fyrir í starfi?
„Ég vona ekki. Lögreglan er ekki
öðru vísi gerð en fólk er flest og hún er
hluti af þjóðfélaginu. Hún stendurekki
utan við það. Það verða menn að skilja.
Það er enginn fullkominn. Verði
mistök verðum við vitanlega að
viðurkenna þau og reyna að bæta úr
þeim.
En það þýðir ekki að fara fram á, að
mál upplýsist sama dag og þau birtast í
einhverjum blöðum. Mér virðist það
vera krafa, sem sett er fram, en við
henni er ekki hægt að verða. Vönduð
vinnubrögð fylgja sjaldan slíku
hastverki.
Það verður að leyfa réttarkerfinu að
vinna og gefa því frið til þess. Ella
höfum við ekkert réttarkerfi í þessu
landi.“ þj