Tíminn - 28.05.1988, Blaðsíða 4

Tíminn - 28.05.1988, Blaðsíða 4
HELGIN Laugardagur 28. maí 1988 Skálholtsstaður um 1760. Þarna mun flest enn með sömu ummerkjum og þegar Þórdís og Árni sátu á hljóöskrafi í afluktum kamesum. Margur vildi vita þaö nú hvað þeim fór í milli. EÐA „BEISKT OG VILLT VÍNTRÉ"? sekréteranum... En í næsta bréfi kveður við annan tón. Segir liann þar að ef svo sé að Þórdís hafi „trúlofað sig öðrum“ næstliðinn vetur, þá ætli hann sér ekki að eltast við hana meir. Og síðar segir hann: „Ég trúi á eilífan Guð, en ekki biskupinn eða monsieur Árna... Minnstu orða Páls postula: Ef hún er hjá öðrum manni, meðan maður hennar er á lífi, þá kallast hún hóra. Illa hefur þú svikið mig og tælt og svívirðilega með mig farið.“ Heldur Magnús áfram í sama dúr, þótt ekki verði það rakið hér. Málarekstur enn Árna Magnússyni varð tafsöm innheimtan á sektum þeim sem Magnús hafði verið dæmdur í. Þæfð- ist Magnús lengi fyrir, en bauð honum loks jörðina Baldurshaga í Mývatnssveit og auk þess tvo skart- gripi. En Árni neitaði að taka jörð- ina, þar sem löghald var á henni fyrir hönd Þórdísar, konu Magnúsar. Magnús stefndi nú öllum þeim dómum sem um hann höfðu gengið til Alþingis 1705, en fékk þar síst betri útreið en áður. Var hann að 1 þessu sinni dæmdur í 300 ríkisdala sekt fyrir ófrægingarbréf sitt um Árna og tvö nýrri bréf, sem voru mjög gífuryrt í hans garð. Þá var Magnúsi gert að greiða 50 merkur til konungs og tvö og hálft hundrað í málskostnað. Þess er vert að geta að Páll Vídalín, vinur Árna og starfs- bróðir, sat þetta sumar í lögmanns- sæti og hefur vafalaust ráðið miklu um dóma. Bræðratungubóndi siglir til Hafnar Áður er getið um að ýmsir and- stæðingar Árna muni hafa att Magn- úsi áfram og vitað er að sjálfur áleit Árni að það væri þeirra verk, er Magnús skaut málum sínum öllum til Hæstaréttar í Kaupmannahöfn. Tók Magnús sér far utan 1706 í því skyni að túlka þar mál sitt og leita sér fulltingis. Er fátt með sannindum vitað um þessa för hans, en þó ganga um það sögur að hann hafi lent þar í drykkjusukki. Var heilsu hans nú mjög tekið að hraka, svo ekki er að undra að seint gengi málatilbúnaður- inn. En trúlega hafa ýmsir fjand- menn Árna veitt honum stuðning, þar á meðal ýmsir kaupmenn, sem áttu assessornum grátt að gjalda. Fékk Magnús ytra til liðs við sig „einn líðilegan stúdent" til að flytja mál sitt. Sá hét Jón Torfason, var að vísu greindur maður, en hafði miður gott orð á sér, þótti slarkgefinn og óvandaður að meðölum. Gerðist hann nú hægri hönd Magnúsar, enda voru þeir frændur, þremenningar frá Ara í Ögri. En þá gerðist sá atburður, hinn 8. mars 1707, að Magnús andaðist í Kaupmannahöfn, „af illlífi“, að því er segir á einum stað. En áður en hann lést hafði hann gert erfðaskrá og veitt Jóni Torfasyni fullt og óskorað umboð til að framfylgja henni. Vorið 1707 tókst Jóni að fá hæsta- réttarstefnu í málinu, ekki aðeins gegn Árna, heldur og Jóni Vídalín. Kemst Árni svo að orði, þegar hann getur þessa, að Jóni hafi nú tekist að fá yfir sér stefnu „þannig lagaða að mig rekur ekki minni til að hafa þekkt neitt slíkt.“ Sumarið 1707 kom Jón heim til íslands og hafði með sér hæstaréttarstefnuna gegn biskupi. Árni verður fyrir miklu áfalli Enn hafði Árni ekki fengið lúkn- ingu á þeim sektargreiðslum sem Magnús átti að standa honum skil á samkvæmt Alþingisdómi. Gerði hann nú kröfu til að fá 47 hundruð í Bræðratungu, en Magnús brá skjótt við og seldi jörðina móður Odds lögmanns Sigurðssonar, Sigríði Hákonardóttur, en lögmaðurinn var mikill andstæðingur Árna. Neitaði og amtmaður, Christian Möller, harðlega um leyfi til að taka jörðina fjárnámi, en einnig hann fyllti fjand- mannaflokk Árna. Endaði þetta svo að Oddur lögmaður féllst á að ógilda kaup móður sinnar á jörðinni, en þá hafði Árni boðist til að gefa upp kröfu þá er hann hafði gert tii jarðarinnar, greinilega af hlífð við Þórdísi og börn hennar, er Magnús var nú sálaður. En mest gekk úrskeiðis fyrir Árna er Hæstiréttur loks kvað upp dóm sinn hinn 18. mars 1709. Féll málið á Árna. Hann var að vísu ekki dæmdur sekur um þær ávirðingar sem Magnús hafði kært hann fyrir og taldi Hæstiréttur að bréf Magnúsar skuli ekki verða Árna „til niðrunar eða óvirðingar eða hans góða nafni og rykti." En að öðru leyti voru dómar dæmdir ómerkir og málið gert ónýtt. Þótt bréf Magnúsar séu talin hafa verið frumhlaup, þá skuli þær sektir er hann var dæmdur í falla niður, þar sem þær mundu nú koma niður á ekkju hans og börnum að honum látnum. Einn hæstaréttar- dómarinn, N. Slange, var sérlega þungorður í sinni umsögn og sví- virðilegur í garð Árna og taldi Magn- ús hafa haft fullgildar ástæður til að rita Árna slík bréf. Hefði hann gefið fullt tilefni til slíkra ásakana með gálauslegum afskiptum af Þórdísi og grunsamlegri umgengni. Vildi Slange snúa hlutunum alveg við: skyldu fyrri dómar gegn Magnúsi vera sem ódæmdir og Árna gert að greiða erfingjum hans 300 ríkisdali, eða jafnháa upphæð og Magnús áður hafði verið dæmdur til að greiða. Þótt dómari þessi væri einn um þetta álit, þá var ósigur Árna mikill og hlakkaði í andstæðingum hans. Hins vegar er ekki unnt að neita því sem sumir hæstaréttardómararnir bentu á, að Árni hefði farið heldur geyst í sakirnar. Æskilegra hefði verið, eins og komist var að orði, að hann hefði „annað tveggja, fyrirlitið óorðið eða leitað sér uppreisnar fyrir það með vægara móti. Hefði það vel getað orðið með fyrirgefn- ingarbón Magnúsar, enda hefði að líkindum mátt leiða málið þannig til lykta, ef Magnús hefði lifað.“ Enginn veit... Þá líður að lokum þessa ágrips af Bræðratungumálum, sem skáld hafa smíðað úr rósrautt ástarævintýri, sem minnir á óperu þar sem sögu- frægar persónur eru í hverju liiut- verki og sjálf saga lands og þjóðar orkestrið í bakgrunninum. Enginn veit þó hvort þarna var um einhver ástamál að ræða eða ekki og um það verður aldrei vitað. En hafi svo raunverulega verið, þá hefur Árna ekki verið of gott að njóta þeirra sælustunda, svo skamm- vinnar sem þær hafa hlotið að vera. Árið 1709 kvæntist hann norskri konu, Mettu Fischer, ekkju eftir konunglegan söðlasmið. Hún var kona auðug, en allmiklu eldri en Árni og að því er Jón Grunnvíkingur segir, „Einn heimulegur húskross," á húsbónda hans, „hvað þó fáir gátu formerkt utan þeir nákunnugustu, sérdeilis ef hann hafði dálítið í kollinum." Þórdís fluttist að Bræðratungu eftir lát Magnúsar og bjó þar til dánardægurs, en hún andaðist sjötug að aldri árið 1741. Menn hafa skrifað skemmtilegar ritgerðir um þessi mál og reynt að giska á hvað hæft hafi verið í áburði Magnúsar og er höfundunum stund- um mikið niðri fyrir. Þykir ýmsum málstaður Árna enn ærið grunsam- legur, en aðrir hafa fortakslaust viljað álíta ákærur andstæðings hans sem óra sálbilaðs ofdrykkjumanns. En hér um þýðir lítið að velta vöngum, þótt víst geti það verið gaman. Þiljur löngu horfinna kam- esa og afkima Skálholtsstaðar voru einar vitni að því sem þeim tveimur fór í milli - væri það þá nokkuð (!) - og þar mun verða við að sitja.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.