Tíminn - 05.11.1988, Blaðsíða 6

Tíminn - 05.11.1988, Blaðsíða 6
6 Tíminn Laugardagur 5. nóvember 1988 Árni Jóhannsson forstjóri Buvörudeildar Sambandsins: Árni Jóhannsson forstjóri Búvörudeildar SÍS er í helgarviðtali að þessu sinni en í vikunni hafa borist fregnir af áhyggjum bændasamtakanna vegna mikillar og ólöglegrar sölu á heima- slátruðu kindakjöti. Á sama tíma saxast ekkert á kjötfjallið og lögleg sala á kindakjöti dregst verulega saman, sem að hluta til má rekja til þess að á milli 500 og 1200 tonn af heimaslátruðu kolólöglegu kjöti fyllir frystikistur margra landsmanna. Sláturleyf- ishafar standa um þessar mundir frammi fyrir miklum erfiðleikum og Árni sem gjörþekkir rekstur og vandamál afurðastöðvanna eftir áratuga starf sem kaupfélagsstjóri á Blönduósi og fram- kvæmdastóri Sölufélags Austur Húnvetninga áður en hann réðst til búvörudeildarinnar, telur að búvörusamningurinn eins og hann hefur verið framkvæmdur eigi verulegan þátt í því hvernig komið er. •.í'i'. Bændur að svíkja sjálfa sig? - Nú hcfur komið fram mikill sam- dráttur í sölu á kjöti miðað við sama tíma í fyrra, hafið þið einhverjar skýringar á þessu“? „Salan á kindakjöti hefur verið mjög neikvæð undanfarna mánuði. Hins veg- ar hefur sala á öðru kjöti aukist. Sé litið á september kemur í Ijós að sala á kindakjöti og nautakjöti hefur dregist saman um þriðjung, það er lítils háttar samdráttur í sölu á svínakjöti, en verst er ástandið í sölu á kjúklingum en þar er samdrátturinn um 45%. Eina aukn- ingin er í sölu hrossakjöts, en hún er lítils háttar. Þegar eftirspurnin dettur svona niður hlýtur maður að spyrja sig: þýðir þetta að neyslan er að minnka svona mikið, eða liggja einhverjar aðrar ástæður að baki? Er fólk að draga við sig innkaupin, eða er að koma upp sú staða sem við höfum óttast að heimaslátrun á sauðfé, kindum, hross- um og nautgripum sé að aukast mikið? Eru menn að fara í kringum kerfið"? - Þið vitið dæmi þess, er það ekki? „Við vitum dæmi um að menn hafi slátrað heima umtalsverðum fjölda gripa. Við vitum líka dæmi þess að menn eigi töluverðan hóp sauðfjár án þess að hafa nokkurn fullvirðisrétt. Eitthvað hlýtur að verða af þessu kjöti og það er að minnsta kosti ljóst að ekki kemur það í sláturhús. Þetta er að sjálfsögðu mjög alvarleg þróun og slæm, því að þarna eru bændur sjálfir að brjóta niður þann samning sem þeir gerðu við ríkisvaldið. Menn hafa verið að giska á að þarna sé verið að tala um á milli 500 og 1200 tonn af kjöti, sem er það mikið magn að það hlýtur að hafa áhrif á heildarsöluna á því kjöti sem er slátrað á löglegan hátt. Þarna er verið að bjóða til sölu vöru sem ekki hefur hlotið þá meðferð sem heilbrigð- isyfirvöld og löggjafinn telja eðlilegt að hún fái og jafnframt verið að stela sköttum og lögboðnum gjöldum af framleiðslunni. Þetta gerist á sama tíma og ríkið gerir átak til að uppræta skattsvik". Heimaslátrun er mál Stéttarsambandsins - Hvað ætlið þið að gera í þessu? „Ég held að það sé viðtekin venja að stéttarfélög haldi uppi aga innan sinna félaga. Það þekkist ekki í verkalýðsfé- lögum að menn selji vinnu sína undir umsömdum töxtum. Mér finnst að þetta snúi beint að Stéttarsambandi bænda og tel það þess verk að sjá um að þeirra félagar fylgi þeim leikreglum sem Stéttarsambandið hefur sjálft sett. Hins vegar er ef til vill í einstaka tilfellum hægt að skilja sjónarmið bænda sem gera þetta. Það eru til menn sem hafa farið mjög illa út úr þessum fækkunaraðgerðum og telja sig ekki bundna af þeim samningum sem gerðir voru“. Búvörulögin vandræðabarn -Þú talar um vandamál, er staðan erfið í afurðasölumálum bænda um þessar mundir? „Staðan í þjóðfélaginu í heild er mjög erfið. Vandi kjötframleiðanda og okkar sem vinnum að því að selja afurðir þeirra er einnig mikill. Kannski má rekja hluta vandans til þess að alltaf hefur skort langtíma stefnu í landbún- aðarmálum frá hendi stjórnvalda og forystumanna í íslenskum landbúnaði og þó að stefnan hafi verið mörkuð hefur líka skort á að henni sé fylgt eftir. Hluta af vandanum má rekja til búvöru- laganna frá 1985. Með þeim var því breytt að mjólkursamlögin og slátur- húsin voru ekki lengur með afurðirnar í umboðssölu, heldur báru alla ábyrgð á þeim afurðum sem þau tóku við. Þar á ég við mjólk og kindakjöt. Með því slitnuðu í sundur öll hagsmunatengsl sem voru á milli vinnslustöðvanna og bænda. Bændur eru miklu öflugri hags- munahópur en þeir sem vinna hjá afurðastöðvunum og þetta leiddi til þess að hagur vinnslustöðvanna varð iniklu verri en áður og fer versnandi. Sláturhúsin hafa verið að tapa umtals- verðu fé á undanförnum árum og samanlagt tap þeirra á síðasta ári er áætlað 150-220 milljónir. Fjármögnun afurðalána er ekki heldur í þeim farvegi sem okkur var lofað og birgðastaðan er verri en áætlað var. Það hcfur ekki verið neitt samræmi á milli þess full- virðisréttar sem ríkið samdi við Stéttar- samband bænda um að þeir hefðu í sauðfjárframleiðslu og söluaðstæðna á innanlandsmarkaði sem skapast hafa vegna hlutfallslega minni niður- greiðslna. Þá var heldur ekki leyfður nema hluti þess útflutnings sem þurfti". Ekki hægt að ganga að neinu vísu -Ertu að segja með þessu að mark- mið búvörusamningsins frá 1985 hafi ekki náðst? „Það var ekkert samræmi á milli þess sem samið var um og hins sem menn sýndu svo í orðum sínum og gerðum. Salan á kindakjöti innanlands hefur farið minnkandi m.a. vegna þess að verðhlutfall hefur versnað miðað við aðra neysluvöru. Markaðsstarfsemin hefur verið ómarkviss og handahófs- kennd. Það hefur aldrei verið hægt að ganga að neinu vísu í þeim efnum. Vandamálin eru aldrei leyst jafn óðum og þau koma í ljós, menn eru gjarnan að reyna að berja í brestina svona sex mánuðum eftir að lausnin átti að vera fundin og komin til framkvæmda. Það er verið að reyna að spara peninga með því að takmarka útflutningsbætur og niðurgreiðslur og afleiðingin er birgða- söfnun. Birgðir hjá Búvörudeildinni eru um næst síðustu mánaðarmót um 25% af því afurðamagni sem við gerum ráð fyrir að fá til meðferðar. Sé litið á landið í heild eru kindakjötsbirgðir frá síðasta ári um 15,5% af heildarfram- leiðslunni á móti 9,7% í fyrra. Á síðasta ári var útflutningurinn á kinda- kjöti tæplega 4000 tonn, í ár getum við búist við að flytja út um 2600 tonn. Birgðirnar núna eru um það bil 700 tonnum meiri en þær voru í fyrra, þ.e. þær eru um 1950 tonn á móti 1260 tonnum". Birgðastaðan mun verri - Hvernig stendur á þessum mikla samdrætti í útflutningi? „Hann má að hluta til útskýra með því að árið 1987 var gert sérstakt átak til að auka útflutning á kjöti, því verkefni hefur ekki verið haldið áfram. Líka skiptir verulegu máli að núna er Efnahagsbandalagið lokaður markaður fyrir okkur vegna þess að við fengum ekki fjármagn til að endurbæta þau sláturhús sem höfðu leyfi til að flytja út á þann markað. Allt þetta gerir okkur erfitt fyrir og það er alveg ljóst að verði ekki gerðar neinar ráðstafanir verða birgðir um næstu áramót mun meiri en áætlað var. Þessi mikli samdráttur bæði í fram- leiðslu og sölu landbúnaðarafurða hef- ur uggvænleg áhrif út um hinar dreifðu byggðir landsins. Menn sjá það ef þeir keyra út um sveitirnar að sumstaðar er annarhver bær kominn í eyði. Þetta hefur mikil og neikvæð áhrif á mannlíf- ið á viðkomandi stöðum. Með fækkun fólks í sveitum minnkar sú þjónusta sem bændur þurfa að sækja í þéttbýl- isstaði og það skapar einnig vandamál á viðkomandi stöðum. Þetta er farið að koma mjög skýrt fram á Iandsbyggð- inni.meðal annars í rekstri kaupfélag- anna.“ Sláturhúsin geta ekki staðið við gerða samninga við bændur - Nú eru viðskiptabankarnir búnir að lýsa því yfir að þeir gjaldfelli afurðalánin frá því í fyrra, hvað þýðir það fyrir afurðastöðvarnar? „Þeir hafa ákveðið að gjaldfella af- urðalán vegna kjötbirgða frá síðasta hausti núna fyrsta nóvember. Þau koma þá væntanlega til endurgreiðslu tuttugasta og fyrsta þessa mánaðar. Fyrir félag sláturleyfishafa þýðir þetta missi rekstrarfjár upp á um það bil 330 milljónir. Þessir sömu aðilar þurfa einnig að gera upp staðgreiðslulán ríkissjóðs frá því í fyrra sem þeir hafa ekki staðið í skilum með og hafa raunverulega bjargað þeim frá greiðsluþroti.. Þá er alveg ljóst að ekki skiptir máli hver afurðalánin verða á nýju framleiðsluna. Greiðsluerfiðleikarnir verða það miklir hjá sláturhúsunum að þait hafa enga möguleika til að standa við gerða samninga um að greiða bændum fullt verð fyrir haustframleiðslu sína 15. desember eins og mælt er fyrir í lögum. Þann 15. nóvember s.l. lánuðu við- skiptabankarnir afurðastöðvunum sömu krónutölu á kíló af kindakjöti og í fyrra, en venjan er að þá séu greidd 75% af innlögðu kjöti í formi afurða- lána. Sé miðað við að tveir þriðju af sláturkostnaði gjaldfalli í sláturtíðinni þýðir þetta að sláturhúsin geta greitt sem svarar 34% af innlegginu. Þau hafa samt sem áður reynt að færa 50% inn í reikninga hjá bændum. Þessi minnkun á fyrirgreiðslu hjá bönkunum kemur beint niður á framleiðendum. Þeir fá ekki jafn miklar greiðslur og þeir hafa reiknað með og það kemur sér mjög illa fyrir marga“. - Víkjum í lokin að Búvörudeildinni og starfsemi hennar. „ Við erum fyrst og fremst umboðsað- ili fyrir sláturhús kaupfélaganna en rekum auk þess nokkra eigin starfsemi, svo sem kjötvinnslu og annað. Það hefur verið lögð áhersla á að reka þessa deild með sem minnstum tilkostnaði og jafnframt að byggja upp hér á höfuð- borgarsvæðinu kjötvinnslu sem væri fær um að takast á við þau mál sem hún þyrfti að leysa. Fyrirrennari minn Magnús Friðgeirsson var búinn að vinna mjög mikið og gott starf og við erum að reyna að halda því áfram. Við leggjum áherslu á nánara og betra starf á milli sláturleyfishafanna og búvöru- deildarinnar og nýta húsnæði, vélakost og þekkingu sem best, bæði hér og úti á landi. Takmark okkar er að bjóða góðar vörur á lágu verði og halda í garnlar hefðir, samhliða því að þróa nýjar leiðir í matargerð. Það er mikið starf framundan, við ætlum að auka markaðshlutdeild okkar og viljum gjarnan sjá innanlandsneyslu landbún- aðarafurða fara vaxandi. Þrátt fyrir erfitt ástand erum við bjartsýnir. Þetta er allt holl og góð vara“. - Arni Gunnarsson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.